Kynning á fjarnámi við Háskólann á Akureyri 2005-2006 í Námsstofunni mánudaginn 2. maí

Haldinn verður kynningarfundur á fjarnámi við Háskólann á Akureyri veturinn 2005-2006 í Námsstofunni á Skagaströnd mánudaginn 2. maí kl. 17:30 – 19:00. Kynningin er send út frá Háskólanum á Akureyri í fjarfundi á ellefu staði á Norður- og Vesturlandi. Fjórar deildir skólans af sex bjóða nú upp á fjarnám. Þetta eru auðlindadeild, heilbrigðisdeild, kennaradeild og viðskiptadeild. Allir áhugasamir eru velkomnir. Námsstofan á Skagaströnd Hjálmur Sigurðsson

Tölvunámskeið fyrir 55+

Tölvunámskeið fyrir 55 ára og eldri var haldið í tölvuveri skólans á Skagaströnd. Alls sóttu 11 námskeiðið sem var samtals 24 kennslustundir. Flestir þeirra sem námskeiðið sóttu höfðu lítið eða ekkert unnið á tölvu og miðaðist þessi fyrsta nálgun við að fólk næði tökum á að vinna með tölvumús, lærði að nota lyklaborð og fengi grunnþjálfun í notkun algengustu forrita ss. ritvinnslu og að fara á internetið. Námskeiðið þótti takast mjög vel og nemendur mjög áhugasamir. Leiðbeinandi á námskeiðinu var Dagný Rósa Úlfarsdóttir.

Skagstrendingaball !

Halló halló ! Skagstrendingar ungir sem aldnir ! Nú endurvekjum við gömlu góðu stemminguna með stórdansleik laugardaginn 7 maí kl. 22:00 í Skaftfellingabúð Laugavegi 178 hljómsveit Hilmars Sverrissonar sér um fjörið. Óvæntar uppákomur að hætti Skagstrendinga mætum öll með góða skapið. Nefndin. Valdi Hún & Reynir Sig. 894-1388 & 820-6006

Næsti hreppsnefndarfundur

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í Hreppsnefnd Höfðahrepps þriðjudaginn 26. apríl 2005 á skrifstofu hreppsins kl 800. Dagskrá: 1. Grunnskólinn – umsóknir um stöðu skólastjóra. 2. Leikskólinn – drög að samningi við Skagabyggð um rekstur leikskólans. 3. Sameining sveitarfélaga. 4. Byggðakvóti. 5. Bréf: a) Siglingastofnunar, dags. 15.03.2005 b) Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 15.03.2005. c) Formanns jafnréttis og fjölskyldunefndar Akureyrarbæjar, 1.04.2005. d) Samvinnunefndar um svæðisskipulag í A-Hún, dags. 12.04.2005. e) Sóknarnefndar Hólaneskirkju dags. 19.04.2005 6. Fundargerðir: a) Skólanefndar, 23.03.2005 b) Húsnæðisnefndar, 29.03.2005. c) Hafnarnefndar 20.04.2005. d) Stofnfundar um Hollvinasamtök HSB, dags. 15.03.2005. 7. Önnur mál. Sveitarstjóri

Sumardagurinn fyrsti hjá FISK á Skagaströnd

Landvinnsla FISK á Skagaströnd var með opin dag og bauð í heimsókn í vinnsluna, sumardaginn fyrsta. Þar var boðið upp á ýmislegt skemmtilegt. Starfsfólk vinnslunnar stóð að skemmtilegri kynningu á afurðum og vinnsluaðferðum og sýndi hvernig fiskurinn er meðhöndlaður í vinnslunni. Andrúmsloftið var svo gert léttara með lifandi tónlist og einnig boðið upp á sælkerarétti úr saltfiski svo og fiskisúpu. Í hluta vinnslusalarins var uppi myndlistasýning leikskólabarna sem þau unnu eftir heimsókn í vinnsluna fyrr í vikunni. Aðalviðfangsefni þeirra í myndgerðinni var fiskur, einkum saltfiskur og óhætt að segja að túlkun þeirra á viðfangsefninu hafi verið lífleg og skemmtileg. Fjöldi fólks lagði leið sína í landvinnsluna í blíðunni á sumardaginn fyrsta og greinilegt að fólk kunni vel að meta framtak FISK og það sem í boði var.

Kynning á iðnfræði í fjarnámi frá HR í Námsstofunni laugardaginn 23. apríl

Haldinn verður kynningarfundur á iðnfræðinámi frá Háskólanum í Reykjavík laugardaginn 23. apríl kl. 14:00 – 16:00. Kynningin fer fram í fjarfundi í Námsstofunni á Skagaströnd, Mánabraut 3, Námsstofunni á Hvammstanga, Höfðabraut 6, Námstofunni Gránugötu 24, Siglufirði og SÍMEY, Þórsstíg 4 á Akureyri og eru allir áhugasamir velkomnir. Markmið iðnfræðináms HR er að styrkja stöðu nemenda á vinnumarkaði og gera þá hæfari til að takast á við fleiri og fjölbreyttari störf. Iðnfræðin er í boði hjá tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík og er hagnýtt 45 eininga nám á háskólastigi. Iðnfræði er eingöngu kennd í fjarnámi og er gert ráð fyrir að námið taki þrjú ár samhliða vinnu. Með fullu námi má ljúka iðnfræði á einu og hálfu ári. Skilyrði fyrir inngöngu er iðnmenntun að viðbættri einni önn á frumgreinasviði HR eða sambærilegur undirbúningur. Námsstofan á Skagaströnd Hjálmur Sigurðsson

Stóra upplestrarkeppnin

Þrír nemendur í 7. bekk Höfðaskóla kepptu í hinni árlegu Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnaþingi sem haldin var 14. apríl á Laugabakka. Það voru þau Alexandra Ólafsóttir, Kristján Ýmir Hjartarson og Laufey Inga Stefánsdóttir. Keppendur voru alls 12 frá öllum grunnskólum á svæðinu. Þarna voru margir úrvals lesarar og erfitt hlýtur að hafa verið að gera upp á milli þeirra. Krakkarnir okkar voru í þeim hópi, þau stóðu sig með svo mikilli prýði að klappliðið var að rifna úr stolti. Veitt voru verðlaun fyrir þrjú fyrstu sætin og sigurvegarinn var Alexandra okkar. (Heimild http//hofdaskoli.skagastrond.is)

Fundur um forvarnarmál

Boðað er til fundar um forvarnamál í Austur-Húnavatnssýslu mánudaginn 25. apríl kl. 20 -22 í Félagsheimilinu á Blönduósi Á fundinn koma fulltrúar frá forvarnaverkefninu Vertu til og kynna verkefnið og starfsemi þess. Vertu til! er samstarfsverkefni Sambands íslenskra sveitarfélaga og Lýðheilsustöðvar um að efla forvarnir í sveitarfélögum landsins Mætum öll og leggjum okkar af mörkum við að móta framtíðarsýn og stefnu sveitarfélaganna til forvarna. Kaffiveitingar Starfshópur um forvarnir í A-Hún. Hægt er að skoða heimasíðu Vertu til á slóðinni: www.vertutil.is

OPINN DAGUR Í LANDVINNSLU FISK Á SKAGASTRÖND

Næstkomandi fimmtudag (sumardaginn fyrsta) ætlum við að bjóða ykkur í heimsókn í vinnsluna okkar að Oddagötu 12 Skagaströnd (gömlu rækjuvinnsluna). Allir eru velkomnir frá kl: 13:00 – 15:00. Í tilefni dagsins bjóðum við uppá: · Lifandi tónlist · Lifandi fiskar í búri · Kynning á framleiðslunni og framleiðsluaðferðum. · Matreiðslumaður verður á staðnum, matreiðir og gefur smakk af framleiðsluvörum okkar. · Leikskólabörn verða með sýningu á verkum sem þau gerðu eftir heimsókn í vinnslunna. Vonumst til að sjá sem flesta. Starfsfólk og stjórnendur.

Ís á Húnaflóa

Nokkrir borgarísjakar eru á Húnaflóa. Þegar björgunarsveitarmenn á Skagaströnd fóru til að taka á móti nýju björgunarskipi heilsuðu þeir upp á einn jakann. Hann var ekki mjög stór en hafði skemmtilega lögun. Áhöfn björgunarskipsins sagði talsvert af jökum á siglingaleið austan við Horn en urðu ekki varir við samfelldan ís eða spangir.