Góðan daginn, fínt veður eins og alltaf ...

Veðrið í dag á Skagaströnd í dag er mjög svipað því sem það var í desember. Nú er hæg norðaustanátt, 7 m/s, og frost er 3,5 gráður, sem er nokkuð lægra en meðalhitinn í síðasta mánuði, en hann var 0,5 gráður.  Ástæða er til að vekja athygli á sjálfvirkri veðurathugunarstöð sem staðsett er við höfnina. Hér vinstra megin er linkur á hana og þar er m.a. hægt að sjá hitastig, vindhraða, vindátt, flóðatöflu og flóðahæð. til viðbótar er hægt að skoða veðrið langt aftur í tímann en upplýsingar skrást sjálfvirkt á tíu mínútna fresti.

Enn metafli á Skagaströnd

Aldrei hefur komið meiri afli að landi á Skagaströnd en síðustu fjóra mánuði liðins árs en þeir eru raunar fyrstu mánuðir nýs fiskveiðiárs, sem nær frá byrjun september til ágústloka. Síðustu árin hefur mikill fiskur borist á landi eins og sjá má á eftirfarandi tölum:  Árið 2007-08 6,0 þúsund tonn. Árið 2008-09 8,3 þúsund tonn. Árið 2009-10 9,1 þúsund tonn. Aðeins er þriðjungur fiskveiðiársins 2010-11 liðinn og nú þegar er aflinn 6,2 þúsund tonn.  Af þessu má sjá að nú þegar er aflinn meiri en allt fiskveiðiári 2007-08. Og sé miðað við sömu mánuði undanfarin ár er ljóst að aflinn er miklu meiri en áður hefur þekkst.

Frekar hlýtt og lygnt í desember á Skagaströnd

Veðurstofa Skagastrandar hefur gefið út yfirlit yfir veðrið á Skagaströnd í nýliðnum desember. Í stuttu máli hefur veðrið verið til lítilla vandræða. Meðalhitinn mánaðarinn skreið rétt yfir frostmark, var 0,5 gráður. Hlýjasti dagur mánaðarins var sá 26. er hitinn fór upp í 8 gráður að meðaltali. Tæpri viku áður hafði þó mælst kaldasti dagurinn. Frá 16. og fram til 25. desember ríkti kuldakafli sem náði lágmarkinu þann 21. en um klukkan 15:40 þann dag var kaldast, -9,8 gráður. Eftir það losaði frostið og á jóladag var hitinn kominn upp í frostmark og hlýtt var fram á gamlársdag en þá var meðalhitinn -0,5 gráður. Vindgangur á Skagaströnd, ef svo má að orði komast, var með ágætum í desember. Að meðaltali var blásturinn um 7,2 m/s sem þykir nú varla mikið. Hvassast var þann 18. desember en þann dag mældist 14,8 m/s að meðaltali. Lygnast var í upphafi mánaðarins, þá mældist 1,7 m/s í tvo daga, 2. og 3. desember. Enn er ekki úrkoma mæld á Skagaströnd þó er ljóst að stundum rignir og stundum snjóar. Það gerist hins vegar aldrei samtímis. Veðurstofa Skagastrandar hefur gefið út veðurspá fyrir janúar. Í stuttu máli mun ýmist snjóa eða rigna í mánuðinum. Oft verður úrkomulaust. Stundum frystir en þó verður hitastigið oftar en ekki yfir frostmarki. Nánari upplýsingar um veður veitir útibúið, Veðurstofa Íslands.