Leikskólastjóri óskast

Lífsglaður og jafnréttissinnaður leikskólakennari Leikskólinn Barnaból á Skagaströnd auglýsir eftir leikskólastjóra með leikskólakennaramenntun til að stýra leikskólanum. Leikskólinn Barnaból er hluti af Hjallastefnufjölskyldunni og við leitum að jákvæðum einstaklingi sem er tilbúinn að tileinka sér starfshætti Hjallastefnunnar að metnaði, gleði og kærleika. Viðkomandi þarf að sýna sjálfstæði í vinnubrögðum og hafa brennandi áhuga á jafnrétti og lýðræði í leikskólastarfi. Skólar Hjallastefnunnar starfa að sameiginlegum markmiðum eftir sömu hugmyndafræði en sjálfstæði hvers skóla er mikið. Jafnréttisuppeldi, skapandi hugsun, félagsþjálfun og einstaklingsstyrking eru innviðir hugmyndafræðinnar sem við teljum að geti skipt sköpum í þroska komandi kynslóða. Við hvetjum karla jafnt sem konur til að sækja um, áhugasamir hafi samband við Þorgerði Önnu leikskólastýru á netfangið thaa@hjalli.is eða í síma 8240604.

Mynd vikunnar

Bankastræti í byggingu Þessi mynd var tekin einhverntíma á árunum 1945 - 1950. Þá var mikill uppgangstími á Skagaströnd og allmikið byggt af íbúðarhúsnæði. Þessi mynd var tekin af höfðanum yfir Bankastrætið þar sem sjá má fjögur hús í byggingu. Næst okkur til hægri er komin neðri hæðin af Bankastræti 9 en í því húsi eru tvær íbúðir. Svarta húsið næst því, þeim megin við götuna, eru Flankastaðir eða Bankastræti 7. Þetta hús var rifið og nýtt hús byggt á sama stað. Þá koma Kárastaðir - Bankastræti 5 - og þegar myndin var tekin hafði nýlega verið byggt ofan á húsið og það gert tveggja hæða. Fjórða húsið í þessari röð er svo Stórholt eða Bankastræti 3 orðið fokhelt. Í því húsi eru þrjár íbúðir. Vinstra megin við Bankastrætið, næst okkur, eru fjárhús og hlaða sem tilheyrðu Flankastöðum. Þar fyrir aftan er Höfðabrekka - Bankastræti 10 - í byggingu og handan við það er verið að byggja Bjarnarhöfn - Bankastræti 8. Nær höfðanum ofan við Höfðabrekku sér í fjós sem tilheyrði Kárastöðum. Húsið framan við Höfðabrekku er óþekkt og löngu horfið. Höfðakot er húsið sem er lengst frá okkur vinstra megin við götuna ásamt áföstum fjárhúsum. Vinstra megin við Stórholt er Skálholt en það hús stendur við Skagaveg. Hin húsin sem standa við Skagaveg eru Þórshamar, Þórsmörk og Héðinshöfði, sem sést bara hálfur á þessari mynd. Hinum megin við Skagaveginn er Bjarmaland. Húsið sem stendur eitt og sér lengst til hægri er Gunnarshólmi sem oft var kallað Grafarbakki því nærri því voru gamlar mógrafir. Húsið sem ber yfir Kárastaði er annað hvort Sólheimar eða Valhöll en þau bæði eru löngu horfin. Götumyndin sem blasir við frá sama stað af höfðanum í dag er gjörbreytt en það getur verið gaman að bera hana saman við þessa gömlu mynd.

Veitingahúsakvöld á Borginni sl. fimmtudag

Nemendur í 9. og 10. bekk Höfðaskóla héldu veitingahúsakvöld á Borginni sem fjáröflun fimmtudagskvöldið 29. janúar s.l. Verkefnið var unnið í samstarfi við Þórarinn Ingvarsson (Tóta) vert á Borginni og Markús Inga Guðnason kokk á Borginni. Hugmyndin kviknaði í kolli Tóta, en hann hafði unnið svipað verkefni á Mývatni. Erum við honum afar þakklát fyrir að leyfa okkur að framkvæma þessa hugmynd. Til að byrja með þurfti að skipuleggja þetta verkefni, haldinn var fundur með Tóta þar sem matseðill var útbúinn og verkefnum skipti milli nemenda. Ákveðið var að láta veitingastaðinn heita Borgin besta. Helmingur hópsins ætlaði að sjá um eldhúsvinnuna og helmingur um salinn. Matseðillinn var þannig uppbyggður að í boði voru 2 forréttir, 2 aðalréttir og 2 eftirréttir. Útbúin var auglýsing sem dreift var á Skagaströnd og í Skagabyggð. Áhugasamir þurftu síðan að panta veitingar fyrirfram. Daginn fyrir veitingahúsakvöldið var farið í Borgina, maturinn undirbúinn, salurinn teiknaður upp og raðað í sæti og hnífapör og glös pússuð. Á stóra deginum mættu nemendur kl. 14.30 og hófust handa við sín verkefni. Fólk fór að streyma að uppúr 18.30 og kl. 19. 00 byrjaði samkoman. Nemendur stormuðu fram og sungu kynningu á matseðlinum við mikinn fögnuð gesta: Humarsúpa og grafin gæs í forrétt. Færir gleðibros á mey og svein. Lambið litla kætir alltaf einhvern líkt og kjúklingur á grænni grein. Eftirrétturinn eplakaka er, eða pannacotta sæt. Setjumst hér að borðum kætumst svo með orðum, um eilífð vakir fögur minningin (Lag: Hafið bláa hafið, texti: Trostan Agnarsson) Því næst var þriggja rétta máltíðin borin fram með tilþrifum og stóðu kokkar og þjónar sig með stökustu prýði. Fólk var almennt ánægt með veitingarnar og þjónustuna en alls komu 75 gestir til okkar og var það fram úr okkar björtustu vonum. Við erum gestum okkar afar þakklát fyrir komuna. Öll innkoma kvöldsins rennur óskipt í ferðasjóð skólafélagsins Ránar, en Þórarinn gaf okkur allt hráefni, vinnuframlag sitt og Markúsar og leyfði okkur að stjórna Borginni eitt kvöld. Takk kærlega fyrir okkur. Fyrir hönd nemenda, Páll 10. bekk, Elín Ósk og Valgerður Guðný 9. bekk.