Styrkir úr Atvinnuþróunarsjóði Skagastrandar

Atvinnumálanefnd Skagastrandar auglýsir eftir umsóknum um styrki úr Atvinnuþróunarsjóði Skagastrandar. Umsóknarfrestur er til kl. 17:00 þann 30. apríl 2015 og skal skila umsóknum á sérstöku umsóknarformi sem er aðgengilegt á heimasíðunni www.skagastrond.is Um Atvinnuþróunarsjóð: Markmið sjóðsins er að hvetja til jákvæðrar umræðu og verkefna á sviði atvinnuþróunar í Sveitarfélaginu Skagaströnd. Sjóðnum er ætlað að styðja við frumkvæði íbúa og hvetja til samstarfs og nýsköpunar í sveitarfélaginu, sem og að laða að verkefni og athafnafólk. Styrkir sem veittir eru úr sjóðnum eru fyrst og fremst verkefna- og framkvæmdastyrkir. Ekki eru veittir rekstrarstyrkir, styrkir til að mæta opinberum gjöldum eða til að greiða skuldir. Umsóknir Sótt er um á þar til gerðu umsóknarformi sem er aðgengilegt á á vefsíðunni http://www.skagastrond.is Umsóknir sem berast eftir lok skilafrests eða uppfylla ekki kröfur um umbeðnar upplýsingar koma ekki til greina við úthlutun. Umsækjendur geta verið einstaklingar, félög og/eða fyrirtæki. Umsókn skal miðast við að framkvæmd hugmyndar eða meginumsvif vegna verkefnisins verði á Skagaströnd. Við mat umsókna verður gerð lágmarkskrafa um samfélagsleg áhrif verkefnis. Í umsókn skal gera skýra grein fyrir verkefninu, markmiðum þess og væntum árangri. Umsækjendur skulu gera skýra grein fyrir tímaáætlun og áætluðum heildarkostnaði við verkefnið. Úthlutun styrkja Til úthlutunar í maí 2015 verða allt að 1 milljón króna. Veittir eru styrkir til að standa straum af allt að 50% af heildarkostnaði við viðkomandi verkefni. Upphæð styrkja getur verið frá 100.000 kr. til 1.000.000 kr. Nánari lýsing á forsendum úthlutunar er í fylgiblaði með umsóknarformi. Skagaströnd, 1. apríl 2015 Sveitarstjóri

Mynd vikunnar

Spákonufellsbærinn og kirkjan. - Þessar byggingar stóðu þar sem kirkjugarðurinn sóknarinnar er í dag. Samkvæmt Byggðin undir Borginni var alkirkja á Spákonufelli a.m.k. allt frá 1318 því frá þeim tíma er til máldagi kirkjunnar. Kirkjan á myndinni var fyrsta timburkirkjan, sem þarna stóð, en hún var byggð 1852. Fram að því höfðu kirkjurnar verið byggðar úr torfi og grjóti. Þessi var notuð þar til ný kirkja var svo vígð á Skagaströnd 17. júní 1928 og enn ný kirkja þar í október 1991. (Heimildir: Byggðin undir Borginni bls 34 - 37 og Ágrip af sögu Spákonufells- og Hólaneskirkna 1300 - 2012 bls 26 - 28 eftir Lárus Ægi Guðmundsson).

Fundur um styrki til atvinnu- og menningarmála

Fundur verður haldinn í Fellsborg þriðjudaginn 31. mars næstkomandi kl. 17:00. Á fundinum verður farið yfir möguleika er varða styrkveitingar til atvinnu og menningarmála á vegum Uppbyggingarsjóðs Norðurlands vestra. Einnig verður kynning á Atvinnuþróunarsjóði Skagastrandar. Allir sem hafa áhuga á atvinnu- og menningarmálum eru hvattir til að mæta. Atvinnumálanefnd Skagastrandar

Krabbameinsfélag

Aðalfundur Krabbameinsfélags Austur -Húnavatnssýslu verður haldinn þriðjudaginn 31. mars kl. 18:00 á Hótel Blönduósi. Viljum við minna á aðalfundinn en á dagskránni verða venjuleg aðalfundarstörf en jafnframt fyrirlesur sem Arndís Halla Jóhannesdóttir flytur. Arndís er öflug ung kona, markþjálfi og þroskaþjálfi og nefnir hún fyrirlesturinn: Mikill hlátur og smá grátur og veltur hún fyrir sé hvernig við bregðumst við því sem við þurfum að takast á í vinnu eða einkalífi. Starfsemi Krabbameinsfélagsins beinist að fræðslu og stuðningi við þá sem greinast með krabbamein, fjölskyldum og vinum þeirra. Styrkur þess felst hins vegar í fjölda félagsmanna og þann velvilja héraðsbúa að taka þátt í fjáröflunarstarfssemi á vegum félagsins er sölufólk gengur í hús. Þannig styðjum við samborgara okkar og félagið þakkar þann mikla stuðning til fjölda ára. Meðal verkefna síðari ára, hefur félagið greitt leigu fyrir íbúðir til þeirra sem eru í krabbameinsmeðferð í Reykjavík og aðstandenda. Eins höfum við stutt við fjölskyldur, gefið búnað og tæki til Heilbrigðisstofnunar og tæki til Sæborgar á Skagaströnd. Nýlega lögðum við fram fjárhæð er rennur í upphæð til að kaupa nýtt ómskoðunartæki á sjúkrahúsi Akureyrar og sem notað yrði til nánari skoðunar í hefðbundinni hópleit á brjóstum kvenna. Minnum á minningarkort Krabbameinsfélagsins en sími sölufólks er í Glugganum og eru þau einnig seld í Lyfju á Blönduósi og www.krabb.is Allir eru velkomnir á aðalfundinn og boðið verður uppá súpuveitingar á fundinum. Stjórnin

Frestur til að sækja um þátttöku kostnaðar er til 1. maí 2015

Minnt er á að þeir sem hyggjast sækja um kostnaðarþátttöku sveitarfélagsins vegna ofnakaupa þurfa að sækja um og leggja fram gögn fyrir 1. maí 2015. Einstaklingar sem eru eigendur íbúðarhúsa og þurfa að endurnýja ofna í húsum sínum geta fengið kostnaðarþátttöku sem nemur allt að 75% af kostnaði við ofnakaup í hús sitt, sbr. þó 3. tl. Kostnaðarþátttakan nær til ofnakaupa og/eða efnis í pípukerfi í gólfhitabúnað eingöngu en ekki til stýribúnaðar, ofnloka eða lagnakerfis að ofnum. Til að eiga rétt á framangreindri kostnaðarþátttöku þarf viðkomandi að leggja fram reikning sem sýnir að umræddur búnaður hafi verið keyptur og sé að fullu greiddur. Starfsmaður sveitarfélagsins skal hafa fullan aðgang að viðkomandi fasteign í því skyni að sannreyna að ofnarnir hafi verið keyptir til notkunar þar. Hámark kostnaðarþátttöku til eigenda hverrar íbúðar vegna 1. og 2. tl. er 250 þús. kr. Skilgreining íbúðar er að hún sé skráð sem sérstakt fasteignanúmer og/eða sé sannanlega íbúð í skilningi byggingarreglugerðar. Kostnaðarþátttaka þessi gildir frá 1. maí 2008 til 1. maí 2015 og skulu húseigendur hafa skilað inn umræddum reikningum og óskað eftir greiðslu fyrir þann tíma til að eiga rétt á greiðslum skv. 1. og 2. tl. Ákvæði um kostnaðarþátttöku getur átt við þær eignir sem standa utan þess svæðis sem hitaveita býðst á Skagaströnd og gildir þá um kaup á ofnum fyrir vatnshitunarkerfi og hönnun á því kerfi. Litið er svo á að þar með sé stutt við undirbúning að mögulegri hitveituvæðingu umræddra húseigna. Sveitarstjóri

Mynd vikunnar

Heyskapur - Heyskapur upp á gamla mátann. Myndin er líklega tekin í Laxárdal við heimili Guðmundar Guðnasonar (d. 21.11.1988) en fjölskylda hans bjó í dalnum á nokkrum bæum áður en þau fluttu að Ægissíðu á Skagaströnd. Konan lengst til vinstri er Klemensína Klemensdóttir (d.12.6.1966) móðir Guðmundar. Ungi maðurinn sem bindur bagga er Pálmi (d. 23.3.1994), Ingvi (d. 31.12.1991), eða Rósberg (d. 9.1.1983) en þeir voru bræður Guðmundar. Guðmundur sjálfur heldur í hestinn og faðir hans Guðni Sveinsson (d. 15.11.1971) hleður fúlgu úr heyinu í baksýn. Ef þú þekkir hver þeirra bræðra bindur baggann vinsamlega sendu okkur þá athugasemd.

Næsti fundur sveitarstjórnar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar föstudaginn 27. mars 2015 kl 0800 á skrifstofu sveitarfélagsins. Dagskrá: Framkvæmdir 2015 Atvinnumál Héraðsfundur-fundarboð Reglur um ungmennaráð Jafnréttisáætlun sveitarfélagsins Bréf: Menningarfélagsins Spákonuarfs, dags. 25. febrúar 2015 Skipulagsfulltrúa Sveitafélagsins Skagafjarðar, dags. 25. febrúar 2015 Bæjarmálafélags Skagastrandar, dags. 19. mars 2015 Fundargerðir: Tómstunda og menningarmálanefndar, 25.03.2015 Skólanefndar FNV, 26.02.2015 Heilbrigðisnefndar Nl. vestra, 12.03.2015 Stjórnar Róta bs. 16.02.2015 Stjórnar Hafnasambands Íslands, 13.03.2015 Stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, 11.02.2015 Stjórnar Samtaka sveitarfél. á köldum sv., 10.03.2015 Stjórnar Sambands ísl. sveitarf., 16.02.2015 Stjórnar Sambands ísl. sveitarf., 27.02.2015 Önnur mál Sveitarstjóri

Sóknaráætlun Norðurlands vestra

Umsóknir um styrki til menningarstarfs, atvinnuþróunar og nýsköpunar Þann 10. febrúar sl. var skrifað undir samning milli Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) og ríkisins um Sóknaráætlun 2015-2019. Markmið Sóknaráætlunar er m.a. að stuðla að jákvæðri samfélagsþróun, treysta stoðir menningar og auka samkeppnishæfni landshlutans og landsins alls. Einn hluti Sóknaráætlunarinnar er stofnun svokallaðs Uppbyggingarsjóðs Norðurlands vestra sem kemur í stað þeirra vaxtar- og menningarsamninga sem verið hafa í gangi á undanförnum árum. Uppbyggingarsjóðurinn er samkeppnissjóður og því þarf að sækja um styrki í sjóðinn. Nú er komið að fyrsta umsóknar- og úthlutunarferlinu. Auglýst hefur verið eftir umsóknum um styrki á menningar-, atvinnuþróunar- og nýsköpunarsviðum. Umsóknarfrestur er til og með 17. apríl nk. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu SSNV, www.ssnv.is. Einnig veita starfsmenn SSNV atvinnuþróunar upplýsingar og aðstoð eftir þörfum.

Umsóknarfrestur námsstyrkja er til 31. mars 2015

Námsstyrkir Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2015 tók sveitarstjórn Skagastrandar ákvörðun um að veita styrki til nemenda á framhalds- og háskólastigi sem nemur 20 þús. kr. skólaárið 2014-2015 en styrkirnir eru veittir til jöfnunar á námskostnaði fjarri heimabyggð. Umsóknum um styrki skal skilað til skrifstofu sveitarfélagsins fyrir 31. mars 2015. Umsóknir sem berast eftir umsóknarfrest verða ekki teknar til greina. Nemendur á framhalds- og háskólastigi sem eiga lögheimili á Skagaströnd og fullnægja skilyrðum í reglum um styrkina eiga rétt á umræddum námsstyrk frá Sveitarfélaginu Skagaströnd. Nánari upplýsingar veittar á skrifstofu sveitarfélagsins og á heimasíðunni http://www.skagastrond.is/samthykktir.asp og þar má einnig fá/finna umsóknareyðublöð. Reglur um styrkina má finna hér. Umsókn um styrk má finna hér. Aksturstyrkur vegna dreifnáms Jafnframt er auglýstur frestur til 1. maí 2015 til að sækja um sérstakan stuðning vegna dreifnáms fyrir vorönn 2015. Sveitarstjórn samþykkti Reglur um stuðning vegna dreifnáms veturinn 2014-2015 á fundi 12. september 2014 og vísast til þeirra á heimasíðu sveitarfélagsins. Hér Sveitarstjóri

Mynd vikunnar

Í Þórskaffi 1977. Starfsmenn og stjórn Skagstrendings hf gerðu sér glaðan dag í Þórskaffi 1977. Í forgrunni myndarinnar er Gylfi Guðjónsson, annars eru frá vinstri: Sigurður Óli Sigurðsson, Helga Ottósdóttir, Guðmunda Árnadóttir, Guðrún Þórbjarnardóttir, Ásdís Þórbjarnardóttir, Vilhjálmur Sigurðsson, Hafþór Gylfason, Egill Bjarki Gunnarsson, Birgir Þórbjarnarson, Þórbjörn Jónsson (d. 22.1.1996) og aftan við hann er Árni Ólafur Sigurðsson.