Fór holu í höggi á Opna TM mótinu á Skagaströnd.

Á laugardaginn var Opna TM mótið í golfi á Skagaströnd. Mótið var jafnframt minningarmót um Karl Berndsen. Á mótinu fór Frímann V.Guðbrandsson úr Golfklúbbi Sauðárkróks holu í högg á braut 7. Brautin er par 3 og 116 metra löng. Er þetta í fyrsta skipti í 22 ára sögu Golfklúbbs Skagastrandar sem það gerist að golfari leikur holu í höggi á Háagerðisvelli. Úrslit urðu annars sem hér segir: Konur án forgjafar: Árný L.Árnadóttir GSS 82 högg. Ingibjörg Guðjónsdóttir GSS 102 högg. Svanborg Guðjónsdóttir GSS 102 högg. Konur með forgjöf: Guðrún Á.Jónsdóttir GÓS 75 högg. Árný L.Árnadóttir GSS 79 högg Þorbjörg Magnúsdóttir GSS 80 högg. Karlar án forgjafar: Einar Einarsson GSS 84 högg Magnús Gunnarsson GSS 86 högg. Haraldur Friðriksson GSS 87 högg Karlar með forgjöf: Magnús Gunnarsson GSS 76 högg. Einar Einarsson GSS 76 högg. Steini Kristjánsson GA 77 högg. Ágæt þátttaka var á mótinu. Aðal styrktaraðili mótsins var Tryggingamiðstöðin.

30 ára afmæli leikskólans 7. júní 2007

Leikskólinn Barnaból á Skagaströnd var formlega opnaður 7. júní 1997. Það voru félagar úr Lionsklúbbi Skagastrandar sem höfðu forgöngu um að byggja leikskóla og unni þeir mikið sjálfboðaliðastarf við að fjármagna bygginguna og koma húsinu upp. Höfðahreppur kom síðan að verkinu og hefur verið rekstraraðili leikskólans frá fyrstu tíð. Árið 1996 var tekin í notkun rúmlega helmings stækkun við leikskólann. Á leikskólanum eru nú tvær aldursskiptar deildir og nöfn þeirra og ýmissa rýma eru eftir gömlum húsum á Skagaströnd svo sem Sæból, Lundur og Höfðakot. Aldur leikskólabarna við inntöku hefur smátt og smátt verið að lækka og frá með 14. ágúst 2007 verða tekin inn börn frá 16 mánaða aldri. Í dag er leikskólinn einsetinn þ. e. öll börnin koma að morgni og fara heima eftir mislangann dvalartíma. Í tilefni af 30 ára afmæli Barnabóls var haldin vegleg afmælishátíð á leiksólalóðinni og sýninga inni á verkum barnanna. Hátíðin hófst kl. 16 í blíðskaparveðri fimmtudaginn 7. júní og kom fjöldi gesta sem fagnaði þessum merku tímamótum með okkur. Það var glatt á hjalla, fluttar nokkrar ræður, nemendakór leikskólans saung og þó að þau allra yngstu væru feimin að standa fyrir framan gestina þá fengu þau bara pabba eða mömmu til að standa hjá sér meðan á söngnum stóð. Eldri börnin sýndu flottar leikfimiæfingar sem þau hafa verið að læra í vetur. Síðan var öllum boðið upp á hina marglofuðu skúffuköku Ásthildar, kaffi og djús sem Vífilfell gaf okkur . Skólanum bárust margar góðar afmælisgjafir, Höfðahreppur gaf skólanum ½ sett af einingarkubbum. Kvenfélagið Eining og Lionsklúbbur Skagastarndar færðu peningagjafir til leikfangakaupa. Foreldrafélag leikskólans gaf nýja stafræna myndavél. Guðjón fræðslustjóri á Skólaskrifstofunni og Jóhanna leikskólastjóri á Barnabæ færðu starfsmönnum glaðning og sama gerði starfsmennafélag Höfðaskóla. Við þökkum kærlega fyrir góðar gjafir og öllum þeim sem glöddu okkur með nærveru sinni og hlýhug í garð leikskólans á þessum hátíðisdegi. Nemendum okkar sem nú yfirgefa leikskólann og fjölskyldum þeirra þökkum við kærlega fyrir samveruna á liðnum árum og óskum þeim alls hins best í framtíðinni. Um leið bjóðum við nýja nemendur og foreldra þeirra velkomna til starfs og leiks. Sumarfríslokun Barnabóls verður frá mánudeginum 9. júlí til mánudagsins 13. ágúst 2007. Með óskum um skemmtilegt sumarfrí Þórunn Bernódusdóttir Leikskólastjóri og starfsmenn Barnabóls

Opna TM/Minningarmót um Karl Berndsen á Skagaströnd.

Laugardaginn 23. júní nk verður Opna TM mótið í golfi haldið á Hágerðisvelli á Skagaströnd. Mótið er jafnframt minningarmót um Karl Berndsen. Leiknar verða 18 holur með og án forgjafar í karla- og kvennaflokki. Aðal styrktaraðili mótsins er Tryggingamiðstöðin.

Birkir Rafn Gíslason með sólóplötu og útgáfutónleika.

Þessa daganna er að koma út ný plata með tónlist Skagstrendingsins Birkis Rafns Gíslasonar. Platan ber nafnið Single Drop. Úrvalslið tónlistarmanna spilar og syngur með Birkir, meðal þeirra eru bræðurnir Ragnar Zolberg og Egill Örn Rafnssynir úr Sign svo og Ásta Sveinsdóttir sem meðal annars hefur sungið með Gus Gus. Plata þessi hefur verið í vinnslu s.l. eitt og hálft ár. Tónlistin er að sögn Birkis tilraunakennt popp-rokk. Birkir hefur að undanförnu starfað meðal annars með Fabúlu og ýmsum djass- og rokktónlistarmönnum. Í síðasta mánuði var Birkir ásamt Fabúlu og hljómsveit í tveggja vikna tónleikaferð í Kanada. Á síðasta ári samdi Birkir meðal annars tónlistina við eistnesku kvikmyndina Another. Birkir starfar einnig sem tónlistarkennari í í Gítarskóla Íslands og Tónlistarskóla Seltjarnarnes. Fimmtudaginn 14. júní voru útgáfutónleikar plötunnar í Tjarnarbíói í Reykjavík. Voru tónleikarnir vel sóttir og móttökur áheyrenda mjög góðar. Platan er væntanleg í verslanir næstu daga en heyra má af disknum á slóðinni: www.myspace.com/singledrop

Vígsla hringsjár á Skagaströnd.

Lionsklúbbur Skagastrandar vígði nýja hringsjá á Spákonufellshöfða 17. júní sl. Gerð hrigsjárinnar er fyrsta verkefni sem Lionsklúbburinn réðst í og var ákvörðun um það tekin á fyrsta félagsfundi klúbbsins 17. október 2004. Hönnuður hringsjárinnar er Jakob Hálfdanarson sem gert hefur margar slíkar vítt og breitt um landið. Vinna við verkið hófst svo sumarið 2005. Þá var valin sá staður sem hringsjáin stendur á og hafin upplýsingasöfnun fyrir gerð skífunnar og m.a. teknar myndir af fjallahringnum. Á sumrinu 2005 náðust nokkrir slíkir útsýnisdagar og eftir það fóru nokkrir örnefnasérfræðingar yfir myndir af fjallahringnum og báru kennsl á örnefni. Í framhaldi af því var gerð svokölluð innmæld örnefnaskrá og öll örnefni borin saman við landakort af svæðinu. Sjálf hringsjáin, sem stundum er nefnd útsýnisskífa er þannig gerð að efnið í plötu hringsjárinnar er sérinnfluttur kopar. Örnefni og aðrar upplýsingar eru grafnar í koparinn sem er svo allur krómhúðaður. Það er gert til þess að verja hann gegn spanskgrænu sem oft hefur gert slíkar skífur skellóttar og illlæsilegar en ekki síður til þess að verja skífuna gegn skemmdarfýsn, t.d. rispun þar sem krómið er miklu harðara en koparinn, en mjög algengt er að menn vilji rita fangamark sitt á útsýnisskífur. Skífan skiptist í nokkra hringlaga sammiðja reiti útfrá miðju skífunnar. Innst eru upplýsingar um heiti staðarins sem hringsjáin stendur á, um staðarákvörðun hennar og hæð yfir sjó, ásamt upplýsingum um það hver stóð að gerð hennar. Í næsta hringlaga reit er stjarna sem vísar til allra höfuðátta og þar eru einnig eyktamörkin gömlu tilgreind.Þá kemur breiðasti hringlaga reiturinn, en í honum birtast örnefnin og þar eru dregnar útlínur fjalla og kennileita. Stuðlabergsstöpullinn sem skífan er sett á var keypt úr steinsmiðju þar sem mikil krafa er að sjálfsögðu um að skífan sé á réttum fleti og sterkri undirstöðu. Kostnaður við gerð svona hringsjár er auðvitað talsverður og jafnframt mikil vinna sem þarf að leggja í gerð hans og uppsetningu. Lionsklúbburinn fékk góðan stuðning frá allmörgum aðilum til að gera verkið framkvæmanlegt og má þar m.a. nefna Pokasjóð, Eignarhaldsfélag Brunabótaf. Ísl, Sjávarútvegsráðuneyti, Höfðahrepp, Fisk Seafood, Landsbankann, Kaupþing banka og Áshrepp. Við vígsluna mættu auk Lionsmanna nokkrir íbúar og gestir til að taka þátt í vígslu hringsjárinnar og til að skoða uppsetningu og handverk á skífunni. Veður var hins vegar fremur þungbúið til að skífan nýttist vel til að bera kennsl á örnefni. Við vígsluna kom hins vegar fram að Lionsmenn hafa væntingar um að skífan standi í nokkur hundruð ár og því mun fólki gefast tækifæri í framtíðinni til að nýta sér upplýsingar sem á henni eru.

Opnunartími sundlaugar í sumar

Opnunartími sundlaugar í sumar Mánudaga – föstudaga kl. 14:00 – 21:00 Laugardaga og sunnudaga kl. 13:00 – 17:00 Ekki er hleypt ofaní laugina hálftíma fyrir lokun.

Mannlíf og fiskveiðar.

Það er miðvikudagur 13. júní, stafalogn og dálítið skýað. Í höfninni á Skagaströnd liggja bátarnir við bryggjuna án þess að haggast á spegilsléttum sjónum. Sumir eru mannlausir, eiga sér stund milli stríða, áður en þeim verður fleytt á hraðsiglingu út á miðin á ný. Aðrir eru undir löndunarkrana, komnir með afla dagsins að landi enn aðrir eru að koma úr róðri. Sjómennirnir ganga frá fiski til vigtunar og sölu á fiskmarkaði. Þeir láta lítið yfir sér og gefa ekki mikið út á hvort fiskiríið er gott eða slæmt. Einn segist hafa fengið fjögur tonn einhverjar 18-20 mílur. Ekki gefið upp hvar, góðir veiðistaðir eru heilög vé þeirra. Bátarnir eru flestir af stærðinni 8-15 tonn sumir nýlegir með öllum búnaði, jafnvel beitningavélum. Líklega eru um 15-20 bátar á línuveiðum sem landa á Skagastrandarhöfn, margir langt að komnir. Þeir hafa misjafnar forsendur til veiðanna. Bæði eru bátarnir mismunandi og ekki síður veiðiheimildirnar sem þeri hafa. Sumir eru að horfa í kvótann hvað þeir eigi mikið eftir af hverri tegund og hvort hægt verði að leigja meira til að klára kvótaárið, aðrir hafa kvótasterka aðila á bak við sig og mega veiða eins og þeir geta. Byggðakvóti er ekki nefndur á nafn enda fiskveiðiárið að verða búið og ekki farið að hleypa umsóknum að, hvað þá að nokkur viti hvernig úthlutun hans verður. Þórey hafnarvörður, sem vigtar allan afla sem kemur að landi, segir landaðan afla á dag dálítið breytilegan. Það hafi verið svona 25 -50 tonn á dag en hún viti auðvitað ekki hvað þeir séu að taka aflann á mörg bjóð. Fiskiríði hafi verið betra upp á síðkastið en fyrir svona 10 dögum. Annarsstaðar á höfninni er verið að gera klárt til dragnótaveiða. Fiskiþvottakar stendur uppi á bíl tilbúið til að hífa um borð og menn að skoða spiltengingar og fara yfir búnaðinn. Hafrúnin bíður nýmáluð og tilbúin til nýrra veiðiferða.

Útvarp Kántrýbær aftur í loftinu og á netinu

Hallbjörn kántrýkóngur er aftur farinn að senda út kántrýtónlistina sína á öldum ljósvakans. Hann er stórhuga sem fyrr og lætur sér ekki nægja víðáttur loftsins heldur notast við óravíddir internetsins einnig. Auk þess að senda út á FM 96,7 og 102,1 sendir hann kántrýtónana í gegn um heimasíðuna http://www.kantry.is/ þar sem er hægt að ná útsendingunni hvar sem er í veröldinni. Kántrýútvarp á netinu hefur mælst vel fyrir og er gaman að geta þess að Útvarp Kántrýbær á til dæmis stóran hlustendahóp í Þýskalandi, en eins og margir vita eru þjóðverjar dottnir í kántrýgírinn samanber framlag þeirra í Eurovision 2006.

Skólaferðalag til Danmerkur

Þann 19. maí síðastliðinn lögðu nemendur 9. og 10.bekkja Höfðaskóla af stað í skólaferðalag til Danmerkur, ásamt 2 kennurum og 2 foreldrum. Einhverjir höfðu ekki farið erlendis áður eða án foreldra sinna og var spennan því eðlilega mikil. Eftir hefðbundna flugferð var tekin lest frá Kastrup til miðborgar Kaupmannahafnar þar sem hótelið okkar var staðsett. Skipulögð dagskrá hófst svo með ferð á vaxmyndasafn og heimsókn í Tívolí þar sem vart mátti milli sjá hvorir skemmtu sér betur krakkarnir eða þeir fullorðnu. Ferðin stóð í sex daga og veðrið lék við okkur allann tímann en hitastigið var um og yfir 20 gráður. Margt var gert til skemmtunar, farið var á söfnin Mystic Exploratorie, Guinness World Records og Ripley’s Believe It or Not! Einnig var farið í gönguferð um Nýhöfn og Amalíuborg skoðuð, í skemmtigarðinn Bakken, dýragarð, skemmtisiglingu þar sem við sáum m.a. Litlu hafmeyjuna, og ekki má gleyma verslunarferðum í Fields og á Strikinu. Gaman er að segja frá því að rétt áður en við héldum heim á leið komu nemendur 8.bekkjar í stutta heimsókn til okkar og voru þau þá hefja sína skemmtiferð í Kaupmannahöfn. Það voru því 3 bekkir Höfðaskóla, 26 nemendur samankomnir í matsal Hotel Ansgar. Ferðin tókst í alla staði mjög vel og var aðdáunarvert hvað nemendur voru duglegir að bjarga sér, bæði á ensku og dönsku. Það voru þreyttir en ánægðir ferðalangar sem stigu út úr rútunni við Höfðaskóla að kvöldi 24.maí í kulda og snjó. Fararstjórar

Laust starf

Verkstjóri /slökkviliðsstjóri Höfðahreppur auglýsir laust starf verkstjóra í áhaldahús sveitarfélagsins og jafnframt slökkviliðstjóra slökkviliðs Skagastrandar. Nánari upplýsingar veitir sveitarstjóri. Umsóknir um starfið skulu hafa borist á skrifstofu Höfðahrepps fyrir 18. júní nk. Viðkomandi þarf að geta hafið störf sem fyrst. Skagaströnd, 7. júní 2007 Sveitarstjóri.