Dagskrá sjómannadagsins á Skagaströnd

Laugardagurinn 4. júní 2005. kl. 11.00 – 12.00 Skemmtisigling með bátum út á Flóann. Meðan á skemmtisiglingu stendur mun þyrla Landhelgisgæslunnar koma og sveima yfir bátunum og björgunarsveitir við Húnaflóa æfa björgun á sjó þar sem þyrlan mun taka þátt. Ferðaþjónustubáturinn Ákinn frá Hvammstanga sem hefur upp á að bjóða 20 þægileg sæti, mun taka eldri borgara í skemmtisiglinguna. kl. 12.00 – 12.20 Skrúðganga frá höfninni að kirkju undir forystu lögreglumanna. kl. 12.30 – 13.30 Sjómannamessa í Hólaneskirkju. Blómsveigur lagður á minnismerki um týnda sjómenn. kl. 14.15 – 14.45 Kappróður í Skagastrandarhöfn. kl. 14.45 – 15.15 Nýtt björgunarskip vígt, skipið blessað og því gefið nafn. Við það tækifæri munu m.a. fulltrúar Slysavarafélagsins Landsbjargar flytja ávarp. kl. 15.15 – 16.30 Skemmtidagskrá á Hafnarhúsplani, þar á meðal verður Örn Árnason skemmtikraftur með hluta dagskrárinnar. kl. 16.30 – 20.00 Hoppukastali fyrir börn verður á skólavellinum Sýningar og kaffisala: Auk fyrrgreindra dagskráratriða verður á svæðinu sýning á björgunartækjum og búnaði björgunarsveita við Húnaflóa. kl. 15.30 Opnun kaffisölu í Höfðaskóla. Einnig verður í skólanum opin sýning á handverki og myndmennt nemenda skólans. kl 20.00 Opnun á ljósmyndasýningu Steinþórs Karlssonar, “Út í hafsauga” á neðri hæð Viðvíkurkaffis. Sýningin verður uppi út júnímánuð og aðgengileg á opnunartíma kaffihússins kl. 23.00 – 03.00 Dansleikur í Fellsborg. Hljómsveitin Von leikur fyrir dansi. Sunnudagurinn 5. júní 2005. kl. 14.00 – 18.00 Hoppukastali fyrir börn verður á skólavellinum kl. 18.00 Bíó í Fellsborg. Barna og fjölskyldumyndin BANGSIMON. GÓÐA SKEMMTUN BJÖRGUNARSVEITIN STRÖND SKAGASTRÖND

Vinna hafin við nýjan sparkvöll

Fyrsta skóflustungan af nýjum sparkvelli við Höfðaskóla var tekin í morgun að viðstöddum nemendum, kennurum og hreppsnefnd Höfðahrepps. Byggður verður gerfigrasvöllur með stuðningi frá KSÍ sem leggur til gerfigrasið. Völlurinn verður upphitaður og flóðlýstur til að auka notagildi hans yfir vetrarmánuðina. Umhverfis völlin verður svo sett timburgirðing. Það kom í hlut 1. bekkjar að taka skóflustunguna og nutu þau til þess aðstoðar bæði hreppsnefndarmanna og kennara við skólann. Nemendurnir heita frá vinstri, Egill Örn, Guðmann Einar, Guðrún Rós, Ísak Lehmann, Ísak Karl, Birta Dögg og Firðmann Kári. Á myndinni eru einnig þau Jensína, Adolf og Hildur.

Skemmtileg heimsókn frá Hönefoss í Noregi

Undanfarin tvö hefur verið í gangi samvinnuverkefni milli Höfðaskóla og Hov skóla í Hönefoss í Noregi þar sem sambandi var komið á milli elsta bekkjar Hov skólans og tveggja elstu bekkja Höfðaskóla með gagnkvæma heimsókn að markmiði. Hafa nemendur unnið ýmis verkefni um staði og lönd hvors annars og verið dugleg að safna peningum til að geta heimsótt hvort annað. Norðmennirnir riðu á vaðið og dvöldu hér á Skagaströnd 24.-26. maí. Allir gestirnir voru klæddir í bláar peysur sem er nokkurs konar einkennismerki verkefnisins og allir sem tóku á móti þeim hér voru í sams konar peysum. Hingað komu 25 norskir nemendur ásamt 8 fylgdarmönnum, þar á meðal myndatökukonu sem tók upp alla heimsóknina. Norðmennirnir komu að kvöldi 24. maí og eftir að hafa borðað í Kántrýbæ fór hópurinn í íþróttahúsið og tók þátt í örnámskeiði í kántrýdönsum. Að því loknu fór hver heim með sínum gestgjafa því allir gistu heima hjá nemendum úr 9. og 10. bekk. Á miðvikudagsmorgni var haldið af stað í hringferð fyrir Skagann. Stoppað var á nokkrum stöðum á leiðinni, m.a. í Kálfshamarsvík, á Hrauni var æðarvarp skoðað og við Ketubjörg fengu allir sem vildu að smakka hákarl. Að þessu loknu var snætt nesti í Skagaseli. Þegar komið var heim til Skagastrandar var hópnum skipt í þrennt. Allir fengu að fara í golf, á hestbak og í siglingu út að ísjakanum. Þetta þótti hin mesta upplifun fyrir alla. Um kvöldið var síðan grillveisla í Fellsborg í umsjón foreldra og svo diskótek á eftir. Á fimmtudagsmorgni var byrjað á að fara í skólann, skólinn var skoðaður og unnið eitt vinaverkefni. Síðan var haldið í jeppaferð upp að Langavatni. Hátt í 15 jeppar fluttu alla upp að vatni. Þar voru bátar fyrir þá sem vildu veiða en frekar kalt var uppfrá, þannig að veiðimenn héldu ekki lengi út. Grillað var í hádeginu, bæði pylsur og fiskurinn sem veiddist. Allir voru sælir og ánægðir með þessa skemmtilegu ferð. Eftir heimkomuna fóru allir heim með sínum gestgjöfum og tóku til farangurinn sinn og eftir það var haldið á ný í Fellsborg þar sem kveðjukaffi var drukkið. Síðan hélt norski hópurinn af stað suður en ferðin þeirra er alls ekki búin. Þau ætla að skoða sig um fyrir sunnan og halda síðan af stað til Noregs á mánudaginn. Þessum samskiptum er síður en svo lokið því nemendur í 9. og 10. bekk Höfðaskóla halda svo af stað til Noregs þann 7. júní og ætla þau að heimsækja norsku krakkana, ásamt því að skoða sig um í Osló og nágrenni. Höfðaskóli, nemendur og foreldrar í 9. og 10 bekk vilja þakka öllum þeim fjölmörgu sem komu að þessari heimsókn og hjálpuðu við að gera ferðina fyrir Norðmennina sem eftirminnilegasta.

Tannlæknastofa á Skagaströnd

Tannlæknastofan á Skagaströnd hefur verið opnuð að nýju eftir nokkurt hlé. Erling Ingvason tannlæknir mun vera á stofunni á miðvikudögum og Berglind Guðmundsdóttir tanntæknir starfar með honum og annast m.a. skráningu. Tímapantanir og upplýsingar í síma 452 2697. Tannlæknastofan er til húsa í heilsugæslunni að Bogabraut 7.

Unnið við gatnaframkvæmdir

Vinnu við malbikun götu á milli hafnarvogar og Fiskmarkaðar lauk í gær. Malbikinu var keyrt frá Akureyri og kom vinnuflokkur þaðan sem vann við útlagningu malbiksins. Í þessum áfanga voru lagt um 100 tonn en stefnt er að frekari malbikun síðar í sumar þegar malbikunarstöðin verður staðsett á Sauðárkróki. Fiskmarkaðurinn er að flytja í nýja aðstöðu og er verið að leggja lokahönd á frágang við skrifstofu- og þjónustuálmu Fiskmarkaðsins og verður þá öll starfssemi hans í sama húsi.

Námsstofan á Skagaströnd

Prófum sem fjarnámsnemendur fá leyfi til að taka í Námsstofunni er lokið nú í maí. Þetta voru 27 próf sem 14 fjarnámsnemendur tóku við 4 skóla. Síðan eru nokkrir fjarnámsnemendur sem taka próf í sínum skóla. En alls eru 25 einstaklingar með samning um að nýta aðstöðuna í Námsstofunni. Í Námsstofunni er góð aðstaða til að stunda fjarnám, nokkrar tölvur og lestofa. Frá áramótum hafa 29 einstaklingar nýtt sér þá aðstöðu. Fjarfundabúnaðinn hafa 8 einstaklingar notað til að sitja kennslustundir í Námsstofunni. Þessa dagana og næstu vikur er Þóra Ágústsdóttir í Námsstofunni að vinna að lokaverkefni sínu við háskólann í Álaborg í Danmörku.. Verkefnið er á sviði Evrópufræði og fjallar um hvers vegna Ísland hefur ekki sótt um aðild að ESB. Nú fer að hefjast innritun hjá þeim skólum sem eru með fjarnám. Því ættu þeir sem hafa verið að hugsa um að fara í fjarnám að taka sig til og kynna sér hvað þeim stendur til boða. Hér eru nokkrir skólar sem bjóða upp á fjarnám: Kennaraháskóli Íslands Háskólinn á Akureyri Verkmenntaskólinn á Akureyri Fjölbrautarskóli Norðurlands vestra Fjölbrautarskólinn við Ármúla Háskóli Íslands Háskólinn á Hólum Háskólinn í Reykjavík Tækniháskóli Íslands Viðskiptaháskólinn á Bifröst Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri Menntafélag byggingariðnaðarins Rafiðnaðarskólinn Fræðslumiðstöð málmiðnaðarins Hótel- og matvælaskólinn Borgarholtsskólinn Iðnskólinn í Reykjavík Þessi listi er ekki tæmandi og skólarnir bjóða ekki upp á alla sína námsskrá í fjarnámi. Auk skólanna bjóða ýmsir aðilar alls konar áhugaverð námskeið í fjarnámi. Þeir sem vilja aðstoð eða nýta aðstöðuna í Námsstofunni á Skagaströnd er bent á að hafa samband við undirritaðan. Maí 2005 Umsjónarmaður Námsstofunnar á Skagaströnd Hjálmur Sigurðsson S: 8440985

Hátíðarhöld sjómannadags færð á laugardag

Hefðbundin dagskrá sjómannadags færist fram um einn dag og verður laugardaginn 4. júní. Í tengslum við dagskrána verður nýju björgunarskipi gefið nafn og það vígt formlega. Björgunartækjasýning verðu einnig sett upp á hafnarsvæðinu í tilefni dagsins. Á sunnudeginum er fyrirhugað að hafa hoppukastala á skólalóð fyrir yngstu kynslóðina og þá verðu einnig bíósýning í Fellsborg. Drög að dagskrá sjómannadags: Laugardagurinn 4.júní 2005. 10: 30 Skrúðganga frá höfn að kirkju. 11:00 Sjómannadagsmessa í Hólaneskirkju. 13:15 Skemmtisigling 14:00 Skemmtun á hafnarsvæðí Kappróður Vígsla á nýju björgunarskipi Björgunartækjasýning Leikir á Hafnarhúsplani 15:30 Kaffisala í Höfðaskóla 23:00 Dansleikur í Fellsborg Sunnudagurinn 5. júní 2005. 14:00 Hoppukastali fyrir börn á skólavelli 18:00 Barna- og fjölskyldumynd sýnd í Fellsborg Björgunarsveitin Strönd

Jósef Ægir varð Evrópumeistari í gouren

Jósef Ægir Stefánsson einn af hraustustu sonum Skagastrandar gerði garðin frægan út í Frakklandi um helgina en þar sigraði hann í glímu sem kölluð er gouren. Þessi tegund glímu er satt að segja ekki algeng á Skagaströnd en Jósef hefur ekki verið þekktu fyrir að setja smámuni fyrir sig og lærði glímuna eftir óhefðbundnum leiðum. Að vonum eru Skagstrendingar mjög stoltir yfir afreki Jósefs. Eftirfarandi frétt er tekin af vef Glímusambands Íslands, www.glima.is Evrópumóti fangbragða lauk nú fyrir skömmu en mótið fór fram í Landerneau í Frakklandi um helgina. Spánverjar urðu Evrópumeistarar í þriðja sinn en þeir unnu einnig árin 1999 og 2001. Ísland hafnaði í fimmta sætinu sem verður að teljast mjög góður árangur miðað við að Ísland hefur ekki tekið þátt síðan 1991 og auk þess að vera aðeins með sex menn. Fyrir utan þetta þá meiddist Jón Örn og hafði það mikil áhrif á heildarstigakeppnina. Það sem stóð upp úr hjá Íslenska liðinu var þegar Jósef Ægir Stefánsson varð Evrópumeistari í gouren –100 kg flokki. Hann var síðan mjög óheppinn í back hold keppninni því hann tapaði tvisvar 3-2. Pétur Eyþósson vann brons í gouren –81 kg flokki og Eiríkur Óskar Jónsson náði einnig í brons í back hold en hann keppti í +100 kg flokki... Jósef Ægir varð í dag Evrópumeistari í gouren7. maí 2005 Evrópumót fangbragða hófst í dag með keppni í gouren. Helstu úrslit af mótinu eru þau að Jósef Ægir Stefánsson sigraði glæsilega í -100 kg flokki og er þar með Evrópumeistari í gouren. Önnur úrslit af mótinu eru þau að Pétur Eyþórsson hafnaði í þriðja sæti í -81 kg flokki og þeir Ólafur Oddur Sigurðsson og Snær Seljan Þóroddsson lentu í fjórða sæti í sínum flokkum. Ólafur í -90 kg flokki en Snær í -74 kg flokki. Eiríkur Óskar Jónsson og Jón Örn Ingileifsson urðu síðan báðir að hætta keppni vegna meiðsla og er óvíst hvort þeir keppi á morgun í back-hold. Glímusambandið óskar strákunum innilega til hamingju með frábæran árangur í gouren.