Björgunarsveitin Strönd afhendir nemendum 4. bekkjar námsefni

Björgunarsveitin Strönd færir nemendum 4. bekkjar námsefni í slysavörnum. Ernst K. Berndsen afhenti Hallbjörgu Jónsdóttur kennara námsgögnin, nemendur fengu einnig afhentar stundaskrár frá Landsbjörg.

OLÍS gefur golfbúnað til innanhúskennslu.

Olís hf. færði Íþróttahúsinu og Golfklúbbnum "skólagolf tösku" sem inniheldur ma. 14 kylfur, 8 grasmottur auk pútthringja og innanhús golfbolta. Á næstunni verður haldið námskeið fyrir nemendur skólans í samráði við Höfðaskóla.

Síðbúnar bollu- sprengi- og öskudags myndir frá Barnabóli

Að venju var haldið í hefðir bræðranna þriggja, bollu- sprengi- og öskudags. Börnin bjuggu til bolluvendi sem þau höfðu með sér heima til að geta bollað mömmur og pabba með eldsnemma á bolludagsmorgni. Í leikskólanum fengu allir bollur með rjóma, sultu og súkkulaði. Í hádegi á þriðjudegi fengu börnin saltkjöt og baunir, allir urðu að smakka, sumir hámuðu í sig súpu og kjöt en aðrir létu sér nægja kjöt og kartöflur. Öskudagur er síðastur í röðinni, en sá er skemmtilegastur þeirra bræðra, a.m.k í augum barnanna.„ Þá fær maður að klæða sig í búning og koma með sverð í leikskólann“ sagði ungur maður. „ Já, og mála sig í framan“ sagði annar. „Ég ætla að vera risaeðla“ tilkynnti sá þriðji. Börnin örkuðu um þorpið og sungu fyrir fólkið, en alltaf er byrjað á því að syngja fyrir eldri borgarana á Sæborg, sem bíða með eftirvæntingu eftir börnunum. Við vorum líka svo heppin með veðrið að þessu sinni en komið hefur fyrir að öskudagssönginn hefur þurft að slá af vegna tillitsleysis veðurguðanna. Helga Bergsdóttir leikskólastjóri

Skagstrendingar!!!

Borgarafundur verður haldinn í Fellsborg þriðjudaginn 16. mars nk. kl. 20,00. Á fundinum mun hreppsnefnd m.a. kynna helstu lykiltölur í fjármálum og rekstri sveitarfélagsins. Almennar umræður um málefni sveitarfélagsins. Hreppsnefnd Höfðahrepps

Sameiginlegur fundur

Hreppsnefnd Höfðahrepps og Bæjarstjórn Blönduóss héldu sameiginlegan fund í Kántrýbæ fimmtudaginn 11. mars sl. Á fundinum var fjallað um ýmis sameiginleg mál en aðalefni fundarins var kynning Wilhelms Steindórssonar verkfræðings á forsendum þess að leggja hitaveitu frá Blönduósi til Skagastrandar. Umræður um hitaveitumálið voru líflegar og margt í skýringum Wilhelms sem vakti áhuga á nánari skoðun á því máli. Samþykkt var að hvor sveitarstjórn skipi tvo fulltrúa til að ræða um framhald málsins og önnur sameiginleg hagsmunamál.

Ný nöfn á hafnarköntum á Skagastrandarhöfn

Hafnarnefnd samþykkti nýlega á fundi sínum að nefna hafnarkantana nýjum nöfnum og bera þeir framvegis nöfnin Útgarður, Sægarður, Ásgarður, Miðgarður, Skúffugarður og Smágarðar sem eru flotbryggjurnar fyrir smábátanna. Unnið er að gerð öryggisplans fyrir höfnina og þótti mikilvægt að fyrir lægi formlega hver væru nöfn bryggjanna og nauðsynlegt að festa nöfnin í sessi. Í framhaldi af þessari ákvörðun verða bryggjurnar merktar í samræmi við þessi nýju nöfn. Þar með falla út nöfn eins og Löndunarbryggja, Bræðslubryggja og Suðurgarður svo einhver séu nefnd af þeim nöfnum sem notuð hafa verið í gegnum tíðina á bryggjunum og einhverjum kann að þykja eftirsjá í.

Sagan um Hans Klaufa

Mánudaginn 1. mars fóru börnin á Barnabóli á leiksýningu í Hólaneskirkju. Stopp leikhópurinn hafði fært söguna um Hans klaufa í leikbúning, sem tók um 30 mínútur í sýningu. Nemendur í Höfðaskóla, 1.-4. bekkur sóttu þessa sýningu líka. Sumir hinna ungu leikhúsgesta höfðu boðið foreldrum sínum með sér. Leiksýningin var í boði Héraðsnefndar, Höfðaskóla og Barnabóls.

Næsti fundur hreppsnefndar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í Hreppsnefnd Höfðahrepps fimmtudaginn 4. mars 2004 á skrifstofu hreppsins kl 1600. Dagskrá: 1. Fjárhagsáætlun 2004, síðari umræða 2. Úthlutun byggðakvóta, 3. Bréf: Jökulrósar Grímsdóttur og Sigurjóns Ástmarssonar, dags. 24. feb. 2004. 4. Fundargerðir: a) Hafnarnefndar 10.03.2004. b) Framkvæmdaráðs um svæðisskipulag, 8.01.2004. c) Framkvæmdaráðs um svæðisskipulag, 21.01.2004. d) Framkvæmdaráðs um svæðisskipulag, 28.01.2004. e) Framkvæmdaráðs um svæðisskipulag, 17.02.2004. 5. Önnur mál. Sveitarstjóri

Háskólinn á Hólum fær Hvatningarverðlaunin 2003

Atvinnuþróunarfélag Norðurlands vestra veitti Háskólanum á Hólum Hvatningarverðlaunin 2003. Guðmundur Skarphéðinsson formaður Atvinnuþróunarfélagsins afhenti Skúla Skúlasyni rektor verðlaunin, á Hólum föstudaginn 27. febrúar. Verðalaunagripurinn var að þessu sinni listaverk skorið í tré, eftir Erlend Magnússon listamann, ásamt verðlaunaskjali. Háskólinn á Hólum þykir sérlega vel að verðlaununum kominn en, á heimasíðu skólans er eitt af markmiðum skólans eftirfarandi: “....að efla starfsemi sína á sviði byggðamála í víðum skilningi, með þeim hætti að tengja í ríkara mæli núverandi nám og rannsóknir þessum mikilvæga málaflokki og stefna að því að þjálfa og mennta fólk til að verða frumkvöðlar í nýsköpun og uppbyggingu atvinnu og menningarstarfsemi á landsbyggðinni”. Stjórn Atvinnuþróunarfélags Norðurlands vestra veitir árlega einu fyrirtæki eða stofnun, sem telst hafa skarað framúr hvatningarverðlaun. Markmiðið með þeim er eins og nafnið bendir til að hvetja til nýsköpunar en um leið að vekja athygli á því sem vel er gert á Norðurlandi vestra. Verðlaunin eru nú veitt í fimmta sinn en áður hafa fengið verðlaunin: Síldarminjasafnið á Siglufirði fékk verðlaunin í fyrra fyrir að vera veglegur minnisvarði um merkilegan þátt í atvinnulífi Siglufjarðar og raunar landsins alls. Hestamiðstöðin á Gauksmýri í Húnaþingi vestra fékk verðlaunin fyrir árið 2001 fyrir þann kjark og áræði að byggja upp afþreyingu sem tekið er eftir um allt land. Vesturfarasetrið á Hofsósi fékk hvatningarverðlaunin fyrir árið 2000 enda eitt merkasta fyrirtæki sem starfrækt er á landinu. Kántrýbær á Skagaströnd fékk hvatningarverðlaunin fyrir árið 1999 og var það í fyrsta sinn sem þau voru veitt.