Meðalhitinn á Skagströnd í janúar var 0,7 gráður

Veðurstofa Skagastrandar hefur gefið út yfirlit yfir veðrið á Skagaströnd í nýliðnum janúar. Sumir telja verðið hafa verið til vandræða. Það er rangt og yfirleitt haldið fram af þeim sem einkum halda sig innandyra.  Skortur á snjókomu var nokkur og sá snjór sem náði til jarðar var á iðulausu ferðalagi hluta mánaðarins og endaði yfirleitt við húsveggi og lét þar mikið yfir sér. Stöku götur fennti í kaf og mikla vélavinnu þurfti til að ryðja þær. Svo ringdi og hvarf þá snjórinn á augabragði, hraðar en nokkur vél getur afkastað.  Meðalhitinn í janúar var aðeins hærri en í desember, var 0,7 gráður en í desember var hann 0,5. Hlýjasti dagur mánaðarins var 22. janúar en þá fór meðalhitinn upp í 6,3 gráður. Mjög hlýtt var þá og fór hitinn hæst upp í 8,6 gráður um klukkan 18 þennan dag. Ekki kólnaði þótt liði á nóttina. Um klukkan 5.50 næsta morgun, 23. janúar, náði hitinn 7 gráðum og meðalhiti þess dags var 5,2 gráður en fór síðan lækkandi til mánaðarmóta. Kaldasti dagur mánaðarins var 6. janúar. Þá fór meðalhitinn niður í -9,4 gráður en hann segir nú ekki alla söguna því frostið fór ofan í -11,1 gráður klukkan 17 þann dag. Raunar var brunagaddur frá því kl. 9 um morguninn og fram til klukkan 21 um kvöldið. Frostið fór þá sjaldnast aldrei undir tíu gráður. Frá 4. janúar og fram til þess 18. dvaldi hitamælirinn flesta daga undir frostmarki en eftir það var aldrei frost á Skagaströnd sé enn og aftur reiknað með hinu lygilega meðaltali. Vindgangur var nokkur á Skagaströnd í janúar. Í kuldakaflanum í byrjun mánaðarins fór blés vindurinn langtímum saman yfir 20 m/s. Þannig var meðalvindhraðinn 7. janúar 17  m/s, en fór þann dag hæst upp í 24 m/s og hélt sínum krafti frá því klukkan átta um morguninn og langt fram yfir hádegi. Það þykir bornum og barnfæddum Skagstrendingum heldur lítið og ylja sér við minningar um stórviðri sem entust jafnvel lengur en í viku. Það draga aðfluttir stórlega í efa og furða sig um leið á minnisleysi samborgara sinna.  Hvað um það, vindhraðinn og meðalvindhraðinn segja ekki nándar nærri eins mikla sögu og hviðurnar. Þær slógu tímunum saman á þessum fárviðrisdegi yfir 30 m/s og undruðust dvalargestir Ness listamiðstöðvar hvernig húsin gæti staðist svona áhlaup en þakkaði jafnframt hver sínum sæla fyrir þá staðreynd. Ekki er mæld úrkoma á Skagaströnd enda flestum ljóst hvenær rignir eða snjóar. Þó veðurstofa Skagastrandar átti sig á því hvaðan vindurinn blæs er erfiðara að koma þeim upplýsingum á framfæri svo vel sé. Skárst væri að búa til svokallaða vindrós en hvernig það er gert er óbreyttum starfsmönnum veðurstofunnar hulin ráðgáta. Þó er greinilegt að norðlægar áttir voru algengastar fyrri hluta janúar enda fylgir þeim oft lægra hitastig. Áhugasömum um veður er bent á að hægt er að framkalla ólíklegustu upplýsingar um veðrið með því að skoða boxið hér vinstra megin sem í stendur „Veðrið á Skagaströnd“. Meðfylgjandi myndir voru teknar þann 7. janúar. Þá þurfti björgunarsveit til að flytja starfsmenn Vinnumálastofnunar til síns heima. Aðrir settu undir sig hausinn og sumir bjuggu svo vel að geta ekið í ófærðinni á fjórhjóli. Spá veðurstofu Skagastrandar fyrir febrúar er tilbúin. Helst er úr henni að frétta að vorið er enn fjarri. snjóa mun í febrúar, stundum verður hvasst, sjaldan mjög hvasst. Frost verður af og til og þess á milli hitnar. Mestur hiti verður í Skagstrendingum á komandi þorrablóti. Kaldast verður á Spákonufelli.

Styrkir til nemenda á framhalds- og háskólastigi

Sveitarstjórn Skagastrandar hefur ákveðið að veita styrki til nemenda á framhalds- og háskólastigi sem nemur 20 þús. kr. skólaárið 2010-2011. Styrkirnir eru veittir til jöfnunar á námskostnaði fjarri heimabyggð. Umsóknum um styrki skal skilað til skrifstofu sveitarfélagsins fyrir 26. febrúar 2011. Nemendur á framhalds- og háskólastigi sem eiga lögheimili á Skagaströnd og fullnægja skilyrðum í reglum um styrkina eiga rétt á umræddum námsstyrk frá Sveitarfélaginu Skagaströnd. Nánari upplýsingar veittar á skrifstofu sveitarfélagsins og á heimasíðunni má einnig finna reglur um námsstyrki. Umsóknareyðublað má nálgast hér. Skagaströnd, 1. febrúar 2011. Fyrir hönd sveitarstjórnar Sveitarstjóri

Víst er veðrið gott ...

Vegna bilunar á veðurstofu Skagastrandar sýnist veðrið vera verra en það er. Í raun er sól og blíða í bænum, rétt eins og verið hefur allan þennan mánuð og verður svo fram á vor er veðrið tekur að skána. Meðfylgjandi mynd sýnir og sannar svo ekki verður um villst hvernig veðrið er. Því er óhætt að sleppa því að líta út um gluggann, útsynninginn mun lægja um leið og veðurstofan kemst sjálfkrafa í samt lag. Þessi frétt á alls óskylt við komandi þorrablót Skagstrendinga.

Þorrablót – Þorrablót

Þorrablót verður í Félagsh. Fellsborg á Skagaströnd laugardaginn 5. febrúar 2011. Húsið opnað kl. 20:00. Borðhald hefst stundvíslega kl. 20:30. Veislustjóri er Lárus Ægir Skemmtiatriði að hætti heimamanna Kvenfélagskonur sjá um matinn. Hljómsveitin Amigos sér um að halda uppi fjörinu til klukkan 03:00. Miðasala verður í Fellsborg þriðjudaginn 1. febrúar á milli klukkan 19:00 og 20:30 Miðaverð kr. 6000. Ellilífeyrisþegar ásamt unglingum fæddum árið 1995 greiða kr. 5000. Erum ekki með posa Kvenfélagið Eining

Opinn danstími á laugardaginn

Næsta laugardag verður opinn danstími á vegum UMF Fram kl. 15-17 í íþróttahúsinu. Andrea Kasper, dansari, kennir nútímadans með aðstoð nemenda sinna sem hafa verið hjá henni í vetur. Öllum er heimilt að taka þátt eða horfa á, aldur skiptir engu máli. Valdimar Jón Björnsson smíðaði balletstangir fyrir nemendurna og hafa þær komið að góðum notum. Sex stúlkur hafa verið í dansnámi í vetur og hafa tekið stórstígum framförum og þær hvetja aðra til að taka þátt.

Verður spurt um Elvis Presley í Drekktu betur?

Spurningakeppnin skemmtilega sem í hálfkæringi gengur undir nafninu Drekktu betur verður á dagskránni í Kántrýbæ föstudagskvöldið 28. janúar kl. 21:30. Þar stíga á stokk mæðgurnar Linda Kristjánsdóttir og Írena Rúnarsdóttir, önnur  spyr og hin dæmir í vafamálum en saman hafa þær samið spurningar kvöldsins. Spurningarnar verða fjölbreyttar og án efa skemmtilegar enda er ekki tilgangurinn sá að upplýsa um þekkingu þátttakenda heldur fyrst og fremst að skemmt þeim. Ástæða er fólk til að mæta þó ekki væri til annars en að kanna hvort einhver spurning komum Elvis heitinn Presley.

Framlengdur skilafrestur í skoðanakönnun

Margir hafa óskað eftir því að skilafrestur í könnunina um þjónustu Símans verði framlengdur. Sveitarstjórn hefur ákveðið að verða við þessum óskum. Nú er hægt er að skila svarseðlum í verslun Samkaupa fram til lokunar föstudaginn 28. janúar.  Skila má svarseðlum í kassa sem liggur frammi í versluninni. Þar við eru líka seðlar sem fylla má út og stinga í kassann.  Einnig er hægt að skila svarseðlum á skrifstofu sveitarfélagsins til kl. 16 á föstudaginn. Ekki er gert ráð fyrir að hvert heimili (fjölskylda) skili fleiri seðlum en einum. 

Spákonuhof verður líklega opnað í maí

Gamla „Tunnan“ breytist dag frá degi og eflaust á þetta gamla uppnefni eftir að hverfa. Þarna er nú verið að vinna að því að útbúa Spákonuhof. Að utan hefur bragginn verið endurnýjaður og er þó talsverð vinna eftir.  Að innan er búið að ganga frá lofti og veggjum. Rafvirkjar og pípulagningamenn eru byrjaðir að vinna í lögnunum. Verið er að einangra og leggja viðargólf í salinn og hefur flogið fyrir að haldið verði harmónikkuball, svona að gömlum sið, þegar gólfið er komið á. Leikmyndahönnuðurinn Sigurjón Jóhannesson er að teikna refil útfrá sögu Þórdísar spákonu og aðrir leikmunir eru óðum að fæðast hjá Ernst og Ágústu Backman sem koma að hönnun og gerð leikmuna á sýningunni. Hugmyndir og útfærslur eru samt enn að gerjast og verður spennandi að  sjá hver útkoman verður. Ef allt gengur eins vel og hingað til verður Spákonuhof á Skagaströnd líklega opnað í lok maí. Önnur myndin sem fylgir þessari frétt er af salnum. Búið er að mála veggina í vínrauðum lit og loftið í svörtum. Hin myndin er af Þóri Arasyni, smið, og Sigurði Bjarnasyni, en breytingar á húsnæðinu hafa að miklu leyti hvílt á þeirra herðum.

Bogabraut 7 til leigu

Húsnæðið að Bogabraut 7, jarðhæð, er hér með auglýst til leigu. Það er 35,4 ferm. að stærð og þar var áður apótekið Lyfja til húsa. Eigandi er Sveitarfélagið Skagaströnd. Sækja skal skriflega um leigu á húsnæðinu og skila á skrifstofu sveitarfélagsins fyrir kl. 16 föstudaginn 4. febrúar 2011. Nánari upplýsingar um húsnæði veitir sveitarstjóri á skrifstofutíma í síma 455 2700.

Auglýsing vegna úthlutunar byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2010/2011

Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum um byggðakvóta til fiskiskipa fyrir eftirtalin byggðarlög skv. Ákvæðum reglugerðar nr. 999/2010 um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2010/2011 Tálknafjarðarhreppur Akureyri (Grímsey) Borgarfjarðarhreppur (Borgarfjörður eystri) Djúpavogshreppur Auk reglugerðarinnar er vísað til sérstakra úthlutunarreglna í neðanskráðum byggðalögum sbr. auglýsingu nr. 46/2011 í Stjórnartíðindum. Árborg (Stokkseyri, Eyrarbakki) Snæfellsbær (Arnarstapi, Hellissandur, Rif, Ólafsvík) Árneshreppur Húnaþing vestra (Hvammstangi) Sveitarfélagið Skagaströnd Dalvíkurbyggð (Hauganes, Árskógssandur) Fjallabyggð (Siglufjörður, Ólafsfjörður) Akureyri (Hrísey) Fjarðabyggð (Mjóifjörður, Stöðvarfjörður) Breiðdalshreppur Umsóknum skal skilað til Fiskistofu á eyðublaði sem er að finna hér. Umsóknarfrestur er til og með 9. febrúar 2011. Fiskistofa 26. janúar 2011