Drekktu betur í kvöld í Kántrýbæ ...!

Þær Ósk Richter og Sigríður Sveinsdóttir verða hæstráðendur til sjós og lands í spurningaleiknum Drekktu betur sem verður í kvöld í Kántrýbæ kl. 21:30. Þegar kátar konur fá að stjórna er pottþétt að allir munu skemmta sér af hjartans lyst. Þær ætla að spyrja um samfélagið, eitthvað héðan af Skagströnd, um hitt og þetta sem allir eiga að vita.

Heimferðin stutt, örugg og án pissustoppa

Í gærkvöldi hélt Karlakórinn Heimir tónleika í Hólaneskirkju. Þeir heppnuðust afar vel og áheyrendur voru afskaplega ánægðir að þeim loknum. Hins vegar hefði aðsóknin mátt vera betri. Á heimasíðu Karlakórsins er eftirfarandi frétt um tónleikanna: Tónleikar í Hólaneskirkju á Skagaströnd eru afstaðnir. Húnvetningar tóku okkur merkilega vel og viljum við þakka þeim kærlega fyrir góðar viðtökur.  Þar sem "æfingaferðin" suður á land heppnaðist vonum framar treystum við okkur til að bjóða þeim upp á svipaða dagskrá. Því miður átti Jón Þorsteinn ekki heimangengt til að spila með okkur en hróður hans fer víða því að ágætlega seldust diskarnir hans í hléi. Það er gott að syngja í Hólaneskirkju og kunnugir höfðu orð á því að kórinn fyllti vel upp í rýmið. Lög eins og Ár vas alda og karlakórslögin; Þér Landnemar og Úr útsæ skiluðu sér af fullum þunga. Einnig naut fólkið þess vel þegar við hvísluðum okkur gegnum Linditréð og Í Fögrum Dal. Ari Jóhann fékk þó bestu viðtökurnar í einsöngslögunum, enda er karlinn í fantaformi þessa dagana, eftir að hann rakaði af sér skeggið ...   Gunnar kynnir var óvenju hógvær fyrir hlé, enda kom það í ljós að hann hafði gleymt að hafa með sér gleraugum á svið. Eftir hlé sótti hann heldur í sig veðrið og skemmti fólki með vísum og sögum tengdum dagskránni.   Sem betur fer eru raddfélagar hans í 2. bassa komnir með eftirlitskerfi á karlinn og er Árni á Uppsölum ábyrgur fyrir því að halda aftur af honum.  Hirting kvöldsins var eftirfarandi vísa: Gunnar malar og malar magnaður lopann að spinna Endalaust talar og talar ég trúi honum minna og minna Lokalagið var Pílagrímakór Wagners.  Nokkur aukalög áttum við í handraðanum, sem öll féllu í góðan jarðveg. Heimferðin var stutt, örugg og án pissustoppa! Kórinn kemur næst fram á Sæluvikutónleikum í Miðgarði með Karlakórnum Stefni frá Mosfellsbæ.

Styrkir úr Þróunarsjóði framhaldsfræðslu

Þróunarsjóður framhaldsfræðslu auglýsir eftir umsóknum um styrki vegna nýsköpunar- og þróunarverkefna í framhaldsfræðslu, sbr. lög um framhalds- fræðslu nr. 27/2010. Forgangssvið við úthlutun árið 2011 eru: Námsefnisgerð í framhaldsfræðslu  Nýsköpunarverkefni í framhaldsfræðslu Undirbúningur/grunnvinna fyrir rannsóknir Viðmiðin sem Þróunarsjóðurinn gengur út frá við val á verkefnum eru að þau: Nái til þeirra sem falla undir ramma laganna um framhaldsfræðslu Mæti sýnilegri þörf fyrir menntunarúrræði í framhaldsfræðslu Áhersla er lögð á að öll verkefni sem sótt er um styrk til séu vel undirbúin og umsóknir vandaðar. Kostur er að verkefni sé samstarfsverkefni. Verkefni sem styrkt eru mega ná yfir tvö ár frá úthlutun. Eingöngu er tekið við umsóknum á rafrænu formi. Umsóknareyðublað má nálgast á vef Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins www.frae.is sem jafnframt er umsjónaraðili verkefna sjóðsins. Umsóknarfrestur er til 6. maí 2011 Umsækjendum er bent á að kynna sér lög um framhaldsfræðslu nr. 27/2010 og úthlutunarreglur sjóðsins sem má nálgast á www.frae.is.

Til hamingju Höfðaskóli

Síðasta þriðjudag var hin árlega íþróttakeppni milli grunnskólanna í Húnavatnsþingi haldin hér á Skagaströnd. Að þessu sinni var keppt fótbolta, skotbolta, boðhlaupi, reiptogi og klifri í klifurveggnum. Keppnin var mjög spennandi en að lokum fór svo að Höfðaskóli bar sigur úr býtum.  Að lokinni íþróttakeppni var nemendum boðið upp á pizzur í Kántrýbæ og síðan var dansað fram eftir kvöldi í Fellsborg undir stjórn Dj. Söndru.  Þessi dagur var hinn skemmtilegasti og gaman að fylgjast með þessum 190 nemendum skemmta sér saman í keppni og leik.

Málþing á Gauksmýri um Mat úr héraði

Virki þekkingarsetur býður til málþings á Gauksmýri, 28. Apríl 2011 kl. 13-17. Dagskrá þingsins verður sem hér segir: 13:00 - 13:10 Setning Sigurbjörg Jóhannesdóttir, formaður Byggðarráðs Húnaþings vestra 13:10 - 13:40 Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, Háskólinn á Hólum: Ferðaþjónusta sem bragð er að - straumar og stefnur í matarferðaþjónustu  13:40 - 14:10 Dominique Plédel. Jónsson, Slow Food: góður, hreinn og sanngjarn matur  14:10 - 14:40 Matís Guðmundur J. Guðmundsson, Beint frá Býli: Staða og framtíð í sölu Beint frá býli  14:40 - 15:10 Þóra Valsdóttir, Matís: Vöruþróun og smáframleiðsla matvæla Kaffihlé í 20 mínútur 15:30 - 15:45 Svanhildur Pálsdóttir, Hótel Varmahlíð: Skagfirska Matarkistan og ég. 15:45 - 16:00 Stella J. A. Leví og Sæunn V. Sigvaldadóttir, Sæluostur úr sveitinni 16:00 - 16:15 Gudrun Kloes og Kristín Jóhannesdóttir, Fjöruhlaðborð og Sviðamessa 16:15 - 16:30 Svava Lilja Magnúsdóttir, Brauð og Kökugerðin: Smábakarí á landsbyggðinni  16:30 - 16:45 Guðmundur Helgason, Matarvirki og Kjöthornið: Matvælavinnsla - þekking í héraði 16:45- 17:00 Pálína Fanney Skúladóttir, Spes Sveitamarkaður Grillhlaðborð Eftir málþingið ætlar Sveitasetrið Gauksmýri að taka forskot á sæluna og bjóða upp á grillhlaðborð eins og það hefur verið með undanfarin sumur við miklar vinsældir. Óskað er eftir því að fólk panti á hlaðborðið í síðasta lagi 19. apríl í síma 451 2927, eða hjá Virki þekkingarsetri í síma 455 2525. Hlaðborðið hefst kl. 18:00. Verð á mann kr. 4000,-

Sumarstörf hjá Vinnumálastofnun á Skagaströnd

Vinnumálastofnun á Skagaströnd leitar eftir starfsfólki í sumarafleysingar. Umsækjendur þurfa að hafa góða leikni í mannlegum samskiptum, lipurð í tölvunotkun og áhuga á að skila góðu starfi.  Launakjör eru samkvæmt kjarasamningum SFR. Framhalds- eða háskólamenntun er kostur sem og reynsla af skrifstofustörfum.  Helstu verkefni Greiðslustofu Vinnumálastofnunar eru afgreiðsla umsókna um atvinnuleysisbætur og upplýsingagjöf.  Hlutverk Greiðslustofu er að sjá um greiðslur atvinnuleysistrygginga fyrir allt landið. Á skrifstofunni á Skagaströnd starfa um 25 manna liðsheild.  Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband og eða kynna sér starfsemi Vinnumálastofnunar á www.vinnumalastofnun.is  Líney Árnadóttir forstöðumaður veitir upplýsingar í síma 860 2053 og tekur við umsóknum ásamt ferilskrá á netfangið liney.arnadottir@vmst.is.  Umsóknarfrestur er til 19. apríl.

Búast má við vatnsleysi í dag.

Vegna bilunar í raflínu að vatnsveitu á Hrafndal má búast við að vatnslaust verði þegar kemur fram á daginn. Viðgerð er hafin en skorað er á fólk að spara vatn þar viðgerð er lokið. Sveitarstjóri

Málþing um uppbyggingu ferðamannastaða

Ferðamálastofa boðar til málþings fimmtudaginn 14. apríl næstkomandi á Grandhóteli í Reykjavík um uppbyggingu og skipulag ferðamannastaða. Meðal fyrirlesara verður Audun Pettersen frá Innovasjon Norge og einnig hópur innlendra fyrirlesara með þekkingu á málaflokknum.    Málþingið hefst kl. 08:30 og því lýkur kl. 11:30. Síðasta klukkutímann mun Sævar Kristinsson ráðgjafi hjá Netspori stjórna umræðuhópum (Heimskaffi).  Dagskrá málþingsins má sjá á heimasíðu Ferðamálastofu, www.ferdamalastofa.is  og skráning fer í gegnum netfangið: skraning@ferdamalastofa.is fyrir kl. 14:00 miðvikudaginn 13. apríl næstkomandi. 

Góður árangur Höfðaskóla í stærðfræðikeppni

Niðurstöður liggja fyrir í undankeppni stærðfræðikeppni FNV og 9. bekkjar, en þessi keppni er samvinnuverkefni FNV og grunnskólanna á Norðurlandi vestra og í Fjallabyggð. Keppnin er styrkt af sveitarfélögum, stofnunum og fyrirtækjum sem leggja til verðlaun sem afhent verða eftir úrslitakeppnina þann 29. apríl. Alls komast 15 keppendur í úrslitakeppnina af þeim 131 sem tóku þátt. Megin tilgangur keppninnar er að auka áhuga grunnskólanema á stærðfræði og er hún fremur hugsuð sem leikur en keppni. Aðstandendur keppninnar þakka öllum 9. bekkingum fyrir þátttökuna og óska þeim sem komust í úrslit til hamingju, en listann yfir þá er að finna hér á eftir. Birna Ólíva Agnarsdóttir, Húnaþing vestra Eva Margrét, Árskóli Guðrún Anna Halldórsdóttir, Höfðaskóli Haukur Marian Suska, Húnavallaskóli Hákon Ari Grímsson, Húnavallaskóli Heba Líf Jónsdóttir, Höfðaskóli Ingi Sveinn, Árskóli Ívar Árni Róbertsson, Höfðaskóli Sigurbjörg Katla Valdimarsdóttir, Höfðaskóli Sigurbjörg Birta Berndsen, Höfðaskóli Sigurveig Anna, Árskóli Snæbjörg Lilja, Árskóli Sævar Freyr Freysteinsson , Varmahlíð Sævar Óli Valdimarsson, Varmahlíð Vigdís Sveinsdóttir, Árskóli Fjöldi keppenda eftir skólum:   Árskóli: 27 Blönduskóli: 8 Grunnskóli Húnaþings vestra: 17 Grunnskólinn austan vatna: 10 Grunnskólinn í Fjallabyggð: 40 Húnavallaskóli: 8 Höfðaskóli: 7 Varmahlíðarskóli: 4 Alls: 131 Fréttin er fengin frá Fjölbrautarskóla Norðurlands, www.fnv.is.

Loksins, loksins - tónleikar með karlakórnum Heimi

Núna ætla góðir grannar að koma yfir fjallið og skemmta með fjölbreyttri og líflegri söngskrá. Auðvitað er hér átt við Karlakórinn Heimir í Skagafirði sem Skagstrendingar hafa beðið eftir í allan vetur. Kórinn ætlar nú að að halda tónleika í Hólaneskirkju á Skagaströnd fimmtudaginn 14. apríl kl. 20:30. Kórinn hefur hlotið mikið lof fyrir dagskrá vetrarins og mega áheyrendur því eiga von á prýðilegri skemmtun. Miðar verða seldir við innganginn. Karlakórinn Heimir var stofnaður í lok desember árið 1927. Stofnendur hans komu flestir úr litlum kór og var hann nefndur Bændakó og starfaði í 11 ár.  Fyrstu árin störfuðu kórfélagar við mjög frumstæðar aðstæður. Það var æft heima á sveitabæjum þar sem orgel voru til staðar enda var nú ekki mikið um samkomuhús á þessum tímum. En félagsskapurinn stækkaði og áhuginn var mikill.  Til æfinga fóru menn aðallega gangandi eða ríðandi en stundum fóru þeir einnig á skíðum. Voru þessar ferðir oft hættulegar og var það augljóst að margir lögðu mikið á sig til að geta verið með í söngnum.  Fyrsti söngstjóri kórsins var Gísli Magnússon frá Eyhildarholti, á eftir honum var tónskáldið Pétur Sigurðsson og síðan Jón Björnsson, einnig tónskáld, frá Hafssteinsstöðum. Hann stjórnaði Heimi í nærri því 40 ár.  Margir aðrir söngstjórar hafa stjórnað kórnum í gegnum tíðina og þeirra er og margvígslegs fróðleik er getið í samantekt Konráðs Gíslasonar: „Söngur í 60 ár“.   Stefán R. Gíslason hefur stjórnað kórnum nær óslitið frá árinu 1985 en hefur nú tekið árshlé frá störfum.   2010-2011 er Helga Rós Indriðadóttir nú stjórnandi kórsins. Undirleikari er dr. Thomas R Higgerson á píanó.