Minningarmótið um Karl Berndsen á laugardaginn

Hið árlega opna minningarmót um Karl Berndsen verður á Háagerðisvelli, Skagaströnd á laugardaginn.  Keppt verður í karla og kvennaflokki án forgjafar og í einum flokki með forgjöf-púnktakeppni.  Aðalstyrktaraðili mótsins í ár er Fiskmarkaður Íslands hf. Nánari upplýsingar og skráning er á golf.is. Golfklúbbur Skagastrandar

Nes listamiðstöð með sýningu í Gamla Kaupfélaginu

Opnun á nýjum sýningarsal með myndlistarsýningunni "Finding Waters" þriðjudag 16. júní kl. 17:00. Nes listamiðstöð á Skagaströnd hefur nú tekið í notkun nýjan sýningarsal sem ber heitið Gamla Kaupfélagið, sem eins og nafnið bendir til er til húsa í nýuppgerðu húsi Kaupfélagsins á Skagaströnd. Efri hæð hússins hefur nú verið gerð að sýningarsal og fyrstir til að sýna þar er alþjóðlegi listamannahópurinn Distill sem stendur fyrir sýningunni „Finding Water." Hópurinn sem hefur sýnt saman á alþjóðlegum vettvangi frá árinu 1999 og er því tíu ára um þessar mundir hefur áður sýnt hér á landi í Listasafni Hafnarfjarðar Hafnarborg árið 2002 og Listasafni Reykjanesbæjar 2006.  Meðlimir Distill hópsins eur s Ann Chuchvara, Julie Poitras Santos og Tsehai Johnson frá Bandaríkjunum, Jaeha Yoo frá Kóreu, Patricia Tinajero frá Ekvador og Hrafnhildi Sigurðardóttur. Sýningin "Finding Water" verður opnuð eins og fyrr segir þriðjudaginn 16. júní kl. 17:00 til 19:00 með gjörningi á Höfðanum kl. 18:00 og eru allir velkomnir.  Sýningin stendur til sunnudagsins 5. júlí og er opin virka daga frá kl. 9:00 til 16:00 og eftir samkomulagi um helgar, sími 864 0053.  Sýning Distill hópsins er styrkt af Menningarráði Norðurlands vestra.

Vefur um íslenskt mál

Árið 2006 sameinuðust sex stofnanir á sviði íslenskra fræða: Íslensk málstöð, Orðabók Háskólans, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, Stofnun Sigurðar Nordals og Örnefnastofnun í eina stofnun. Nýja stofnunin heitir Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.   Heimasíða stofnunarinnar er: www.arnastofnun.is. Við hönnun síðunnar var lögð áhersla á að aðgengi að fjölmörgum gagnasöfnum stofnunarinnar yrði sem best. Allt þetta efni er í eigu þjóðarinnar og mikilvægt að það nýtist sem flestum. Hægra megin á forsíðu heimasíðunnar er listi yfir öll gagnasöfnin. Sérstaklega má benda á nokkur söfn sem ættu að nýtast mörgum:  Beyging orða - nærri því 300 þúsund íslensk orð beygð.  Málfarsbankinn - leiðbeiningar um málfar, rétta beygingu, orðnotkun, merkingu orða o.s.frv.  Orðabanki - upplýsingar um mörg þúsund íslensk íðorð úr tugum safna í ýmsum greinum, t.d. bílorð, raftækniorð, stærðfræði, náttúrufræði, viðskiptafræði o.s.frv.  Ritmálssafn Orðabókar Háskólans - safnið hefur að geyma dæmi um notkun orða í íslenskum ritheimildum á nærri fimm alda tímabili, frá miðri 16. öld til loka 20. aldar. Við efnissöfnunina hefur nær allt prentað mál frá upphafi fram á 19. öld verið lesið og orðtekið svo og mikið frá 20. öld.  Ýmiss konar fróðleikur er á heimasíðunni mönnum til gagns og gamans. Örfá dæmi:   Icelandic online  Ísland og Íslendingar  Orð  Stafsetning og ritreglur  Sögur úr Vesturheimi  Æviágrip; Árni Magnússon – Sigurður Nordal   Örnefni  Það er von þeirra sem að vefnum standa að gögnin á heimasíðunni nýtist sem flestum. Á síðunni má auðvitað einnig finna upplýsingar um stofnunina, rannsóknir, fræðslu og útgáfu sem og viðburði á vegum hennar.  

Sjómannadagurinn á Skagaströnd í 70 ár

Út er komin bók um sögu sjómannadagsins á Skagaströnd í 70 ár eða allt frá því að hann var fyrst haldinn hátíðlegur um 1940.   Höfund bókarinnar og útgefandi er Lárus Ægir Guðmundsson. Bókin er 70 bls. að stærð og prýdd 180 gömlum og nýjum ljósmyndum frá margvíslegum atburðum sem tengjast þessum mikla hátíðisdegi Skagstrendinga og raunar Íslendinga allra. Í bókinni er saga hátíðahaldanna rakin allt frá árinu 1939 og fram til dagsins í dag. Þar er að finna frásagnir af hinum ýmsu þáttum í sjómannadagshátíðahöldunum þennan tíma og deginum lýst í máli og myndum.  Í bókinni skrá með myndum yfir alla þá sem fengið hafa heiðurspening sjómannadagsins allt frá árinu 1965 þegar fyrstu sjómennirnir voru heiðraðir.  Í lok bókarinnar sem heitir Sjómannadagurinn á Skagaströnd í 70 ár eru minningar 3ja Skagstrendinga um það hvernig þeir muna þennan dag frá æsku sinni og uppvexti.  Útgáfa bókarinnar er styrkt af Menningarráði Norðurlands vestra. Bókin er til sölu í versluninni Samkaup á Skagaströnd og í Reykjavík má nálgast hana hjá Soffíu í síma 660 0062 og Stefáni í síma 820 6888

Sjómannadagurinn á Skagaströnd

Sjómannadagurinn á Skagaströnd verður haldinn hátíðlegur laugardaginn 6. júní. Margt verður í boði en dagskráin hefst kl. 10:30 með skrúðgöngu og endar með stórdansleik í Fellsborg um kvöldið. Kl. 10:30 Skrúðganga frá höfninni til kirkju. Fjölmennum í skrúðgönguna til þess að halda þessari skemmtilegu hefð við, og gefa þessum degi hátíðlegan blæ. Kl. 11:00 Sjómannamessa í Hólaneskirkju. Söngur í þessari athöfn er í höndum kórs sjómanna. Að messu lokinni verður lagður blómakrans við minnismerkidrukknaðra sjómanna til að heiðra minningu þeirra. Kl. 13:15 Skemmtisigling. Foreldrar eru hvattir til að fjölmenna með börn sín. Kl. 14:00 Skemmtun á Hafnarhússplani. Kappróður – leikir. Kl. 15:30 Kaffisala Kaffisala í Fellsborg og Ásta Eggertsdóttir verður með sölusýningu á olíumálverkum frá kl. 15:30-18:30. Kl. 23:00 Stórdansleikur í Fellsborg. Hljómsveitin Ingó og veðurguðirnir leika fyrir dansi.

Neslistamenn í júní

Sumarið er skollið á með öllum sínum fjölbreytileika og fjölgar nú nokkuð í Nes listamiðstöðinni. Átján manns eru nú við listsköpun á Skagaströnd og hafa þeir sjaldan verið fleiri.  Að þessu sinni eru ellefu manns frá Bandaríkjunum, tveir Þjóðverjar, einn frá Austurríki, einn Finni og einn Frakki og loks einn innlendur.  Particia Tinajero frá Bandaríkjunum, fæst meðal annars við myndlist. Ann Chucvara frá Bandaríkjunum, fæst meðal annars við myndlist. Julia Hectman frá Bandaríkjunum, fæst meðal annars við myndlist. Matthew Rich frá Bandaríkjunum, fæst meðal annars við myndlist. Nadege Druzkowski, hún er frönsk en býr í Englandi og er málari.  Bernadette Reiter, ljósmyndari frá Austuríki Tsehai Johnson  frá Bandaríkjunum fæst meðal annars við myndlist. Julie Poitras Santos frá Bandaríkjunum, fæst meðal annars við myndlist. Katalin Meixner, málari frá Þýskalandi Adriane Wachholz, málari frá Þýskalandi Kreh Mellick, málari frá Bandaríkjunum Ashley Lamb, málari frá Bandaríkjunum Hanneriina Moisseinen, finnskur myndlistarmaður Jung-a Yang, ljósmyndari frá Suður-Kóreu Beth Yarnelle Edwards, ljósmyndari frá Bandaríkjunum Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur frá Fróni Skagstrendingar bjóða að sjálfsögðu öllu þessu ágæta fólk velkomna og vonast eftir að dvöl þeirra verði þeim að öllu leyti ánægjuleg og þeim vinnist vel.  

Borgarafundur í dag kl. 18

Borgarafundur verður haldinn í félagsheimilinu Fellsborg þriðjudaginn 2. júní nk. kl. 18.00. Fundarefni eru almenn málefni sveitarfélagsins. Skagstrendingar eru hvattir til að mæta. Fyrir hönd sveitarstjórnar Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri.

Hreinsunarátak á Skagaströnd

Við skorum á alla – einstaklinga og fyrirtæki að taka höndum saman með sveitarfélaginu að fara í hreinsunar- og fegrunarátak á bænum. Nú hreinsum við og þrífum í kringum heimili okkar og vinnustaði.  Við getum auðveldlega gert bæinn okkar enn betri og fallegri.  Sumarið er komið og við förum að slá garðana, stinga upp beðin, mála húsin og henda rusli og óþörfum hlutum.   Dagana 2. til 5. júní aðstoðar sveitarfélagið við að fjarlægja rusl frá heimilum og vinnustöðum.  Þeir sem vilja nýta sér þjónustuna geta hringt í starfsmenn áhaldahúss í síma 861 4267 eða 866 4582.