Kynningarfundir í Bjarmanesi á miðvikudag

Kynningarfundur um námskeiðið Sóknarbraut verður haldið í Bjarmanesi á morgun, miðvikudag, kl. 14:30. Þar verður sagt frá námskeiðinu en stefnt er að því að það hefjist 6. október. Námskeiðið hentar öllum þeim sem áhuga hafa á að stofna fyrirtæki eða reka nú þgar fyrirtæki. Engin krafa er gerð um neina menntun. Aðalatriðið er að hafa einhverja hugmynd um rekstur, viðbót við rekstur eða áhuga á því að styrkja þann rekstur sem fyrir er. Sóknarbraut fjallar um rekstur fyrirtækja þar sem áhersla er lögð á markaðssetningu, stjórnun og fjármál. Markmiðið er að veita þátttakendum hagnýta menntun og stuðning sem hvetur þá til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og nýta þau tækifæri sem eru til staðar.   Á kynningarfundinum í Bjarmanesi verður upp á kaffi og meðlæti og Kjartan Ragnarsson leikstjóri og forstöðumaður  Landnámssetursins  í Borgarnesi mun segja frá reynslu sinni og gefa góð ráð.   

Opið hús hjá Nesi listamiðstöð

Fimmtudaginn 23.september verður opið hús hjá Nesi listamiðstöð frá klukkan 18 til 20. Listamenn septembermánaðar bjóða Skagstrendingum og öðrum þeim sem áhuga hafa í heimsókn í vinnustofur sínar þar sem þeir munu sýna það sem þau hafa verið að vinna að undan farnar vikur.  Átta listamenn hafa dvalið hjá okkur í september og þeir eru: Andrea Weber – innsetningar og teiknari – Frakkland/Þýskaland Anja Fußbach – blönduð tækni – Þýskaland Brandon Vickerd – myndhöggvari – Kanada Caroline Piccioni – myndhöggvari – England Clint Wilson – videólistamaður – Kanada Erica Mott – dansari – Bandaríkin Louise Mary Thomas – listmálari – England Marion Bösen – silkiprentari – Þýskaland Á sama tíma munu þær Marion og Anja hafa skiptimarkaðinn sinn opin. Öllum er velkomið að koma með eitthvað sem handgert og skipta við þær og fá í staðinn listaverk að eigin vali.  Það er t.d. hægt að koma með handverk eða bjóða þeim í bíltúr og sýna þeim eitthvað skemmtilegt. Einnig má segja þeim sögur eða jafnvel færa þeim eitthvað nýbakað eða eldað.  Notum hugmyndaflugið og skiptum.

Búist er við vatnsleysi/truflun á morgun.

Búist er við vatnsleysi/truflun um allan bæ á morgun 21. september 2010 milli 08:00-12:00. Sveitarstjóri

Mynd vikunnar

Ljósmyndasafn Skagastrandar leitar einn til þeirra sem hugsanlega telja sig þekkja til. Hér er myndin af mannfagnaðinum sem birt var fyrir viku. Líklega er hún tekin í kveðjuhófi við starfslok Páls Jónssonar skólastjóra 1968 ,hafði hann þá  gegnt skólastjórastarfi í tæp 30 ár. Innst eru Sigríður Guðnadóttir og Páll Jónsson næst honum er Þorfinnur Bjarnasson, Margrét Konráðsdóttir, Kristinn Pálsson, Björgvin Jónsson, Hallbjörn Hjartarson og síðast er Ingólfur Ármannsson. Þá er hér önnur mynd sem Guðmundur Guðnason tók líklega öðru hvoru megin við 1960. Átta menn eru við vegagerð eða vinnu í flagi. Fjórir þeirra standa fyrir framan  jarðýtutönn, hinir sitja uppi á henni. Nú spyr, Hjalti Viðar Reynisson, hjá Ljósmyndasafninu, hvort einhverjir viti nöfn þessara manna, hvenær myndin var tekin og ekki síst við hvað þeir eru að vinna. Síminn hjá Hjalta er 455 2707 og netfangið myndasafn@skagastrond.is

Vísindakaffi í Kántrýbæ á fimmtudaginn

Fræðasetur HÍ á Norðurlandi vestra og Rannís bjóða í Vísindakaffi í Kántrýbæ á Skagaströnd fimmtudaginn 23. september kl. 20-21:30 undir fyrirsögninni Mikilvægi munnlegrar sögu, Kynning á verkefni Fræðasetursins á Skagaströnd. Markmiðið með Vísindakaffi er að færa vísindin nær almenningi og kynna það rannsóknastarf sem stundað er í landinu á aðgengilegan hátt. VÍSINDAVAKA – stefnumót við vísindamenn verður Í Listasafni Reykjavíkur föstudaginn 24. september Dagskrá fundarins verður sem hér segir:  Rósa Þorsteinsdóttir: Gamall fróðleikur á nýju formi. Sagt frá þjóðfræðisafni Árnastofnunar og hvernig efni úr því er gert aðgengilegt, m.a. í gagnagrunninum Ísmús. Upptökurnar sem Rósa spilar úr segulbandasafninu eru frá Norðurlandi vestra. Rósa er þjóðfræðingur við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.  Soffía Guðný Guðmundsdóttir: Samstarfsverkefni um stafrænt hljóðskjalasafn að frumkvæði Fræðasetursins. Sagt frá víðtæku samstarfi um varðveislu munnlegra heimilda og opinn aðgang að þeim á netinu. Samstarfsaðilar Fræðasetursins eru Ísmús/Músik og saga ehf., Tónlistarsafn Íslands, Miðstöð munnlegrar sögu, Árnastofnun og Landsbókasafn. Soffía er verkefnisstjóri samstarfsins. Birna Björnsdóttir: Munnleg saga - áhugaverð leið til að læra sögu. Birna er kennari við Lindaskóla og hefur beitt aðferð munnlegrar sögu við kennslu þar. Hún segir frá aðferðinni og sýnir dæmi um nemendaverkefni.  Lára Magnúsardóttir: Viðfangsefni og framtíðarsýn á Fræðasetri HÍ á Skagaströnd.  Markmiðið með Vísindakaffi er að færa vísindin nær almenningi og kynna það rannsóknastarf sem stundað er í landinu á aðgengilegan hátt. VÍSINDAVAKA – stefnumót við vísindamenn verður Í Listasafni Reykjavíkur föstudaginn 24. september

Kynningarfundur um námskeið um stofnun og rekstur fyrirtækja

Boðið verður upp á hagnýtt námskeið um stofnun og rekstur fyrirtækja þar sem þátttakendur vinna með eigin hugmyndir eða fyrirtæki. Kynningarfundur verður haldinn um námskeiðið í Bjarmanesi miðvikudaginn 22 september kl. 14:30. Það er Impra á Nýsköpunarmiðstöð Íslands í samvinnu við SSNV og Sveitarfélagið Skagaströnd og Blönduósbæ sem stendur fyrir námskeiðinu.       Boðið verður upp á hressingu á meðan frekari kynning á námskeiðinu fer fram og eins mun Kjartan Ragnarsson leikstjóri og forstöðumaður  Landnámssetursins  í Borgarnesi segja frá reynslu sinni og gefa góð ráð.  Grundvöllur námskeiðsins Námskeiðið Sóknarbraut er námskeið um rekstur fyrirtækja þar sem áhersla er lögð á markaðssetningu, stjórnun og fjármál.  Markmiðið er að veita þátttakendum hagnýta menntun og stuðning sem hvetur þá til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og nýta þau tækifæri sem eru til staðar.   Kennslan fer fram á fræðilegum og faglegum grunni og á námstímanum vinna þátttakendur að ákveðnu verkefni sem byggir á þeirra eigin viðskiptahugmynd.  Fyrirhugað er að hafa tvo hópa, náist nægilegur fjöldi þátttakenda, og kennt verður á miðvikudögum:  Blönduós – frá 09:00-13:00 Hvammstangi- frá 14:00-18:00 Fyrirkomulag  Hugmyndin að baki námskeiðinu byggir á að brúa bilið á milli hugmyndar og markvissrar framkvæmdar með því að leiðbeina og þjálfa þátttakendur í því að takast á við frumkvöðlastarf, stjórnun og rekstur fyrirtækis.  Námskeiðið byggir á fyrirlestrum, þjálfun, viðtölum og verkefnum sem tengjast þeirri hugmynd sem hver einstaklingur vinnur að hverju sinni.  Meðal verkefna sem unnin verða eru markaðsáætlun, kynning á viðskiptahugmynd, fjárhagsáætlun og verkáætlun.  Námskeiðið er alls 40 kennslustundir sem skiptast í 10 hluta auk þriggja opinna vinnusmiðja sem þátttakendur geta mætt í og unnið að sínu verkefni undir handleiðslu leiðbeinanda.  Hver hluti er fjórar klst. Stefnt er að því að námskeiðið hefjist 6. október. Fyrir hverja? Námskeiðið Sóknarbraut er fyrir núverandi og verðandi stjórnendur minni fyrirtækja.  Námskeiðið hentar vel einstaklingum sem starfa sem stjórnendur í minni fyrirtækjum og einstaklingum sem hafa hug á að hrinda í framkvæmd viðskiptahugmynd eða stofna eigið fyrirtæki.   Sóknarbraut er opið jafnt körlum sem konum og ekki er gerð krafa um sérstaka undirbúningsmenntun, þátttakendur þurfa einungis að hafa viðskiptahugmynd til að vinna með á námskeiðstímanum.  Umsóknareyðublöð má finna á vefsíðu Impru (www.impra.is ). Skráningarfrestur er til 29. september. Kynningarfundir og skráning Þrír kynningarfundir um Sóknarbraut verða haldnir miðvikudaginn 22. september á Blönduósi, Skagaströnd og Hvammstanga eftir því sem hér segir: Potturinn og pannan á Blönduósi kl. 12:00 Bjarmanes á Skagaströnd kl. 14:30 Hlaðan Kaffihús á Hvammstanga kl. 17:00 Boðið verður upp á hressingu á meðan frekari kynning á námskeiðinu fer fram og eins mun Kjartan Ragnarsson leikstjóri og forstöðumaður  Landnámssetursins  í Borgarnesi segja frá reynslu sinni og gefa góð ráð.  Nánari upplýsingar má nálgast hjá Selmu Dögg Sigurjónsdóttur  á netfanginu selma@nmi.is eða í síma 522 9434. Skráning fer fram á heimasíðu Impru, www.impra.is. 

Vatnslaus í tveimur götum á morgun

Vatnslaust verður í efrihluta Bogabrautar og Skeifu á morgun, föstudaginn 17. september, frá klukkan 8 til 9:30. Ástæðan eru tengingar á vatnslögnum.

Met uppskera á byggakri á Skagaströnd

„Þetta þykir nú bara ansi gott, fimm tonn af einum hektara,“ segir Jónatan Líndal frá Holtastöðum í Langadal. Hann stendur á kerruupalli og bíður eftir Júlíusi, bróður sínum, sem ekur þreskivélinni um byggakurinn á Skagströnd. „Heima fengum við tvö tonn af hverjum hektara en það var í sandi og þurrkar og sólbruni fóru illa með uppskeruna,“ bætir hann við. Glæsileg sjón sem blasti við þeim sem rötuðu út á vetrarveg á Skagaströnd enda afar sjaldgæft að sjá stóra þreskivél á akri á þessum slóðum, raunar skiptir stærðin litlu máli, eins og sagt er, því akuryrkja hefur ekki tíðkast í manna minnum á þessum slóðum. Jónatan er ekki viss en nefnir að hvergi á Íslandi sé byggakur norðar. Hallbjörn Björnsson, frumkvöðullinn í byggrækt á Skagaströnd og einn af akurmönnum, rámar þó í að á Tjörnesi sé akur og sá er nokkru norðan en Skagaströnd. Hann vildi þó ekki fullyrða neitt um það. Hallbjörn hefur lengi verið áhugamaður um byggrækt á Skagaströnd en átt fáa formælendur þar til hann fann Adolf Berndsen og saman hófu þeir akuryrkjuna í fyrra. „Núna er miklu betri uppskera,“ segir Hallbjörn. „Við erum með tvær tegundir af byggi, þær heita Þyrill og Olsok. Sú síðarnefndi hefur reynst aðeins betur. Í fyrra vorum við með fjórar tegundir og fækkuðum þeim í þessar tvær í ár. Svo bárum við skeljasand á akurinn enda er það trú manna að kalkið hafi góð áhrif á vöxtinn. Nú svo skiptir miklu máli að rækta samfellt á sama akri, það bætir moldina og smám saman eykst afraksturinn. Vandinn hjá okkur er hins vegar sá að það er mikil bleyta í moldinni. Framræsluskurðir eru illa stíflaðir og því ekki von á góðu. Klaki í moldinni á vorin, síðan drulla sem tefur ferðir véla. Við verðum endilega að fá skurðina lagfærða fyrir næsta ár.“ Hallbjörn er ánægður með uppskeruna. Telur hana verða um fimm tonn og svo lýsir hann axinu, telur sex korn í ummálið og allt að tólf þar upp. „Þetta er bara með því besta sem gerist,“ segir hann, og Jónatan Líndal tekur undir það: „Við bjuggumst alls ekki við þessari uppskeru en kannski er moldin hérna útfrá betri en sandurinn inni í dölum. Þurrkar hafa ekki áhrif á uppskeruna hér né heldur óhóflegt sólskinið.“

Frumlegur skiptimarkaður opnaður í dag

Í dag, fimmtudaginn 16.september, verður opnaður skiptimarkaður í Nesi listamiðstöð klukkan 18:00. Fyrir honum standa listakonurnar Marion Bösen og Anja Fuβbach frá Þýskalandi. Skiptimarkaðurinn fer þannig fram að allir geta komið með eitthvað sem þeir hafa gert sjálfir og skipt því fyrir listaverk eftir þær Anja, Marion og vini þeirra.   Eins og sjá má að upptalningunni hérna fyrir neðan er hægt að skipta við þær á nánast hverju sem er svo lengi sem viðskiptavinurinn býr til sjálfur eða framkvæmir sjálfur. Ekki er nauðsynlegt að koma með eitthvað til að skipta við þær strax í dag. Hægt er að kíkja inn og skoða hvað er í boði. Síðan máfara heim, velta málinu fyrir sér og nota hugmyndaflugið til að búa til eða gera eitthvað fyrir þær í skiptum fyrir plakat, geisladisk eða dvd. Þær Anja og marion segja: Við viljum bjóða þér okkar eigin listaverk til skiptanna, grafíkverk, bækur, geisladiska, stuttmyndir og dvd. Ef þú hefur áhuga þá skaltu endilega koma og við skiptum: Ef þú ert ljósmyndari þá geturðu tekið myndir af okkur Ef þú ert bakari geturðu bakað köku handa okkur Ef þú átt bát þá geturðu farið með okkur í bátsferð Ef þú ert listamaður þá getum við fengið verk frá þér Ef þú átt hesta þá getum við farið í sameiginlegan reiðtúr Ef þú ert góður kokkur þá geturðu elda fyrir okkur Eða þú ferð með okkur í Kántrýbæ Eða þú ferð með okkur í sund Eða þú segir okkur sögur Eða þú ferð með okkur á safn Eða þú gerir bara eitthvað allt annað í skiptum fyrir hluti frá okkur Veltu fyrir þér hvað það er sem þig langar í og hvað það er sem þú vilt að við fáum í staðinn. Við ætlum að gera heimildarmynd um þennan skiptimarkað og sýna heima í Bremen. Markaðurinn verður opnaður 16. september klukkan 18:00. Sýningartími (skiptitími) er á fimmtudögum, föstudögum og laugardögum frá klukkan 15:00 - 18:00 að Fjörubraut 8 Skagaströnd.  Sýningin er opin alla virka daga frá klukkan 10:00 til 17:00.

Fiskafli á Skagaströnd eykst um 10%

Landaður afli í Skagastrandarhöfn kvótaárið 2009-2010 jókst um 10,3% frá kvótaárinu 2008-9. Eins og flestum mun vera kunnugt um er kvótaárið miðað við september til ágúst næsta ár. Á nýliðnu kvótaári bárust 9.106 tonn á land á Skagaströnd, þar áður voru þau 8.259 og 2007-8 var aflinn 6.004.  Eins og fram kemur á meðfylgjandi súluriti berst langmestur afli best yfirleitt á land í október, nóvember og desember en minnst yfir vori og sumar.