12.06.2014
Ernst Berndsen á siglingu
Ernst Berndsen (f. 2.6.1900 - d. 21.8.1983) á
Karlsskála siglir hér á bát sínum Helgu þó ekki sé leiðið gott.
Ernst var fyrsti hafnarvörður Skagastrandarhafnar og gegndi því
starfi í áratugi. Þá var hann lóðs í Húnaflóa og lóðsaði lítil og
stór skip til hafnar í höfnunum við flóann.
Ernst var lengi umboðsmaður fyrir Olíufélag Íslands - Olís en
jafnframt því sótti hann sjó á eigin trillum þegar færi gafst.
Þeir eru ófáir sjómennirnir sem fóru sinn fyrsta róður með Ensa,
eins og hann var kallaður, og lærðu hjá honum réttu handtökin á
sjó.
Nú síðasta vetur (2014) var Helgan gerð upp þannig að
siglingasögu hennar er ekki lokið en hún er nú í eigu
afkomenda Ernsts.
11.06.2014
Samþætting skólastiga, leikur að læra
Öllu starfsfólki grunn-og leikskóla Húnavatnssýslna var boðin þátttaka á námskeiðinu „Leikur að læra“ sem haldið var 5. júní s.l. á Hvammstanga.
Á námskeiðinu kenndi Kristín Einarsdóttir, íþrótta-og grunnskólakennari, hvernig nota má leik til að kenna börnum á aldrinum tveggja til tíu ára bókleg fög í leik og hreyfingu á skemmtilegan, líflegan og árangursríkan hátt.
Kennsluaðferðin Leikur að læra er þróuð með þarfir barna til að hreyfa sig að leiðarljósi. Aðferðinni er meðal annars ætlað að brúa bilið milli skólastiga, kenna í leik og tjáningu, minnka bóka- og borðavinnu og efla samvinnu nemenda.
Kynntar voru grunnhugmyndir kennsluaðferðarinnar og þátttakendur látnir fara í marga leiki sem hægt er að nota í kennslu.
Mynd: Þátttakendur og leiðbeinandi.
11.06.2014
Lillukórinn, kvennakór úr Húnaþingi vestra, verður með tónleika í Hólaneskirkju á Skagaströnd, fimmtudaginn 12. júní næstkomandi og hefjast þeir klukkan 20:30.
Kórstjóri er Ingibjörg Pálsdóttir, undirleikari og stjórnandi Sigurður Helgi Oddsson.
Efnisskráin er fjölbreytt bæði innlend og erlend lög.
Aðgangseyrir kr. 2000. Frítt fyrir 14 ára og yngri. Ekki hægt að greiða með kortum.
06.06.2014
Sjómannadagur 1943 eða 1944
Löng hefð er fyrir að halda sjómannadaginn hátíðlegan á
Skagaströnd fyrsta sunnudag í júni eða, eins og nú er gert,
á laugardeginum fyrir sjómannadag.
Þá er farið í ýmsa leiki sem gjarnan byggjast á því að einhvers
konar þrautir eru lagðar fyrir þátttakendurna í þeim. Þátttakendur
eru yfirleitt valdir úr hópi sjómanna eða einhverra þeirra sem
gegna opinberum stöðum á Skagaströnd.
Ávallt eru hátíðahöld sjómannadagsins fjölsótt, sama hvernig
veður er. Þessi myndin var tekin á sjómannadaginn 1943 eða 44,
eftir boðhlaupskeppni þar sem þátttakendur urður að hlaupa í
fullum sjóklæðum.
Frá vinstri: Ólafur Ásgeirsson, Ingvar Jónsson, Guðmundur Karlsson,
Björgvin Jónsson, Guðmundur Jóhannesson, Kristófer Árnason,
Gísli Jóhannesson, Hallgrímur Kristmundsson, Snorri Gíslason,
Þórarinn Jónsson, Skafti Björnsson og Jens Jónsson.
Myndin er úr safni Elísabetar G. Berndsen.
04.06.2014
Biskup Íslands hefur ákveðið að skipa séra Bryndísi Valbjarnardóttur í embætti sóknarprests í Skagastrandarprestakalli í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi. Bryndís hefur starfað sem afleysingaprestur á Skagaströnd frá því 1. september 2013. Hún tekur formlega við embætti 1. ágúst nk. Hún útskrifaðist úr guðfræðideild 2001 og vígðist til prest 2010.
Í Skagastrandarprestakalli eru sex sóknir. Þær eru: Hofssókn, Höfðasókn, Höskuldsstaðasókn, Holtastaðasókn, Bólstaðarhliðarsókn og Bergsstaðasókn.
02.06.2014
Sumaropnun bókasafns Halldórs Bjarnasonar og ljósmyndasafns Skagastrandar.
Í sumar verður bókasafni og ljósmyndasafnið opið alla virka morgna frá 8:00 – 12:00 á efstu hæðinni í gamla kaupfélagshúsinu. Allir velkomnir.
Lokað verður frá 15. júlí til 1. september.
Ólafur Bernódusson
02.06.2014
Í sveitarstjórnarkosningum 31. maí sl. voru tvö framboð til sveitarstjórnar. Ð-listi, Við öll og H-listi, Skagastrandarlistinn.
Kosningaúrslit á fóru þannig:
Ð-listi fékk 110 atkvæði og tvo menn kjörna; Steindór R. Haraldsson og Ingu Rós Sævarsdóttur
H-listi fékk 204 atkvæði og þrjá menn kjörna: Adolf H. Berndsen, Halldór G. Ólafsson og Róbert Kristjánsson
Kjörsókn á Skagaströnd var 91,85%
30.05.2014
Kvenfélagskonur úr kvenfélaginu Einingu sáu um veitingar í kveðjuveislu séra Péturs Þ. Ingjaldssonar (d. 1.6.1996) í nóvember 1982 í Fellsborg. Á myndinni eru þær sem báru hitann og þungann af framreiðslunni í veislunni.
Frá vinstri standandi: Erla Valdimarsdóttir (d. 29.9.2008), Anna Skaftadóttir, Halldóra Þorláksdóttir, Aðalheiður Guðmundsdóttir (d. 24.9.2011) og Ása Jóhannsdóttir.
Sitjandi eru Helga Ottósdóttir vinstra megin og Birna Blöndal hægra megin. Allar þessar konur tóku virkan þátt í starfi kvenfélagsins Einingar.
30.05.2014
Matjurtagarðarnir á Tótutúni hafa verið tættir og eru tilbúnir til notkunar. Garðarnir hafa verið lagaðir og er vonast til að þeir afvatni sig betur en undanfarin ár. Afnot af görðunum er öllum heimil og þarf ekki að leita heimildar til þess en fólk beðið að setja skýr mörk um þann reit sem sett er niður í.
Sveitarstjóri
30.05.2014
Vinnuskóli Skagastrandar hefst þriðjudaginn 3. júní 2014. Nemendur sem eru skráðir í vinnuskólann mæti við áhaldahús kl 9.00.
Skráning í Vinnuskóla Skagastrandar fer fram á skrifstofu sveitarfélagsins.
Sérstök athygli er vakin á að störf í vinnuskóla verða einungis fyrir nemendur sem eru að ljúka 8., 9. og 10. bekk.
Með tilvísun í reglugerð um vinnu barna og unglinga er einungis heimilt að ráða 13 ára og eldri til starfa í vinnuskólum. Því takmarkast ráðning í vinnuskóla við fyrrgreind aldursmörk.
Nánari upplýsingar eru veittar á skrifstofunni í síma 455 2700.
Sveitarstjóri