Mynd vikunnar

Skátastúlkur Þessar stúlkur voru félagar í skátafélaginu Sigurfara á Skagaströnd. Myndin var tekin kringum 1960 þegar skátafélagið starfaði af sem mestum krafti. Efri röð frá vinstri: Þórunn Bernódusdóttir Stórholti, Guðrún Þórbjarnardóttir Flankastöðum, Magdalena Axelsdóttir (d. 2015) Læk og Kristín Lúðvíksdóttir Steinholti. Fermri röð frá vinstri: Ester Axelsdóttir Læk, María Bjarnadóttir (d. 1984) Holti/Eyri, Sigríður Ágústsdóttir Blálandi og Jóhanna Hallgrímsdóttir (Júdý) Skála. Myndina tók Guðmundur Kr. Guðnason.

Sundlaugin lokar

SUNDLAUG SKAGASTRANDAR AUGLÝSIR. Vegna dræmrar aðsóknar verður almenn opnun felld niður frá og með 7. september og er því síðasti opni dagurinn í dag, föstudag 4. september. Þökkum öllum fyrir komuna í sumar í litlu kósý laugina og sjáumst næsta sumar. Eva Dís, Gígja og Halla.

Dagur íslenskrar náttúru - Dagur Höfðans

Dagur íslenskrar náttúru verður haldinn hátíðlegur 16. september nk. Í bréfi sem Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur sent sveitarfélögum er hvatt til að dagurinn verði haldinn hátíðlegur. Þar segir: „ Öll eigum við okkar óskastað í íslenskri náttúru, hvort sem það er tjörn í túnfætinum heima, lundur í íslenskum skógi, fjall sem býður einstakt útsýni, friðlýst svæði eða leynistaður sem geymir ljúfar minningar og leyndarmál. Hver sem staðurinn er þá endurspeglar hann þá staðreynd að íslensk náttúra er órjúfanlegur hluti af sjálfsmynd okkar Íslendinga. Í ár beinum við sjónum að þessari tengingu manns og náttúru og þeirri fjölbreytni sem endurspeglast í ólíkum uppáhaldsstöðum hvers og eins okkar.“ Sveitarstjórn Skagastrandar tók bréfið fyrir á fundi sínum 2. september sl. og ákvað að gera daginn að „Degi Höfðans“ og efna til gönguferðar um höfðann 16. september kl 18.00. Íbúar og aðrir eru hvattir til að mæta og eiga góða stund í gönguferð um náttúrperluna Spákonufellshöfða. #staðurinnminn #DÍN

Nýr vaktsími læknis og hjúkrunarfræðings

Nýr vaktsími læknis og hjúkrunarfræðings var tekinn í notkun 1. sept. á svæði Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Blönduósi. Nýtt númer er 1700 eftir lokun skiptiborðs og um helgar Upplýsingar fyrir tímapantanir, opnunartíma og starfsemi heilsugæslustöðvar HSN á Blönduósi má finna á heimasíðu stofnunarinnar www.hsn.is/blonduos ... Slys og alvarleg veikindi þar sem bráðrar þjónustu er þörf hringið í 112. Heilbrigðisstofnun Norðurlands

ZUMBA hefst 9. september 2015

Nýtt sjóðheitt 6 vikna Zumba námskeið hefst 9. september 2015 Tímarnir verða tvisvar í viku í félagsheimilinu Fellsborg. Á mánudögum og miðvikudögum kl:17:15-18:15 Verð : 16.000 kr Skráning fyrir 6. sept á lindabj@simnet.is Zumba er sannkölluð gleðisprengja !!!!!! Bíð spennt eftir að hitta ykkur í fjörinu !!!!! Jafnt fyrir algjöra byrjendur sem lengra komna J Linda Björk

Þjóðarsáttmáli um læsi

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, var mættur í Félagsheimilið á Blönduósi í dag til að undirrita „Þjóðarsáttmála um læsi“ ásamt fulltrúa Heimilis og skóla og fulltrúum sveitarfélagana í Austur Húnavatnssýslu, Húnaþingi vestra og Strandabyggð. Illugi hélt stutt ávarp í upphafi fundar og þá hélt Arnar Þór Sævarsson, sveitarstjóri Blönduósbæjar, ávarp en að því loknu var sáttmálinn undirritaður. Í kynningarbæklingi um „Þjóðarsáttmála um læsi“ segir m.a. að mennta- og menningarmálaráðuneytið muni haustið 2015 vinna að Þjóðarsáttmála um læsi í samvinnu við sveitarfélög og skóla með það að markmiði að öll börn geti við lok grunnskóla lesið sér til gagns. „Framlag ráðuneytisins verður í formi ráðgjafar, stuðnings, lesskimunar og aukins samstarfs við foreldra. Þá kemur einnig fram í bæklingnum að öll börn eigi að fá tækifæri til að eiga daglega lestrarstund til loka grunnskóla. Foreldrar og aðstandendur þurfi að vera virkir þátttakendur í námi barna sinna og fylgjast með framvindu og árangri. Lestrarfærni er forsenda virkrar þátttöku í lýðræðissamfélagi en bágur lesskilningur getur haft neikvæð áhrif á námsframvindu og þar með atvinnutækifæri síðar meir.“ Höf. ass Heimild: Húnarhornið