Kofasmíðin gengur vel hjá krökkunum

Það var mikið um að vera í kofahverfinu hjá krökkunum á Skagaströnd þegar þau fengu málningu til að mála nýju húsin sín. Krakkarnir hafa í sumar verið á námskeiði á vegum ungmennafélagsins og Höfðahrepps þar sem settir voru upp skólagarðar, unnið við kofasmíði og farið í íþróttir og leiki. Í skólagörðunum sem eru rétt við kofana hafa verið settar niður matjurtir og kennd umhriða matjurtagarða. Um daginn var farið í vettvangsferð upp í Hrafndal þar sem m.a. var haldinn fleytikeppni á ánni og keppt í hver ætti hraðskreiðustu fleytuna. Krakkarnir mættu með alls kyns leikföng sem hægt var að láta fljóta og nýttu sér strauminn til að koma þeim í mark. Umsjónarmenn með námskeiðinu eru Birna Sveinsdóttir og Elva Þórisdóttir. Námskeiðið hefur verið tvo tíma á dag þrjá daga í viku fyrir börn á aldrinum 6-13 ára. (Ljósm. Herdís J.)

Gamlir kunningjar koma í Kántrýbæ

Nú ætlar Hljómsveitin Janus að ríða í hlað og koma í Kántrýbæ á Föstudagskvöldið 21. júlí og leika nokkur létt lög og rifja upp gömlu taktana. - Síðast þegar Hljómsveitin lék í Kántrýbæ var alveg kjaftfullt hús af fólki á öllum aldri og ætlaði allt um koll að keyra og það verður það vafalaust einnig,á Föstudaginn kemur. Við drengirnir í hljómsveitinni Janus erum núna þessir: Gummi Jóns aðalsprautan,Hjörtur Guðbjarts,Fannar Viggós,Þórarinn Grétars,Þorvaldur Skafta og Kristján Blöndal, en fyrir svo sem tuttugu árum þá spiluðum við á nokkrum dansleikjum á Skagaströnd og tókst það ágætlega því Gummi lét okkur æfa svolítið og myndaðist þá þessi skemmtilega kemestría svokallaða þegar menn ná almennt vel saman í samspili jafnt tóna sem og í húmor og samræðum. Því er gaman að að tala um það að nú erum við að koma saman aftur eftir langan tíma fyrst á Kántrýhátíðinni 2001 á útisviðinu sem var feykilega gaman og svo næst í Kántrýbæ í Okt.2004 og svo núna síðast í Kántrý í Nóv.2005. Það er tilvalið fyrir ferðamenn að skjótast á Skagaströnd og tjalda á frábæru tjaldstæði og mæta svo í Kántrýbæ á Föstudagskvöldið. Það eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Bestu þakkir. Kristján Blöndal.

Afmælishátíð Landsbankans

Laugardaginn 1.júlí 2006 hélt Landsbankinn veislu vegna 120 ára afmælis bankans. Haldið var upp á afmælið í útibúum bankans um allt land. Fjöldi fólks tók þátt í gleðinni með okkur á Skagaströnd í góðu veðri. Hugrún og Jón Ólafur spiluðu fyrir okkur og Eygló söng. Farið var í leiki, sem Calle sá um og Adolf Hjörvar stjórnaði minigolf-móti. Laufey Inga og Silfá máluðu krakkana. Gunnar og Ómar Ingi grilluðu pylsur og inni í banka var boðið upp á afmælistertu og kaffi. Við þökkum öllum sem komu og nutu dagsins með okkur. Starfsfólk Landsbanka Íslands hf Skagaströnd