Mikil fjölgun gesta í Spákonufellshöfða

Miklu fleiri gestir skoðuðu sig um á Spákonufellshöfða á því sumri sem nú er að líða en í fyrra. Alls skráðu 489 manns nafn sitt í gestabók í Höfðanum í sumar en í fyrra voru þau alls 193. Munurinn er talsverður og verður hann ekki aðeins skýrður með tilvísun í einstaklega gott veður heldur má líta til þess að gefin hefur verið út veglegur bæklingur um gönguleiðir í Höfðanum og hann endurútgefinn tvisvar. Líklegt err að hann hafi náð ágætri útbreiðslu. Gestabók er ekki endilega góður mælir á fjölda gesta. Gera má ráð fyrir að fjölmargir skrifi ekki nafn sitt í hana, ýmist vegna þess að þeir fari ekki þangað sem hún er staðsett eða þeir hreinlega vilja það ekki af einhverjum ástæðum. Hvort gestir í Spákonufellshöfða eru tvöfalt fleiri eða þrefalt er tilefni í hollar vangaveltur. Flestir gestir komu í juní og ágúst í sumar, 178 og 191, en í fyrra var gestafjöldinn svipaður í júlí og ágúst, 65 og 95 gestir. Íslendingar eru langflestir af gestum í Höfðanum, bæði árin eru þeir 72% þeirra. Af áritinun í gestabókinni kemur í ljós að margir þeirra eru heimamenn og koma sumir margoft. Næstfjölmennastir eru Þjóðverjar og þó þeim hafi fjölgað frá því í fyrra en hlutfall þeirra lægra, fór úr tæpum 11% í 5,5%. Af öðrum gestum má nefna Frakka, Dani, Austurríkismenn, Spánverja, svisslendinga, Bandaríkjamenn og Breta. Gera má ráð fyrir að stór hluti útlendinga sem leggja leið sína í Spákonufellshöfða séu listamenn frá Nes listamiðstöðinni á Skagaströnd. Fjölmargir þeirra hafa sagst leita í Höfðann eftir listrænum innblæstsri og jafnvel er það til að þeir hafi verið með listræna gerninga í honum. Að lokum má nefna að gestir í Höfðanum koma víða að, t.d. frá Ástralíu, Nýja Sjálandi og jafnvel Malasíu.

26 skip í Skagastrandarhöfn

Bræla er á miðum og höfnin á Skagaströnd full af skipum af öllum stærðum og gerðum. Telst mönnum svo til að um 26 fley liggi nú í höfninni. Frystitogarinn Arnar kom inn á sunnudaginn. Grindvíkingurinn Páll Jónsson GK7 liggur inni, svo og Valdimar GK195, Hellnavík SU59 og fleiri og fleiri. Meðfylgjandi myndir voru teknar í gær og sést á þeim að þröngt er á þingi en unnið við viðhald og lagfæringar og svo er lokið við að ísa og ferma flutningabíla sem hverfa á braut með aflann. 

Opið fyrir styrkumsóknir í Vaxtasamninginn

Næsti umsóknarfrestur um styrki úr Vaxtarsamningi Norðurlands vestra rennur út 15. október nk. Forgang hafa verkefni á sviði menntunar og rannsókna eða ferðaþjónustu og menningar.  Eingöngu koma til greina verkefni, sem eru unnin í samstarfi tveggja eða fleiri aðila. Ekki er heimilt að veita styrki til fjárfestinga í fyrirtækjum eða til reksturs fyrirtækja eða opinberra stofnana, auk þess sem stofnkostnaður er ekki styrkhæfur. Styrkur getur að hámarki numið 60 % af heildarkostnaði við hvert einstakt verkefni. Nánar um forgangsflokka verkefna: Menntun og rannsóknir Einkum koma til greina hagnýt rannsóknarverkefni sem tengjast: bættri nýtingu afurða úr landbúnaði og sjávarútvegi á Norðurlandi vestra, ekki síst með tilliti til sjálfbærni, umhverfisverndar og auðlindalíftækni  uppbyggingu þekkingar og eflingu þekkingarsetra á Norðurlandi vestra  Ferðaþjónusta og menning Til greina koma verkefni er stuðla að eflingu ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra, einkum á sviði sagnaarfsins íslenska hestsins náttúru og umhverfis handverks Vaxtarsamningi Norðurlands vestra er ætlað að stuðla að uppbyggingu klasa á áðurtöldum sviðum.  Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér þau verkefni, sem þegar hafa hlotið styrki á vegum samningsins, með þéttingu samstarfsnets fyrir augum. Umsóknareyðublöð er að finna á www.vnv.is. Nánari upplýsingar veitir framkvæmdastjóri, í síma 455 7931, netfang hjordis.gisladottir@ssnv.is

Fullt hús á málþingi um Jón Sigurðsson

Góð aðsókn var að málþingi Fræðaseturs Norðurlands vestra um Jón Sigurðsson sem haldið var sunnudaginn 12. september. Miklar umræður fóru fram um erindin og komu margir landsþekktir einstaklingar með sýn sína á umræðuefnið. Ráðstefnan nefndist Framtíð Jóns Sigurðssonar - karlar á stalli og ímyndasköpun.Markmiðið var að skoða með hvaða hætti minningin um Jón forseta sem leiðtoga Íslendinga í sjálfstæðisbarátturinn varð til og mótaðist í íslensku samfélagi á fyrstu áratugunum eftir andlát hans. Frummælendur á málþinginu voru sagnfræðingarnir Sigurður Gylfi Magnússon, Páll Björnsson og Guðmundur Hálfdanarson og Jón Karl Helgason, bókmenntafræðingur.  Meðfylgjandi myndir tók Adolf Berndsen.

Næsti fundur sveitarstjórnar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar fimmtudaginn 16. september 2010 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800. Dagskrá: 1. Endurskipulagning almannavarna í A-Hún 2. Regluverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 3. Deiliskipulag Hólaness 4. Lokun urðunarstaðar 5. Bréf: a) Fjárlaganefndar Alþingis dags. 8. sept. 2010. b) Velferðarvaktarinnar, dags. 1. sept. 2010. c) Svæðisráðs málefna fatlaðra, dags. 18. júní 2010. 6. Fundargerðir: a) 18. ársþings SSNV, 27.-28.08.2010 b) Aðalfundar Menningarráðs Norðurlands vestra, 27.08.2010 c) Stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 26.08.2010 7. Málefni grunnskólans 8. Önnur mál Sveitarstjóri

Aðalfundur foreldrafélags Höfðaskóla

Stjórn foreldrafélags Höfðaskóla boðar til aðalfundar félagsins og verður hann haldinn fimmtudaginn 23. september 2010 klukkan 20:00 í Höfðaskóla Dagskrá fundar fundarins verður þessi:  Skýrsla formanns. Reikningar lagðir fram. Kosning nýrrar stjórnar. Kosning í skóla- og fræðsluráð. Önnur mál.

Arnór sigraði í punktamótum sumarsins

Nú er nýlokið punktamótum sumarsins hjá Golfklúbbi Skagastrandar en það eru kvöldmót sem haldin eru vikulega allt sumarið og spilaðar 9 holur hverju sinni.  Alls voru haldin 15 mót og tóku alls tæplega 40 golfarar þátt í þeim. Að meðaltali voru um 15 keppendur hvert kvöld.  Þrír stigahæstu golfararnir voru sem hér segir: 1. Arnór Snorri Gíslason GSK 2. Marteinn Óli Reimarsson GÓS 3. Jón Árni Bjarnason GÓS Nú standa yfir töluverðar vallarframkvæmdir á Háagerðisvelli. Verið er að stækka og lagfæra nær alla teigana á vellinum.   Markmiðið er að bæta verulega þá aðstöðu sem nú er til staðar og auðvelda hirðingu teiganna. Alls hafa um 100 rúmmetrar af efni verið notaðir við stækkunina og um 700 ferm. af þökum verða lagðir þar ofaná.  Starfsmenn Sorphreinsunar Vilhelms Harðarsonar hafa séð um framkvæmdirnar. 

Mynd vikunnar

Páll Jónsson var skólastjóri Höfðaskóla í fjölda ára. Á meðfylgjandi mynd situr hann og kona hans Sigríður Guðnadóttir öndvegi. Myndin er tekin í skólastofu, kaffi og kökur eru á borðum og klukkan á veggnum virðist frekar vera tíu en tólf.  Nú veltir Hjalti Viðar Reynisson, umsjónarmaður Ljómsyndasfans Skagastrandar, fyrir sér hverjir séu á myndinni, í hvaða tilefni þetta samsæti er haldið og ekki síst hvenær. Þeir sem til þekkja eru hvattir til að hafa samband við Hjalta alla virka daga fyrir hádegi, en síminn er 455 2700.

Framtíð Jóns Sigurðssonar – Karlar á stalli og ímyndasköpun

Fræðasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra stendur fyrir málþinginu sem haldið verður sunnudaginn 12. september 2010 kl. 13-16:30 í Bjarmanesi á Skagaströnd. Á málþinginu verður sjónum beint að því með hvaða hætti minningin um Jón forseta sem leiðtoga Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni varð til og mótaðist í íslensku samfélagi á fyrstu áratugunum eftir andlát hans.  Málþingið ætti að vera sérstaklega áhugavert fyrir þá sem hafa áhuga á menningartengdri ferðaþjónustu og ímyndarmálum. Á málþinginu tala sagnfræðingarnir Sigurður Gylfi Magnússon, Páll Björnsson og Guðmundur Hálfdanarson og Jón Karl Helgason bókmenntafræðingur. Þeir ræða hvernig þjóðin hefur kosið að muna fortíð sína, um Jón Sigurðsson sem samherja í pólitískum hitamálum, hvernig hugmyndin um hetjuna hefur bæði verið notuð til að réttlæta tilvist Háskóla Íslands og til að gagnrýna starfsemi hans og spurt verður um framtíð þjóðardýrlingsins.  Í lokin verður góður tími til umræðna. Nánar um dagskrá og fyrirlestra í viðhengi. Kántrýbær er opinn á laugardagskvöldinu og á sunnudag í hádeginu og eftir ráðstefnu.  Þeir sem hafa áhuga á gistingu á Skagaströnd vinsamlega hafi samband við Ólafíu Lárusdóttur  í síma 8987877. Af gefnu tilefni má taka fram að ökuferð milli Reykjavíkur og Skagastrandar tekur rétt rúmar þrjár klukkustundir. Þeim sem vilja samnýta bílferðir er bent á samferda.is. Lára Magnúsardóttir er forstöðumaður Rannsókna- og fræðaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra. Netfang setursins er nordurlandvestra@hi.is

Hola í höggi á afmælisgolfmóti

Sameiginlegt mót Golfklúbbs Skagastrandar og Golfklúbbsins Óss á Blönduósi var haldið síðasta laugardag og var tilefnið 25 ára afmæli beggja klúbbanna á þessu ári. Alls tóku 36 golfarar þátt. Mótið var fyrst og fremst til skemmtunar og því var spilaformið svokallað „Texas Scramble“ með forgjöf. Var keppendum raðað upp eftir forgjöf, skipt í miðju og svo dregið saman, einn úr hvorum helmingi. Fyrri níu holurnar voru leikanar á vellinum í Vatnahverfi við Blönduóss og seinni níu holurnar á Háagerðisvelli á Skagaströnd. Veðrið var stórkostlegt, hitinn var yfir 20 gráður og sólin brosti sínu blíðasta svo svitinn bogaði af hamingjusömum keppendum. Úrslit urðu sem hér segir: Sólveig Sigurjónsdóttir GA og Halldór Halldórsson GSS 60 högg Arnór Snorri Gíslason GSK og Brynjar Bjarkason GSS 62 högg Björgvin Jónsson GÓS og Björn Sigurðsson GSS 63 högg Einnig voru veitt nándarverðlaun á par 3 brautum og fyrir fæst pútt. Á mótinu fór einn golfari holu í höggi á 4. braut á Blönduósi, sem er 164 m par 3 hola. Sá heitir Sigurður Sigurjónsson GKG. Mótinu lauk með pizzuhlaðborði í Kántrýbæ þar sem verðlaun voru afhent þar sem meðfylgjandi myndir voru teknar. Efsta myndin er af sigurvegurum mótsins, Sólveigu Sigurjónsdóttur, GA, Halldóri Halldórssyni, GSS. Næsta mynd þar fyrir neðan er af Sigurði Sigurjónssyni, GKG, sem fór holu í höggi á Blönduósvelli.