Ferðamannaparadísin Skagaströnd

Nýlega keypti Sveitarfélagið Skagaströnd þjónustu af fyrirtæki, Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar ehf. Það sem sveitarfélagið keypti í raun var skýrsla (sem finna má á vef sveitarfélagsins) þar sem reynt var að leggja mat á fjölda ferðamanna á Skagaströnd á undanförnum árum. Niðurstöður skýrslunnar gefa til kynna að umtalsverður fjöldi ferðamanna heimsæki okkur á hverju ári og jafnframt að aukning á milli áranna 2004 – 2013 séu 57%. Ekki ætla ég að reyna að leggja mat á áræðanleika þessara niðurstaðna en ætla hins vegar að leyfa mér að telja upp atriði sem gætu fyllilega verið meðal ástæðna þess að gestir vilja heimsækja Skagaströnd. Við eigum snyrtilegan, lítinn og lifandi bæ sem er svo sannarlega áhugaverður. Hér hefur fólk getað keypt mat í Kántýbæ og hjá Olís. Við eigum flottasta kaffihús á landinu, getum státað af Árnesi og hinu dulúðlega Spákonuhofi. Hér fær fólk persónulega og öðruvísi þjónustu í sundlauginni og getur kíkt inn í Djásn og Dúllerí og keypt handverk. Hér er opin matvöruverslun sjö daga vikunnar. Hér getur fólk búist við að rekast á erlenda listamenn að störfum hvar og hvenær sem er. Fólk getur dáðst að „stóru“ andlitsmyndunum sem málaðar voru hér síðasta sumar. Göngufólk hefur aðgengi að tveimur vönduðum bæklingum sem lýsa gönguleiðum á Spákonufell og Spákonufellshöfða. Hér er einnig að finna eitt best varðveitta leyndarmál golfaranna, Háagerðisvöll. Síðast en ekki síst erum við sjálf upp til hópa stórskemmtilegt fólk sem mjög áhugavert er að kynnast. Hvað er það hins vegar sem vantar inn í þessa upptalningu? Væntanlega þurfið þið ekki að hugsa lengi til þess að finna svarið við spurningu minni. Að sjálfsögðu er það gistirými fyrir gestina. Þeir sem ekki vilja nota okkar frábæra taldsvæði eða gista í heimahúsum hafa mjög takmarkaða möguleika til að halla hér höfði. Síðastliðið ár hefur sveitarstjórn Skagastrandar verið að kynna sér hvernig uppbygging ferðaþjónustu hefur átt sér stað á öðrum landssvæðum. Segja má að vinnan hafi fyrir alvöru hafist eftir að niðurstöður íbúaþings sem haldið var í mars 2013 lágu fyrir enda skilaboðin nokkuð skýr: „Framtíðarsýnin sem lesa má úr niðurstöðum íbúaþingsins einkennist öðru fremur af áberandi væntingum til þess að mikil uppbygging verði í ferðaþjónustu auk þess sem meira verði úr nýtingu sjávarauðlindarinnar á staðnum. Hins vegar kom í ljós að ferðaþjónusta er varla nefnd í umræðum um það sem gerir Skagaströnd aðlaðandi í dag, þannig að álykta má sem svo að sú atvinnugrein sé á byrjunarreit og mikið átak þurfi til að uppfylla væntingar íbúanna á því sviði.“ Er ekki komið að því að við Skagstrendingar viðurkennum ferðaþjónustu sem alvöru atvinnugrein? Ætlum við ekki að taka þátt í þeim uppgangi sem á sér stað í ferðaþjónustu? Hefði byggst upp hér útgerð ef aldrei hefði verið byggð höfn? Hefðu bátar komið hér til löndunar ef ekki hefði verið stofnaður fiskmarkaður? Fordæmi eru fyrir að vel takist til þegar rétt er á spilum haldið. Í því sambandi má nefna Patreksfjörð. Þar byggðu heimamenn upp hótel í samstarfi við Fosshótel. Það sem gerðist í framhaldinu var að einstaklingar fóru að bjóða upp á margvíslega afþreyingu s.s. siglingar, veiði- , jeppa- ,sleða- og fjórhjólaferðir. Nýstofnaður Atvinnuþróunarsjóður Skagastrandar ætti að geta stutt við sambærilega þróun á meðal íbúa hér líka. Á síðasta fundi fráfarandi sveitarstjórnar var samþykkt að stofna félag sem myndi beita sér fyrir byggingu hótels á Skagaströnd. Félaginu er í fyrstu ætlað huga að hönnun slíkar byggingar, leita áhugasamra samstarfsaðila og kanna fjármögnunarmöguleika verkefnisins. Skagastrandarlistinn óskar eftir umboði frá ykkur kjósendum til þess að vinna áfram að þessu framfaramáli. Halldór Gunnar Ólafsson

Dagskrá sjómannadagsins

Dagskrá sjómannadagsins á Skagaströnd laugardaginn 31. maí 2014 10:30 Skrúðganga frá höfninni að Hólaneskirkju Fjölmennum á skrúðgönguna til að viðhalda þessari skemmtilegu hefð. 11:00 Sjómannamessa í Hólaneskirkju Kór sjómanna syngur við athöfnina. Að messu lokinni verður lagður blómakrans við minnismerki drukknaðra sjómanna til að heiðra minningu þeirra. 13:15 Skemmtisigling Foreldrar hvattir til þess að fjölmenna með börn sín. 14:00 Skemmtun á Hafnarhúsplani Skemmtun hefst á fallbyssuskoti. Kappróður og leikir á plani. Ljósmyndasýning á austurvegg Hafnarhússins. Vigdís Viggósdóttir með 12 mynda seríu sen nefnist Samruni Mótorhjólasýning. Glæsilegir mótorfákar í eigu heimamanna. Sjoppa á staðnum, gos,pylsur, ís og sælgæti. 15:30 Kaffisala í Fellsborg Rjúkandi heitt á könnunni og fjölbreytt bakkelsi. Hestamannafélagið Snarfari býður börnum upp á að fara á hestbak. 23:00 Stórdansleikur í Fellsborg Hljómsveitin Skandall sér um að allir skemmti sér í trylltum dansi. Allir að mæta og skemmta sér nú duglega. Góða Skemmtun

Fermingarmessa í Hólaneskirkju um helgina

Fermingarmessa í Hólaneskirkju á Skagaströnd laugardaginn 24. maí, kl. 13:30. Séra Bryndís Valbjarnardóttir þjónar fyrir altari ásamt Kristínu Árnadóttur, djákna. Kór Hólaneskirkju syngur við undirleik Hugrúnar Sifjar Hallgrímsdóttur organista og kórstjóra. Meðhjálpari Guðbjörg Ólafsdóttir. Fermd verða: Georg Þór Kristjánsson, Harpa Hlín Ólafsdóttir Jóhannes Hólmar Sigurpálsson Jóna Margrét Sigurðardóttir Lilja Dögg Hjaltadóttir Sigurður Aron Björnsson Valgerður Guðný Ingvarsdóttir Victoría Sif Hólmgeirsdóttir Viktor Már Einarsson -- Bestu kveðjur Bryndís Valbjarnardóttir, prestur

Mynd vikunnar

Árbakkasteinn Árbakkasteinn er í raun tvö sker sem standa fram af Hrafnánni. Næst okkur á myndinni er grjótgarður, sem byggður var á fimmta átratugnum, sem upphaf á hafnargerð, sem hugsuð var með varnargarði út í Árbakkastein og síðan þaðan til norðurs að Brúnkollu, sem er blindsker sunnan við enda Útgarðs. Ef þessar hugmyndir hefðu orðið að veruleika væri Skagastrandarhöfn að öllum líkindum lífhöfn í hvaða veðrum sem væri. Þá lá líka fyrir skipulag að Skagaströnd sem 5000 manna byggð sem byggja skyldi á stóriðju - síldarverksmiðjunni - og margfeldiáhrifum hennar. Því miður gleymdist að ræða við síldina til að tryggja hennar þátt í málinu þannig að draumarnir um svo fjölmenna og blómlega byggð runnu út í sandinn.

Sumarstörf námsmanna

Sveitarfélagið Skagaströnd auglýsir sumarstörf námsmanna í samstarfi við Vinnumálastofnun. Störfin eru við ýmis verkefni á vegum sveitarfélagsins m.a. við skógrækt, umhverfismál og umsjón með golfvelli. Frekari upplýsingar á skrifstofu sveitarfélagsins. Sveitarstjóri

Hjallastefnumál - samantekt

Á fundi sveitarstjórnar 19. maí sl. var fjallað um Hjallastefnuna og að frekara ferli samninga um leikskólann Barnaból hafi verið frestað fram yfir sveitarstjórnarkosningar. Á fundinum var sveitarstjóra falið að taka saman skýrslu um feril málsins til að skýra aðdraganda þess og umfjöllun. Í skýrslunni sem er aðgengileg á heimasíðunni er leitast við að rekja hinn formlega feril málsins í tímaröð. Skýrsluna má finna hér.

Grein frá Halldóri G. Ólafssyni

Ágætu Skagstrendingar, ég óska ykkur og okkur öllum til hamingju með það að fá tækifæri til að nýta kosningaréttinn þann 31. maí næstkomandi. Ég býð mig fram til áframhaldandi vinnu í ykkar þágu næsta kjörtímabil enda hafa síðastliðin átta ár verið afar lærdómsrík og í flestum tilfellum skemmtileg. Ég tel afar mikilvægt að innan sveitarstjórna sé fólk sem hefur öðlast reynslu og þekkingu á sveitarstjórnarmálum. Það segi ég fyrst og fremst vegna þess að mér hefur lærst að oft eru mál ekki eins einföld og sjálfsögð eins og þau virðast við fyrstu sýn, því jafnvel í litlu sveitarfélagi eins og okkar þarf stjórnsýslan að vera hin sama og í stærri samfélögum. Flestir sem hafa starfað að sveitarstjórnarmálum eru sammála um að það taki að minnsta kosti eitt kjörtímabil að komast inn í hvernig stjórnsýslan virkar og um hvað verkefni og skyldur sveitarfélaga í raun snúast. Það er auðvitað jafnframt mikilvægt að í sveitastjórnum sé um einhverja endurnýjun að ræða og ekki síður að til starfa veljist jákvætt, víðsýnt og samfélagslega sinnað fólk með fjölbreytta reynslu úr atvinnu- og félagsmálum. Ég tel að með því að veita Skagastrandarlistanum brautargengi í komandi kosningum sé verið að velja fólk í sveitarstjórn sem hefur einmitt þessa eiginleika. Enda má sannarlega halda því fram að þið, kjósendur á Skagaströnd, hafið stillt upp í efstu fimm sæti listans. Við val á listann var leitast við að nota eins opið og lýðræðislegt ferli og mögulegt var. Niðurstaðan var sú að rúmlega 40% af kosningabæru fólki á Skagaströnd tók þátt í uppstillingu listans. Öllum stóð til boða að bjóða sig fram, allir höfðu rétt til að kjósa og allir höfðu tækifæri til þess að hafa áhrif á hvernig staðið var að kosningunni. Allt var þetta framkvæmt á þremur opnum borgarafundum. Þið svöruðuð kallinu og sýnduð að þið hafið áhuga á samfélaginu okkar enda full ástæða til. Fólkið á Skagastrandarlistanum vinnur nú að því að koma stefnumálum sínum á framfæri. Okkur finnst að þið eigið að eiga kost á því að hlýða á málflutning okkar. Við höfum því formlega farið þess á leit við oddvitaefni mótframboðsins að haldinn verði sameiginlegur framboðsfundur þar sem bæði framboðin kynna sín mál og ykkur gefst kærkomið tækifæri að leggja fram fyrirspurnir og fá svör við spurningum ykkar. Hlakka til að eiga við ykkur orðastað xHalldór Gunnar Ólafsson

Framlengdur frestur vegna kostnaðarþátttöku í ofnakaupum

Á fundi sveitarstjórnar 19. maí sl. var fjallað um kostnaðarþátttöku vegna hitaveituvæðingar sem samþykkt var á fundi sveitarstjórnar 26. mars 2013. Samþykkt um kostnaðarþátttökuna gerði ráð fyrir að hún félli úr gildi 1. júní 2014. Sveitarstjórn ákvað að gildistími samþykktarinnar verði framlengdur til 1. september 2014 og jafnframt að húseigendur utan þess svæðis á Skagaströnd sem býðst hitaveita geti fallið undir skilgreiningu um kostnaðarþátttöku í kaupum á ofnum fyrir vatnshitakerfi. Samþykktina má finna hér.

Samningi við Hjallastefnu um leikskólann frestað

Á fundi sveitarstjórn 19. maí sl. var m.a. tekið fyrir bréf Magrétar Pálu Ólafsdóttur um Hjallastefnu. Með bréfinu þakkar Margrét Pála bæði sveitarstjórn, skólafólki og foreldrum á Skagaströnd fyrir umræður um skólamál á liðnum vetri og einnig fyrir þann áhuga sem fjölmargir aðilar hafa sýnt á samstarfi við Hjallastefnuna. Með vísan til þess að kosningar standa fyrir dyrum í sveitarfélaginu telji hún mikilvægt að ný sveitarstjórn hafi frjálsar hendur um málefni skólasamfélagsins á næstu fjórum árum. Því telji hún rétt að Hjallastefnan dragi sig i hlé og óskar öllu skólasamfélaginu gæfu og gengis. Fylgiskjal með bréfi Margrétar Pálu var bréf með niðurstöðum skoðanakönnunar sem foreldrafélög leikskóla og grunnskóla létu gera. Þar kemur fram að meirihluti foreldra leikskólabarna vilja Hjallastefnuna inn í leikskólann. Sveitarstjórn lýsti vonbrigðum með að ekki hefði tekist að ljúka samningagerð við Hjallastefnuna en fram kom að í ljósi þess hve skammt er til sveitarstjórnarkosninga er sveitarstjórn sammála því sjónarmiði að réttara sé að ný sveitarstjórn taki ákvörðun um slíkan samning. Sveitarstjórn lýsti sérstakri ánægju með framtakssemi og dugnað foreldrafélaga skólanna við gerð skoðanakönnunar meðal foreldra.

Kjörskrá vegna sveitarstjórnakosninga

Kjörskrá vegna sveitarstjórnakosninga þann 31. maí 2014 liggur frami á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastrandar frá 19. maí til kjördags. Kjörskrárstofninn miðast við þá sem áttu lögheimili í sveitarfélaginu samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár 10. maí 2014. Sveitarstjóri