Sönghópur Félags eldri borgara í Skagafirði syngur í Hólaneskirkju

Sönghópur Félags eldri borgara í Skagafirði heldur söngskemmtun í Hólaneskirkju á Skagaströnd, sunnudaginn 11. maí og hefst skemmtunin kl. 15:00. Fjölbreytt söngskrá verður en söngstjóri og undirleikari er Jóhanna Marín Óskarsdóttir, um einsöng sér Þorbergur Skagfjörð Jósefsson og Hermann Jónsson leikur á harmonikku. Aðgangur ókeypis.

Framboð til sveitarstjórnar

Á fundi Skagastrandarlistans, miðvikudaginn 7. maí sl. var uppstilling listans staðfest. Fyrstu 5 sætum hans hafði áður verið stillt upp á opnum fundi þar sem fundarmenn röðuðu í sæti úr hópi 10 frambjóðenda. Framboðslisti Skagastrandarlistans (H –listi) Adolf H. Berndsen framkv.stjóri Halldór G. Ólafsson framkv.stjóri Róbert Kristjánsson verslunarstjóri Gunnar S. Halldórsson matreiðslumaður Jón Ólafur Sigurjónsson iðnaðarmaður Péturína L. Jakobsdóttir skrifstofustjóri Árný S. Gísladóttir fulltrúi Hrefna D .Þorsteinsdóttir stuðningsfulltrúi Sigurlaug Lára Ingimundardóttir þjónustufulltrúi Hafdís H. Ásgeirsdóttir hársnyrtir

Frá Tónlistarskóla A-Hún

Vortónleikar Tónlistarskólans verða: Skagaströnd: Í Hólaneskirkju fimmtudaginn 8. maí kl: 1700 Blönduósi: Í Blönduósskirkju miðvikudaginn 7. maí kl: 1700 Allir velkomnir Innritun fyrir næsta skólaár verður á Skagaströnd fimmtudaginn 15.maí frá kl. 16-18 að Bogabraut 10 á Blönduósi í Tónlistarskólanum Húnabraut 26 föstudaginn 16.maí frá kl. 16-18 Skólastjóri

Úrslit úr Stærðfræðikeppni FNV, MTR og 9. bekkjar

Föstudaginn 2. maí fór fram stærðfræðikeppni Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Menntaskólans á Tröllaskaga og 9. bekkjar, en keppnin hefur nú verið haldin árlega í 17 ár. Í fyrsta sæti var Björn Vilhelm Ólafsson, Grunnskóla Fjallabyggðar, í öðru sæti var Páll Halldórsson, Höfðaskóla og í þriðja sæti var Guðjón Alex Flosason, Grunnskólanum á Hólmavík. Undankeppni stærðfræðikeppninnar fór fram í mars og tóku 170 nemendur frá Norðurlandi vestra, Fjallabyggð og Dalvíkurskóla þátt í henni. Að þessu sinni komust 15 nemendur í úrslitakeppnina. Af þeim voru tveir frá Árskóla, tveir frá Varmahlíðarskóla, einn frá Grunnskólanum austan Vatna, einn frá Grunnskólanum á Hólmavík, einn frá Húnavallaskóla, tveir frá Höfðaskóla, einn frá Blönduskóla, þrír frá Grunnskóla Fjallabyggðar og tveir frá Dalvíkurskóla. Stærðfræðikeppnin er samstarfsverkefni FNV, grunnskóla, stofnana og fyrirtækja á Norðurlandi vestra auk þess sem fyrirtæki utan kjördæmisins koma að verkefninu. Kennarar í stærðfræði við FNV báru hitann og þungann af samningu og yfirferð keppnisgagna, en grunnskólarnir sáu um fyrirlögn dæmanna í undankeppninni. Heimild: FNV

Mynd vikunnar

Öflugt skátastarf var á vegum skátafélagsins Sigurfara á Skagaströnd í allmörg ár á sjötta og sjöunda áratugnum undir stjórn Þórðar Jónssonar félagsforingja. Eitt af verkefnum skátanna var að koma sér upp skála í Brandaskarði. Skálinn var því miður aldrei fullgerður heldur var einungis steyptar undirstöður og botnplata. Nokkrum árum seinna byggðu svo skátarnir skála í suðurhlíðum Spákonufells. Á þessari mynd eru galvaskir skátar í vinnuferð í Brandaskarði. Frá vinstri: Þórður Jónsson (d. 25.12.2010), Hallbjörn Björnsson Jaðri, Gissur Jóhannsson Lækjarbakka, Kristinn Lúðvíksson Steinholti, Ísleifur Haraldsson Jaðri, Þórunn Bernódusdóttir Stórholti, Guðrún Þórbjarnardóttir Flankastöðum, Birgir Júlíusson Höfðabergi, Jóhann Ingibjörnsson, Frímann Lúðvíksson Steinholti, Lárus Ægir Guðmundsson og Helgi Jónatansson Höfðabrekku

Lýðræði og mannréttindi

Í starfi skólanna í vetur hefur miklum tíma verið varið til að skoða hvað verið er að gera og hvað gera þarf frekar til að vinna í anda nýrrar aðalnámskrár fyrir leik-grunn og framhaldsskóla og efla áherslur grunnþáttanna sex í skólastarfinu. Grunnþættirnir sex eru: Læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Ný aðalnámskrá og grunnþættirnir sex eiga að vera starfsfólki skólanna leiðarvísir og fyrirmynd um áherslur, vinnulag og framsetningu í skólastarfinu öllu. Einn grunnþáttanna, Heilbrigði og velferð, var til umfjöllunar á fræðslufundi á vegum Fræðsluskrifstofunnar 29. apríl s.l. Védís Grönvold, kennsluráðgjafi, kom til okkar til að fræða okkur um helstu verkefni til að efla áherslur heilbrigði og velferðar í skólum Húnavatnssýslna. Á námskeiðinu var unnið með eftirfarandi áherslur: „Í skólum þarf að skapa jákvæðan skólabrag og heilsueflandi umhverfi þar sem markvisst er hlúð að þroska og heilbrigði frá ýmsum hliðum. Helstu þættir heilbrigðis sem leggja þarf áherslu á eru: jákvæð sjálfsmynd, hreyfing, næring, hvíld, andleg vellíðan, góð samskipti, öryggi, hreinlæti, kynheilbrigði og skilningur á eigin tilfinningum og annarra.“ (Úr ritröð mennta- og menningarmálaráðuneytis 2013) Þátttakendur voru fjörutíu og fjórir og létu mjög vel af fræðsludeginum. Myndir: Þátttakendur og leiðbeinandi.