Sumaropnun

Í júlí og ágúst verður skrifstofa Sveitarfélagsins Skagastrandar opin frá 10:00 til 14:00 vegna sumarfría starfsfólks. Sveitarstjóri

Veðrið á Skagaströnd í júní

Meðalhitinn á Skagaströnd í júní var 5,9 gráður en á sama tíma var 9,2 gráðu meðalhiti í Reykjavík og 6,2 gráður á Akureyri. Skýringin er eflaust sú að köld norðan- og norðaustanáttin á sér auðveldar uppdráttar á Skagströnd en á hinum tveimur stöðunum. Raunar var norðaustanáttin ráðandi í mánuðinum og því létu bæði vor og sumar á sér standa - í bili. Engu að síður er júní hlýjasti mánuðurinn ársins hingað til en litlu munar á honum og maí.   Hitafar Sé litið á meðalhita hvers sólarhrings í maí var kaldast frá 7. til 9. júní fór þá hitinn niður í 4,7 gráður, síðan upp í 4,1 og aftur niður í 3,1. Eftir það hlýnaði og fór hitinn ekki aftur niður fyrir 4,6 gráður í mánuðinum.  Meðalhitinn seguir þó ekki allt. Um nóttina þann 7. júní var ansans ári kalt. Fór þá hitinn kl. 3:20  niður fyurir frostamark og rokkaði þar allt niður í -0,8 gráður á næsta klukkutímanum en síðan hefur hitatigið haldið sig réttu megin við núllið. Vindgangur Meðalvindhraði í júní var 6,4 metrar á sekúndu (m/s) en hviðurnar voru 9,7 m/s. Þetta er í raun afar svipað og í maí og auðvitað miklu betra en í öllum liðnum mánuðum ársins Þó var lygnara í nóvember á síðasta ári en þá mældist meðalvindhraðinn 5,7 m/s. Með sanni má segja að aldrei hafi verið verulega hvasst í júní. Þetta má glögglega sjá á meðfylgjandi línuriti. Rauða línan nær þar sárasjaldan upp í tíu metrana og hvíðurnar voru slappar. Í orðsins fyllstu merkinu má fullyrða um vindganginn að ekki sé hægt að gera neitt veður út af honum. Vindáttir Kuldinn í júní er auðvitað ekki af mannlegum völdum þó svo mann gruni nú ríkisstjórnina um græsku. Þá má sjá á meðfylgjandi vindrós að vindurinn lá að langmestu leyti í norðri, norðaustri eða austri. Það þýðir að 80% tímans blés’ann úr þessum áttum, samviskulaus og hundleiðinlegur.  Hver? Hver, hvað? Nú hver blés? Það veit ég ekkert um. Kannski Kári, kannski vindurinn … Mér kemur það ekkert við, ég túlka bara veðurupplýsingar og svona tekur maður til orða. Þú ert ekki nógu skýr í framsetningu … Æi, farðu út og leiktu þér  - það er ef hundi er út sigandi. Hundi, hvað? …

Opnun Spákonuhofs

Menningarfélagið Spákonuarfur á Skagaströnd opnaði í gær Spákonuhof sitt sem hefur verið í uppbyggingu frá því á síðasta ári. Fjölmenni var við opnunina og var gerður góður rómur að glæsilegri aðstöðu og sýningunni sem þar hefur verið sett upp.  Spákonuhofið hýsir sýningu sem tileinkuð er Þórdísi spákonu en hún var fyrsti nafngreindi landnámsmaðurinn á Skagaströnd. Hennar er minnst m.a. með afsteypu af sögupersónunni sem stendur við hús sitt, refli sem segir sögu Þórdísar auk annara leikmuna sem tengjast sögu hennar. Með leikmunum og texta er einnig reynt að varpa ljósi á ýmsar spáaðferðir. Börn geta átt góðar stundir með sögupúsluspilum og fleiru.  Á tjaldi má m.a. sjá upptöku af leiksýningunni Þórdís spákona sem Spákonuarfur setti á svið árið 2008. Síðast en ekki síst eru fjórir spáklefar sem hver og einn er innréttaður á sinn hátt. Þar má fá spár,hvort sem um er að ræða hefðbundna spilaspá, tarrotspilaspá, bollaspá, lófalestur eða að láta kasta rúnum fyrir sig. Í fremra rýminu er sögu hússins sýndur sómi m.a. með gömlum ljósmyndum en húsið var samkomuhús bæjarbúa á árunum 1946-1969. Þar er einnig  sölusýning á teikningum Guðbrands Ægis Ásbjörnssonar sem allar tengjast sögu Þórdísar spákonu. Margs konar handverk er einnig  til sölu. Spákonuhofið er opið alla daga nema mánudag frá kl. 11-17.

Dulúð, spádómar og saga - Spákonuhof opnað á Skagaströnd

Í gær var opnað við hátíðlega athöfn Spákonuhof á Skagaströnd. Hofið er sýning um Þórdísi spákonu sem er fyrsti nafngreindi íbúi Skagastrandar en einnig geta gestir látið spá fyrir sér með lófalestri, í kaffibolla og í rúnir. Sjá fréttina alla á timinn.is: http://timinn.is/nordurvestur/spakonuhof-11-07-01.aspx