Mynd vikunnar

Innbæingar. Á árum áður skiptist Skagaströnd í útbæ og innbæ. Svo var að minnsta kosti í hugum barna og unglinga og stundum laust saman fylkingum út- og innbæinga. Í dag eru mörkin milli bæjarhlutana ekki eins klár þannig að slíkir bardagar eiga sér ekki stað lengur. Á þessari mynd, af nokkrum innbæingum, sem var tekin á lóðinni við Grund sennilega upp úr 1960, eru frá vinstri: Kristinn Ágústsson Blálandi, Kristófer Einarsson Dagsbrún, Guðbjörg Viggósdóttir (nær), Gunnlaugur Sigmarsson (fjær), Díana Kristjánsdóttir Grund (næst), Gísli Bergsson Hólanesi (fjær), Fritz Bjarnason Bjargi, Linda Kristjánsdóttir Grund (næst), Hallbjörn Ágústsson Blálandi (í miðið), Hjörtur Guðbjartsson (fjærst), Vigfús Elvan Friðriksson (d. 7.12.2001) (nær), Bogi Ingvar Traustason, Heiðar Elvan Friðriksson (nær) og Ómar Jakobsson Grund (fjær) með heimilisköttinn Klóa.

Plastmengun í hafinu

Á fundi um umhverfismál sem haldinn var á Skagaströnd sl. vor flutti James Kennedy sjávarlíffræðingur hjá BioPol fyrirlestur um plastmengun í hafi. Í texta hans og myndmáli með fyrirlestir kom skýrt fram hve ógnvænlegur sóðaskapur mannsins er í umgengni við hafið sem er ein af undirstöðum lífs á jörðinni. James hefur ásamt konu sinni Karin verið iðinn við að tína saman og færa til endurvinnslu allt það plast sem finnst á fjörum í nágrenni við Skagaströnd. Þau eiga mikinn heiður skilinn fyrir að hafa með því móti sett fram fyrirmynd sem við öll ættum að tileinka okkur. Magnið sem rekur á fjörur er með ólíkindum og ógnin við lífríkið meiri en við almennt gerum okkur grein fyrir í daglegu lífi. Fyrir forgöngu James og Karin var sett af stað verkefni þar sem BioPol og sveitarfélagið Skagaströnd standa saman að því verkefni að hvetja alla sem ganga um fjörur sem og önnur náttúrusvæði til að taka með sér það plast sem verður á vegi þeirra og koma í ferli sorps og endurvinnslu. Það er ugglaust hægt að finna ótölulegan fjölda skýringa á því hvers vegna svo mikið plast er að finna í hafinu og annarsstaðar í okkar „hreinu náttúru“. Umgengni við hafið er vissulega orðin miklu betri en áður þar sem sorpi er ekki lengur sturtað beint í sjóinn og reglur hafi verið settar um að sjófarendum sé óheimilt að kasta sorpi í hafið. Það er hins vegar vel þekkt að á okkar stormasömu eyju fýkur allt sem laust er ekki síst hið létta plast þegar hvassviðri ganga yfir. Við þurfum því að huga betur að því að laust efni – ekki síst plast, geti ekki fokið á haf út gert þar usla í umhverfi og lífríki. Við sem neytendur þurfum líka að huga betur að því hvað efni við drögum að okkur í daglegri neyslu, efni sem við í mörgum tilfellum notum ekki nema til að koma neysluvörunni á milli verslunar og heimilis, efni sem oftast flokkast undir efnaheitið PLAST.

Vatnstruflanir í Mýrinni

Reikna má með tímabundnum vatnstruflunum í Mýrinni eitthvað fram eftir degi.

Mynd vikunnar

Mynd vikunnar Mynd vikunnar tók Herdís Þ. Jakobsdóttir Sagt er að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Líklega er þetta alveg rétt og þess vegna syrgir líka heilt þorp þegar eitt af þessum börnum hættir að ganga veginn með okkur og fer að ganga um aðra og bjartari vegi. Ósögð orð sækja á hugann og áleitnar spurningar, sem engin svör fást við. Fyrst og fremst dvelur þó hugur þorpsbúa hjá þeim sem næst barninu stóðu því þeirra sorg er óendanlega sár. Stöndum saman og tökum utan um hvert annað á erfiðum stundum .

Lokar kl. 12 í dag.

Skrifstofa sveitarfélagsins verður lokuð frá kl. 12 í dag vegna sumarleyfa.

Vantar stuðningsfulltrúa !

Við Höfðaskóla er laus staða stuðningsfulltrúa. Vinnutími er frá 7:30 til 15:30. Nánari upplýsingar um starfið veitir skólastjóri í síma 8624950. Umsóknir ásamt upplýsingum um menntun og fyrri störf sendist á netfangið hofdaskoli@skagastrond.is . Umsóknarfrestur er til og með 26. júlí n.k. Vera Ósk Valgarðsdóttir, skólastjóri.

Tvær nýjar bækur gefnar út á Skagaströnd.

Lárus Ægir Guðmundsson á Skagaströnd hefur kynnt tvær nýjar bækur sem hann hefur tekið saman, skráð og gefið út. Hér er um að ræða bækurnar - Leiklist á Skagaströnd 1895 – 2015 og Kvenfélagið Eining Skagaströnd 1927 – 2013. Kvenfélagið Eining var stofnað 1927 og hefur síðan stuðlað að framförum og þróun sam- félagsins og auðgað það með ýmsum menningarviðburðum og öðru starfi. Félagið stóð fyrir stofnun og rekstri sjúkrasjóðs, tók þátt í byggingu félagsheimilisins Fellsborgar og lagði fjármuni í byggingu Hólaneskirkju ásamt ýmsu öðru markverðu. Gjafir félagsins eru ótrúlega margar og flestar til ýmissa góðgerða- og framfaramála á Skagaströnd og nágrenni. Verðmæti þeirra skiptir mörgum tugum milljóna króna væru þær reiknaðar til núvirðis. Félagið hefur alla tíð ályktað um hugðarefni samtímans og lagt fram uppbyggilegar tillögur og barist fyrir framgangi þeirra. Leikstarfsemi hefur í langan tíma verið töluverð á Skagaströnd og koma þar margir við sögu. Að því er best er vitað var fyrsta leikritið sett upp í kauptúninu árið 1895. Leikfélag Höfðakaupstaðar var stofnað 1945 og Leikklúbbur Skagastrandar 1975. Fjöldi leikrita lifnuðu við á fjölum þeirra sex húsa sem gegnt hafa hlutverki leikhúss. Sögurnar úr starfinu eru margar og einnig er til fjöldi skemmtilegra mynda. Hér er lögð áhersla á að varðveita söguna, nöfn og myndir af þeim sem þátt tóku í stórmerkilegu menningarstarfi. Útgáfa bókanna var styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra. Lárus Ægir hefur áður gefið út 4 bækur en það eru: Sjómannadagurinn á Skagaströnd í 70 ár sem kom út 2009, Sjósókn frá Skagaströnd & Vélbátaskrá 1908 – 2010 útgefin 2011, Ágrip af sögu Spákonufells- og Hólaneskirkna 1300 – 2012 og Björgunarsveitin Strönd á Skagaströnd 80 ára en báðar þessar bækur voru útgefnar árið 2012.