Sýningar og tónleikar á Kántrýdögum

Dagskrá Kántrýdaga er nú komin á heimasíðu sveitarfélagsins. Á morgun verður henni dreift á öll heimili í Austur-Húnavatnssýslu og plaköt sett upp í verslunum á Blönduósi og Sauðárkróki. Vakin er sérstök athygli á menningarlegum liðum Kántrýdaga. Í raun eru það allir dagskrárliðir en í þetta skipti skal litið á sýningar og tónleika. Fyrst ber að nefna galleríið með skemmtilega nafninu Djásn og dúllerí. Það hefur nú verið starfandi í mánuð og vakið óskipta athygli ferðamanna. Þar er að finna til sölu margvíslegan varning eftir handverksfólk og hagleikssmiði á Skagaströnd og víðar í sýslunni. Í Frystinum í Nesi listamiðstöð verður einstök listsýning. Fjölmargir þeirra rúmlega tvö hundruð listamanna sem dvalið hafa á Skagaströnd undanfarin tvö ár leggja til verk. Þeir segja þau vera innblásin vegna dvalar þeirra í bænum og af því er nafn sýningarinnar dregið, Ispired by Skagaströnd. Á efstu hæðinni í Gamla kaupfélaginu verður ljósmyndasýningin Línur í landslagi. Myndirnar hefur Sigurður Sgiurðarson tekið á ferðum sínum, sumar og vetur, i kringum Spákonufell. Í Bjarmanesi verða tónleikar á föstudagskvöldið og þar kemur Ragnheiður Gröndal fram og hljómsveit hennar. Síðar um kvöldið verða Langi Seli og Skuggarnir með tónleika í Bjarmanesi. Á laugardeginum verða um miðjan dag tónleikar í Bjarmanesi með Spottunum. Þeir leika og syngja lög eftir sænska vísnaskáldið Cornelius Vreesvjik. Síðar um kvöldi syngja Cohen systur lög Leonard Cohens. Af þessu má sjá að dagskrá Kántrýdaga lofa góðu í sýningum og tónleikum.

Listaverk á gafl síldarþrónna

Hópur ungs fólks hefur síðustu tvo daga unnið að því að mála listaverk á gaflinn á gömlu síldarþrónum við höfnina. Listamennirnir eru á leið sinni í kringum landið í þeim tilgangi einum að lífga upp á bæi með því að færa list sína á ljótu veggina sem áreiðanlega fyrirfinnast í öllum byggðarlögum. Á Skagaströnd fundu listamennirnir þrærnar. Þar hefur nú mikið listaverk verið að fæðast og von er á að það klárist í dag. Veggskreytingin er í graffítistíl. Í þúsundir ára hafa listamenn mála á veggi. Þekktar eru slíkar skreytingar frá tímum Grikklans hins vorna og Rómaveldis. Nú á tímum hafa sprey brúsar leyst hin hefðbundnu verkfæri af hólmi. Oftar en ekki hefur verið amast við graffítí á veggjum enda viða lítil prýði af þeim. Þá hefur lítið farið fyrir listinni og þá frekar verið um ruddalegan boðskap að ræða eða hrein skemmdarverk á eigum fólks. Slíkur vandalismi hefur aðeins það markmið að höfundurinn er að merkja sér staði. Engu að síður hefur listin breyst á síðustu áratugum og er nú uppfull táknmynda með ákveðnum boðskap,til dæmis pólitiskum, umhverfislegum, mannlegum o.s.frv.  Listamennirnir sem eru í heimsókn á Skagaströnd eru allir í listnámi af einhverju tagi og hafa langa reynslu að baki. Á gaflinn á þrónum eru þeir að mála verk sem meðal hann hefur skírskotun til sæskrímsla en í miðju verksins er skjaldamerki ríkisins með sínum fjórum kykvendum. Hópurinn leggur alla sína vinnu fram án endurgjalds, tekur ekkert fyrir kostnað vegna efnis en hins vegar fær hann að sofa í félagsheimilinu Fellsborg. Eins og títt er um ung fólk með hugsjón hefur það ekki mikinn pening handa á milli. Það var því kærkomið að Samkaup og Söluskálinn sameinuðust um að gefa því kleinur, kökur og drykki í kaffihléinu síðdegis í gær. Hópurinn bað þess vegna fyrir góðar kveðjur til þessara fyrirtækja og þakkar kærlega fyrir allt matarkyns sem gaukað er að þeim. Á efstu myndinni eru þessir listamenn, talið frá vinstri: Kristín og Narfi í stigunum, Ingi er uppi á skúrnum, og þá Daníel, Brynja, Dýrfinna og Loki.

Stefán Velemir sigraði í kúluvarpi á unglingalandsmótinu

Unglingalandsmót UMFÍ var haldið í 13. sinn um verslunarmannahelgina. Aldrei hefur mótið verið jafn stórt og í ár og keppt var í fjölbreyttum greinum. Frá USAH voru skráðir 38 keppendur í frjálsíþróttum, fótbolta og sundi. Allir keppendur frá USAH stóðu sig með stakri prýði og voru félaginu til mikillar sóma.   Mjög góður árangur sést í kastgreinum frá félaginu en þar hreppti félagið nokkra verðlaunapeninga.  Í kúluvarpi hjá sveinum 15 – 16 ára kastaði Stefán Velemir frá Skagaströnd 14,26 og sigraði í þeim flokki. Magnús Örn Valsson náði 3. sætinu og Brynjar Geir Ægisson var í því 8.  Í kúluvarpi 13 ára pilta kastaði Guðmar Magni Óskarsson 10,84 og náði 2. sætinu og kúluvarp hjá drengjum 17 – 18 ára var Sigmar Guðni Valberg í 2. sæti og kastaði 11,64.  Í spjótkasti kastaði Kristrún Hilmarsdóttir 18,18, í flokki stelpur 11 ára, og náði 2. sæti og Sigmar Guðni kastaði 11,64 í sínum flokki og hreppti 3. sætið. Í 100 m hlaupum náðu tveir keppendur frá USAH á pall og Guðrún Dóra Sveinbjarnardóttir hljóp á 13,67 sek í flokki telpur 13 ára og í flokki pilta 14 ára hljóp Auðunn Þór Húnfjörð á 13,02 og náðu þau bæði 2. sæti í sínum flokkum Einnig stóðu keppendur í knattspyrnu mjög vel og í 2. flokki stráka var blandað lið frá USAH/UMSB í 3 sæti og blandað lið frá UMSS/USAH2 náðu einnig sæti í 3. flokki hjá strákum.  Hægt er að skoða úrslit frá mótinu inn á www.ulm.is undir úrslit.  Mótið heppnaðist mjög vel og ég vil þakka öllum foreldrum og aðstandendum sem hjálpuðu til við undibúning og aðstoðuðu á mótsstað kærlega fyrir mikla og góða hjálp. Við getum verið stolt af okkar fólki. Ásta Berglind Jónsdóttir Framkvæmdarstjóri USAH