09.04.2010
Námskeiðið verður haldið í Höfðaskóla laugardaginn 17. apríl kl. 13 til 18.
Á því verður farið yfir fjölmörg atriði og má nefna þessi:
• Hefðbundnar og óhefðbundnar ræktunaraðferðir
• Leiðsögn um hvernig jarðvegur henti og áburðargjöf.
• Útskýrðir helstu þættir mismunandi gerðir ræktunarbeða
• Hollusta og lækningamáttur matjurta.
• Varnir gegn sjúkdómum og skordýrum
• Aðferðir við geymslu og matreiðslu.
• Ræktunaraðferðir kryddjurta og berjarunna
Kennari er garðyrkjufræðingurinn Auður I. Ottesen. Hún býr yfir margra ára reynslu í ræktun matjurta, hefur haldið fjölda námskeiða og tekið saman fræðsluefni um matjurtarækt.
Gjald fyrir námskeiðið er 5.000 kr. og þarf skráning að hafa farið fram fyrir fimmtudaginn 15. apríl nk.
Nánari upplýsingar og skráning er á skrifstofu sveitarfélagsins í síma 455-2700
Gert er ráð fyrir að sveitarfélagið bjóði upp á matjurtagarða í vor og sumar sem íbúar geta fengið til afnota.
Sveitarstjóri
08.04.2010
Ungir Skagstrendingar stóðu sig vel á skíðamóti í Tindastóli í gær og síðustu viku. Þá var Bakarísmótið haldið.
Hópur ungra Skagstrendinga tók þátt og stóðu þau sig öll með glæsibrag.
Keppt var í svigi og stórsvigi og komust eftirfarandi Skagstrendingar á verðlaunapall.
Almar Atli Ólafsson lenti í 2. sæti í svigi og 3. sæti í stórsvigi (drengir 6 ára og yngri)
Ólafur Halldórsson lenti í 2. sæti í stórsvigi (drengir 6 ára og yngri)
Daði Snær Stefánsson lenti í 1. sæti í stórsvigi (drengir 7 – 8 ára)
Dagur Freyr Róbertsson lenti í 3. sæti í stórsvigi (drengir 7 – 8 ára)
Jóhann Almar Reynisson lenti í 2. sæti í svigi (drengir 7 – 8 ára)
Harpa Hlín Ólafsdóttir lenti í 3. sæti í svigi og 3. sæti í stórsvigi (stúlkur 9 – 10 ára)
Páll Halldórsson lenti í 3. sæti í svigi (drengir 11 – 12 ára)
07.04.2010
FUNDARBOÐ
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar
fimmtudaginn 8. apríl 2010 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800.
Dagskrá:
1. Framkvæmdir 2010
2. Greinargerð endurskoðanda um fjárfestingu
3. Erindi SSNV um þjónustusvæði á Norðurlandi vestra
4. Minnisblað um matjurtagarða
5. Tillaga að gjaldskrá tjaldsvæðis Skagastrandar
6. Erindi Norðurár bs. vegna lántöku
7. Bréf:
a) Nils Posse Växjö kommun dags. 8. mars 2010
b) Húsafriðunarnefndar, dags. 11. mars 2010
c) Hárgreiðslustofunnar Vivu, dags. 20. mars 2010
d) Kennara við Höfðaskóla, dags. 4. mars 2010
e) Félags ísl. atvinnuflugmanna, dags. 25. mars 2010
f) Siglingastofnunar, dags. 26. mars 2010
g) Umhverfisráðherra, dags. 2. mars 2010
h) Skipulagsstofnunar, dags. 16. mars 2010
i) Skipulagsstofnunar, dags. 23. mars 2010
j) Skipulagsstofnunar, dags. 1. mars 2010
8. Fundargerðir:
a) Hafnarnefndar, 16.03.2010
b) Samvinnunefndar um svæðisskipulag, 10.03.2010
c) Stjórnar SSNV, 9.03.2010
d) Heilbrigðisnefndar Nl. vestra, 4.3.2010
e) Stjórnar Norðurár bs. 15.03.2010
f) Ársfundar Norðurár bs., 31.03.2010
g) Stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, 26.02.2010
h) Stjórnar Hafnarsambands Íslands, 22.01.2010
i) Stjórnar Hafnarsambands Íslands, 19.02.2010
j) Stjórnar Hafnarsambands Íslands, 12.03.2010
9. Önnur mál
Sveitarstjóri
06.04.2010
Fræðsludagur um náttúrufar í Húnavatnssýslum verður haldinn á Gauksmýri á
vegum Náttúrustofu Norðurlands vestra og Selaseturs Íslands laugardaginn
10. apríl næstkomandi.
Skúli Þórðarson sveitarstjóri Húnaþings vestra mun setja fræðsludaginn og
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra mun að því loknu flytja gestum
ávarp. Í kjölfarið hefst fyrirlestraröð sem mun standa yfir daginn. Þar
verður komið víða við á ýmsum sviðum er lúta að náttúrufari
Húnvatnssýslna.
Fyrirlestrar verða stuttir (15 mín. hver) og verður kaffisopinn aldrei
langt undan.
Fyrirlestrar verða haldnir að Gauksmýri í Línakradal í Húnaþingi vestra.
Að fyrirlestrahaldi loknu verður boðið upp á veitingar í boði Selaseturs
Íslands og Náttúrustofu Norðurlands vestra í húsnæði Selaseturs Íslands
Brekkugötu 2, Hvammstanga og fimm ára afmælis Selasetursins og tíu ára
afmæli Náttúrustofu Norðurlands vestra verður fagnað (aðeins fyrir
ráðstefnugesti).
Formleg dagskrá fræðsludagsins hefst kl. 9:30 og lýkur kl. 17:00
Athugið að þátttakendum verður boðið upp á súpu í matarhléi þeim að
kostnaðarlausu.
Aðstandendur biðja þá sem það vilja þiggja að senda
tilkynningu á netfangið steini@nnv.is eða hringja í síma 453-7999, fyrir
miðvikudagskvöldið 7. apríl næstkomandi.
Viðburðinn styrkja sveitarfélög í Húnavatnssýslum, SSNV, Vörumiðlun,
Léttitækni, Sláturhús SKVH og Vaxtarsamningur Norðurlands vestra.
Linkur á dagskrá:
http://www.nnv.is/wp-content/uploads/2010/04/Dagskra-Hun-natt.pdf
30.03.2010
Skírdagskvöld, fimmtudaginn, 1. apríl kl. 20:30 verður hin frábæra djasssöngkona Kristjana Stefánsdóttir með tónleika í í Hólaneskirkju. Hún mun syngja lög við allra hæfi og fella þau inn í hátíðaleika kvöldsins og dymbilbikunnar.
Kristjana er þekkt söngkona og hefur verið leiðandi söngkona í Íslensku jazzlífi um árabil.
Fyrsta plata hennar, „Ég verð heima um jólin“, með Kvartett Kristjönu Stefáns kom út 1996. Síðan hefur hún hljóðritað bæði í eigin nafni og sem gestasöngvari og komið reglulega fram í útvarpi, sjónvarpi og á tónleikum.
Sólóplatan „Kristjana“ frá árinu 2001 (gefin út í Japan 2005) var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2001. Platan „Fagra veröld“ sem gefin var út 2002 var einnig tilnefnd. Á henni syngur hún lög Sunnu Gunnlaugsdóttur við ljóð ýmissa höfunda.
Geislaplatan „Ég um þig“ kom út 2005 (gefin út í Kóreu 2007) og var samstarfsverkefni hennar með píanistanum Agnari Má Magnússyni. Hún var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem Jassplata ársins.
Árið 2006 kom út geislapalatan „Hvar er tunglið?“. Á henni syngur Kristjana lög Sigurðar Flosasonar við ljóð Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar. Fyrir það var Kristjana tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem flytjandi ársins 2006.
Nýjasta sólóplata hennar kom út í ágúst 2009 og ber nafnið „Better Days Blues“ og inniheldur eigin tónsmíðar og erlend lög í blús stíl Kristjana sá um upptökustjórn og útsetningar.
Kristjana hefur haldið tónleika víða, m.a. í Hollandi, Þýskalandi, Bandaríkjunum, Englandi, Finnlandi, Danmörku og Japan.
30.03.2010
Draumaraddir norðursins verða með tónleika í Hólaneskirkju, Skagaströnd miðvikudaginn 31. mars kl. 17:00
Miðaverð er kr. 1500 fyrir fullorðna og kr. 800 fyrir grunnskóla nemendur.
Draumaraddir norðursins er samstarfs verkefni þriggja söng- og tónlistarskóla, · Söngskóla Alexöndru í Skagafirði og Tónlistarskóla Austur og Vestur Húnavatnssýslu.
Stjórnandi er Alexandra Chernyshova og undirleikari Elínborg Sigurgeirsdóttir
Verkefni fékk styrk frá Menningarráði NV og Minningarsjóði um hjónin frá Garði og Vindhæli
Á youtube síðunni www.youtube.com/alexandrachernyshova og á fickr síðunni www.flickr.com/dreamvoices er hægt að sjá ljósmyndir og myndbönd frá verkefninu
29.03.2010
Erna Ósk Björgvinsdóttir, Indriði T. Hjaltason og Ingvar Páll Hallgrímsson úr Höfðaskóla komust í úrslit í undankeppni Stærðfræðikeppni FNV og grunnskóla á Norðurlandi vestra. Þremenningarnir eru allir í 9. bekk.
Alls tóku 118 nemendur úr öllum grunnskólum á Norðurlandi vestra þátt og 16 þeirra komust í úrslit.
Grunnskólarnir sáu um fyrirlögn verkefna, en stærðfræðikennarar við FNV sáu um samningu verkefna og yfirferð þeirra.
Úúrslitakeppnin fer fram fram laugardaginn 24. apríl kl. 11:00 í Bóknámshúsi FNV á Sauðárkróki.
19.03.2010
Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnavatnsþingi sem tileinkuð er Grími Gíslasyni, fréttaritara, hestamanni og bónda frá Saurbæ í Vatnsdal, fór fram í félagsheimilinu Fellsborg á Skagaströnd 18. mars.
Keppendur voru 7. bekkingar úr Höfðaskóla, grunnskólanum á Blönduósi, Húnavallaskóla og grunnskóla Húnaþings Vestra.
Keppnin var hörð og jöfn en dómnefnd, sem í sátu meðal annars tvö börn Gríms Gíslasonar, varð að lokum sammála um að Lilja Karen Kjartansdóttir úr grunnskóla Húnaþings Vestra hefði staðið sig best. Albert Óli Þorleifsson varð í öðru sæti og Benedikt A. Ágústsson í því þriðja. Báðir eru strákarnir úr grunnskólanum á Blönduósi.
Hlutu sigurvegararnir peningaverðlaun frá Sparisjóðnum á Hvammstanga auk viðurkenningarskjals. Lilja Karen mun varðveita farandskjöld, sem Grímur Gíslason gaf til keppninnar, fram að næstu keppni að ári. Allir keppendurnir fengu síðan tvenn bókaverðlaun.
Skólarnir í Húnavatnsþingi notuðu tækifærið og heiðruðu Þórð Helgason, formann dómnefndar og einn af upphafsmönnum stóru upplestrarkeppninnar og færðu honum örlítinn þakklætisvott fyrir hugsjónastarf sitt í þágu skólanna og íslenskunnar gegnum árin.
Mynd 1 Sigurvegarar
Mynd 2 Sigurvegarar og formaður dómnefndar
15.03.2010
Jurate Preiksiene frá Litháen ætlar að bjóða upp á ókeypis námskeið þriðjudaginn 16.mars frá klukkan 18 í Nesi listamiðstöð.
Kennt verður hvernig má slaka með því að gera einfaldar æfingar með pensli eða blýanti.
Námskeiðið snýst ekki beinlínis um listsköpun sem slíka heldur að finna samhljóm með sjálfum sér og litunum og línunum.
Þátttakendur þurfa að koma með pappír, vatnsliti, pensil og blýanta.
Námskeiðið tekur um 2 tíma.
11.03.2010
Á fundi sveitarstjórnar Skagastrandar þann 3. mars síðast liðinn voru eftirfarandi ályktanir samþykktar samhljóða:
Sjávarútvegsmál
Sveitarstjórn Skagastrandar skorar á ríkisstjórn Íslands að falla frá hugmyndum um innköllun veiðiheimilda eða svokallaða fyrningarleið. Aldrei fyrr hefur sjávarútvegur verið þjóðinni mikilvægari og alls engin ástæða til að gera grundvallarbreytingar á fyrirkomulagi við úthlutun veiðiheimilda. Stærstur hluti veiðiheimilda er í dag í höndum sjávarútvegsfyrirtækja vítt og breitt um landið, með fyrningarleið væri því gerð alvarlega atlaga að stöðu landsbyggðarinnar.
Á undanförnum árum hafa stjórnvöld staðið að breytingum á stjórnkerfi fiskveiða m.a. með úthlutun byggðakvóta og nú síðast ákvörðun um strandveiðar. Með þessum ákvörðunum hafa stjórnvöld komið til móts við ólík sjónarmið.
Sveitarstjórn telur ekki rétt að færa veiðiheimildir úr byggðakvóta yfir í strandveiðar en á ráðuneyti sjávarútvegsmála að breyta svæðisskiptingu strandveiða m.a. með tilliti til reynslu síðasta árs.
Heilbrigðismál
Sveitarstjórn Skagastrandar mótmælir þeim mikla niðurskurði sem Heilbrigðisstofnunin á Blönduósi þarf að taka á sig. Sveitarstjórn skorar á heilbrigðisráðherra að endurskoða boðaðan niðurskurð og tryggja að Heilbrigðisstofnuni fái sanngjarna meðferð í samanburði við aðrar stofnanir. Jafnframt brýnir sveitarstjórn þingmenn Norðvesturkjördæmis að standa vörð um stofnunina.
Samgöngumál
Sveitarstjórn Skagastrandar mótmælir hugmyndum Vegagerðarinnar um breytta veglínu í gegnum A-Húnavatnssýslu með svokallaðri Húnavallaleið. Sveitarstjórn minnir á að að í gildandi svæðisskipulagi A-Húnavatnssýslu 2004-2016 er ekki gert ráð fyrir nýjum stofnvegi á þessu svæði.
Matjurtagarðar
Sveitarstjórn samþykkir að koma upp aðstöðu innan sveitarfélagsins fyrir matjurtagarða. Sveitarstjóra er falið að útfæra hugmyndir um staðsetningu og tilhögun og leggja fyrir næsta fund sveitarstjórnar.