Prjónakennsla í Kvennaskólanum

Næsta fimmtudag verður býður Textílsetrið upp á námskeið í Kvennaskólanum á Blönduósi. Kennt verður að prjóna tvær ermar á einn prjón, "tíglaprjón", ýmis uppfit og affellingar og fleira. Leiðbeinandi á námskeiðinu verður Ásdís Birgisdóttir, textílhönnuður. Námskeiðið hefst kl. 20 á miðvikudagskvöldið og boðið verður upp á kaffi. Áhugasamir eru hvattir til að mæta með prjóna eða aðra handavinnu og eiga notalega kvöldstund saman.

Gettu betur í kvöld

Eftir að hafa kýlt magann yfir jól og áramót er kominn tími til að vekja heilasellurnar. Í kvöld byrjar spurningakeppnin Gettu betur í Kántrýbæ. Keppnin hefst stundvíslega klukkan 21:30. Stjórnandi, spyrill og alvaldur verður að þessu sinni Árdís Indriðadóttir, bókasafnsvörður. Hún hefur verið ansi getspök í fyrri keppnum, meðal annars sigrað einu sinni ásamt syni sínum. Yfirleitt hafa þau verið með stigahæstu liðunum. Nafni keppninnar hefur verið breytt lítilsháttar. Áður hét hún Drekktu betur og var átt við að forráðamenn keppninna fengu inni í Kántrýbæ án endurgjalds en þátttakendur sáu um að drekka upp í húsaleigu, þ.e. kaffi, kók eða eitthvað annað ... Núna er komin nokkur festa á keppnina, aðsóknin mikil og varla þörf á frekari hvatningu. Áherslan er sem fyrr á skemmtilega samkomu, góðan félagsskap og ánægulega keppni um rétt svör. Ekki spillir svo fyrir að bjórkassi er í verðlaun fyrir sigurliðið.