Auglýsing um úthlutun byggðakvóta

Auglýsing um byggðakvóta. Hreppsnefnd Höfðahrepps auglýsir eftir umsóknum um byggðakvóta. Sjávarútvegsráðuneytið hefur samþykkt að veita 140 þorskígildislestum til úthlutunar í Höfðahreppi. Eftirfarandi reglur gilda um úthlutun aflaheimilda sem koma í hlut Höfðahrepps: 1. Úthlutuðum veiðiheimildum verði skipt eingöngu milli þeirra útgerðaraðila sem áttu lögheimili á Skagaströnd 1. desember 2004 og eiga skip með veiðileyfi, skráð 1. september 2005. Jafnframt er gert að skilyrði að 2/3 hlutar áhafnar skips sem sótt er um fyrir eigi lögheimili á Skagaströnd. 2. Miðað skal við að stærð fiskiskipa sem hljóta úthlutun sé takmörkuð við 250 brl. 3. Einungis verði úthlutað til þeirra sem leggja fram undirritaðan samning við samþykkta vinnslustöð á Skagaströnd um úrvinnslu aflans skv. úthlutuðum heimildum. Í samningnum skal tiltekið hvers konar úrvinnslu um er að ræða svo og yfirlýsing um að samkomulag sé um fiskverð. Með vinnslustöð er átt við að umrædd fiskvinnsla taki við fiskinum, vinni hann á staðnum og breyti óunnu hráefni í vöru. Slæging á fiski eða einhverskonar framhaldsvinnsla á fiskafurðum sem hafa verið meðhöndlaðar annarsstaðar er ekki viðurkennt sem vinnslustöð til samninga um móttöku á byggðakvóta. Vinnslustöð skal og hafa rekjanlega ferla þar sem hægt er að sýna fram á að fiskur frá ákveðnum aðila hafi komið til vinnslu á ákveðnum tíma. a) Viðkomandi útgerð skal skuldbinda sig til að leggja eitt tonn á móti hverjum tveimur sem úthlutað er af byggðakvóta til vinnslu á Skagaströnd.Við mat á hæfi umsækjanda skal tekið tillit til þess hvort viðkomandi hafi kvótastöðu til að uppfylla það skilyrði. Séu veiðiheimildir umsækjanda ekki nægar er heimilt að skerða úthlutun sem því nemur. b) Við gerð samkomulags um löndun afla vegna byggðakvótans skal við það miðað að honum hafi verið landað samkvæmt samkomulaginu fyrir 1. sept. 2006. Jafnframt skal viðkomandi útgerð sýna fram á með óyggjandi hætti að staðið hafi verið við samkomulag um löndun byggðakvóta síðasta fiskveiðiárs ef slíkt samkomulag hefur verið gert. Hafi ekki verið staðið við löndun afla skv. samkomulagi um byggðakvóta síðasta fiskveiðiárs verður úthlutun skert sem því nemur. Komi til skerðingar skv. a) og b) skal þeim hluta kvótans úthlutað skv. 5. gr. reglna þessarra. 4. Við úthlutun veiðiheimildanna verði miðað við tvo flokka. Annars vegar þá sem hafa tapað veiðiheimildum vegna samdráttar í rækjuveiðum og hins vegar almenn úthlutun til útgerða báta með aflamark.Flokkarnir eru skilgreindir með eftirfarandi hætti: a) Byggðakvóti til báta með leyfi til veiða á innfjarðarrækju í Húnaflóa. Kvóta sem nemur 100 þorskígildislestum verður úthlutað til þeirra sem hafa yfir að ráða heimildum til innfjarðarrækjuveiða enda uppfylli þeir skilyrði 1.- 3. gr. reglna þessara. Skal kvótanum skipt hlutfallslega eftir veiðiheimildum til innfjarðarrækjuveiða á Húnaflóa eins og þær voru 1999- 2000. Umræddum kvóta verði skipt milli þeirra útgerða sem stunduðu innfjarðarækjuveiðar á tímabilinu og enn gera út frá Skagaströnd. b) Byggðakvóti til báta með aflamark. Kvóta sem nemur 40 þorskígildislestum verður úthlutað til báta sem uppfylla skilyrði 1.-3 gr. reglna þessara og skal skipta framangreindum heimildum jafnt á milli hæfra umsækjenda. 5. Fyrir 15. júlí 2006 skulu útgerðir þeirra báta sem fengið hafa byggðakvóta gera sveitarstjórn skriflega grein fyrir því hvernig þeir muni nýta úthlutaðar aflaheimildir fyrir lok fiskveiðiárs. Geti hlutaðeigandi fyrirsjáanlega ekki fylgt reglum sveitarstjórnar skal hann afsala sér byggðakvótanum. Skal þeim kvóta endurúthlutað 1. ágúst, í þeim flokki sem kvóta var úthlutað í. Skal kvótanum úthlutað jafnt milli þeirra sem þegar hafa uppfyllt skilyrði um veiðar og vinnslu byggðakvótans. 6. Sækja skal um aflaheimildir samkvæmt reglum þessum til hreppsnefndar Höfðahrepps. Með undirritun umsóknar samþykkja viðkomandi aðilar þá skilmála sem reglurnar fela í sér. Umsóknum skal skilað fyrir 10. janúar 2006, á skrifstofu Höfðahrepps á sérstökum eyðublöðum sem þar fást. Hreppsnefnd Höfðahrepps

Næsti hreppsnefndarfundur

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í Hreppsnefnd Höfðahrepps fimmtudaginn 29. desember 2005 á skrifstofu hreppsins kl 1300. Dagskrá: 1. Fjárhagsáætlun 2006, seinni umræða. 2. Álagningareglur fasteignagjalda 2006 3. Byggðakvóti a) Bréf sjávarútvegsráðuneytis, dags. 6. desember 2005. b) Auglýsing um byggðakvóta. 4. Bréf: a) SSNV, dags. 20. desember 2005. b) Skipulagsstofnunar, dags. 15. nóvember 2005. c) Skipulagsstofnunar, dags. 20. desember 2005. d) Siglingastofnunar, dags. 29. nóvember 2005. e) Stéttarfélagsins Samstöðu, dags. 28. nóvember 2005. f) Skipulags- og byggingarfulltrúa Skagafjarðar, dags. 14. desember 2005. 5. Önnur mál. Sveitarstjóri

Skötuveisla á Skagaströnd

Hin árlega skötuveisla var haldin í Fellsborg í hádeginu á Þorláksdag. Að vanda var fjölmenni og biðröð eftir að komast í hinar kæstu krásir. Togarsjómenn af Arnari og Örvari stóðu eins og fyrr glaðbeittir, matreiddu og báru fram kæsta skötu, kartöflur og rúgbrauð. Á eftir var öllum boðið upp á kaffi og konfekt. Skötuveislan var sem fyrr öllum opin og í boði sjómanna og útgerðar. Hún hefur skapað sterka og skemmtilega hefð sem fæstir vildu vera án. Skatan er auðvitað mjög sérstakur réttur og ekki fyrir alla en þeim hefur þó fjölgað jafnt og þétt sem gera hana að rétti dagsins á Þorláksmessu.

Skagastrandarbíó auglýsir!!

Fjölskyldumyndin Draumalandið Íslenskt tal verður sýnd mánudaginn 26. desember Annan í jólum kl 14:00. Miðaverð kr. 500. Töfrandi staðir, latir álfar, lævísar nornir, óþekk tröll... en hvar er álfadrottningin Títanía? ÞORÐU AÐ LÁTA ÞIG DREYMA! Þjóðsögur í hertogadæminu Óniríu segja að einu sinni á ári, á Jónsmessunótt, geti mannfólkið farið inn í heim álfa og trölla þar sem draumarnir rætast ef þú trúir á óskir og töfra. Helena, dóttir hertogans Þeseifs, er tortryggin efasemdarmanneskja sem er mótfallin draumórum föður síns. Það er ekki fyrr en líf hans er að veði að hún ákveður að halda af stað í leit að álfadrottningunni Títaníu. Í för með henni, slást hinn slóttugi Demetríus sem vill giftast Helenu til að erfa auðæfi föður hennar, klaufski ævintýramaðurinn Lísander, Brokki lukkutröll, Óberon álfakóngur og margir fleiri sem þau hitta á leiðinni. Í Draumalandi þarf Helena að sigrast á tortryggni sinni til þess að þau komist af, í þessum heimi ótrúlegra ævintýra. Þau hitta ógleymanlegar persónur, álfa, tröll og kynjaverur og lenda í háska þar sem reynir á, hvort verður yfirsterkara, trúin eða tortryggnin.

Jólin koma....

Jólaundirbúningurinn hefur verið allsráðandi síðustu daga og hafa margir lagt sitt af mörkum til að skreyta og fegra. Í dag 22. desember tók náttúran fullan þátt í jólaundirbúningum þegar Arnar HU 1 sigldi ljósum skreyttur inn í Skagastrandarhöfn úr síðastu veiðiferð ársins. Sérstakt samspil veðurkyrrðar og skammdegisbirtu skapaði fallega stemmingu ljóss og friðar. Höfðahreppur óskar öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Fimm umsækjendur um Skagastrandarprestakall

Fimm umsækjendur eru um embætti sóknarprests í Skagastrandarprestakalli í Húnavatnsprófastsdæmi sem auglýst var laust til umsóknar nýlega. Umsóknarfrestur rann út þann 8. desember sl. Umsækjendur eru: Arndís Ósk Hauksdóttir, guðfræðingur Einar Sigurbergur Arason guðfræðingur Séra Fjölnir Ásbjörnsson Ingólfur Hartvigsson guðfræðingur Þóra Ragnheiður Björnsdóttir, guðfræðingur Dóms - og kirkjumálaráðherra skipar í embættið til fimm ára að fenginni niðurstöðu valnefndar. Valnefnd skipa fimm fulltrúar úr prestakallinu, auk vígslubiskups Hólabiskupsdæmis.

Pistill frá formanni U.M.F. Fram

Ágætu foreldrar Ég vil fyrir hönd félagsins byrja á að þakka ykkur fyrir samstarfið það sem af er vetri. Nú er vetrarstarfið senn hálfnað, tíminn líður hratt. Síðustu æfingatímar fyrir jól verða fimmtudaginn 15. desember. Þann dag eru foreldrar hvattir til að koma og fylgjast með. Þá verður einnig hægt að ganga frá skráningu vorannar. Fyrstu æfingartímar á nýju ári verða miðvikudaginn 4. janúar. Sama fyrirkomulag verður haft á innheimtu æfingagjalda eftir áramót eins og nú fyrir áramót. Æfingagjöldin, 5000 kr, eru aðgöngumiði að öllum æfingunum þ.e. ekki þarf að greiða sér fyrir fótbolta og sér fyrir íþróttaskóla. Veittur verður 1000 kr systkinaafsláttur fyrir systkini nr. 2 og 3 frá sama heimili. Þeir sem eru duglegastir að mæta á æfingarnar milli kl. 16 og 18 fá sérstök verðlaun á síðustu æfingu vetrarins inni í vor. Stjórn U.M.F Fram hefur ákveðið að niðurgreiða árskort til skíðaiðkunar í Tindastóli um 2.000 kr fyrir börn á grunnskólaaldri. Fullt verð er 6.500 kr en verður því 4.500 kr fyrir börn í Höfðaskóla. Fólk getur vitjað endurgreiðslu hjá gjaldkera félagsins Guðrúnu Elsu gegn framvísun kvittunar fyrir greiðslu árskortsins. Stefnt er að því að bjóða upp á ferðir upp í Tindastól á föstudögum eftir að kennslu er lokið. Skíðakennsla verður á þessum tíma í Tindastóli fyrir börn á grunnskólaaldri frá Skagaströnd, Blönduósi og Sauðárkróki. Ef mikill áhugi verður getur verið að félagið verði að leita til foreldra til að aðstoða við að keyra börnunum í fjallið. Eftir áramót munu Jósef Ægir og Helena Bjarndís koma að þjálfun unglinga í 8. til 10. bekk og jafnvel eldri ef áhugi verður fyrir hendi. Þessar æfingar verða á þriðjudagskvöldum milli 20 og 21 í íþróttahúsinu. Jósef verður með strákaæfingu aðra vikuna og Helena með stelpur hina vikuna. Þessar æfingar eru þrekæfingar og miðast við að kenna unglingunum að æfa sig sjálf án þjálfara. Hér á eftir kemur einskonar viðburðadagatal Fram til vors: · Badmintonæfingaferð til Siglufjarðar 13. til 14. jan fyrir börn fædd 1994 og eldri · Gríslingamót, byrjendamót í badminton, 22. jan fyrir börn fædd 1995 og 1996. Haldið á Akranesi · Frjálsar Stórmót ÍR 28. til 29. jan. Í Reykjavík fyrir 8-16 ára · Frjálsar MÍ 15 til 22 ára 4. til 5. febrúar í Reykjavík · Frjálsar MÍ 12 til 14 ára 25. til 26. febrúar í Reykjavík · Goðamót í knattspyrnu á Akureyri 24. til 26. febrúar, 4. og 5. flokkur stúlkna fæddar 1992, 1993, 1994, 1995 og ?1996? · Íslandsmót unglinga í badminton á Akranesi 3. til 4. mars · Goðamót í knattspyrnu á Akureyri 10. til 12. mars, 5. flokkur drengja fæddir 1995, 1994 og ?1993? · Goðamót í knattspyrnu á Akureyri 24. til 26. mars, 6. flokkur drengja fæddir 1996, 1997 og ?1998? · Andrésar andar leikarnir á skíðum á Akureyri 20. til 23. apríl · Til viðbótar þessu verða væntanlega einhver íþróttamót á félagssvæði USAH. Dagsetning þeirra liggur ekki enn fyrir. Í lokin vil ég hvetja ykkur foreldra og forráðamenn til þess að taka virkan þátt í starfi félagsins og endilega komið með ábendingar um eitthvað sem betur mætti fara eða ef eitthvað er sem ykkur finnst vel vera gert. Kveðja Halldór G. Ólafsson form U.M.F Fram. Aðrir í stjórn FRAM eru: Guðrún Elsa Helgadóttir Róbert Freyr Gunnarsson (Aðalheiður Sif Árnadóttir) Og í varastjórn: Sigríður Ásgeirsdóttir Tryggvi Hlynsson

Ný heilsugæslustöð rís á Skagaströnd

Fréttatilkynning frá heilbrigðisráðuneytinu Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, undirritaði í dag verksamning vegna nýbyggingar Heilsugæslustöðvar á Skagaströnd. Við sama tækifæri tók heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fyrstu skóflustungu að nýbyggingunni, en húsið verður reist austan við hús dvalarheimilisins Sæborgar og tengist því með tengigangi. Húsið verður 267 m² timburhús, byggt á steyptri grunnplötu með sökkulbitum. Byggingin hýsir skrifstofu læknis og hjúkrunarfræðings ásamt tilheyrandi aðgerða- og rannsóknarstofu, en þar er einnig gert ráð fyrir sjúkraþjálfun, auk móttöku og biðstofu. Samkvæmt verksamningi á húsið að rísa fyrir 1. ágúst á næsta ári, en hönnun þess lauk í september sl. Í ársbyrjun 2005 var ákveðið að stefna að því að reisa á Skagaströnd svipað hús og byggt hefur verið fyrir heilsugæslustöðina á Reyðarfirði. Frumhönnun þess, stærð og staðsetning var ákveðin á fyrri hluta ársins í samráði við heimamenn og stjórnendur stöðvarinnar. Bjóða þurfti verkið út tvívegis þar sem ekki fékkst viðunandi tilboð í fyrra útboðinu. Tilboð í seinna útboðinu voru opnuð 1. nóvember sl. og bárust þá fjögur tilboð í verkið sem voru 11 til 24 % yfir kostnaðaráætlun hönnuða. Ákveðið var að taka tilboði lægst bjóðanda, Trésmiðju Helga Gunnarssonar ehf á Skagaströnd. Heilsugæslustöðin á Skagaströnd er nú í tveggja hæða húsi, sem tekið var í notkun 1967. Var upphaflega íbúð læknis á efri hæð og móttaka sjúklinga á neðri hæð. Nokkur undanfarin ár hefur heilsugæslustöð verið rekin á efri hæð hússins en á neðri hæðinni er apótek og aðstaða fyrir tannlækni. Nokkuð þótti vanta á að húsnæðið stæðist kröfur sem nú eru gerðar til heilsugæslustöðva meðal annars uppfyllti húsið ekki kröfur sem gerðar eru um aðgengi hreyfihamlaðra og því var ákveðið að reisa nýtt hús. Heilbrigðisstofnunin á Blönduósi sér um rekstur heilsugæslunnar á Skagaströnd. Eftir að verksamningar voru undirritaðir og ráðherra tekið fyrstu skóflustunguna var boðið upp á kaffiveitingar í Viðvík á Skagaströnd.

Skagastrandarhöfn með hæstu löndunarhöfnum smábáta

Á dögunum sat Adolf H. Berndsen varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins á Alþingi. Þar lagði hann m.a. fram fyrirspurn til sjávarútvegsráðherra um þróun smábátaafla á Íslandi s.l. 5 ár. Fyrirspurnin snérist annarsvegar um veiðar eftir veiðarfærum og hinsvegar um þróun landaðs afla eftir löndunarhöfnum. Í svari ráðherra kom m.a. fram að nálægt 85% af heildarafla smábáta var veiddur á línu á síðasta kvótaári. Það er mikil aukning frá árinu áður en þá var hlutur línuveiða 71% og kvótaárið 2001/2002 var hann um 61%. Skagaströnd var á síðasta kvótaári (2004/2005), fimmta löndunarhæsta höfn smábáta og var þar landað 3.688 tonnum. Kvótaárið 2003/2004 var landað þar 2103 tonnum. Á Hvammstanga var landað á síðasta kvótaári 310 tonnum en til samanburðar var landaður afli þar 801 tonn, árið á undan. Engum afla smábáta var landað á Blönduósi. Siglufjörður er í fjórða sæti yfir stærstu löndunarhafnir smábáta með 3.829 tonn sem er rúmlega þreföldun frá árinu á undan. Stærsta löndunarhöfn landsins er Bolungarvík en þar var landað á síðasta kvótaári 5.371 tonni sem er 20% samdráttur frá árinu á undan.

Aðventukaffi í Landsbankanum

Fimmtudaginn 1. des. bauð Landsbanki Íslands Skagaströnd bæjarbúum í aðventukaffi. Það var boðið uppá heitt kakó og nýbakaðar smákökur auk þess var heitt á kaffikönnunni eins og vanalega. Krakkarnir úr leikskólanum Barnabóli komu og sungu jólalög af hjartans lyst og um páfagauk sem vildi bara kóka kóla og ís. Frá kl. 14.00 lék svo Elías Björn Árnason jólalög á hljómborð á meðan kakóið og smákökurnar runnu ljúflega niður við þýða óma tónlistarinnar. Almenn ánægja var með daginn, jafnt hjá gestum og starfsfólki.