Háloftaflugið truflar golfara á Skagaströnd

Mikil flugumferð var yfir Skaga um helgina. Vegna eldgossins í Eyjafjallajökli var hluta flugumferðarinnar frá Evrópu til Ameríku vísað norður fyrir Ísland. Ekki fór hjá því að Skagstrendingar kæmu auga á þessa auknu umferð. Flugvélarnar virtust fljúga hátt yfir Skagafirði og snarbeygja þá til vesturs. Þetta er nokkuð óvenjuleg leið og ekki víst að flugmenn hafi almennt þekkt hana. Sagt er að þannig hafi þeim verið vísað til vegar: „Sko, fljúgðu bara yfir Ísland, miðaðu á Skagafjörð og þegar þú er fyrir ofan vitann á Hrauni á Skaga skaltu samstundis beygja til vesturs. Ekki fara lengra þá lendirðu í vandræðum yfir Grænlandi. Þú veist, þar er allt hvítt, en grænt á Íslandi ...“ Og allt gekk þetta skínandi vel. Undantekningin er þó að einstaka golfari á golfvellinum á Skagaströnd þóttist ekki geta spilað háu boltunum eins og vant var vegna „þessara andsk... flugvéla“. Nú er flugið sem betur fer komið í samt lag. Golfararnir á Skagaströnd hafa á ný tekið gleði sína og slá að vild, alls óhræddir um að trufla háloftaflugið.  Meðfylgjandi mynd var tekin frá golfvellinum er er af Boeing þotu British Airlines sem er nýkomin úr Hraunáskaga beygjunni. Gaman að sjá hversu vel liggur á flugmönnunum ... og farþegarnir liggja flestir brosmildir í gluggunum.

Námskeið um kennslu nýbúa

Fyrir skemmstu var haldið námskeið í Húnavallaskóla um kennslu nemenda með íslensku sem annað tungumál. Námskeiðið var haldið af Fræðsluskrifstofu A--Hún og ætað fyrir kennara í Austur-Húnavatnssýslu. Fyrirlesarinn Hulda Karen Daníelsdóttir, kennsluráðgjafi í nýbúafræðslu, hefur margra ára reynslu á þessu sviði og fangaði athygli kennaranna þennan dag.

Opnun útboðs í urðunarstað að Sölvabakka

Fimmtudaginn 6. maí, kl. 14 voru opnuð tilboð í útboðsverkið „Urðunarstaður Sölvabakka, Blönduósbæ“. Alls bárust 11 tilboð í verkið: Bjóðendur: Kt. Upphæð kr. % af áætlun Suðurtak ehf. 561109-0790 169.662.476 52,8% Nesey ehf. 700693-2369 186.517.600 58,1% G.V. Gröfur ehf. 500795-2479 198.362.641 61,8% Héraðsverk ehf. 680388-1489 198.787.131 61,9% Skagfirskir verktakar ehf. 660106-0490 198.992.000 61,9% Háfell ehf. 690186-1609 219.417.000 68,3% Suðurverk hf. 520885-0219 219.961.854 68,5% KNH ehf. 710795-2239 237.373.474 73,9% Borgarverk  ehf. 540674-0279 282.136.286 87,8% G. Hjálmarsson hf. 630196-3619 283.850.000 88,4% Ísar ehf./Árni Helgason/Verk.Glaumur ehf. 421000-2630 289.760.000 90,2% Kostnaðaráætlun verkkaupa   321.227.500 100,0%    

Vel heppnuð söngskemmtun í Hólaneskirkju

Kór eldri borgara í Húnaþingi bauð upp á skemmtilega samkomu í Hólaneskirkju á Skagaströnd síðastliðinn mánudag. Auk söngs var boðið upp á upplestur í bundnu og óbundnu máli.   Stjórnandi kórsins var Kristófer Kristjánsson en hann lék jafnframt á hljómborð. Einar Þorláksson lék einnig undir á harmoniku. Tónleikarnir voru styrktir af Menningarráði Norðurlands vestra.

Kennarar á námskeiði um ritlist

Þriðjudaginn 27. apríl hittust kennarar úr Húnavatnssýslunum á Skagaströnd til að fræðast um ritun.  Baldur Sigurðsson, lektor í Háskóla Íslands var þar mættur á vegum Fræðsluskrifstofu A-Hún. með seinni hluta námskeiðs sem hófst á Degi íslenskrar tungu 16. nóvember sl. Kennararnir hittu þar kollega sína og ræddu þeir m.a. saman í hópum um málefni dagsins auk þess að hlýða á fyrirlestur Baldurs. Að venju voru allir alsælir þegar þeir héldu heim á leið, enda fátt skemmtilegra en að fræðast um áhugaverða hluti í góðum félagsskap.

Vorið er komið og golfvöllurinn opinn

Golfvöllurinn hefur verið opnaður. Um það er vitnað. Hrossagaukurinn hlakkar ofan brauta, lóan stendur móð og másandi á þriðju braut, gæsir hægja sér við grínið á annarri braut, rjúpur spóka sig og korra í jólafötunum og hettumáfar deila.  Kliður er í lofti enda farfuglarnir nýkomnir. Líklega fer betur á því að kalla þá komfugla á vorin og farfugla á haustin, en það er annað mál.  Utan girðingar á þriðju braut stendur brúnt hross og horfir á þegar maður nokkur mundar sig líklegan við teiginn. Það færir sig nær þegar hann tíar, reisir makka er hann sveiflar drævernum fagmannlega en hristir svo höfuðið er hann slær í jörð og kúlan skoppar fáeina metra. Lágvær hnegg, greinilega með neikvæðum tón, heyrist um leið og það skokkar að nærstöddum hryssum sem rökræða um vorið, folöld og fugla og grasneyslu. Já, grasið er óðum að lifna við. Víða er enn frostlyfting á brautum, en smám saman losnar um og vatnið sitrar hægt út í skurði.  Sami maður og hrossið hló að fann samt örlítið fyrir sjóveiki er hann gekk yfir öldótta áttundu braut og kerran valt og úr henni allt … Vorið er kraftaverk á  Háagerðisvelli. Þá verða breytingar sem gera golfvöllinn að perlu.  Og allir eru sammála manninum sem sagði: „Golfvöllurinn á Skagaströnd er líklega best geymda leyndarmálið á meðal kylfinga á Íslandi.“ Samt var hann ekki sá er hesturinn hló að.

Sveitarfélagið Skagaströnd leitar eftir starfsfólki í ýmis sumarstörf

Sveitarfélagið Skagaströnd leitar eftir starfsfólki í eftirfarandi sumarstörf: · Flokksstjórum til starfa í Vinnuskóla Skagastrandar frá 17. maí eða fyrr. Gerð er krafa um að umsækjendur séu 20 ára eða eldri. · Almennum starfsmönnum til ýmissa sumarstarfa, 16 ára og eldri. · Starfsmanni til að hafa m.a. umsjón með „Kofavöllum“ fyrir börnin í samstarfi við Umf Fram. Starfið felst í umsjón með kofasmíði skólagörðum og leikjanámskeiði. · Umsjón með gæsluvelli á meðan sumarlokun leikskólans stendur yfir. · Sundlaugarvarsla í sumarafleysingum. Umsóknareyðublöð fást á skrifstofu sveitarfélagsins eða á www.skagastrond.is. Umsóknum skal skilað á skrifstofu sveitarfélagsins og er frestur til að sækja um starf flokksstjóra til 10. maí 2010 Nánari upplýsingar veitir Árni Geir Ingvarsson í síma 861 4267 eða á ahaldahus@skagastrond.is Skagaströnd, 3. maí 2010 Sveitarstjóri