Styrkir til leikskóla- og grunnskólakennaranáms

Hreppsnefnd Höfðahrepps auglýsir eftir umsóknum um styrki til að stunda grunnskólakennara- eða leikskólakennaranám. Um er að ræða tvo styrki að upphæð 250 þús. hvorn á ári til einstaklinga sem stunda fullt staðnám í HÍ, KHÍ eða HA. Styrkirnir verða veittir með því skilyrði að viðkomandi einstaklingar starfi að loknu námi, jafn mörg ár og styrktímanum nemur við grunnskólann eða leikskólann á Skagaströnd. Umsóknarfrestur er til 12. september n.k. Allar nánari upplýsingar veitir sveitarstjóri í síma 4522707 Sveitarstjóri Höfðahrepps

Nýr löndunarkrani á Skagastrandarhöfn.

Nýr löndunarkrani hefur verið settur upp á Skagastrandarhöfn. Kranin sem er frá Framtak hf. er af gerðinni HMC 66 og er lyftigeta hans 1000 kg x 7 metrar. Upphaflega átti að setja kranan upp í júní-júlí en uppsetning tafðist vegna viðgerða á stálþilskantinum sem hann stendur á. Þegar tekið var gat í bryggjuna til að leggja raflagnir kom í ljós að gat var á stálþilinu og hafði skolað undan þekjunni á 25 fm svæði. Þurfti því að fá kafara með sérstakan útbúnað til að gera við stálþilið utan frá og steypa síðan styrkingar innan við þilið. Kranin er nú loksins kominn upp og er honum ætlað að svara eftirspurn við löndun þar sem mikið hefur verið af handfæra og línubátum í sumar eins og undanfarin ár.

MITT KORT hjá Landsbankanum komið í umferð á Skagaströnd

Fréttatilkynning frá Landsbankanum 18. ágúst 2005 Rebekka Maren Þórarinsdóttir var einn af fyrstu viðskiptavinum Landsbankans á Skagaströnd til að fá í hendur greiðslukort með persónulegu útliti, svokallað Mitt kort. Rebekka notaði mynd af sér á kortið sitt sem hún fékk afhent í útibúi Landsbankans á dögunum. Það er því ljóst að verslunarmenn mega eiga von á fjölbreyttum og skemmtilegum greiðslukortum því alls hafa um tvö þúsund viðskiptavinir Landsbankans um land allt hannað sín eigin greiðslukort og eru þau óðum að komast í umferð. Æ fleiri nýta sér þann möguleika að setja eigin myndir á kort sín, til dæmis af börnum, maka, áhugamálum og gæludýrum. Einnig má velja úr sérstöku myndasafni bankans, þar sem meðal annars er að finna merki félaga í Landsbankadeildinni í knattspyrnu. Allir viðskiptavinir Landsbankans geta fengið Mitt kort, bæði debet og kredit, án endurgjalds fyrst um sinn. Hönnun og umsókn kortanna fer fram á netinu (www.landsbanki.is) og er afgreiðslutíminn aðeins örfáir dagar.

Húnabjörg sótti Hegranes SK til Eskifjarðar

Björgunarskipið Húnabjörg á Skagaströnd sótti togarann Hegranes til Eskifjarðar og dró hann til Sauðárkróks en vél togarans bilaði þegar hann var á veiðum út af Austfjörðum. Hegranes SK er ísfisktogari í eigu Fisk Seafood og hefur aðallega veitt fyrir fiskvinnsluna á Sauðárkróki. Björgunarskipið Húnabjörg reyndist mjög vel í túrnum sem tók rúma tvo sólarhringa og er lengsti leiðangur þess hingað til. Komu skipin til hafnar á Sauðárkróki um kl 20 í gærkvöldi. Skipstjóri á Húnabjörgu var Guðmundur Henry Stefánsson.

Næsti hreppsnefndarfundur

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í Hreppsnefnd Höfðahrepps mánudaginn 15. ágúst 2005 á skrifstofu hreppsins kl 1700. Dagskrá: 1. Hafnarreglugerð fyrir Skagastrandarhöfn 2. Sparkvöllur 3. Skipulagsmál: a) Deiliskipulag fyrir Hólaberg b) Svæðisskipulag Norðurlandsskóga 4. Bréf: a) Finnboga Guðmundssonar, dags. 8. ágúst 2005. b) Sjávarútvegsráðuneytisins, dags. 5. ágúst 2005. c) Pjaxa, bókaútgáfu, dags. í ágúst 2005. d) Sjálfsbjargar, dags. 8. júlí 2005. e) Hollvinasamtaka Heilbrigðisstofnunarinnar á Bl.ósi, dags. 28. júlí 2005 5. Fundargerðir: a) Húsnæðisnefndar, 10. ágúst 2005. b) Heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra, 3. ágúst 2005. 6. Önnur mál. Sveitarstjóri

Sparkvöllur að komast á lokastig.

Uppbygging sparkvallarins á skólalóðinni gengur vel og styttist óðum í að hann verði fullbúinn. Gerfigrasið var lagt á í byrjun ágúst og veggirnir eru óðum að rísa. Sparkvöllurinn sem er samstarfsverkefni KSÍ og Höfðahrepps hefur verið unnin af Trésmiðju Helga Gunnarssonar og starfsmönnum Höfðahrepps. Verkinu hefur miðað ágætlega og er nú að komast á lokastig þar sem tréverkið í kringum völlinn er vel á veg komið og hellulögn meðfram vellinum er á lokastigi. Gerfigrasið var lagt á af sérfræðingum frá framleiðanda sem gengu frá því á tveimur dögum. Eftir að grasið hafði verið sett á var fyllt í það með einskonar gúmmísandi sem gefur vellinum bæði þéttleika og mýkt. Gúmmísandurinn er hins vegar misvel þokkaður á heimilum þar sem hann vill berast með fótboltagörpum á öllum aldri inn í hús að leik loknum. Í undirlagi sparkvallarins er snjóbræðslulögn sem mun auka mjög á nýtingu vallarins yfir vetrarmánuðina.