Sjósund á Skagaströnd

  Þeir eru margir sem sækja sjóinn frá Skagaströnd. Hún Katy Hertell, myndlistarmaður frá Finnlandi, fer hins vegar í sjóinn á Skagaströnd.  Og hvað í ósköpunum fær fólk til að baða sig í köldum sjó? Það vita varla aðrir en þeir sem hafa reynt það og þeir eru fjölmargir, jafnvel nokkrir á Skagaströnd.  Sjóböð ku vera svo óskaplega holl og góð. Fyrir utan þá vellíðan sem færist í kroppinn eftir stutt bað í köldum sjó er leitun að betra meðali gegn kvefi og raunar flestum öðrum kvillum. Sjá nánar bloggsíðu Sjósundmanna Íslands, http://sjosund.blogspot.com/.   Margir hafa séð meðfylgjandi mynd af Magnúsi B. Jónssyni sveitarstjóra kvótalausan á fiskiríi fyrir utan Skagaströnd (skyldi Sjávarútvegsráðuneytið vita af þessu ...?).   Annars væri ekki vitlaus hugmynd að stofna til sjóbaðfélags.  Áhugasamir geta hafa samband við Sigurð á skrifstofu sveitarstjórnar.  

Leirlistanámskeið í Bjarmanesi

Þriggja daga leirlistanámskeið verður haldið í kjallaranum á Café Bjarmanesi og hefst það miðvikudaginn 10. september. Það er Steinunn Ósk Óskarsdóttir, sem stendur fyrir námskeiðinu en hún hafði í sumar umsjón með veitingastaðnum í Bjarmanesi. Námskeiðið hefst klukkan 20 og stendur í tvær klukkustundir hvert kvöld. Steinunn Ósk veitir allar upplýsingar í síma 6929283.

Ævintýrið Skrapatungurétt 2008

Dagana 13. og 14. september verður mikið fjör í Austur Húnavatnssýslu, stóðsmölun á Laxárdal og réttir í Skrapatungurétt. Gestir eiga þess kost að slást í för með gangnamönnum á eyðidalnum Laxárdal og upplifa alvöru þjóðlegt ævintýri. Þátttakendur leigja hesta hjá heimamönnum eða mæta með sína eigin hesta. Stóðhrossin verða rekin til byggða á laugardeginum 13. september. Lagt er af stað frá Strjúgsstöðum í Langadal kl. 10. og síðan riðið sem leið liggur um Strjúgsskarð og norður Laxárdal. Athugið að aðstaða til að geyma hross nóttina fyrir smölunardag er við sandnámu við Strjúgsstaði (norðari afleggjari). Þátttakendur eru beðnir að virða að ekki er leyfilegt að reka laus reiðhross í stóðsmöluninni. Við Kirkjuskarðsrétt á Laxárdal er hópurinn um kl 14. Þar hvíla hestar og menn og fá sér að eta og drekka eftir þörfum. Veitingar verða seldar á staðnum. Ráðgert er að leggja af stað kl. 16 frá Kirkjuskarði. Þaðan er riðið norður í Skrapatungrétt sem er ein myndarlegasta stóðrétt landsins. Gestir og heimamenn heillast ávallt af tignarlegu stóðinu. Ferðamannafjallkóngur líkt og í fyrra verður Valgarður Hilmarsson forseti bæjarstjórnar Blönduóss. Hann er heimavanur á þessum slóðum og mun sjá um fararstjórn og leiðsögn ferðamanna í stóðsmöluninni. Fyrir þá sem heldur vilja koma á bíl til að fylgjast með gangnamönnum og réttarstörfum, er rétt að benda á að Skrapatungurétt er í um 15 mín. akstursfjarlægð frá Blönduósi en fram að Kirkjuskarðsrétt er aksturstími um 40 mín. Á laugardagskvöldinu verður auk hefðbundins matseðils sérstök stóðréttarmáltið í boði á Pottinum og Pönnunni Blönduósi.Opið verður á veitingahúsinu við Árbakkann þar sem í boði verður hefðbundinn matseðill. Á sunnudagsmorgun hefjast réttarhöld í Skrapatungurétt um kl. 11. Bændur ganga í sundur hross sín og reka þau svo í lok dags til síns heima. Oft finna karlar og konur sinn draumagæðing í smalamennskunni eða í réttunum. Stóðréttarhelgi Skrapatunguréttar er hátíð heimamanna og ferðafólks þar sem er spilað, sungið og skemmt sér að sið Íslendinga. Að þessu sinni slæst með í för kvikmyndatökulið. Unnið er að gerð heimildamyndar um viðburðinn. Allir gestir eru hjartanlega velkomnir. Nánari upplýsingar um þjónustu má fá í síma: 891 7863 eða í netfangi haukur@ssnv.is.

Listamenn í september

Í nýbyrjuðum september koma fjöldi listamanna til Skagastrandar og dvelja hjá Nes-listamiðstöð. Þeir heita: Ivetta Gerasimchuk, rithöfundur, Rússland, Jessica Langley, myndlistarmaður/málari, Bandaríkin Ben Kinsley, myndlistarmaður/skúlptúristi, Bandaríkin Kate Dambach, myndlistarmaður/málari, Bandaríkin Katy Hertell, myndlistarmaður/málari, Finnland Albane Hupin, myndlistarmaður/blönduð tækni, Frakkland Julien Toulze, myndlistarmaður/blönduð tækni, Frakkland Aglae Bassens, myndlistarmaður/málari, Belgíu Bryndís Bragadóttir, leikkona, Ísland