Bók um Þórdísi spákonu

Út er komin bók um Þórdísi spákonu með undirheitið "sagan sem síðast var rituð". Höfundar bókarinnar eru Dagný Marín Sigmarsdóttir, Svava G. Sigurðardóttir og Sigrún Lárusdóttir. Í formála bókarinnar er gerð grein fyrir þeim sagnabrotum sem stuðst var við þegar sagan var rituð. Þar kemur fram að álykta megi að Þórdís hafi verið kvenskörungur mikill og sýnt rausn og skörungsskap í hvívetna. Hún hafi ýmist verið talin hin mesta fordæða, framsýn og fylgin sér, sáttasemjari eða fjölkunnug og búin mikilli spádómsgáfu. Ráðist hafi verið í ritun þáttar um æfi Þórdísar til að bæta fyrir sleggjudóma sögualdar. Með ritun sögu Þórdísar sé reynt að draga fram kosti hennar ekki síður en galla og sýna fram á áhrif er hún hafði í héraðinu. Þórdís var fyrsti nafntogaði Skagstrendingurinn og gæti hafa numið land á Skagaströnd þar sem einskis annars er getið í Landnámu. Bókin er til sölu í Spákonuhofinu á Skagaströnd

Skólavogin og Skólapúlsinn

Til að meta árangur og líðan í skólastarfi Upplýsinga- og fræðslufundur um gagnsemi matstækjanna Skólavogin og Skólapúlsinn var haldinn í fundarsal Samstöðu á Blönduósi fimmtudaginn 10. nóvember s.l. Til að kynna matstækin komu til fundarins Gunnlaugur Júlíusson og Valgerður Ágústsdóttir, frá Samb. ísl. sveitarf. og Almar H. Halldórsson, frá fyrirtækinu Skólapúlsinum. Fundinn sóttu skólastjórnendur og sveitarstjórnamenn Skagafjarðar, Húnavatnssýslna og Bæjarhrepps. Ávinningur af notkun tækjanna er: • Betri yfirsýn yfir rekstur og nýtingu fjármagns • Aukin innsýn í skólabraginn • Samanburður á eigin frammistöðu yfir tíma • Viðhorfakannanir geta nýst við innra mat skóla • Samanburður við önnur sveitarfélög og skóla • Úthlutun fjármagns til skóla • Nýtist sveitarfélögum til að koma til móts við lögbundnar kröfur um mat og eftirlit með skólum Myndir frá fundinum

Stærðfræði undir berum himni

Námsefni í útikennslu Stærðfræðikennarar Húnavatnssýslna voru boðaðir til fræðslufundar í Grunnskólann á Blönduósi þriðjudaginn 8. nóvember. Stærðfræði undir berum himni var verkefni dagsins og voru ýmis verkefni fyrir nemendur 1. – 7. bekkja kynnt fyrir þátttakendum. Miðað er við að verkefnin séu unnin utandyra. Þóra Rósa Geirsdóttir, sérfræðingur hjá Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri og Ingileif Ástvaldsdóttir, skólastjóri Þelamerkurskóla voru kennarar á námskeiðinu. Námsefnið er norskt og hafa leiðbeinendur þýtt og staðfært bækurnar. Fyrir tveimur árum komu út verkefnabækur fyrir yngsta stig grunnskólans og nú í haust komu út bækurnar fyrir miðstig grunnskólans. Bækurnar fyrir yngsta stigið eru þrjár og fjallar hver þeirra um afmarkað viðfangsefni út frá inntaki stærðfræðinnar: Mælingar, Rúmfræði og Tölur og tölfræði. Bækurnar fyrir miðstigið eru fjórar: Mælingar, Rúmfræði, Tölfræði og líkindi og Tölur og algebra. Öll verkefnin í bókunum eru tengd aðferðamarkmiðum aðalnámskrár. Námskeiðið var á vegum Fræðsluskrifstofu A- Hún. Myndir: Þátttakendur og Leiðbeinandi.

Kvikmyndasýningar í Kántrýbæ

NES Listamiðstöð, Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra og Kántrýbær ætla á næstu misserum að standa fyrir kvikmyndasýningum á Skagaströnd. Sýningarnar verða í Kántrýbæ og mun fyrsta myndin verða sýnd n.k. föstudagskvöld kl 21:30. Heimildarmyndin Jón og séra Jón eftir Steinþór Birgisson. Nánar um myndina: Séra Jón Ísleifsson hefur verið sóknarprestur í Árnesi Ströndum í 12 ár. Hann lifir lífinu á sinn eigin sérstæða máta og af honum eru margar sögur bæði sannar og ósannar. Í kjölfar langvinnra deilna innan safnaðarins er svo komið að mikill meirihluti sóknarbarna hefur skrifað undir vantraust á séra Jón og lýst því yfir að þau vilji ekki að hann starfi lengur sem sóknarprestur í Árnesprestakalli. Er séra Jón óhæfur prestur? Eða eru aðrir kraftar að verki? Hvað sem því líður er séra Jón maður sem er staddur á miklum tímamótum. Jón og séra Jón vann áhorfendaverðlaun Skjaldborgarhátíðarinnar í vor og hefur verið sýnd í kvikmyndahúsum við miklar vinsældir. Miðaverð 1.250 kr

Allt í plati

Frá Leikfélagi Sauðárkróks Sýningar eru hafnar hjá Leikfélagi Sauðárkróks á barnaleikritinu Allt í plati eftir Þröst Guðbjartsson í leikstjórn Írisar Baldvinsdóttur, en frumsýnt var þann 26. október síðastliðinn. Sex sýningar hafa verið sýndir og eru þrjár eftir. Föstudag 4. nóv. kl. 19.30 (uppselt) Laugardag 5. nóv. kl 16 Aukasýning (allra seinasta sýning): Sunnudag 6. nóv. kl 16:00. Verkefnið er styrkt af Menningarráði Norðurlands vestra. Nánar á: http://www.skagafjordur.net/ls/

Sjónvarpsstöðin N4 með viðtöl á Skagaströnd

Sjónvarpsstöðin N4 hefur nýlega sent út viðtöl frá Skagaströnd. Viðtal við Halldór Ólafsson framkvæmdastjóra BioPol má nálgast hér: http://www.n4.is/tube/file/view/2076/ Viðtal við Fjólu Jónsdóttur og Sólveigu Róarsdóttur eigendur saumastofunnar írisi má finna hér: http://www.n4.is/tube/file/view/2096/1/