íbúafundur um aðalskipulag

ÍBÚAFUNDUR um aðalskipulag fyrir sveitarfélagið Skagaströnd verður haldinn í félagsheimilinu Fellsborg miðvikudagskvöldið 7. maí n.k. kl 19:30 Hafin er vinna við gerð aðalskipulags fyrir sveitarfélagið Skagaströnd. Í þeim tilgangi að gefa íbúum og hagsmunaaðilum kost á að koma á framfæri ábendingum í upphafi vinnunar er boðað til almenns íbúafundar. Samið hefur verið við Landmótun sf. um ráðgjöf um aðalskipulagsgerðina og mun Yngvi Þór Loftson ráðgjafi mæta á fundinn, kynna verkefnið og m.a. greina frá aðgangi almennings að aðalskipulagsgerðinni. Aðalskipulag nær til alls land innan staðarmarka sveitarfélagsins og er stefna sveitarstjórnar um: · Atvinnu- og íbúamál · Landnotkun og þróun byggðar · Samgöngur og veitur · Umhverfismál · Þéttleika byggðar og byggðamynstur · Takmarkanir á landnotkun Stefnumörkun aðalskipulagsins skal ná til a.m.k. 12 ára tímabils. Íbúar og aðrir hagsmunaaðilar eru hvattir til að mæta og hafa þannig áhrif á það samfélag sem þeir búa í. Magnús B. Jónsson sveitarstjóri

Þáttur upplýsingavers í skólastarfi

Námskeið um þátt upplýsingavers í skólastarfi var haldið á vegum Fræðsluskrifstofunnar þriðjudaginn 29. apríl s.l. í Fellsborg á Skagaströnd. Á námskeiðinu kynntu kennararnir Fríða S. Haraldsdóttir og Margrét Sólmundsdóttir starf sitt í Laugalækjarskóla en þær hafa búið til afar spennandi verkefni með öðrum kennurum skólans. Verkefnin eru byggð upp á fjölbreyttri notkun upplýsingatækni og hafa skilað góðum árangri og nemendur jafnframt verið mjög ánægðir. Eru þessi verkefni meðal annars notuð í 10. bekk eftir að samræmdum prófum lýkur á vorin. Sýndu þær þátttakendum fjölmörg sýnishorn af vinnu nemenda þeirra og vöktu þau verðskuldaða athygli. Guðjón Ólafsson, fræðslustjóri