Djásn og dullerí á Skagaströnd

Gallerí verður opnað í kvöld í kjallara Gamla kaupfélagsins á Skagaströnd. Nafn gallerísins er einstaklega skemmtilegt en það er „Djásn og dúllerí“. Fyrir framtakinu standa þrjár konur sem þekktar eru fyrir að láta verkin tala. Skvísurnar heita Signý Ó. Richter, Björk Sveinsdóttir og Birna Sveinsdóttir. Allir Skagstrendingar eru boðnir velkomnir á opnnina sem er í kvöld fimmtudaginn 15. júlí kl. 20:00. Þar verður handverk og hönnun úr heimabyggð á boðstólum. Í galleríinu er sýningaraðstaða og mun Jón Ólafur Ívarsson ( Daddi)  byrja þar með málverkasýningu. Djásn og dúllerí hvetur Skagstendinga og nærsveitamenn sem vilja koma með vörur á markaðinn eða notfæra sér sýningaraðstöðuna, að sækja um sem fyrst. Opið verður alla daga vikunar frá kl. 14-18.

Makríll óð í Skagastrandarhöfn

Makríllinn í höfninni á Skagaströnd vakti óskipta athygli þeirra bæjarbúa sem fréttu af göngunni. Fjöldi fólks dró fram veiðistöngina og ekki þurfti að bíða lengi áður en makríllinn beit á. Raunar var að auki mikið um sandsíli í höfninni. Ekki er vitað til að maríll hafi áður vaðið í Skagastrandarhöfn. Þó er vitað að hann er góður matfiskur enda sprettharður og sterkur fiskur og tekur jafnvel betur á en silungur og lax. Meðfylgjandi myndir tók Ólafur Bernódusson þegar leikar stóðu sem hæst.

Allt að þrjátíu bátar leggja upp á Skagaströnd

Undafarið hefur verið líf og fjör í og við höfnina á Skagaströnd. Allt að þrjátíu bátar hafa lagt þar upp og er fjöldi strandveiðibáta þeirra á meðal. Aflinn hefur verið með ágætum að sögn sjómanna. Seinni part dags koma bátarnir inn í röðum og er þá mikið að gera við löndun og vigtun. En menn gefa sér tíma til annarra verka en að draga þann gula. Árni Guðbjartsson í Vík bjargaði álku úti á miðjum Húnaflóa og var hún þakklát fyrir aðstoðina eins og greinilega má sjá á svip hennar. Raunar á blessuð álkan langt flug fyrir höndum þar sem heimkynni hennar er við vestanverðan Húnaflóa. 

Vinnumálastofnun á Skagaströnd vantar starfsmann

Vinnumálastofnun óskar eftir starfsmanni í ræstingar á skrifstofuhúsnæði stofnunarinnar á Skagaströnd. Hjá Vinnumálastofnun á Skagaströnd er rekin Greiðslustofa Vinnumálastofnunar sem sér um greiðslur atvinnuleysistrygginga fyrir allt landið og þjónustuskrifstofa fyrir Norðurland vestra Leitað er að traustum starfsmanni sem er snyrtilegur, skipulagður og hefur áhuga á að skila góðu starfi. Laun eru samkvæmt kjarasamningum SFR. Umsókn ásamt ferilskrá skal senda á netfangið liney.arnadottir@vmst.is fyrir 19. júlí.  Frekari upplýsingar gefur Líney Árnadóttir forstöðukona í síma 455 4200 og á liney.arnadottir@vmst.is.  Starfsemi Vinnumálastofnunar er hægt að kynna sér á www.vinnumalastofnun.is.  

Golfblaðamaður frá Daily Mirror á Skagaströnd

Hvernig getur fámennur klúbbur byggt upp góðan golfvöll? Þessari spurningu og fleirum velti breski golfblaðamaðurinn Nic Brook fyrir sér og til að fá svör sótti hann Skagströnd heim og kynnti sér golfvöllinn. Blaðamaður var hér á ferð með Ásbirni Björgvinssyni framkvæmdastjórastjóra Markaðsstofu ferðamála á Norðurlandi. Þeir hittu nokkra forvígismenn Golfklúbbs Skagastrandar og spurði Nic Brook fjölda spurninga um golfvöllinn og Skagaströnd. Nic Brook tók þátt í Artic Open golfmótinu og Akrueyri og var hann mjög ánægður með þá upplifun.   Blaðamaðurinn skrifar fyrir breska stórblaðið Daily Mirror og má búast við umfjöllun hans á síðum blaðsins á næstunni.  Meðfylgjandi myndir voru teknar meðan á dvöl hans stóð. Á efri myndinni eru Nic Brooks lengst til vinstri, þá Ábjörn Björgvinssona og lengst til hægri er Steindór R. Haraldsson. Lesendur utan Skagastrandar taka væntanlega eftir bláum himni og fögru útsýni. Þannig er þetta alltaf á Skagströnd ...

Hjaltalín í Bjarmanesi í kvöld

Hljómsveitin Hjaltalín heldur í kvöld, 7. júlí, tónleika í Bjarmanesi og hefjast þeir klukkan 20.  Lára Rúnars, ásamt hljómsveit hennar, mun sjá um upphitun. Hljómsveitin Hjaltalín var stofnuð í  Menntaskólanum við Hamrahlíð haustið 2004 í tengslum við lagasmíðakeppni nemendafélagsins, Óðrík algaula.  Hjaltalín fékkst við margvíslega tónlist framan af og gekk í gegnum þó nokkrar mannabreytingar. Um haustið 2006 kom hljómsveitin fram á Iceland Airwaves-hátíðinni og fékk þá til liðs við sig söngkonuna Sigríði Thorlacius og var þá hljómsveitin fullskipuð.  Eftir að lagið „Goodbye July / Margt að ugga“ hlaut óvænta athygli á öldum ljósvakans fór hljómsveitin inn í hljóðver og tók upp frumburð sinn, plötuna „Sleepdrunk Seasons“. Platan kom út síðla árs 2007 og hlaut góðar undirtektir gagnrýnenda og hlustenda.  Sveitin var valin bjartasta vonin á Íslensku Tónlistarverðlaununum árið 2008 og Högni útnefndur lagahöfundur ársins.  Sumarið 2008 tók hljómsveitin upp tökulagið Þú komst við hjartað í mér, sem komið hafði út á plötu Páls Óskars þá um jólin. Lagið varð geysivinsælt á stuttum tíma og varð þegar upp var staðið vinsælasta lag ársins 2008.

Nýir Skagstrendingar komnir til listsköpunar

Nýr mánuður á Skagströnd færir til bæjarins nýja listamenn. Hjá Nesi listamiðstöð eru nú komnir ágætir listamenn til dvalar í júlí. Þeir eru: Maja Lucas, rithöfundur frá Danmörku Per Johansen, frá Danmörku Peter Möller, myndlistamaður frá Þýskalandi Jared Betts, málari frá Kanada Julia Sossinska, málari frá Þýskalandi Johannes Mahle, frá Þýskalandi Sharon Beth Dowell, málari frá Bandaríkjunum Unnur Knudsen, textíllistaðamaður Catelin Mathers-Suter, málari frá Bandaríkjunum Tekið er fagnandi á móti þessum nýju Skagstrendingum og þær óskir fylgja að þeim muni gagnast dvölin vel, en njóti hennar framar öllu.

Vefmyndavélar settar upp á Skagaströnd

Settar hafa verið upp tvær vefmyndavélar á höfninni á Skagaströnd. Hægt er að komast inn á myndavélarnar á vinstra megin á forsíðu skagastrond.is. Önnur myndavélin sýnir vestan hluta hafnarinnar, þ.e. viðlegu- og löndunarkantana Miðgarð og Ásgarð.  Frá hinni myndavélinni er útsýni yfir svokallaðan Skúffugarð, þ.e. austurhluta hafnarinnar. Í baksýn er svo hluti bæjarins og Árbakkafjall. Hægt er að opna vefmyndavélarnar í flestum vöfrum. Í fyrsta sinn sem farið er inn á þær þarf að samþykkja uppsetningu á ActiveX hugbúnaði sem er nauðsynlegur svo tölvan geti átt samskipti við myndavélarnar. Þetta þarf þó ekki að gera nema þegar farið er í fyrsta skipti inn á viðkomandi vefmyndavél. Aðgangsstýring er að vélunum, notendanafnið, user, er orðið „gestur“. Lykilorðið, password, er líka „gestur“ Með því að haka í auðan reit mun tölvan framvegis mun þessa skráningu og ekki er því þörf á að endurtaka hana.      Án efa munu sjómenn og útgerðarmenn nota vefmyndavélarnar mikið. gera má þó ráð fyrir að ferðamenn vilji geta farið inn á vefmyndavélarnar, þó ekki sé til annars en að láta sannfærast um að á Skagaströnd er alltaf sól og örlítill andvari. Þetta má nákvæmlega sjá á meðfylgjandi mynd úr vefmyndavélinni, en hún er frá því 2. júlí 2010, kl. 13:40.

Hjaltalín í Bjarmanesi 7. júlí

Hjaltalín tónleikar verða í kaffihúsinu Bjarmanesi á Skagaströnd miðvikudaginn 7. júlí kl. 20. Lára Rúnarsdóttir hitar upp.

Skagstrendingar í verðlaunasætum

Um síðustu helgi var haldið á Varmárvelli í Mosfellsbæ hið árlega frjálsiþróttamót Gogga Galvaska. Mót þetta er eitt fjölmennasta frjálsíþróttamót landsins, fyrir 14 ára og yngri og var það nú haldið í 21. sinn.  Til leiks mættu m.a. 11 frískir og kraftmiklir krakkar frá Skagaströnd. Þrír  af þeim urðu á meðal þeirra efstu.  Auðunn Árni Þrastarson varð í 2.sæti í 600 m. hlaupi í flokki 9-10 ára,  Valgerður Guðný Ingvarsdóttir varð í 2.sæti í boltakast og í 3.sæti í langstökkki í flokki  9-10 ára.  Róbert Björn Ingvarsson varð í 3.sæti í 800 m.hlaupi í flokki 13-14 ára. Auk íþróttakeppninnar var margt í boði, þar á meðal skrúðganga, gróðursetning og sundlaugarpartí.  Goggi galvaski, hefur haft það að leiðarljósi frá upphafi að gestir skemmti sér vel í leik og keppni og það brást ekki í ár. Meðfylgjandi myndir eru af keppendunum frá Skagaströnd.