Opna KB banka - golfmótið

Opna KB banka golfmótið á Skagaströnd var haldið í frábæru veðri í laugardaginn 21. ágúst. Mót þetta sem jafnframt er minningarmót um Karl Berndsen tókst í alla staði vel. Keppendur voru 34 frá 10 golfklúbbum. Sigurvegari í kvennaflokki án forgjafar varð Árný L. Árnadóttir GSS á 86 höggum. Hún sigraði einnig með forgjöf og lék á 77 höggum. Í karlaflokki án forgjafar sigraði Jóhann Ö. Bjarkason GSS eftir bráðabana við Pál Valgeirsson GOS, léku þeir á 83 höggum. Með forgjöf sigraði Guðjón H. Sigurbjörnsson GSK á 66 höggum.

Frétt frá vinnuskóla Höfðahrepps

Vinnuskólinn hófst í sumar þann 8. júní og lauk þann 17. ágúst. Í sumar var mikil gróska og mikið fjör og tóku nýir flokkstjórar við krökkunum og báru þær báðar sama nafnið “Heiða” eða Heiðurnar eins og krakkarnir kölluðu þær. Í vinnuskólanum voru á bilinu 25- 30 unglingar sem sinntu bæði stórum og smáum verkum. Áhersla var lögð á að bærinn okkar væri sem fallegastur, en minna var um slátt þetta sumar vegna lítilla rigninar og vöxtur í grasi var því ekki mikill. Vinnuskólinn sá einng um að tína rusl, sópa götur bæarins og plokka íllgresi úr sprungum í gangstéttum. Sérstakir arfa og íllgresis leiðangrar voru farnir um allan bæinn þar sem njólinn var lagður í einelti og höggvinn hvar sem til hans sást. Vinnskólinn sá að mestu um að tjaldstæðið í bænum liti vel út í sumar. Vinnskólastarfinu lauk með ferð sem var hreint ótrúleg, því farið var í RAFTING þar sem róið og flotið var niður vestari Jökulsá í Skagafirði. Eins og gefur að skilja með kraftmikinn unglingahóp var mikið fjör í þeirri ferð. Auðvitað lentu margir í ánni. Allir komu þó heilir heim en misjafnlega blautir. Eftir slark í Jökulsá var haldið á Ólafshús á Sauðárkróki í dýrindis pizzu hlaðborð að hætti Óla og svo að lokum var haldið heim á Ströndina Að lokum viljum við Heiðurnar þakka öllum þeim sem voru í vinnuskólanum fyrir frábært sumar Takk fyrir okkur. Heiðurnar

Togarar í höfn á Skagaströnd.

Þriðjudaginn 17. ágúst var líflegt að líta yfir hafnarsvæðið. Verið var að landa úr Arnari HU og Örvar HU kom inn til að taka olíu. Auk þess var talsvert landað úr hraðfiskibátum sem hafa aflað bærilega að undanförnu. Togarinn Örvar heldur síðan á veiðar á ný og kemur aftur inn til löndunar um mánaðarmótin en þá verður skipið búið að vera á veiðum í um 38 daga. Afliabrögð togaranna hafa gengið misjafnlega Örvar hefur einkum verið á grálúðuveiðum og þar hefur þokkalegt verð á afurðum bætt upp fremur dræma veiði. Í undirbúningi er að Örvar fari í slipp í haust þar sem hann verður hreinsaður og málaður og skut hans slegið út til að bæta sjóhæfni skipsins. Arnar var í fyrri hluta síðasta túr á karfaveiðum en þegar botninn datt úr þeim fór hann í aðrar tegundir aðallega þorsk, ýsu og ufsa. Veiðarnar gengu ágætlega og landar hann nú um 365 tonnum af unnum afurðum sem eru að aflaverðmæti um 68 milljónir. Umreiknað í afla upp úr sjó er veiðin um 650 tonn og þar af úthafskarfi um 1/3 aflans. Arnar mun síðan halda til veiða í Barentshafi og fara til veiða í rússneskri lögsögu. Veiðiheimildir þar eru um 750 tonn og reiknað með að kvótinn verði tekin í einni veiðiferð.