Fréttatilkynning

Nýr þjónustusamningur milli félagsmálaráðuneytis og Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra – málefni fatlaðra (SSNV málefni fatlaðra) verður undirritaður þriðjudaginn 19. desember 2006 kl. 16:00 á Löngumýri í Skagafirði. Samningurinn er gerður til 6 ára, frá 1. janúar 2007 til 31. desember 2012. Félagsmálaráðuneytið skuldbindur sig til að leggja u.þ.b. 1.900 milljónir króna til verkefnisins á þeim tíma. Samtök sveitarfélaga taka að sér að veita fötluðum börnum og fullorðnum á starfssvæði sínu þá þjónustu sem er á ábyrgð ríkisins samkvæmt lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðra. Umsjón og framkvæmd samningsins verður í höndum SSNV málefna fatlaðra. Verkefnisstjóri er Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir. Með samningnum ákveða félagsmálaráðuneytið og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra ( SSNV málefni fatlaðra ) að halda áfram því mikilvæga samstarfi sem hófst í apríl 1999. Meginmarkmið samningsins er að samþætta þjónustu við fatlaða í heimabyggð og fella hana eins og framast er unnt að starfsemi annarra þjónustuaðila; færa þjónustuna nær notendum og auðvelda þannig aðgang að henni. Þetta er gert með meiri skilvirkni, betri nýtingu fjármuna og auknum þjónustugæðum að leiðarljósi. Samhliða undirritun mun félagsmálaráðuneytið kynna ný drög að stefnu í þjónustu við fötluð börn og fullorðna 2007 – 2016.

Fréttir frá Leikskólanum Barnaból

Aðventan er skemmtilegur tími á leikskólanum Barnabóli, mikið að gerast og hver viðburðurinn rekur annan. Í áranna rás hafa skapast margar hefðir sem okkur finnst ómissandi að viðhalda á þessum árstíma. Fyrir dag íslenskrar tungu 16. nóvember æfðu börnin á eldri deildinni smá dagskrá sem þau buðu yngri börnunum að koma og hlýða á og syngja með. Laugardaginn 2. desember komu leikskólabörn, foreldrar og starfsmenn saman og bökuðu piparkökur og skreyttu. Börnunum er skipt niður í 6-7 barna hópa sem koma með um hálftíma millibili á leikskólann og hefur þetta skipulag gengið vel í gegnum árin en stundum orðið bið eftir ofninum. Mikill munur er á aðstöðunni í nýja eldhúinu t.d. að þar eru nú tveir ofnar og baksturinn gekk mjög vel. Margir fara síðan með systkinum sínum í Höfðaskóla og taka þátt í föndurdegi þar. Komin er hefð fyrir að þessi laugardagur er fjölskyldudagur hjá skólunum á Skagaströnd og finnst mörgum þetta ómissandi þáttur í byrjun aðventu. Börnin buðu foreldrum sínum, ömmum og öfum í aðventukaffi 7. desember og höfðu sjálf bakað piparkökur sem runnu ljúflega niður ásamt bananabrauðinu hennar Ásthildar. Einn daginn birtust þrír, íturvaxnir jólasveinar á glugganum á Lundi einmitt þegar við vorum nýbyrjuð á jólaballinu! Það varð uppi fótur og fit og börnin vildu ólm bjóða þeim í bæinn og þeir komu og dönsuðu með okkur kringum jólatréð. Þetta voru sko fínir sveinkar sem kunnu öll jólalögin okkar og fannst auðséð gaman að dansa þó þeir væru nokkuð stórstígir. Börnin voru mjög hrifin af þeim og enginn var hræddur eða fór að gráta. Jólasveinarnir voru að vonum þreyttir eftir ferðina ofan úr fjöllum og fegnir að fá að hvíla sig hjá okkur smá stund og þá kom í ljós að þeir voru með poka fullan af gjöfum, ein fyrir hvert barn. Í pakkanum var bók, popp, svali og mandarína sem börnin þökkuðu jólasveinunum kurteislega fyrir. Þegar síðast sást til sveinkanna voru þeir að kafa í skafli sunnan við leikskólann, detta hver um annan þveran og smávegis að fljúgast á, já, smá jólasveinatusk í góðu. Við fórum í heimsókn í Hólansekirkju og áttum góða stund með Sr. Fjölni og föstudaginn 15. desember fórum við í jólatrésferð á Hnappastaðatúnið, torgið okkar, og dönsuðum í kringum bæjarjólatréð. Börnin fundu nokkra poka með piparkökum festa í tréð og voru þær etnar upp til agna á staðnum, ótrúlegir þessir jólasveinar hvað þeir eru góðir við börn! Smávegis snjór er á leikskólalóðinni og eins og vant er hann uppspretta ævintýra og gleði hjá börnunum, margar smá holur komnar í skaflinn við austurgirðinguna eina og litlar kanínur hafi verði þar á ferð. Við óskum ykkur gleðilegra jóla og farsældar á nýja árinu. Með kveðju frá Barnabóli Þórunn Bernódusdóttir leikskólastjóri og starfsfólk leikskólans

Hirðing brotamálma

Ágætu Skagstrendingar. Nú stendur yfir átak í hreinsun brotamálma. Mjög víða er að finna ýmsa málmhluti sem hafa lokið hlutverki sínu og nýtast best sem endurunnin málmur í nýja hluti. Til þess að svo megi verða þarf að koma þeim í endurvinnslu. Héraðsnefnd hefur gert samning við Hringrás ehf. um brottflutning allra brotamálma af svæðinu til endurvinnslu. Sérstakt átak er gert til að mögulegt verði að ná sem bestri hagkvæmni út úr því verkefni. Við leitum því eftir samstarfi við ykkur um hreinsun á brotamálmum bæði stórum og smáum og biðjum ykkur að koma þeim á söfnunarsvæðið í gryfjunum á Fellsmelum. Sérstök ástæða er til að minna á ónýta bíla sem finna má nokkuð víða um bæinn. Talning á númerslausum bílum innan þéttbýlismarka hefur gefið vísbendingu um allt að 50 óskráða bíla á staðnum. Mögulegt er að fá 15 þús. króna endurgreiðslu ef bílar eru skráðir ónýtir og þeim skilað til endurvinnslu. Skrifstofa Höfðahrepps gefur út kvittun fyrir afskráningu slíkra bíla gegn framvísun skráningarskírteina eftir að þeim hefur verið komið í brotajárn í samráði við starfsmenn sveitarfélagsins. Þá er ástæða til að minna á að heilbrigðisfulltrúi getur látið fjarlægja slíkar bifreiðar á kostnað eigenda ef þær eru orðnar ónýtar og taldar til óþrifnaðar. Skagaströnd, 29. nóvember 2006. Sveitarstjóri