Höfðaskóli 70 ára

Höfðaskóli efnir til samkeppni um skólasöng (lag og texti) og merki skólans. Lagið þarf að vera í þægilegri söngtóntegund og textinn þarf að einhverjum hluta að passa einkennisorðum skólans. Merki skólans verður notað sem táknmynd hans á opinberum vettvangi. Einkennisorð skólans eru styrkur, vinsemd, virðing. Þátttakendur skila hugmyndum sínum til skólastjóra fyrir 1. febrúar 2010. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu skólans www.hofdaskoli.skagastrond.is .

Ástrali spyr í Drekktu betur

Di Ball er listamaður í Nes listamiðstöð og hún verður spyrill, dómari og alvaldur Drekktu betur í Kántrýbæ í kvöld, föstudaginn 11. desember kl. 21:30. Margir Skagstrendingar þekkja Di. Hún er afskaplega hress og kát. Þótti stórmerkilegt að sjá snjóinn, norðurljósin og ekki síður Skagstrendinga. Hún ætlar að spyrja um hitt og þetta. Auðvitað verða ýmsar spurningar um Ástralíu, einnig ætlar hún að spyrja um Skagaströnd og svo almennt um lífið og tilveruna. Ólafía Lárusdóttir mun þýða spurningarnar svo ekkert fari framhjá þátttakendum. Að spurningakeppninni lokinn mun Di kannski taka lagið en hún er bráðsnjöll kántrýsöngkona og var í hljómsveitum hér áður fyrr í heimalandi sínu.

Ókeypis á tónleika Gunnars Þórðarsonar

Gunnar Þórðarson verður með tónleika í Kántrýbæ fimmtudagskvöldið 10.desember kl. 21.   Allir þekkja Gunnar, hann hefur í langan tíma verið einn af vinsælustu tónlistamönnum þjóðarinnar. Nú kemur hann til Skagastrandar og sest með gítarinn á sviðið í Kántrýbæ og spilar og syngur mörg af sínum bestu lögum. Gunnar verður einn á ferð og því er þetta einstakt tækifæri til að kynnast manninum, tónskáldinu og skemmtikraftinum. Tónleikarnir eru í boði Minningarsjóðsins um hjónin frá Garði og Vindhæli. Aðgangur er ókeypis.  

Góður árangur Skagstrendinga á Silfurmóti ÍR

Skagstrendingurinn Róbert Björn Ingvarsson sigraði í 800 m hlaupi í hinu árlega Silfurmóti ÍR í frjálsum íþróttum sem haldið var 21. nóvember í Laugardalshöllinni í Reykjavík. Hann keppti í flokki stráka 12 ára. Mótið er ætlað börnum og unglingum á aldrinum 8-16 ára og mættu til leiks 571 keppandi víðsvegar af landinu. Róbert Björn varð einnig í 6. sæti í 60.m hlaupi. Stefán Velemir varð í 3. sæti í kúluvarpi sveina 15-16 ára. Valgerður G. Ingvarsdóttir keppti í þremur greinum, langstökki, 60 m hlaupi og 600 m hlaupi í flokki hnáta 9 til 10 ára. Hún náði 11. sæti í báðum hlaupunum. Sannarlega glæsilegur árangur Skagstrendingana.

Hætt við jólahlaðborð í Kántrýbæ

Vegna veikinda hefur því miður reynst nauðsynlegt að taka þá ákvörðun að hætta við jólahlaðborðið í Kántrýbæ að þessu sinni. Jólahlaðborðið var á dagskránni 4. og 5. desember og hefur verið hætt við þau báða dagana. Kántrýbær verður lokaður helgina 4. til 6. desember.

Multi Musica í Kántríbæ föstudagskvöldið

MULTI MUSICA hópurinn frumflutti tónleikadagskrá sína í Miðgarði þann fyrsta vetrardag við frábærar undirtektir áheyrenda.  
 Nú verða tónleikarnir endurteknir í Kántríbæ þann föstudaginn 27.nóvember næstkomandi kl. 21.00.
Farið er með áhorfendur í einskonar heimsreisu en flutt verða 14 lög frá 12 löndum.
Löndin sem um ræðir eru Spánn, Ísrael, Rúmenía, Kúba, Mexíkó, Chile, Argentína, Brasilía, Indland,Grikkland, Suður-Afríka og Kenía.  Um afar fjölbreytta tónlist er að ræða, þjóðlög, tangó og salsa svo eitthvað sé nefnt og fá áheyrendur að upplifa hlýlega og seiðandi tónlist í byrjun vetrar í alþjóðlegri stemningu. Multi Musica eru: 
Ásdís Guðmundsdóttir, söngur og ásláttur
Sorin Lazar, gítar 
Jóhann Friðriksson, trommur
Rögnvaldur Valbergsson, hljómborð,gítar og harmonikka
Sigurður Björnsson, bassi
Sveinn Sigurbjörnsson, bongó og trompet
Íris Baldvinsdóttir, bakraddir og ásláttur
Jóhanna Marín Óskarsdóttir, bakraddir, strengir og ásláttur
Ólöf Ólafsdóttir, bakraddir og ásláttur
Þórunn Rögnvaldsdóttir, bakraddir og ásláttur Kynnir á tónleikunum verður Íris Baldvinsdóttir.  Tónleikarnir hefjast kl. 21.00 og er aðgangseyrir kr.1.500.  Ekki missa af þessum frábæru tónleikum! Tónleikarnir eru styrktir af minningarsjóðnum um hjónin frá Garði og Vindhæli.

Opið hús hjá Nes listamiðstöð

Listamenn hjá Nes listamiðstöð opna vinnustofur sínar í lok hvers mánaðar þar sem þeir sýna þau verk sem þeir hafa verið að vinna að frá komu sinni. Í kvöld þriðjudaginn 24. nóvember viljum við bjóða öllum sem áhuga hafa að koma í heimsókn, skoða listaverk í vinnslu og spjalla við listamennina um verkin og dvölina á Skagatrönd.  Þessa stundina dvelja sjö listamenn frá þremur heimsálfum í Listamiðstöðinni á Skagaströnd.

Biskup með fyrirlestur á Löngumýri

Hr. Jón A. Baldvinsson, biskup á Hólum verður með fyrirlestur á Löngumýri í Skagafirði miðvikudagskvöldið 25. nóvember kl. 20. Nefnist hann „Hlutverk biskupsembættisins á Hólum fyrr og nú fyrir kirkju og kristni“. Þetta er fyrsta kvöldið í fyrirlestrarröð Löngumýrar um kirkjuna og stöðu hennar í margvíslegum skilningi. Fjallað verður um sögur af biskupum og hlutverki þeirra fyrr og nú, sögu biskupsstólsins á Hólum, stöðuna í dag og framtíðarsýn og spurt um tengsl safnaðanna við biskupsembættið. Löngumýrarnefnd býður alla velkomna.

Húnabjörgin dregur bát til hafnar

Um klukkustund eftir að björgunarskipið Húnabjörg á Skagaströnd var kallað út kom það til hafnar með snurvoðarbátinn Stefán Rögnvaldsson EA845.  Báturinn var á veiðum rétt um tvær sjómílur fyrir vestan Skagastrandarhöfn. útkallið kom um klukkan 10:45 og viðbrögð björgunarsveitarmanna voru sem fyrr eldsnögg. Aðeins ellefu mínútum síðar var lagt af stað frá bryggju. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum var blankalogn á Húnaflóa, eins og svo oft áður á undanförnum vikum. Stefán Rögnvaldsson hafði fengið snurvoðina í skrúfuna. Þriggja manna áhöfnin beið sallaróleg eftir aðstoð enda engin hætta á ferðum.

Endurvinnslutunnum dreift í hús

Tímamót eru nú á Skagaströnd. Verið er að dreifa í hús nýjum ruslatunnum og verða framvegis tvær tunnur á íbúð, önnur er fyrir óflokkaðan úrgang og hin fyrir það sem á að fara til endurvinnslu.  Sú breyting verður á sorphirðun að tunnan með græna lokinu verður losuð mánaðarlega en hin, sú með svarta lokinu, verður losuð á tveggja vikna fresti. Mikilvægt er að setja allan pappír og pappa  beint í endurvinnslutunnuna. Málmar fernur og plast skal þó setja í glæra poka svo auðveldara verði að flokka þessa hluti. Gömlu tunnurnar eru eign húseigenda. Að öðru leyti er vísað í bækling um endurvinnslu sem dreift var í öll hús á Skagaströnd um síðustu mánaðarmót.  Á myndinni eru Hörður Aðils Vilhelmsson og Guðni Már Lýðsson með fangið fullt af tunnum.