Skagaströnd tilnefnt til umhverfisverðlauna

Alls bárust 27 tilnefningar til umhverfisverðlauna Ferðamálstofu 2009 en frestur rann út í lok október. Tilkynnt verður um verðlaunahafann þann 19. nóvember næstkomandi. Tilgangur verðlaunanna er að beina athyglinni að þeim ferðamannastöðum eða fyrirtækjum í ferðaþjónustu sem sinna umhverfismálum í starfi sínu og framtíðarskipulagi. Þau geti með því orðið hvatning til ferðaþjónustuaðila og viðskiptavina þeirra að huga betur að umhverfi og náttúru og styrkja þannig framtíð greinarinnar. Verðlaunin hafa verið afhent árlega frá árinu 1995 og er þetta því í 15. skiptið. Eftirtaldir aðilar eru tilnefndir að þessu sinni: Brekkulækur í Miðfirði (Arinbjörn Jóhannsson) Bílaleiga Flugleiða ehf.- Hertz Bjarteyjarsandur á Hvalfjarðarströnd Djúpavogshreppur Drangeyjarferðir (Jón Eiríksson bóndi á Fagranesi) Eldhestar Farfuglaheimilið Ytra Lón á Langanesi Ferðafélag Fljótsdalshéraðs Ferðaþjónustan á Kirkjubóli á Ströndum Garðyrkjustöðin Engi, Laugarási í Biskupstungum Heydalur í Mjóafirði Hornbjargsviti (Óvissuferðir ehf.) Hrífunes í Skaftártungum Hveragerðisbær Iceland Conservation Volunteers (Sjálfboðaliðar Umhverfisstofnunar) Íslenskir Fjallaleiðsögumenn http://www.fjallaleidsogumenn.is Norðursigling á Húsavík Reykjanesbær (fyrir strandgönguleið) Reykjanesfólkvangur Selasetur Íslands á Hvammstanga Sjálfbært Snæfellsnes (Verkefni 5 sveitarfélaga á Snæfellsnesi) Skálanes á Seyðisfirði http://www.skalanes.com Sveitarfélagið Skagaströnd Tjaldsvæðið á Tálknafirði Útilífsmiðstöð skáta við Úlfljótsvatn Veraldarvinir Vörumerkið Fisherman á Vestfjörðum

Neyðarkall björgunarsveitanna

Fimmtudaginn 5. nóvember eftir klukkan 18 munu félagar í Björgunarsveitinni Strönd ganga í hús á Skagaströnd og bjóða til sölu lítinn neyðarkall. Hér er um að ræða fjársöfnun björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem fram fer  um allt land.  Neyðarkallinnl kostar aðeins 1.500 kr. Hagnaður af sölunni mun renna til sveitanna og Slysavarnafélagsins Landsbjargar og verður notaður til að efla og styrkja þjálfun björgunarsveitarmanna landsins. Í gegnum tíðina hefur almenningur haft mikinn skilning á störfum björgunarsveita enda veit fólk að þegar neyðarkall berst bregðast þær hratt við með allan sinn mannskap, búnað, tæki og þekkingu. Þrátt fyrir að meðlimir björgunarsveitanna séu allir sem einn sjálfboðaliðar er rekstur sveitanna dýr. Þjálfa þarf björgunarsveitarfólk, tæki og tól verða að vera tiltæk og í góðu lagi, húsnæði þarf undir búnað og olíu á tækin. Fjármagns er aflað með ýmsum hætti, t.d. sölu flugelda, dósasöfnun, gæsluverkefnum, jólatrjáasölu og ýmsu öðru.  Og nú bætist neyðarkallinn við.  Vonast er til að Skagstrendingar taki björgunarsveitarmönnunum opnum örmum og styðji þannig við bakið á fornfúsu starfi þeirra og þúsunda annarra björgunarsveitarmanna sem eru til taks allan ársins hring þegar samborgarar þeirra þurfa á aðstoð að halda. .

Námskeið í olíumálun í Nesi listamiðstöð

Nes listamiðstöð býður upp á námskeið í olíumálun helgina 14. til 15. nóvember. Kennari á námskeiðinu er Halldór Árni Sveinsson en hann hélt námskeið hjá Nesi listamiðstöð í júní 2008 við góðan orðstír. Halldór Árni sem kennir að öllu jöfnu fjölmiðlun við Flensborgarskóla í Hafnarfirði hefur jafnframt kennt olímálun við Námsflokka Hafnarfjarðar og víðar síðustu tuttugu árin. Á námskeiðinu, sem er ætlað bæði byrjendum og þeim sem eru lengra komnir, verður farið í val á myndefni, myndbyggingu og blöndun, notkun og meðferð olíulita. Námskeiðið í olíumálun hjá Nesi listamiðstöð er liður í verkefninu Lifandi list, sem styrkt er af Vaxtarsamningi Norðurlands vestra.  Nánariupplýsingar fást hjá Nesi listamiðstöð, nes@neslist.is, og í síma 452 2816.

Unnið að endurbyggingu Tunnunnar

Lokið er nú við að endurnýja stærsta hluta af ytra byrði braggans sem í daglegu tali er nefndur Tunnan en var áður samkomuhús Skagastrandar. Að verkinu hefur Trésmiðja Helga Gunnarssonar ehf. unnið ásamt starfsmönnum áhaldahúss Skagastrandar. Fyrirhugað er að gera braggann upp í upprunalegri mynd og endurvekja menningarhlutverk hans með því að tengja hann við þau verkefni sem nú eru í uppbyggingu í menningarmálum á staðnum. Bragginn stendur á þeim reit sem sveitarfélagið hefur markað undir menningar- og safnastarfsemi. Í framhaldi af endurgerð ytra byrðis hússins verður unnið að endurbótum og endurgerð innréttinga hússins. Forsagan Samkomuhúsbragginn var reistur á Skagaströnd árið 1945 en hann hafði áður verið notaður sem hjúkrunarskýli á Blönduósi á hernámsárunum. Bragginn var keyptur fyrir fimm þúsund krónur og honum fundinn staður við aðalgötu bæjarins. Hlutverk hans var að leysa úr brýnni þörf á samkomuhúsi fyrir bæjarfélagið. Bragginn er, eins og nafnið og útlitið bendir til, herbraggi, byggður með hefðbundnu sniði slíkra bygginga. Hann er 22,1 m x 6,4 m eða 141,4 fm, byggður á steyptri undirstöðu og upphaflega með trégólfi og litlu leiksviði í öðrum enda en anddyri, salerni, fatahengi og klefa fyrir kvikmyndasýningarvélar í hinum endanum. Samkomustaðurinn Þótt kaupin á setuliðsbragganum hafi verið álitin skammtímalausn á sínum tíma var hann aðalsamkomustaður Skagstrendinga um aldarfjórðung. Í honum voru, á tímabilinu 1945-1970, haldnar nær allar samkomur á staðnum og má þar nefna: leiksýningar, kvikmyndasýningar, fundi, dansleiki, erfidrykkjur og íþróttakennslu skólans. Frá 1970 hefur hann hins vegar verið notaður til ýmissa annarra þarfa og hin síðari ár gegnt hlutverki áhaldahúss sveitarfélagsins. Menningarsögulegt gildi Bragginn, Samkomuhúsið eða Tunnan eins og hann hefur ýmist verið kallaður, hefur því verið órjúfanlegur hluti byggðar og mannlífs í 64 ár og hefur þar af leiðandi mikið menningarsögulegt gildi fyrir Skagaströnd og Skagstrendinga. Auk þess menningargildis sem bragginn hefur fyrir Skagaströnd og Skagstrendinga er hann einn fárra uppistandandi bragga eftir sem Íslendingar tóku til annarra nota eftir að setulið breska hersins hvarf á braut í stríðslok. Braggar eru ekki varanlegar byggingar á nútíma mælikvarða og hafa flestir orðið ónýtir eða eru að verða það. Í raun gildir það sama um samkomuhúsbraggann á Skagaströnd en þó virðist burðargrind hússins vera það heilleg að vel gerlegt er að endurgera hann í upprunalegri mynd. Bragginn er því bæði menningarsögulegur fyrir samfélagið og einn fárra stríðsminja á þessu svæði.

Þokkaleg nýting á sólinni í skammdeginu

Í daglegu lífi skiptir sólin öllu. Hún er uppspretta lífsins og endalaust getum við talað um hana, notið geisla hennar, horft á hana kvölds og morgna, kvartað undan henni þegar hún lætur ekki sjá sig og lofað þá hún loksins birtist. Hvort sem sólin er sjáanleg heldur hún sömu göngu sinni dag eftir dag, ár eftir ár. Mannsaugað greinir enga breytingu á hringrásinni nema ef vera skyldi með ofurnæmum tækjum eða sjónaukum sem segja til um upphafið fyrir svona á að giska „skrilljörðum“ ára og jafnvel endalokunum eftir álíka tíma. Tilviljun kallast það að vera óvart á réttum stað á réttum tíma þegar einhver sá atburður gerist sem áhugaverður þykir. Svo sem eins og að vera staddur á bryggjum Skagastrandar á nákvæmlega þeim stað er sólin sendir geisla sína yfir Flóann og beint í stóru gluggana á íþróttahúsinu sem samstundis endurvarpa þeim aftur yfir út á víkina. Ef til vill er það enn meiri tilviljun að vera með myndavélina tiltæka og ná í hana tvöfaldri speglun sólargeisla. Ef til vill fer vel á því að segja að svona er bara þokkaleg nýting á sólinn í skammdeginu.