Hverjir eru á myndunum?

Í ljósmyndasafni Skagastrandar er þessa mynd að finna, þrír strákar standa undir húsvegg. Sá sem er lengst til vinstri er Hallbjörn Björnsson, sá í miðjunni gæti verið Birgir Júlíusson en sá lengst til hægri er óþekktur. Þá er hér gömul mynd úr safni Ewald Hemmerts, líklega tekin um 1920. Á henni eru tvö börn sem ekki er vitað hver eru Fyrir aftan þau til vinstri er assistanstofan, og pakkhúsið og verslunarhúsið, tvö síðarnefndu eru samtengd. Í síðustu viku birtist hér mynd af tveimur strákum á hjólum. Ljóst er nú hverjir þeir eru. Vinstra megin er Þorvaldur Skaftason og hægra megin er Ingþór Þorfinnsson. Myndin er líklega tekin um 1960. í síðustu viku var einnig birt mynd af körlum við flökun í Hólanesi. Nú er ljóst hverjir þrír þeirra eru. Sá fremsti er Bertel Björnsson, ekki er vitað hver sá næsti er, en þá kemur Þorvaldur Skaftasson og loks Björn Guðmundsson.  Hjalti Viðar Reynisson hjá Ljósmyndasafni Skagastrandar hvetur nú þá sem vilja leggja eitthvað til málana að hafa samband í síma 4552700 en hann er við fyrir hádegi alla virka daga. 

Haustgöngur 2010

Sveitarfélagið Skagaströnd hefur gert samning við fjallskiladeildir Skagabyggðar um að annast smölun á afrétti sveitarfélagsins. Fyrri göngur eru áætlaðar 11. september og seinni göngur 18. september nk. Gert er ráð fyrir að heiðin verði smöluð þessa daga til Fossárréttar og Kjalarlandsréttar en Borgin daginn eftir og þá verði réttað í Fellsrétt. Nánar er gerð grein fyrir þessu í gangnaseðlum fjallskiladeilda Skagabyggðar. http://www.skagastrond.is/frettir/users3/stjori/Gangnaseðill%202010.pdf Gangnaseðill í Spákonufellsborg er svohljóðandi: Fyrri haustgöngur fara fram sunnudaginn 12. september 2010. Seinni haustgöngur fara fram sunnudaginn 19.september 2010. Eftirleitir verða 25.september 2010. Gangnaforingi er Rögnvaldur Ottóson Réttarstjóri í fjárrétt er Sigrún Guðmundsdóttir Réttarstjóri í hrossarétt er Rögnvaldur Ottósson Farið fram Hrafndal og fram í Ármót, vestur Brandaskarð með hreppagirðingu að norðan. Spákonufellsborg að sunnanverðu að Hrafná að Fellsrétt. Undanskilin er skógræktargirðing. Í borgina leggi eftirtaldir til menn: Fyrri göngur Seinni göngur Rögnvaldur Ottósson 1 1 Hallgrímur Hjaltason 3 3 Magnús Guðmannsson 1 Guðjón Ingimarsson 2 2 Rúnar Jósefsson 1 Vignir Sveinsson 2 2 Í eftirleit fara fjórir menn. Þær annast Rögnvaldur Ottósson. Fjallskilanefnd Skagabyggðar, Skagabúð 29.ágúst 2010

Grafa notuð við hvalskurð

Á annan hátt er unnið að hvalreka nú á dögum en áður fyrr. Þá var hnífum og sveðjum beitt á hvalinn og hann skorinn niður í hæfilega hluta svo hægt væri að flytja hann heim á hestum eða gangandi. Þá var allt nýtt nema ef til vill beinin. Og þó ... dæmi eru um að þau hafi verið notuð til húsbygginga. Nú eru aðrir tímar. Steypireiðin á Skaga er unnin á annan máta. Í stað hnífa af öllum stærðum er brúkuð skurðgrafa af stórri gerð og vinnur hún hratt og vel á hræinu. Ekkert er lengur nýtt nema beinin því ætlunin er að hafa beinagrindina til sýnis fyrir fróðleiksfúsa námsmenn og aðra þá sem áhuga hafa. Og grafan mætti þess vegna kallast „hvalskurðgrafa“. Meðfylgjandi myndir voru teknar í gær. Ekki eru þeir öfundsverðir sem vinna við hvalinn. Þvílík ýldulykt var af honum að hún fannst upp í flugvélina ... og trúi því hver sem vill.