Mynd vikunnar

Þorbjörg Ragna Þórðardóttir. Ferðin eftir brúnni yfir í annan heim getur verið löng og erfið en við trúum því að þegar yfir brúna er komið líði öllum vel og sjúkdómar, erfiðleikar og áhyggjur séu að baki. Þorbjörg Ragna barðist við sjúkdóm sinn af yfirvegaðri ró þar til yfir lauk og æðraðist ekki. Í veikindunum, eins og reyndar ávallt, var það hin stóra fjölskylda hennar sem var haldreipi hennar og gleði. Þar birtist hringrás lífsins meðal annars í lítilli nýfæddri ömmustelpu sem Ragna fékk að kynnast og gleðjast yfir í nokkra daga áður en hún hóf ferðalagið mikla yfir í heim ljóssins. Við þökkum henni samfylgdina Þorbjörg Ragna Þórðardóttir lést 15. febrúar og verður jarðsungin frá Hólaneskirkju laugardaginn 27. febrúar klukkan 14:00.

Raðhús til sölu

Fasteignasalan Domus á Blönduósi hefur fengið til sölumeðferðar raðhús að Suðurvegi 4 á Skagaströnd. Húsið er staðsett við kyrrláta götu í um 350 metra göngufjarlægð frá verlsun og grunnskóla. Gengið er inn í forstofu með fatahengi af framlóð. Til hægri er þvottahús/geymsla, beint áfram er gengið inn á gang sem opnast inn í sameiginlega stofu og borðstofu til hægri. Til vinstri eru svefnherbergi og snyrting. Úr stofunni er gengið inn í eldhús, jafnframt er útgangur um svalahurð á baklóð vestan við húsið. Þrjú svefnherbergi með skápum eru í eigninni, eitt þeirra með svalahurð út á baklóð. Skápar eru í svefnherbergjum. Flísalagt baðherbergi með baðkari Snyrtilegur dúkur er á öðrum gólfum, nýtt ofnakerfi og hitalagnir. Upplýsingar veita Stefán Haraldsson s 440 6170 eða 664 6030 stefan@domus.is eða Stefán Ólafsson hrl. löggiltur fasteignasali s 440 6170 stefano@domus.is http://domus.is/leitarnidurstada/eign/fasteign/364175/

Mynd vikunnar

Enn hefur eitt af ljósunum á Skagaströnd slokknað, ljós sem skein skært á sínum tíma og lýsti mörgum leiðina til betra lífs. Þó svo að ljósið hafi dofnað síðustu ár mátti alltaf sækja sér birtu og yl í það með því að hitta Maríu Magnúsdóttur sem nú lýsir á öðrum, ókunnum slóðum. Allir sem til hennar þekktu vissu að þar fór gæða- og gáfumanneskja sem alltaf hafði tíma til að taka á sig krók til að aðstoða þá sem aðstoð þurftu - sérstaklega ef það fór ekki hátt. María var „amman“ í götunni þar sem stundum myndaðist biðröð við eldhúsgluggann hennar á sunnudögum af börnum sem biðu eftir að fá volga pönnuköku afgreidda út um gluggann. Þar fór engin bónleiður til búðar frekar en aðrir sem til Maríu leituðu. María lést á Sæborg 2. febrúar sl. og fer útför hennar fram laugardaginn 20. febrúar frá Hólaneskirkju.

Spjaldtölvuvæðing og fjölbreyttir kennsluhættir í Höfðaskóla

Unglingadeildin er óðum að spjaldvæðast og nú er svo komið að flestir unglinganna koma í skólann með sínar eigin spjaldtölvur. Foreldrafélag skólans ásamt sveitarstjórn Skagastrandar tóku þá ákvörðun að styrkja nemendur um 50% af kaupvirði spjaldtölvu (að hámarki 50.000) og varð sú ákvörðun til þess að flestir nemendur hafa nú eignast tæki. Draumur okkar er að færa spjaldtölvuvæðingu niður á miðstig en spjaldtölvurnar sem voru keyptar inn í unglingadeild í fyrra eru nú flestar komnar inn á miðstig. Kennarar eru vel meðvitaðir um að spjaldtölva ein og sér bætir ekki námsárangur. Hún er hins vegar eitt tæki af mörgum í beitingu fjölbreyttra kennsluhátta og í því að koma til móts við mismunandi þarfir nemenda. Kennarar hafa verið duglegir við að nýta þessa nýju tækni og fylgjast með því sem er að gerast í skólum landsins á þessu sviði. Fyrir stuttu fór hópur kennara til Akureyrar og sótti þar menntasmiðju um notkun spjaldtölvu í kennslu. Einnig fóru nokkrir kennarar í Borgarnes til að hlýða á Ingvar Sigurgeirsson þar sem hann fjallaði um teymiskennslu og fjölbreytta kennsluhætti. Stefnt er að því að fá hann til að koma til okkar í Höfðaskóla og vera með námskeið um þessa þætti kennsluhátta. Fyrir stuttu tóku unglingarnir sig til og kenndu yngsta stiginu á ýmis kennsluforrit (,,öpp“) í stærðfræði. Þetta gaf mjög góða raun og allir kátir og glaðir eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Vera Ósk Valgarðsdóttir

Mynd vikunnar

Karl, Einar og Ásgeir. . Þessir þrír heiðursmenn settu svip sinn á Skagaströnd hér á árum áður. Karl Guðmundsson (d.11.12.2011), sem er lengst til vinstri, ólst að mestu upp á Vindhæli í Skagabyggð og átti þar heimili þar til hann flutti til Skagastrandar og stofnaði fjölskyldu með konu sinni Dagnýju Hannesdóttur. Einar Haraldsson (d.14.11.1983) , sem er í miðið, var bóndi að Kjalarlandi í Skagabyggð áður en hann flutti til Skagastrandar með sinni konu, Ólínu Hjartardóttur (d. 27.7.1983) frá Vík. Á Skagaströnd bjuggu þau í Dagsbrún, sem er horfin en stóð u.þ.b. þar sem stjórnsýsluhúsið er nú. Lengst til hægri er svo Ásgeir Axelsson (d. 8.6.2011) bóndi á Litla Felli í Sveitarfélaginu Skagaströnd. Þar bjó hann með konu sinni Sigrúnu Guðmundsdóttur og þeirra fjölskyldu. Allir eru þessir þrír menn minnisstæðir þeim sem til þeirra þekktu.

Mynd vikunnar

Kranabíll hafnarinnar. Kranabíllinn H-533 var í eigu Skagastrandarhafnar. Þetta var GMC bíll með nokkuð öflugum krana og var alltaf kallaður hafnartrukkurinn. Stjórnhúsið á krananum sjálfum var smíðað af vélaverkstæði Karls Berndsen. Bíllinn var mikið notaður við hífingar í löndunum á fiski, steypuvinnu og fleiru. Einnig var hann leigður út, með manni, í ýmis verkefni í héraðinu. Bíllinn endaði svo ævi sína sem brotajárn. Myndin var tekin af bílnum utan við Héðinshöfða en þar bjó, í suðurendanum, Kristinn Jóhannsson (d. 9.11.2002) með sinni fjölskyldu. Kristinn var hafnarvörður í nokkur ár og sá um bílinn og vann á honum. Til gamans má geta þess að bíllinn í baksýn var í eigu Ástmars Ingvarssonar (d. 10.10.1977) sem bjó í norður enda Héðinshöfða með sínu fólki. Á þessum bíl ók hann fólki í hópferðum á böll hingað og þangað og fór einnig í lengri ferðir um land allt.

Álagning fasteignagjalda 2016

Álagning fasteignagjalda á Skagaströnd 2016 Ágætu fasteignaeigendur á Skagaströnd. Álagning fasteignagjalda hefur nú farið fram. Álagningarreglur fasteignagjalda 2016 eru meðfylgjandi bréfi þessu og jafnframt aðgengilegar á heimasíðunni www.skagastrond.is – undir „gjaldskrár“. Greiðslur fasteignagjalda: Eins og undanfarin ár verða ekki sendir greiðsluseðlar vegna fasteignagjalda nema til þeirra sem þess hafa óskað sérstaklega og gildir skráning þeirra sem þess óskuðu á síðasta ári nema nýjar upplýsingar komi fram. Gjalddagar fasteignagjalda eru frá 1. febrúar til 1. júlí, en á smærri upphæðum eru gjalddagar 1 eða 2. (Gjalddagar á 0-5.000 kr. er 1.apríl og 5.001-10.000 skiptist í tvo gjalddaga 1. apríl og 1. maí). Álagningaseðlar: Eins og undanfarin tvö ár munum við ekki senda út álagningarseðla nema þess sé sérstaklega óskað. Hver og einn getur nálgast sína álagningarseðla á vefsíðunni www.island.is undir reitnum „mínar síður“ birtist þessi skjámynd: Innskráning er með kennitölu viðkomandi og veflykli ríkisskattstjóra. Skrifstofa sveitarfélagsins veitir fúslega upplýsingar og aðstoð til þeirra sem þess óska. Skagaströnd 28. janúar 2016 Sveitarstjóri