01.02.2011			
	
	Sveitarstjórn Skagastrandar hefur ákveðið að veita styrki til nemenda á framhalds- og háskólastigi sem nemur 20 þús. kr. skólaárið 2010-2011. Styrkirnir eru veittir til jöfnunar á námskostnaði fjarri heimabyggð.
Umsóknum um styrki skal skilað til skrifstofu sveitarfélagsins fyrir 26. febrúar 2011.
Nemendur á framhalds- og háskólastigi sem eiga lögheimili á Skagaströnd og fullnægja skilyrðum í reglum um styrkina eiga rétt á umræddum námsstyrk frá Sveitarfélaginu Skagaströnd.
Nánari upplýsingar veittar á skrifstofu sveitarfélagsins og á heimasíðunni má einnig finna reglur um námsstyrki. Umsóknareyðublað má nálgast  hér.
Skagaströnd, 1. febrúar 2011.
Fyrir hönd sveitarstjórnar
Sveitarstjóri
 
					
		
		
		
			
					28.01.2011			
	
	Vegna bilunar á veðurstofu Skagastrandar sýnist veðrið vera verra en það er. Í raun er sól og blíða í bænum, rétt eins og verið hefur allan þennan mánuð og verður svo fram á vor er veðrið tekur að skána.
Meðfylgjandi mynd sýnir og sannar svo ekki verður um villst hvernig veðrið er. Því er óhætt að sleppa því að líta út um gluggann, útsynninginn mun lægja um leið og veðurstofan kemst sjálfkrafa í samt lag.
Þessi frétt á alls óskylt við komandi þorrablót Skagstrendinga.
 
					
		
		
			
					28.01.2011			
	
	Þorrablót verður í Félagsh. Fellsborg á Skagaströnd laugardaginn 5. febrúar 2011.
Húsið opnað kl. 20:00.
Borðhald hefst stundvíslega kl. 20:30.
Veislustjóri er Lárus Ægir
Skemmtiatriði að hætti heimamanna
Kvenfélagskonur sjá um matinn.
Hljómsveitin Amigos sér um að halda uppi
fjörinu til klukkan 03:00.
Miðasala verður í  Fellsborg  þriðjudaginn  1. febrúar á milli klukkan 19:00 og 20:30
Miðaverð kr. 6000.
Ellilífeyrisþegar ásamt unglingum
fæddum árið 1995 greiða kr. 5000.
Erum ekki með posa
Kvenfélagið Eining
 
					
		
		
		
			
					27.01.2011			
	
	Næsta laugardag verður opinn danstími á vegum UMF Fram kl. 15-17 í íþróttahúsinu. Andrea Kasper, dansari, kennir nútímadans með aðstoð nemenda sinna sem hafa verið hjá henni í vetur.
Öllum er heimilt að taka þátt eða horfa á, aldur skiptir engu máli. Valdimar Jón Björnsson smíðaði balletstangir fyrir nemendurna og hafa þær komið að góðum notum.
Sex stúlkur hafa verið í dansnámi í vetur og hafa tekið stórstígum framförum og þær hvetja aðra til að taka þátt.
 
					
		
		
		
			
					27.01.2011			
	
	Spurningakeppnin skemmtilega sem í hálfkæringi gengur undir nafninu Drekktu betur verður á dagskránni í Kántrýbæ föstudagskvöldið 28. janúar kl. 21:30.
Þar stíga á stokk mæðgurnar Linda Kristjánsdóttir og Írena Rúnarsdóttir, önnur  spyr og hin dæmir í vafamálum en saman hafa þær samið spurningar kvöldsins.
Spurningarnar verða fjölbreyttar og án efa skemmtilegar enda er ekki tilgangurinn sá að upplýsa um þekkingu þátttakenda heldur fyrst og fremst að skemmt þeim.
Ástæða er fólk til að mæta þó ekki væri til annars en að kanna hvort einhver spurning komum Elvis heitinn Presley.
 
					
		
		
			
					26.01.2011			
	
	Margir hafa óskað eftir því að skilafrestur í könnunina um þjónustu Símans verði framlengdur. Sveitarstjórn hefur ákveðið að verða við þessum óskum. Nú er hægt er að skila svarseðlum í verslun Samkaupa fram til lokunar föstudaginn 28. janúar. 
Skila má svarseðlum í kassa sem liggur frammi í versluninni. Þar við eru líka seðlar sem fylla má út og stinga í kassann. 
Einnig er hægt að skila svarseðlum á skrifstofu sveitarfélagsins til kl. 16 á föstudaginn.
Ekki er gert ráð fyrir að hvert heimili (fjölskylda) skili fleiri seðlum en einum. 
 
					
		
		
		
			
					26.01.2011			
	
	Gamla „Tunnan“ breytist dag frá degi og eflaust á þetta gamla uppnefni eftir að hverfa. Þarna er nú verið að vinna að því að útbúa Spákonuhof. Að utan hefur bragginn verið endurnýjaður og er þó talsverð vinna eftir. 
Að innan er búið að ganga frá lofti og veggjum. Rafvirkjar og pípulagningamenn eru byrjaðir að vinna í lögnunum. Verið er að einangra og leggja viðargólf í salinn og hefur flogið fyrir að haldið verði harmónikkuball, svona að gömlum sið, þegar gólfið er komið á.
Leikmyndahönnuðurinn Sigurjón Jóhannesson er að teikna refil útfrá sögu Þórdísar spákonu og aðrir leikmunir eru óðum að fæðast hjá Ernst og Ágústu Backman sem koma að hönnun og gerð leikmuna á sýningunni.
Hugmyndir og útfærslur eru samt enn að gerjast og verður spennandi að  sjá hver útkoman verður.
Ef allt gengur eins vel og hingað til verður Spákonuhof á Skagaströnd líklega opnað í lok maí.
Önnur myndin sem fylgir þessari frétt er af salnum. Búið er að mála veggina í vínrauðum lit og loftið í svörtum. Hin myndin er af Þóri Arasyni, smið, og Sigurði Bjarnasyni, en breytingar á húsnæðinu hafa að miklu leyti hvílt á þeirra herðum.
 
					
		
		
		
			
					26.01.2011			
	
	Húsnæðið að Bogabraut 7, jarðhæð, er hér með auglýst til leigu. Það er 35,4 ferm. að stærð og þar var áður apótekið Lyfja til húsa. Eigandi er Sveitarfélagið Skagaströnd.
Sækja skal skriflega um leigu á húsnæðinu og skila á skrifstofu sveitarfélagsins fyrir kl. 16 föstudaginn 4. febrúar 2011.
Nánari upplýsingar um húsnæði veitir sveitarstjóri á skrifstofutíma í síma 455 2700.
 
					
		
		
			
					26.01.2011			
	
	Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum um byggðakvóta til fiskiskipa fyrir eftirtalin byggðarlög skv. Ákvæðum reglugerðar nr. 999/2010 um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2010/2011
Tálknafjarðarhreppur
Akureyri (Grímsey)
Borgarfjarðarhreppur (Borgarfjörður eystri)
Djúpavogshreppur
Auk reglugerðarinnar er vísað til sérstakra úthlutunarreglna í neðanskráðum byggðalögum sbr. auglýsingu  nr. 46/2011 í Stjórnartíðindum.
Árborg (Stokkseyri, Eyrarbakki)
Snæfellsbær (Arnarstapi, Hellissandur, Rif, Ólafsvík)
Árneshreppur
Húnaþing vestra (Hvammstangi)
Sveitarfélagið Skagaströnd
Dalvíkurbyggð (Hauganes, Árskógssandur)
Fjallabyggð (Siglufjörður, Ólafsfjörður)
Akureyri (Hrísey)
Fjarðabyggð (Mjóifjörður, Stöðvarfjörður)
Breiðdalshreppur
Umsóknum skal skilað til Fiskistofu á eyðublaði sem er að finna hér.  Umsóknarfrestur er til og með 9. febrúar 2011.
Fiskistofa 26. janúar 2011
 
					
		
		
			
					24.01.2011			
	
	FUNDARBOÐ
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar
miðvikudaginn 26. janúar 2011 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800.
Dagskrá:
1.        Þriggja ára áætlun
2.        Sorphirðing og eyðing .
a)      Minnisblað um sorpeyðingu.
b)     Breytingar á samningi um sorphirðu
3.        Tillaga að samþykkt um umgengni og þrifnað
4.        Byggðakvóti, tillaga að skilyrðum fyrir úthlutun
5.        Reglur um stuðning við nemendur í framhaldsnámi
6.        Bréf:
a)      Lánasjóðs sveitarfélag, dags. 15. desember 2010
b)     Varasjóðs húsnæðismála, dags. 21. desember 2010
c)      Samgöngu og sveitarstjórnarráðuneytis, dags. 30. desember 2010.
d)     Velferðarráðuneytisins, dags. 3. janúar 2011
7.        Fundargerðir:
a)         Fræðslunefndar, 19.01.2011
b)        Stjórnar SSNV, 11.01.2011
c)         Heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra, 11.01.2011
8.        Önnur mál
Sveitarstjóri