Höfðaskóla slitið

Höfðaskóla var slitið við hátíðlega athöfn í Fellsborg  27. maí.  Ásamt hefðbundinni ræðu skólastjóra kom fram stúlknakór Höfðaskóla, nemendur úr tónlistarskólanum, keppendur í Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnavatnsþingi og nemendur 10. bekkjar voru með kveðjuatriði.   Allir nemendur skólans stigu á svið með sínum umsjónarkennara og tóku við vitnisburði vetrarins.  Hefð er fyrir því að veita nemendum með hæstu meðaleinkunn í 4. og 7. bekk viðurkenningar og voru það í þetta skiptið systkinin Páll og Guðrún Anna Halldórsbörn sem hlutu þær.   Í 10. bekk eru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur í íslensku, dönsku og stærðfræði ásamt hæstu meðaleinkunn vetrarins.  Lilja Bjarney Valdimarsdóttir fékk viðurkenningu í íslensku og Sonja Sif Ólafsdóttir fékk viðurkenningar fyrir dönsku, stærðfræði og hæstu meðaleinkunnina.  Í vetur stunduðu 111 nemendur nám við skólann og voru 10 nemendur útskrifaðir úr 10. bekk.   Eftir skólaslitin buðu foreldrar 10. bekkinga börnum sínum og kennurum þeirra upp á veitingar og var það skemmtileg nýbreytni sem við vonumst til að festist í sessi. 

Hring eftir hring í Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi

Sýningin Hring eftir hring verður opnuð í Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi kl. 14 mánudaginn 1. júní (annan í hvítasunnu)  Þetta er samsýning þriggja listakvenna, Helgu Pálínu Brynjólfsdóttur, Kristveigar Halldórsdóttur, og Rósu Helgadóttur. Verkin hafa verið unnið með beinni skírskotun til safngripa í Heimilisiðnaðarsafninu og Halldórustofu. Einnig verður kynnt ný útgáfa á bókinni Vefnaður á íslenskum heimilum á 19. öld og fyrri hluta 20 aldar sem Halldóra Bjarnadóttir tók saman en Heimilisiðanaðarsafnið gefur nú út í endurbættri útgáfu. Bókin verður til sölu í safninu á sérstöku kynningarverði til og með 17. júní. Alexandra Chernyshova mun taka lagið. Aðgangur er ókeypis á opnunina og allir hjartanlega velkomnir. Kaffi og kleinur í boði safnsins. Við hvetjum konur sem eiga íslenskan búning að klæða sig uppá og heimsækja safnið á opnunardaginn. Heimilisiðnaðarsafnið verður opið alla daga frá 1. júní til 31. ágúst frá kl. 10.00-17.00.  

Samningur við Háskólann undirritaður

Undirritaður hefur verið samningur milli Sveitarfélagsins Skagastrandar og Háskóla Íslands um þriggja ára uppbyggingu rannsókna- og fræðaseturs á Skagaströnd. Það er Stofnun fræðasetra Háskóla Íslands og Miðstöð munnlegrar sögu sem standa að samningnum. Setrið heitir Rannsókna- og fræðsetur HÍ á Norðurlandi vestra og verður væntanlega í daglegu tali nefnt Fræðasetrið.  Markmiðið með því eru þessi: Að verða öflug rannsóknastöð um sagnfræði, einkum á sviði munnlegrar sögu og samtímasögu á Norðurlandi vestra. Að vera starfsvettvangur fræðimanna sem m.a. koma frá samstarfsaðilum setursins. Að innleiða nýja hugsun, tækni og vinnubrögð í menntun og þróunarstarfi á Norðurlandi vestra og stuðla að samstarfi menningarstofnana á svæðinu. Að fá til lengri eða skemmri dvalar fræði- og vísindamenn sem jafnframt því að stunda ritstörf eða rannsóknir koma að menningu, menntun eða þjónustu á svæðinu. Að stuðla að háskólakennslu á Norðurlandi vestra í samstarfi við menntastofnanir. Sérsviði Fræðasetursins er munnleg saga þar sem áhersla er lögð á söfnun, skráningu, varðveislu og rannsóknir á munnlegum heimildum. Á aukafjárlögum 2008 var samþykkt 9 milljón króna framlag til stofnunar Fræðasetursins skv. tillögum Norðvesturnefndar 2008. Gert er ráð fyrir að hliðstætt framlag komi áfram á fjárlögum á samningstímanum og er það forsenda rekstursins. Framlag samningsaðila verður sem hér segir fyrstu þrjú ár samningsins: Háskóli Íslands rekur setrið sem hluta af Stofnun fræðasetra Háskóla Íslands. Hann leggur til almenna þjónustu og aðgengi að stjórnsýslu og faglegri þekkingu Stofnunar fræðasetra HÍ og Háskóla Íslands. Miðstöð munnlegrar sögu leggur fram sérþekkingu og gögn á sviði munnlegrar sögu og munnlegra heimild, faglega aðstoð við undirbúning og framkvæmd verkefna og vinnur með Fræðasetrinu að öflun og úrvinnslu söfnunarverkefna. Sveitarfélagið Skagaströnd leggur til fjárframlag til niðurgreiðslu húsnæðis og stofnkostnaðar. Samingurinn var undirritaður af Rögnvaldi Ólafssyni fyrir hönd Stofnunar Fræðasetra HÍ og Adolf H. Berndsen, Sveitarfélaginu Skagaströnd.  Meðfylgjandi mynd var tekin við undirritunina.

Gengið frá Skagaströnd á Blönduós

Hópur fólks ætlar að ganga saman frá Skagaströnd til Blönduóss um 22 km leið á morgun, fimmtudaginn 21. maí, uppstigningardag.  Ætlunin er að stoppa af og til á leiðinni, borða nesti, spjalla við samferðamennina og teygja svolítið. Árni Geir fylgir hópnum á bíl og getur fólk hvílt sig í honum ef það þreytist á göngunni. Salernisstopp verður á Hóli þar sem við erum svo heppin að þekkja vel húsfreyjuna þar. Minnt er á að þessi ganga er hugsuð fyrir alla sem vilja njóta góðs félagsskapar, veðurblíðunnar og náttúrunnar. Þó vegalengdin virðist við fyrstu sýn nokkuð mikil er hún þó auðgengin og í góðum félagsskap flýgur tíminn áfram og fyrr en varir er komið á áfangastað. Upplagt er að enda gönguna á að fá sér kaffi eða ís á N1 á Blönduósi.  Hver og einn er á eigin vegum varðandi heimferð, hvatt er til þess að göngumenn samnýti bíla. Að sjálfsögðu er hægt að vinna saman og skilja eftir einn eða tvo bíla á Blönduósi kvöldið fyrir göngu.  

Byggakur á Skagaströnd

Sáð hefur verið í byggakur á eins hektara lands norðan við Vetrarbraut á Skagaströnd. Ef að líkum lætur má gera ráð fyrir að uppskeran kunni verið allt að sex tonnum. Ekkert er þó fast í hendi, óvissuþættirnir eru margir, t.d. hitastig og ekki síður vindur í sumar. Fyrir framtakinu standa Hallbjörn Björnsson, rafvirki, Adolf Berndsen, oddviti og fleiri og hópurinn fjármagnar verkefnið sjálfur. Sáð var þremur byggtegundum sem heita Tyrill, Skúmur og Kría.  Tyrill er viðkvæm byggtengund og getur átt erfitt uppdráttar hérna, hann er hávaxinn og þolir illa vind. Skúmur er íslenskt byggtegund og er talinn geta vaxið hér nokkuð auðveldlega. Kría er líka íslenskt afbrigði og talið er að geti hugsanlega vaxið þokkalega hér.  Jónatan Líndal á Holtastöðum hefur veitt mikla aðstoð í framkvæmdina en hann og Hallbjörn hafa unnið að undirbúningi meira eða minna í tvö ár. Eins og áður sagði byggist árangurinn á veðurfari en gert er ráð fyrir þreskingu um miðjan eða seinni hluta september. Jónatan plægði, heflaði og tætti akurinn, Þröstur Líndal bar áburð á og Reynir Davíðsson valtaði. Meðfylgjandi myndir tók Hallbjörn Björnsson fimmtudaginn 14. maí og bíður nú akurinn eftir að sumarið hellist yfir og byggið taki að vaxa. Ýmsir hafa velt fyrir sér til hvers eigi að nota byggið. Því hefur svo sem verið skotið að Hallbirni að byggið gæti hentað í bjórframleiðslu ...

Óskar Einarsson með gospelnámskeið

Gospelnámskeið verður haldið dagana 15. - 17.maí næstkomandi í Hólaneskirkju. Gospelkóngurinn Óskar Einarson mun koma og stjórna.  Námskeiðið verður : föstudaginn kl. 20:00-22:00 laugardaginn kl. 10:00-17:00 sunnudaginn kl. 11:00 -13:00 Námskeiðið endar svo á gospelmessu á sunnudeginum klukkan 14:00 Áhugasamir eru eindregið hvattir til að komað.  Skráning er í síma: Elva Dröfn Árnadóttir 863-3256 Guðb jörg Ólafsdóttir 847-0368 Sigríður Stefánsdóttir 820-2644 Allir velkomnir

Skagfirðingar sungu í Hólaneskirkju

Fjörutíu manna kór Félags eldri borgara í Skagafirði hélt tónleika í Hólaneskirkju sunnudaginn 10. maí.  Stjórnandi kórsins er Jóhanna Marín Óskarsdóttir og Þorbergur Skagfjörð Jósepsson söng einsöng í nokkrum lögum.  Á dagskrá var blanda af íslenskum og erlendum lögum sem kórinn flutti við góðar undirtektir áheyrenda. Að tónleikunum loknum var kórfélögum boðið til kaffiveislu í boði heimamanna.

Auglýst eftir forstöðumanni fræðaseturs

Stjórn Stofnunar fræðasetra Háskóla Íslands hefur auglýsir laust til umsóknar starf forstöðumanns Rannsókna- og fræðaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra. Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra er á Skagaströnd og er vettvangur fyrir samstarf  Háskóla Íslands við sveitarfélög á Norðurlandi vestra, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga. Meginhlutverk setursins er að efla starfsemi Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra með rannsóknum í íslenskri sagnfræði þar sem notast er við aðferðir munnlegrar sögu. Verkefni forstöðumanns eru annars vegar að standa að söfnun, varðveislu og rannsóknum á munnlegum heimildum, einkum þeim sem tengjast sögu Norðurlands vestra. Hins vegar er honum ætlað að stuðla að háskólastarfsemi á Norðurlandi vestra s.s. með kennslu og innlendum og alþjóðlegum námskeiðum og ráðstefnum. Jafnframt því að stunda eigin rannsóknir skal forstöðumaður hafa umsjón með starfsemi setursins, fjármálum og daglegum rekstri. Forstöðumaður þarf að geta tekið að sér að leiðbeina háskólanemum í framhaldsnámi og aðra kennslu á háskólastigi  Umsækjendur skulu hafa lokið meistara- eða doktorsprófi í sagnfræði eða skyldum fræðigreinum og hafa þekkingu á rannsóknarsviðum setursins.  Umsækjendur þurfa að hafa frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum, gott vald á ensku og íslensku og lipurð í mannlegum samskiptum Æskilegt er að umsækjendur hafi reynslu af alþjóðasamstarfi.. Forstöðumaður er starfsmaður Háskóla Íslands en mun hafa starfsaðstöðu á Skagaströnd og gegna starfi sínu þaðan. Um fullt starf er að ræða. Umsóknarfrestur er til 25. maí 2009.  Æskilegt er að umsækjandi geti hafið störf sem fyrst. Umsóknir og umsóknargögn skal senda til Starfsmannasviðs Háskóla Íslands, Aðalbyggingu við Suðurgötu, 101 Reykjavík, eða á netfangið starfsumsoknir@hi.is. Umsóknum skulu fylgja: Upplýsingar um menntun og starfsreynslu. Skýrsla um vísindastörf umsækjanda, rannsóknir og ritsmíðar (ritaskrá). Greinargerð um þær áherslur sem umsækjandi hyggst leggja í starfi forstöðumanns verði hann ráðinn. Umsagnir eða meðmæli. Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum greint frá ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin.  Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og hlutaðeigandi stéttarfélags. Allar nánari upplýsingar um starfið veitir Rögnvaldur Ólafsson, forstöðumaður Stofnunar Fræðasetra Háskóla Íslands í síma 525 4929, rol@hi.is. Við ráðningar í störf hjá Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.

Flóttamannabúðir í Þjóðleikhúsinu

Nú er dögun nýs lýðveldis! Maður gengur inn í nýjan heim við Hverfisgötuna í Reykjavík.  Flóttamannabúðir fyrir utan Þjóðmenningarhúsið eru táknmynd þess hvernig komið er fyrir sjálfstæði Íslands á tímum efnahagslegrar kreppu, fólk er svo gott sem fangar í eigin landi. Hermenn Sameinuðu þjóðanna, friðargæsluliðar og varðliðar í flóttamannabúðum taka á móti fólki við hliðið og aðstoða það í neyð sinni.  „Þjóðmenning“ er  hin eina sanna menning, hún er tilbúin, orðin til, býður ekki upp á neina sköpun. Hún er safn úr liðnum tíma, glötuðum tíma, fortíðinni.  Vegabréfsáritun þarf til að fá inngöngu á nýtt svæði, oft þarf að framvísa skilríkjum á leiðinni. Safnið er tákn fyrir eilífa þekkingarleit mannsins, leit hans að samhengi hlutanna. En þegar hlutir eru teknir úr náttúrulegu umhverfi sínu og komið fyrir í umsjón ríkis eða valds glata þeir merkingu sinni. Hvað er mannkynssaga annað en safn minninga? Heilabú aldraðrar manneskju gæti verið táknmynd fyrir sögu. Hver einstaklingur er safn visku, erfðaminnis, safn þekkingar og upplýsinga sem eru geymdar á ólíkum stöðum í líkamanum.  Á meðan á sýningunni stendur verða áhorfendur leiddir í gegn um völundarhús  mann- og kvenkynssögunnar. Þjóðmenningin verður stríðsmenning og ekkert verður aftur samt.   „Gerðu það sjálfur“, dráps-prógramm, þjóðhetjur, þjóðsöngvar, nóg af brauði fyrir alla; af moldu ertu kominn og að moldu skaltu aftur verða.  Sýningar, gjörningar og tónlist. Tala fallinna er óviss. Dauði sagnfræðilegs erfðaminnis er mögulegur. Safnið er athvarf og án athvarfsins er það ekki til. Safnið er skjól. Verkin eru í skjóli fyrir veðri og vindum, alls kyns hættum og síðast en ekki síst hvers lags efasemdum. Leiðsögn Margrét Vilhjálmsdóttir, leikkona og listrænn stjórnandi, fer fyrir hópi listamanna sem leiðir gesti Þjóðmenningarhússins um gjörning um landamæri og skrifræði og leiksýningu um stríðsmenningu.  Hópurinn flytur þetta eldfima efni inn í Þjóðmenningarhúsið,  tákn fyrir íslenskt lýðræði og sjálfstæði. Hið virðulega Þjóðmenningarhús verður vettvangur stríðsátaka, kvenfrelsisbaráttu, stríðs og friðar.  Leikrit inni í leikritinu fjallar um konur sem hittast eftir langvarandi stríð, höfundur þess er Hrund Gunnsteinsdóttir. Stjórnendur Aðrir listrænir stjórnendur eru Eva Rún Snorradóttir, Friðgeir Einarsson, Karl Ágúst  Þórbergsson, Gunnar Tynes (tónlist), Þórunn Elísabet Sveinsdóttir (búningar), Frosti Friðriksson og Þórunn E. Sveinsdóttir (leikmynd), Arnar Ingvarsson (ljós og hljóð). Flytjendur: Aðalbjörg Árnadóttir, Magnea Valdimarsdóttir, Halldóra Malin Pétursdóttir, Helga Rakel Rafnsdóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson, María Pálsdóttir, Gríma Kristjánsdóttir, Íris Stefanía Skúladóttir, Sigríður Eir Zophoníasardóttir, Halla Mía Ólafsdóttir, Reynir Örn Þrastarson, Halga Birgisdóttir, Varsjárbandalagið, ásamt fjölmörgu listafólki.

Styrkir úr menningarsjóði Skagastrandar

Tómstunda- og menningarmálanefnd auglýsir eftir umsóknum um styrki úr menningarsjóði Skagastrandar. Styrkir eru veittir samkvæmt samþykkt um menningarsjóðinn og miða að því að styrkþegar efli menningu í sveitarfélaginu. Er þá átt við myndlist, tónlist, leiklist, ritlist, varðveislu menningar, menningarviðburði og yfirleitt flest það sem flokka má sem menningu. Sjá nánar hér: http://www.skagastrond.is/frettir/users3/stjori/menningarsjodur2009.pdf Skilyrði fyrir styrkveitingu skulu einkum vera þessi: - Umsækjandi eigi heimilisfesti í sveitarfélaginu - Umsóknin falli að markmiðum sjóðsins. Umsóknum skal skilað á sérstökum eyðublöðum sem fást á skrifstofu sveitarfélagsins og hér: http://www.skagastrond.is/frettir/users3/stjori/umsokn_styrkir.pdf Umsóknarfrestur er til föstudagsins 22. maí 2009. Fyrir hönd tómstunda- og menningarmálanefndar Jensína Lýðsdóttir, formaður