Opnunartími sundlaugar

Opnunartími sundlaugar breytist og verður frá kl 13.00 til kl 20.00 dagana 17. - 20. ágúst en frá 23. ágúst þrengist hann enn vegna sundkennslu skólabarna. Sveitarstjóri

Hitabylgja á frábærum Kántrýdögum

Kántrýdögum á Skagaströnd lauk á sama máta og þeir byrjuðu, með mikilli gleði og ánægju. Fjöldi aðkomufólks heimsótti bæinn, sem skreyttur var á margvísleg lund og stuðlaði ásamt heimamönnum að frábærri skemmtun sem var öllum til sóma. Veðrið var stórkostlegt um helgina, koppalogn, gekk á með sólarglennum og hlýjum rigningarskúrum í 15 til 20 gráðu hita. Á laugardagskvöldið mældist t.d. hitinn um miðnætti 17 gráður. Kántrýdagar hófust með fallbyssuskoti klukkan 18 á föstudeginum. Yngsti aldurshópurinn, sem kallar sig, Smábæinga, buðu á Kofavöllum upp á opið hús, en þeir hafa verið að byggja kofa í sumar af öllum stærðum og gerðum. Gestir fengu kökur og drykki og svo skemmti brúðubíllinn. Ekki þótti börnunum lakara þegar flugvélin kom og bjó til Freyjukaramelluregn. Á föstudagskvöldið var mikill fögnuðu og læti í hátíðartjaldinu þegar hljósmveitirnar Janus og The 59’ers þöndu raddbönd og hljóðfæri. Síðar um kvöldið gerðu Skagstrendingar og gestir þeirra slíkt hið sama við varðeldinn og var atburðurinn nefndur „hólasöngur“ vegna staðsetningarinnar. Á laugadagsmorgni var farið í Þórdísargöngu á vegum Menningarfélagsins Spákonuarfs og gengið á Spákonufell. Þórdís bjó að Spákonufelli fyrir rúmlega eitt þúsund árum og eru margar sögur af henni og fjölkyngi hennar en ekki er vitað hvort hún tók þátt í göngunni. Börnin fóru í dorgveiðikeppni, á töfrabragðanámskeið og loks var barna- og fjölskylduskemmtun í hátíðartjaldinu þar sem hæfileikaríkir krakkar nutu tilverunnar og hrifu áhorfendur með göldrum sínum og tónlist í söngvakeppni barna - Kántrýhvolpunum. Um kvöldið var aftur dagskrá í hátíðartjaldi þar sem fram komu Valdi Skafta og Rún, Elli Gunni, karlakórinn Bryggjupollar, blúshljómsveitin Spottarnir, Lára Rúnarsdóttir og Bjartmar og Bergrisarnir. Fastur liður á Kántrýdögum er messa í hátíðartjaldinu. Sóknarpresturinn, Úrsula Árnadóttir, þjónaði. Af mikilli innlifun söng kirkjukórinn gospelsöngva undir stjórn Óskars Einarssonar og var það mál mann að aldrei hafi kórinn hljómað jafn vel. Í gospelmessunni voru systurnar Guðrún og Hjördís Sigurðardætur heiðraðar fyrir áralangt starf í kirkjukór Hólaneskirkju en þær hafa starfað þar með litlum hléum frá stofnun kórsins 1953. Á laugardagskvöldi hélt Viggó B. útgáfutónleika Fellsborg vegna nýútkomins hljómdisks og gömlu dansarnir dunuðuð við harmonikuspil. Böll í Kántrýbæ eru fastur liður á Kántrýdögum. Á fimmtudagskvöldið hitaði hljómsveit heimamanna upp en sú nefnist Suðmenn. Hljómsveitin Janus steig síðan á stokk á föstudagskvöldið og loks Bjartmar og Bergrisarnir á laugardagskvöldið. Tónleikar voru í kaffihúsinu Bjarmanesi. Ragnheiður Gröndal lék þar með hljómsveit sinni á föstudagskvöldið og síðar um kvöldið léku Langi Seli og Skuggarnir. Á laugardeginum söng og spilaði hljómsveitin Spottarnir lög eftir sænska vísnaskáldið Kornelíus Vreesvjiik. Og um kvöldið sungu Cohen systur lög Leonard Cohens. Ekki má gleyma kaffihlaðborðinu sem boðið var upp á í Bjarmanesi eftir messu á sunnudeginum. Einna mesta athygli vöktu spákonurnar sem upplýstu gesti og gangandi um framtíðina. Þær spáðu í forláta spátjaldi við hátíðarsvæðið og einnig í gamla húsinu Árnesi. Fjöldi fólks leitaði til spákvennana og ekki er annað vitað en að allir hafi unað við sínar spár. Kántrýdagar fóru afar vel fram og varð ekkert til að trufla afar góða skemmtun. Skagstrendingar þakka gestum fyrir komuna og vonast til að sjá þá aftur að ári.

Tónleikarnir Stúlkan með lævirkjaröddina

Tónleikar tileinkaðir skagfirsku dægurlagasöngkonunni Erlu Þorsteinsdóttur verða haldnir í Kántrýbæ miiðvikudagskvöldið 18. ágúst, kl. 21. Nefnast þeir Stúlkan með Lævirkjaröddina. Flytjendur eru Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm söngur og þverflauta, Yngvi Rafn Garðarsson Holm, gítarar, Tómas Jónsson,  hljómborð, Sigurður Ingi Einarsson, trommur, og Valgeir Einarsson bassi. Listamennirnir munu flytja sömu dagskrá víðar, t.d. á eftirfarandi stöðum; Græna hattinum á Akureyri fimmtudagskvöldið 19 ágúst, Hótel Mælifell á Sauðárkróki föstudagskvöldið 20 ágúst, menningarnótt í Reykjavík stóra sviðinu við Óðinstorgi kl 18, bæjarhátíðin Í túninu heima, hátíðarsviðið kl 21 laugardag 28 ágúst ásamt Baggalút og Ingó og Hafdísi Huld, Bæjarleikhúsinu Mosfellsbæ föstudag 3 september, Café Rósenberg sunudag 5 september og Reykjadal í Mosfellsbæ fimmtudag 9 sptember. Allir tónleikarnir hefjast kl 21.00 miðinn kostar 1500 kr 

Spákonurnar spá góðum Kánrýdögum

Árnes elsta húsið á Skagaströnd verðu opið  til sýnis milli kl. 15 til 18 um Kántrýdaga, þ.e. laugardag og sunnudag.  Árnes er stórmerkilegt hús, 100 ára gamalt, ogþað er eins og gengið sé inn í fortíðina þegar komið er inn í húsið. En Spákonurnar munu þar rýna í framtíðina og þær hafa fengið til liðs við sig þrjár spákonur sem verða í Árnesi á föstudagskvöldið frá kl. 18 - 21:30  og á laugardagskvöldið frá kl. 19 - 22. Þær kíkja í bolla og Tarot. Í spátjaldinu við hátíðarsvæðið er er líka hægt að fá lófalestur á laugardagskvöldið frá kl. 20 - 22.    Spákonurnar spá því að hátíðin fari vel fram og margir gestir sæki Skagaströnd heim. Í huga þeirra er ekki nokkur vafi á að veðrið verður mjög gott og allir skemmti sér vel.

Spáð er frábæru veðri í Þórdísargöngu

Gönguferð á Spákonufell og kaffihlaðborðið á eftir er án efa einn af skemmtilegustu dagskrárliðum Kántrýdaga. Svo ótalmargt stuðlar að góðri ferð, til dæmis einstaklega fallegt fjall, afbragðsgóður fararstjóri, áhugaverðar sögur um fjallið og umhverfi þess, útsýnið, blár himinn, sólin, blíðan og fleira og fleira. Spáð er hátt í 20 gráðu hita á laugardaginn ... Hér er átt við spá Veðurstofu Íslands en skagstrensku spákonurnar spá sólskini til viðbótar. Það er Menningarfélagið Spákonuarfur sem verður með sína vinsælu Þórdísargöngu á laugardagsmorgun  klukkan 10:00.  Fararstjóri verður Óli Benna leiðir fólk upp á Spákonufell og segir sögur af Þórdísi og  leitar eflaust að gullinu hennar í leiðinni.  Eftir gönguferðina er öllum boðið uppá kaffihlaðborð  að hætti Spákonuarfs.  Verð á göngu er kr. 2.500 og er kaffihlaðborðið innifalið, en frítt er fyrir 14 ára og yngri.

Lára Rúnarsdóttir í hátíðartjaldi á laugardaginn

Lára Rúnarsdóttir skemmtir í hátíðartjaldi á laugardagskvöldið á Kántrýdögum . Hún hefur vakið mikla athygli fyrir söng sinn. Hér er nærmynd af Láru: Það vantar ekki jákvæðnina í hina ungu söngkonu Láru Rúnarsdóttur sem væri til í að hitta Tom Waits og myndi gera óskaplötu með Dave Grohl, Nick Cave og Beck.  Hún tók sér tíma frá annasömum degi og svaraði laufléttum spurningum Miðjunnar um lífið og tilveruna. Nafn: Lára Rúnarsdóttir Aldur:27 ára Fjölskylda: Unnustinn minn Arnar Þór og dóttir okkar Embla Guðríður Starf: Rekstrarsjóri, tónlistarmaður og húsmóðir Ítarleg starfslýsing, hvernig er hefbundinn vinnudagur hjá þér? Vakna, keyri, kaffi, email, pantanir, bý til checklista, dagdraumar, fundur, matur, kaffi, skoða checklistann, dagdraumar, merki við fullkláruð verkefni, keyri, sæki Emblu, pússla, dansa, elda, svæfi, horfi á frábæra dagskrá Rúv, les í bókum, kyssi manninn minn og fer að sofa. Hvað langaði þig að verða þegar þú varst lítil? Leikkona og rithöfundur. Þessir draumar eru ennþá á dagskránni. Hvað er listamannalíf? Lifir þú því? Listamannalíf eru forréttindi sem ég nýt því miður ekki. Að þínu mati hvert er:   A) Besta bókmenntaverk sögunnar? Sunnan við mærin, vestur af sól eftir Haruki Murakami breytti lífi mínu. b) Besta leikrit sögunnar? Romeó og Júlía – vildi óska að við töluðum svona fallegt mál. c) Besta plata sögunnar? Closing time með Tom Waits Uppáhalds tónlistarmaður/menn?  Uppáhaldið mitt núna eru stelpur í tónlist… Goldfrapp, Bat for lashes, Florence and the Machine, Lilly allen og Regina Spektor. Áfram Stelpur!!! Ef þú hefðir allann þann tíma og allann þann pening hvernig plötu myndiru gera? Frábæra plötu með Dave Grohl, Nick Cave og Beck! Þegar þú ert að vinna í tónlist sækiru þér innblástur til annarra tónlistarmanna eða forðastu að hlusta á tónlista annarra til að “smitast“ ekki?  Ég gæti aldrei hætt að hlusta á tónlist og öll tónlist er mér innblástur, líka sú sem mér finnst leiðinleg. Er einhver tónlist sem þú fílar í laumi? Ég skammast mín ekki fyrir að hlusta á eitthvað. Ég þoli ekki snobb í tónlistarbransanum, algjörlega glatað að þora ekki að viðurkenna að maður fíli eitthvað. Hver er stendur upp úr í tónlist á Íslandi? Það er svo ótrúlega mikil orka og sköpun á íslandi í dag. Get t.d. nefnt Sudden Weather Change, Cliff Clavin, Útúrdúr, Sykur og Retro Stefson. Hvernig finnst þér staða menningarlífs á Íslandi vera í dag? Ég held að kreppan hafi haft jákvæð áhrif á sköpunina. Það mætti bara gera meira fyrir hana, t.d. í fjölmiðlum. Minna af íþróttum meira af menningu og listum. Hvaða plötu ertu að hlusta á? Ingrid Olava – the Guest - hvernig líkar þér?  Ágætlega, tregamikið og lostafullt Hvaða persónu lifandi/látna raunverulega/skáldaða mynduru vilja hitta? Tom Waits Hver var uppáhalds platan þín sem barn? Ég hlustaði mikið á Rokklingana Ólstu upp á tónlistheimili? já það var mikið sungið, spilað og dansað. Var einhver sem fékk þig til að syngja?  Syngjum um lífið og lofum það líka. Ætli það hafi ekki bara verið þannig. Annars var það Kiddi Hjálmur sem uppgötvaði mig. Hvað fær þig til að syngja? Ástin, dauðinn, sorgin, sturtan, áfengi og partý Hvað er besta ráðið sem þú hefur fengið?  Ekki reyna að láta alla elska þig Hvaða ráð myndir þú veita þeim sem vilja byrja að semja tónlist og syngja? Aldrei að hugsa um hvað öðrum finnst… Bara að hafa gaman! Í hverju ertu að vinna núna? Öðlast hamingju sem ekki fellst í afrekum eða peningum Eitthvað að lokum?  Við lifum bara einu sinni, hættið þessu væli!

Þórdísarganga á Spákonufell á laugardaginn

Spákonuarfur efnir til Þórdísargöngu á Spákonufell  laugardaginn 14. ágúst  kl. 10:00. Gangan er tileinkuð Þórdísi spákonu. Lagt verður af stað frá golfvellinum á Skagaströnd. Að lokinni göngu verður boðið upp á veitingar sem eru innifaldar í verði. Fararstjóri í göngunni er Ólafur Bernódusson. Á leiðinni mun hann fræða þátttakendur um Þórdísi spákonu og vísa á staði sem tengjast sögu hennar og afrekum. Þátttökugjald er 2.500 kr. Frítt fyrir 14 ára og yngri. Upplýsingar í síma 861-5089

Úrslitin í ljósmyndasamkeppni Skagastrandari

Tuttugu myndir eftir fjórtán ljósmyndara hafa nú verið settar upp á Hnappstaðatúni í miðbæ Skagastrandar. Þær eru niðurstaða dómnefndar ljósmyndasamkeppninnar sem Sveitarfélagið Skagaströnd efndi til í júní undir kjörorðinu „Skagaströnd í nýju ljósi“. Sýningin var formlega opnuð í dag og við það tækifæri flutti oddviti sveitarstjórnar, Adolf H. Berndsen, tölu og kynnti úrslitin. Hann og Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri, afhentu síðan vinningshöfunum viðurkenningarskjal fyrir þátttökuna. Þeir ljósmyndarar sem hlutskarpastir urðu eru eftirtaldir: Arnar Ólafur Viggósson Árni Geir Ingvarsson, 2 myndir Ásdís Árnadóttir Guðbjörg Viggósdóttir Guðlaug Grétarsdóttir Helena Mara Herdís Þ. Jakobsdóttir Hjalti Reynisson Ólafur Bernódusson, 3 myndir Saga Lind Víðisdóttir, 2 myndir Signý Ósk Richter Sigurbjörg B. Berndsen Silfá Sjöfn Árnadóttir, 2 myndir Vilhjálmur Ingi Vilhjálmsson, 2 myndir Allar myndirnar í ljósmyndasamkeppninni má sjá á vef Ljósmyndasfns Skagastrandar. Slóðina er að finna hér. Í dómnefnd keppninnar voru valdir þrír valinkunnir menn sem ekki búa á Skagaströnd. Þeir eru Jón Sigurðsson, umboðsmaður TM og ljósmyndari, Skarphéðinn H. Einarsson, skólastjóri, og Snorri Gunnarsson, ljósmyndari.  Dómnefndin fékk  ekki að vita nöfn ljósmyndaranna fyrr en úrslit lágu fyrir. Í ljósi þess vekur athygli að hjónin Árni Geir Ingvarsson og Herdís Þ. Jakobsdóttir eiga þrjár myndir á sýningunni og ekki nóg með það, tvær dætur þeirra eiga líka myndir, Ásdís á eina og Silfá Sjöfn á tvær. Önnur skrýtin tilviljun er sú að hjónin Hjalti Reynisson og Guðlaug Grétarsdóttir eiga hvor sína myndina í úrslitum.

Ljósmyndasýning opnuð í miðbæ Skagastrandar

Ljósmyndasýningin „Skagaströnd í nýju ljósi“ verður formlega opnuð í miðbæ Skagastrandar í dag kl. 13. Sýndar eru tuttugu myndir eftir þrettán ljósmyndara. Myndirnar valdi dómnefnd sem skipuð var vegna ljósmyndasamkeppni sem Sveitarfélagið Skagaströnd stóð fyrir í júní.  Mikil þáttaka var í keppninni og sendu tuttugu og fjórir ljósmyndarar 154 myndir í keppnina. Af þeim voru 20 myndir valdar fyrir sýninguna. Tilgangurinn með ljósmyndasýningunni er að lífga upp á miðbæ Skagastrandar og jafnframt að vekja athygli ferðamanna á einstökum stöðum sem í sveitarfélaginu.  Myndirnar tuttugu hafa nú verið prentaðar á álplötur. Og festar á ramma sem Trésmiðja Helga Gunnarssonar á Skagaströnd sá um að útbúa.  Sýningin mun standa fram undir miðjan september.

Smá kántrý í öllum

Sumarið er tími úti- og bæjarhátíða á Íslandi. Við ferðumst mörg hornanna á milli til þess að njóta landsins gæða og gestrisni landsbyggðarinnar. Stærstu hátíðarnar standa yfir venju samkvæmt um verslunarmannahelgina, sem markar í hugum margra lok ferðarsumarsins. En í sveitarfélaginu Skagaströnd, er ár hvert haldin merk hátíð, sem á að höfða til þeirra sem vilja framlengja ferðasumarið um ögn. En sú hátíð er hin margrómaða hátíð, Kántrýdagar. Þessi menningarhátíð er afsprengi Kántrýhátíðarinnar sem haldin var um verslunnarmannahelgar hér um árin. Á mjög skömmum tíma varð sú hátíð líkt og flestir, nema fáeinir Vestmannaeyjingar muna, sú allra stærsta á landinu. Þá lögðu mörg þúsund Íslendingar leið sína til Skagastrandar til að njóta helgarinnar í vöggu kántrýsins á Íslandi. Seinna var hátíðin svo færð fram í miðjan ágúst, til að reyna undirstrika hvað þessi hátíð á að ganga út á, þ.e. hátíð fyrir fjölskylduna og unnendur kántrýsins. Hátíðin sækir uppruna sinn að sjálfsögðu til Kántrýkóngsins Hallbjörns Hjartarsonar, sem hefur eytt ævinni í að kynna kántrý fyrir landanum og ávallt verið bæjarfélagi sínu til mikils sóma. En fyrir utan alla tónlistina reisti hann Kántrýbæ þar sem nú er rekið veitingahús og hýsir útvarp Kántrýkóngsins, Útvarp Kántrýbæ. Hátíðin hefst venju samkvæmt þegar skotið er úr fallbyssunni á föstudag. Fá bæjarfélög, eru að sögn kunnugra, svo vel vopnum búin. Þegar hátíðin er hafin taka við ótal mismunandi dagskrárliðir, sem spanna allt frá námskeiðum í töfrabrögðum fyrir yngri kynslóðina til varðeldar fyrir alla fjölskylduna. Hvert kvöld er svo að sjálfsögðu spilað fyrir dansi fyrir eldri kynslóðina.  Aðstæður fyrir ferðamenn eru til fyrirmyndar og gestrisni heimamanna í fyrirrúmi, en í bæjarfélaginu er rekið fyrsta flokks tjaldstæði fyrir hvers kyns gistikosti. Fyrir kylfingana er aðeins tíu mínútna keyrsla í Háagerðisvöll, sem er „best geymda leyndarmál kylfinga á Íslandi“ skv. bókinni Golfhringir á Íslandi  eftir Edwin Rögnvaldsson. Rúsínan í pysluendanum er svo að sjálfsögðu hin fræga gospelmessa kirkjukórs Hólaneskirkju undir stjórn Óskars Einarssonar á sunnudagsmorgun. En þangað sækja ótal margir unnendur gospels og kóratónlistar innblástur hvert ár í hátíðartjaldinu.  Þungamiðjan og það sem allt snýst um er að sjálfsögðu kántrýið. Hvergi er betra að sleppa kúrekanum í sjálfum sér lausum en í heimabæ kántrýsins. Enginn er svo stirðbusalegur að hann hökti ekki aðeins í takt þegar línudansinn brestur á undir ávanabindandi takti Willie Nelson og Hallbjörns Hjartar. Því það er hálfopinber staðreynd, að það er smá kántrý í okkur öllum.  Ferðasumarið er langt frá því búið og þeir sem vilja skella sér á eina útihátíð í viðbót í vinalegu og afslöppuðu andrúmslofti, ættu ekki að láta Kántrýdagana fram hjá sér fara. Það er þó ráðlegt fyrir gesti að skilja indíána klæðin eftir heima, a.m.k meðan innfæddir eru að brúka fallbyssuna. Birtist fyrst á Deiglan.com