99. ársþing USAH fór fram um helgina.

99. ársþing USAH fór fram sunnudaginn 13. mars á Húnavöllum, á þingið mættu 32 fulltrúar frá aðildarfélögunum. Auk þeirra mættu tveir gestir, Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ og Þórey Edda Elísdóttir, fulltrúi ÍSÍ. Fjórar tillögur lágu fyrir á þinginu sem allar voru samþykktar eftir breytingar í nefndum, var þingið nokkuð starfssamt og umræður þónokkrar. Mál sem meðal annars komu upp á þinginu voru Húnavökuritið og Stefnumótun USAH. Húnavökuritið, ákveðið hefur verið að gera tilraun með dreifingu og sölu ritsins, verður hún send á öll heimili í sýslunni auk þeirra sem voru áskrifendur fyrir og í Húnvetningafélagið í Reykjavík. Mun hún með þessu móti lækka í verði en dreifast á fleiri heimili og vonumst við til að þessi tilraun takist vel og auki áhuga ungs fólks að skoða ritið. Á 98. ársþingi USAH var ákveðið að nú skyldi farið að vinna í stefnumótun USAH og voru Auðunn Sigurðsson, Sigríður Gestsdóttir og Steinunn Hulda Magnúsdóttir skipuð í stefnumótunarnefnd, núna á þinginu kynntu þau fyrir okkur stefnumótun USAH, eftir þing og fram í október mun svo stjórn USAH og aðildarfélög fara yfir hana og skila inn athugasemdum sem áfram skipuð stefnumótunarnefnd mun vinna í fyrir næsta þing, þá mun vonandi liggja fyrir tillaga að stefnumótun USAH. Þórey Edda Elísdóttir, fulltrúi ÍSÍ, ávarpaði þingið og minnti á ýmis góð málefni sem gott væri að íhuga, svosem meira samstarf milli USAH og USVH, verkefni sem eru í gangi, t.d. hjólað í vinnuna og lífshlaupið sem henni finnst endilega að við þurfum að reyna að virkja bæði hér og hjá þeim í USVH og reyna að koma upp einhverri keppni á milli og reyna að virkja bæði börn sem fullorðna í að hreyfa sig og lifa heilbrigðu lífi. Að ávarpi loknu veitti hún Aðalbjörgu Valdimarsdóttir gullmerki ÍSÍ og Hafdísi Vilhjálmsdóttur silfurmerki ÍSÍ, einnig fékk Valgerður Hilmarsdóttir silfurmerki ÍSÍ en var hún ekki á staðnum. Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, ávarpaði þingið og ræddi einnig um mörg verkefni sem eru í gangi í samfélaginu, svo sem Hreyfivikuna sem verður núna í maí. Þakkaði fyrir starf USAH við Landsmót 50+ og vildi ekki síður þakka sveitarfélögunum sem stóðu að mótinu fyrir sinn stuðning, hann væri ómetanlegur og án þeirra væri ekki hægt að halda svona mót. Minnti hann á Unglingalandsmótið sem haldið verður í Borgarnesi í sumar, Landsmót 50+ sem haldið verður á Ísafirði í byrjun sumars og Landsmótið, sem ákveðið hefur verið að halda á Sauðárkróki árið 2018. Að ávarpi loknu veitti hann Hafdísi Vilhjálmsdóttur og Pétri Péturssyni starfsmerki UMFÍ og Aðalbjörgu Valdimarsdóttur gullmerki UMFÍ. Íþróttamaður ársins 2015 hjá USAH var Snjólaug María Jónsdóttir, úr Skotfélaginu Markviss. Hún hefur staðið sig afskaplega vel á síðastliðnu ári í haglagreininni Ólympískt Skeet. Snjólaug keppti á sínu fyrsta móti erlendis á árinu og setti þar glæsilegt Íslandsmet, sem er aðeins 5 stigum frá Ólympíulámarkinu, fór hún upp um tvo flokka í sinni grein á tímabilinu og er fyrst kvenna hérlendis frá upphafi til að ná fyrsta flokks skori í þessari skotgrein. Hvatningarverðlaun USAH, sem fyrrum formenn USAH gáfu á 100 ára afmæli sambandsins og á að veita árlega, voru veitt í fjórða sinn og var það ungmennafélagið Fram sem hlaut bikarinn. Fram hefur ávallt staðið sig vel í barna og unglingastarfi, þau reyna að hafa fjölbreytni til staðar og að börn geti notið sín og haft gaman í þeirri íþrótt sem þau ákveða að iðka. Ungmennafélagið Fram fagnar á þessu ári sínu 90 ára afmæli og fengu platta og blóm í tilefni afmælisins. Breyting var á stjórn USAH, Aðalbjörg Valdimarsdóttir, formaður, og Hafdís Vilhjálmsdóttir, varaformaður, gáfu ekki kost á sér áfram og Valgerður Hilmarsdóttir, gjaldkeri, hætti í stjórn. Guðrún Sigurjónsdóttir gaf kost á sér áfram sem meðstjórnandi og Sigrún Líndal situr sitt annað ár sem ritari. Stjórn USAH skipa nú þau: Rúnar Pétursson, formaður. Steinunn Hulda Magnúsdóttir, varaformaður. Guðrún Sigurjónsdóttir, meðstjórnandi. Sigrún Líndal, ritari. Katrín Hallgrímsdóttir, gjaldkeri.

Mynd vikunnar

Þessi mynd var tekin 1947 af horfnu húsi, Viðvík. Húsið stóð ca þar sem er Strandgata 8 er í dag. Húsið var reist á sjöunda áratug 19. aldar en í því var um árabil rekið veitinga- og gistihús undir lok 19. aldarinnar. Það var Ólafur Jósson "vert" frá Helgavatni í Vatnsdal sem rak veitingahúsið ásamt konu sinni Valgerði Narfadóttur. Sagt er að Ólafur hafi verið vel af manni og ekki vílað margt fyrir sér m.a. við að halda uppi lögum og reglu hjá gestum Viðvíkur. Þau hjón áttu sex börn sem mörg hver urðu nafnkunn á Íslandi. Má þar nefna Pétur A. Ólafsson sem var um tíma allt í öllu á Patreksfirði og Láru Ólafsdóttur sem þekkt er úr bók Þórbergs Þórðarsonar: Bréf til Láru. Eftir að Ólafur vert hafði rekið gistihúsið Viðvík í allnokkur ár flutti hann til Akureyrar og gerðist veitingamaður á Oddeyrinni þar. Myndin er í eigu Muna- og Minjasafns Skagastrandar. Gefandi: Jóhann Pétursson Lækjarbakka á Skagaströnd.

Næsti fundur sveitarstjórnar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar miðvikudaginn 9. mars 2016 kl 800 á skrifstofu sveitarfélagsins. Dagskrá: 1. Viðaukar við fjárhagsáætlun 2. Reglur um leiguhúsnæði 3. Gjaldskrár sveitarfélagsins a. Gjaldskrá frístundar b. Gjaldskrá vatnsveitu c. Samþykkt og gjaldskrá byggingarleyfisgjalda 4. Hlutabréf í Tækifæri hf 5. Hólanes ehf, staða verkefnis 6. Bréf: a. Farskóla Norðurlands vestra, dags. 1. febrúar 2016 b. Sigurlaugar I Gísladóttur, dags. 22. janúar 2016 c. USAH, dags í mars 2016 d. Júdófélagsins Pardus, dags. 9. febrúar 2016 e. Styrktarsjóður EBÍ, dags. 22. febrúar 2016 f. Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 1. mars 2016 7. Fundargerðir: a. Skólanefndar FNV, 22.02.2016 b. Hafnasambands Íslands, 24.02.2016 c. Stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, 29.01.2016 d. Stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, 26.02.2016 8. Önnur mál Sveitarstjóri

Langar þig að skoða tækifæri þín til menntunar?

Komdu þá á fund í Fellsborg um námstækifæri þín hjá nokkrum af skólastofnunum landsins. Fundurinn verður haldinn í Fellsborg miðvikudaginn 9. mars klukkan 17:30. Á fundinn mæta fulltrúar frá: Fjölbraut á Sauðárkróki, Farskólanum, Háskólanum á Bifröst, Háskólanum á Akureyri, Háskólanum að Hólum og menntafyrirtækinu Keili í Reykjanesbæ. Fulltrúarnir munu kynna fjarnám og staðarnám hjá sínum skólum og einnig hver inntökuskilyrði eru, námsgjöld og annað sem skiptir máli. Eftir stuttar framsögur munu fulltrúarnir sitja fyrir svörum og svo verður hægt að fá að hitta fulltrúana einslega ef þess er þörf. Einnig mætir á fundinn fulltrúi frá verkalýðsfélaginu Samstöðu sem mun kynna möguleika á námsstyrkjum frá hinum ýmsu stéttarfélögunum. Áætlað er að fundurinn standi í rúman einn og hálfan klukkutíma. Endilega notaðu tækifærið og mættu á fundinn til að kynna þér möguleikana sem þú átt til aukinnar menntunar. Til fundarins er boðað af hópi áhugafólks um menntun og framfarir í samstarfi við sveitarfélagið Skagaströnd og Farskóla Norðurlands vestra.

Mynd vikunnar

Í eldhúsinu í Skátaskálanum . Þessar konur sáu um kaffiveitingar í veislu sem haldin var í Skátaskálanum af óþekktu tilefni sem tengdist Skagstrendingi hf. Veislan fór fram í Skátaskálanum en þar var um þær mundir rekið mötuneyti fyrir menn sem voru að vinna að breytingum á síldarverksmiðjunni. Frá vinstri á myndinni: Anna Sjöfn Jónasdóttir, Guðrún Guðmundsdóttir, Anna H. Aspar (d. 1.9.1999), sem sá um mötuneytið, og Lilja Bernódusdóttir. Myndina tók Jón Jónsson einhverntíma kringum 1980.

Útgáfa tímarits um Skagaströnd

Andrea Weber listakona og kennari í listgreinum við skóla í París, hefur gefið út tímarit „Skagaströnd Review“ þar sem hún lætur fortíð og nútíð mætast í myndum og texta. Tilgangur með útgáfunni er að gera listrænt verkefni á tímaritsformi sem er aðgengilegt á alþjóðlegu tungumáli. Að skapa nýjan skapandi vettvang fyrir ljósmyndasafnið og finna nálgun sem hentað komandi kynslóðum. Að gera Skagaströnd betur sýnilega og kynnta sem menningarlegt samfélag, bæði innan lands og utan. Tímaritið „Skagaströnd Review“ er rannsóknar og þróunarverkefni sem Andrea skilar til samfélagsins með fyrstu útgáfu þess. Andrea hefur dvalið nokkrum sinnum í Nes listamiðstöð og komið í reglulegar heimsóknir og tekið ákveðnu ástfóstri við byggðina stofnað til vináttu við marga íbúa á Skagaströnd. Verkefnið hefur verið unnið í samstarfi við sveitarfélagið, Nes listamiðsöð, Rannsóknarsetur Háskóla Íslands og með styrk frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra. Andrea býður til útgáfuteitis kl 20.00 fimmtudaginn 3. mars í bókasafninu á efstu hæð Gamla Kaupfélagsins.