Skemmtilegt aðventukvöld

Fimmtudagskvöldið 2. des. sl. var aðventustemming í Viðvíkurkaffi. Boðið var upp á upplestur og lifandi tónlist. Guðný, Steindór og Árdís lásu upp úr áhugaverðustu bókunum og Hrafnhildur söng nokkur jólalög við undirleik Elíasar. Allt þetta fólk skilaði sínu með miklum ágætum. Steindór gat auðvitað ekki stillt sig um að fleyta nokkrum skemmtisögum frá eigin brjósti með upplestrinum og var í sínum besta ham. Hrafnhildur skilaði jólalögunum á einstaklega skemmtilegan hátt. Húsfyllir var á kaffihúsinu og stemningin notaleg. Í kjallara kaffihússins var opið jólahús þar sem handverksfólks á Skagaströnd hafði muni sína til sölu. Þar gat m.a. að líta listmuni úr gleri og járni, silfursmíð, trémuni, kort úr þangi, ýmis plögg úr flóka og fjörusteina með jólaandlitum svo eitthvað sé nefnt. Í Viðvíkurkaffi stendur einnig yfir málverkasýning Jóns Ívarssonar sem sýnir olíumyndir á striga. Kaffihúsið og markaðurinn verða opin laugardaginn 4. des. kl 18-22 og sunnudaginn 5. des. kl 14-19. Einnig verður opið þriðudaginn 7. des. og fimmtudaginn 9. des. kl 20-22. Á þriðjudagskvöldinu verður upplestur. Heimsókn í Viðvíkurkaffi og jólahús góð tilbreyting í amstri jólaundirbúnings og sjón sögur ríkari.

Frá Námsstofunni á Skagaströnd

Nú fer að hefjast innritun á vorönn hjá þeim skólum sem eru með fjarnám. Því ættu þeir sem hafa verið að hugsa um að fara í fjarnám að taka sig til og kynna sér hvað þeim stendur til boða. Í Námsstofunni er góð aðstaða til að stunda fjarnám, nokkrar tölvur og lestofa. Nú er verið að tengja fjarfundabúnað sem þýðir að eftir áramót er hægt að sitja kennslustundir í Námsstofunni. Fyrri hluta desember standa yfir þau próf sem fjarnámsnemendur fá leyfi til að taka í Námsstofunni. Þetta eru 32 próf sem 16 fjarnámsnemendur taka við 4 skóla. Síðan eru nokkrir fjarnámsnemendur sem taka sín próf í sínum skóla. En alls eru 23 með samning um að nýta aðstöðuna í Námsstofunni. Hér eru nokkrir skólar sem bjóða upp á fjarnám: Kennaraháskóli Íslands Háskólinn á Akureyri Verkmenntaskólinn á Akureyri Fjölbrautarskóli Norðurlands vestra Fjölbrautarskólinn við Ármúla Háskóli Íslands Háskólinn á Hólum Háskólinn í Reykjavík Tækniháskóli Íslands Viðskiptaháskólinn á Bifröst Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri Menntafélag byggingariðnaðarins Rafiðnaðarskólinn Fræðslumiðstöð málmiðnaðarins Hótel- og matvælaskólinn Borgarholtsskólinn Iðnskólinn í Reykjavík Þessi listi er ekki tæmandi og skólarnir bjóða ekki upp á alla sína námsskrá í fjarnámi. Auk skólanna bjóða ýmsir aðilar alls konar áhugaverð námskeið í fjarnámi. Þeir sem vilja aðstoð eða nýta aðstöðuna í Námsstofunni á Skagaströnd er bent á að hafa samband við undirritaðan. Desember 2004 Umsjónarmaður Námsstofunnar á Skagaströnd Hjálmur Sigurðsson S: 8440985

Aðventukaffi Landsbankans

Landsbanki Íslands Skagaströnd bauð bæjarbúum í aðventukaffi 1. desember þegar kveikt var á jólatré bankans. Allan daginn var boðið var uppá kakó og kaffi, jólasmákökur og súkkulaðimola. Frá kl. 14.00 lék svo Elías Björn Árnason jólalög á hljómborð á meðan kakóið og smákökurnar runnu ljúflega niður við þýða óma tónlistarinnar. Bæjarbúar kunnu vel að meta góðgerðirnar og var bekkurinn oft þétt setinn. Mættust þar meðal annars yngstu bæjarbúarnir úr leikskólanum Barnabóli og þeir elstu frá Dvalarheimilinu Sæborg. Almenn ánægja var með daginn, jafnt hjá gestum og starfsfólki og ekki ólíklegt að þarna hafi verið búin til hefð sem ekki verður rofin.

Jólatré - jólatré

Kveikt verður á jólatrénu á Hnappstaðatúni miðvikudaginn 1. desember kl 17.30. Samkomulag hefur tekist við jólasveinafélagið um að jólasveinar mæti samkvæmt venju þótt opinber starfstími þeirra hefjist ekki fyrr en eftir nokkra daga. Börn eru hvött til að koma með foreldra sína og rifja upp jólalögin. Sveitarstjóri.

Jólastemming í Kaffi Viðvík

Í tilefni aðventunnar verður Kaffi Viðvík með jólabakkelsi og tilheyrandi jólaskap. Í kjallaranum verður handverksfólk með jólahús og á efri hæðinni verður sölusýning á málverkum Jóns Ívarssonar. Opnunartími: sunnudaginn 28. nóv. kl. 14-22 þriðjudaginn 30. nóv. kl. 20-22 fimmtudaginn 2. des. kl. 20-22 Aðrir opnunartímar verða auglýstir síðar.

Ertu með lögheimili á réttum stað???

Með vísan til laga nr. 73/1952 um aðsetursskipti, ber íbúum að tilkynna um flutning til íbúaskrár innan viku frá flutningi, bæði flutning innanbæjar og milli sveitarfélaga. Tilkynna ber flutninga á skrifstofu Höfðahrepps, Túnbraut 1 - 3, þar er opið frá kl. 09:00-12:00 og 13:00- 16:00 alla virka daga. Tilkynningarnar eru síðan sendar til Hagstofu Íslands.

Tvær nýjar bækur tengdar Skagaströnd.

Um þessi jól koma út margar bækur að vanda. Ein þessara bóka er “Minningar og lífssýn” eftir Björgvin Brynjólfsson. Björgvin er löngu landskunnur fyrir störf sín að stjórnmálum og verkalýðsmálum. Húnvetningar þekkja hann einnig m.a sem frumkvöðul að stofnun Sparisjóðs Skagastrandar. Saga Björgvins Brynjólfssonar er miklu meira en saga hans sjálfs. Hún er jafnframt saga síðustu aldar í hnotskurn. Björgvin segir frá ýmsum kímnilegum atvikum, svo sem því, að sá kunni framsóknarmaður, Björn á Löngumýri, taldi það engu fyrirstöðu að ganga í Alþýðuflokkinn-ef það mætti verða til að hann kæmist á þing. Auk æviminninganna, stjórnmálasögunnar og sögu verkalýðsbaráttunnar, er hér að finna flestar blaðagreinar Björgvins, ferðaþætti og fleira, þannig að segja má að þessi bók sé í raun heildaarritsafn hans. Höfundur gefur út og dreifir bókinni sjálfur. Út er komin ný heimildarskáldsaga eftir Björn Th. Björnsson sem ber nafnið “Glóið þið gullturnar”. Í kynningu með bókinni segir” Einn þeirra dönsku kaupmanna sem störfuðu hér fyrr á öldum var Fritz Hendrik Berndsen sem kom til Skagastrandar upp úr miðri 19.öld. Lífshlaup hans var hins vegar um margt óvenjulegt og skrautlegt, en afkomendur hans eru margir og hafa ýmsir þeirra sett mikinn svip á samfélagið á Skagaströnd. Björn Th. Björnsson hefur nú ritað heimildaskáldsögu um Fritz Hendrik sem byggir m.a. á endurminningum hans sjálfs”. Útgefandi er Mál og menning.

Lárus Ægir 58 ára í dag

Lárus Ægir Guðmundsson íþróttakennari og kirkjuþingsmaður á Skagaströnd er 58 ára í dag. Lárus hélt helstu máttarstólpum á Skagaströnd kaffisamsæti í tilefni dagsins. Lárus valdi hreinlegustu og best búnu kaffistofu bæjarins, sem er í fyrirtækinu SERO ehf að Vallarbraut 2, fyrir samsætið. Á meðfylgjandi mynd má sjá Lárus fyrir miðri mynd, t.h. eru svo Sigurður Skagfjörð, Jóhann Björn og Magnús Ólafsson. Til vinstri við Lárus eru þeir Vilhelm Björn og Adolf H. Berndsen. Lárusi eru hér með óskað til hamingju með daginn.

Myndvinnslu-námskeið

Lærið að meðhöndla “digital”, (stafrænu), myndirnar ykkar á stuttu og hnitmiðuðu námskeiði. Farið er yfir grunnatriði í lagfæringum og breytingum á myndum, skönnun, vistun og frágang mynda til að setja þær á veraldarvefinn, senda í tölvupósti eða prenta þær eftir mismunandi leiðum. Unnið er með verkfæri og skipanir til að afmarka og vinna með hluta myndar, sýnd meðferð lita og notkun „layera". Notast verður við Photoshop forritið. Námskeiðið tekur 6 klst. og verður haldið 16. og 18. nóvember .kl. 19.30 – 22.30 í tölvuveri Höfðaskóla Skagaströnd. Námskeiðið kostar kr. 6.000.- A.T.H. nauðsynlegt er að hafa grunnþekkingu á tölvum og tölvunotkun til að taka þátt í þessu námskeiði. Skráning og allar nánari upplýsingar í síma 895-2227, eða senda tölvupóst á johann@blonduskoli.is merkt “myndvinnsla” (Allir þáttakendur á námskeiðinu fá disk með nýjasta myndvinnslu-forritinu “ Adobe Photoshop Elements “ ).

Skemmtilegir tónleikar í Kántrýbæ

Hljómsveitin Janus frá Skagaströnd hélt tónleika í Kántrýbæ laugardagskvöldið 30. október. Í rauninni var um einskonar endurkomu-tónleika að ræða því hljómsveitin hafði ekki komið saman í um 20 ár. Janus var á árum áður dansleikjahljómsveit ungra manna sem voru að hefja tónlistarferilinn. Sumir héldu áfram í hljómsveitum aðrir héldu tónlistargáfunni við með örðum hætti. Sá eini úr Janus sem hefur náð því að lifa af tónlistinni er Guðmundur Jónsson, vel þekktur sem gítarleikari og lagahöfundur “Sálarinnar hans Jóns míns”. Á tónleikunum í Kántrýbæ sáu þeir Guðmundur Jónsson og Hjörtur Guðbjartsson um gítarleik auk þess greip Hjörtur í banjóið eins og honum er einum lagið. Þorvaldur Skaptason sá um söng, Kristján Blöndal þandi húðirnar, Jón Sigurjónsson lék á bassa og Þórarinn Grétarsson spilaði á flautur og munnhörpu. Það má segja að þessi endurkomutónleikar hafi komið verulega á óvart. Gamlir vinir og aðdáendur mættu til að hlusta og taka undir í gömlum Janus-standördum eins og “Ég læðist oft upp á háaloft...” og þeir fengu svo sannarlega að heyra gömlu lögin og miklu meira en það. Hlómsveitin sýndi ótrúlega breidd í lagavali og tókst að skila tónlist allt frá mýkstu ballöðum upp í harðast rokk með miklum ágætum og kom við á leiðinni í írskri þjóðlagatónlist og hráum blús. Það má segja að það hafi kannski ekki verð svo ótrúlegt með Gumma Jóns við stjórnvölin og afbragðs tónlistamenn í áhöfn en það var jú vitað í þröngu samfélagi sjávarþorpsins að þeir höfðu ekki æft nema nokkra tíma á föstudag og rifjað það helsta upp fyrr á laugardeginum. Unga fólkið sem ekki þekkti Janus nema í nostalgíusögum hinna eldri, kom þegar leið á tónleikana og leit inn, margir með efablik í augum, þar sem lesa mátti spurn um hvort hér væri nokkuð fyrir fólk með síðari tíma tónlistarsmekk. Það sneri enginn við í dyrunum á Kántrýbæ og áður en langt var liðið höfðu endurkomutónleikarnir breyst í dúndrandi dansleik. Þegar leið á gerði hljómsveitin hógværar tilraunir til að segja þetta bara gott og hætta en áheyrendaskarinn klappaði og stappaði þar til áfram var haldið. Endurkomutónleikar Janus urðu sem sagt að frábærlega skemmtilegum og eftirminnilegum tónlistarviðburði sem gjarnan mætti endurtaka.