Myndir af niðurrifi síldarþróarinnar

Gamla síldarþróin heyrir nú sögunni til. Fjölmargir Skagstrendingar, eldri sem yngir, kunna að sakna hennar enda hefur hún verið við höfnina lengur en flestir muna. Allt tekur breytingum. Nú veltir fólk því fyrir sér hvernig vinnuaðstaðan verði þegar engin er þróin þarna á höfninni. Ýmsir hafa látið sér detta í hug að í staðinn mætti byggja tónlistarhús í anda þess sem gert hefur verið við Reykjavíkurhöfn. Hana mætti nefna eftir einhverju hljóðfæri svo alls sæmræmis sé nú gætt. Klarínett, básúna ... Hér eru nokkra myndir sem teknar voru á meðan á niðurrifi þróarinnar stóð. Þær eru teknar frá 9. til 13. maí. Röðin er skiptir líklega litlu máli. Hver og einn getur séð hvernig staðan er á niðurrifinu með því að skoða hverja mynd nokkuð náið. Það vakti athygli ljósmyndarans hversu sterk steypan var og mikið járn í henni. Tæki verktakans eru þó öflug og stóðst ekkert þeim snúning. Og nú er hún Snorrabúð stekkur ... eða þannig.

Skólaslit Tónlistarskólans A-Hún

Skólaslit og afhending prófskírteina Tónlistarskóla A-Hún fara fram í Blönduósskirkju laugardaginn 21. maí kl. 1500 Fram koma nemendur sem hafa lokið stigsprófi á vetrinum og þeir sem eru að ljúka námi úr 10. bekk. Innritun Innritun fyrir skólaárið 2011 – 2012 fer fram að Bogabraut 10 Skagaströnd fimmtudaginn 19. maí kl. 15 – 18.

Háskóli unga fólksins á Skagaströnd í næstu viku

Háskóli unga fólksins, HUF, hefur verið starfræktur á vegum Háskóla Íslands frá árinu 2004 og notið mikilla vinsælda. Í tilefni aldarafmælis HÍ 2011 verður starfsemi HUF með hátíðarsniði og skólinn á faraldsfæti.    Þar ber hæst  ferð Háskóla unga fólksins með svokallaðri Háskólalest sem heimsækir níu áfangastaði á landinu í samstarfi við Rannsóknarsetur HÍ á landsbyggðinni, grunnskóla, sveitarfélög o.fl. Frá og með 29. apríl til 28. ágúst 2011 verða valin námskeið HUF, ætluð börnum frá 12 til 16 ára, haldin víðs vegar um landið undir formerkjum Háskólalestarinnar.  Til viðbótar við námskeið fyrir unga fólkið verður fjölþætt dagskrá fyrir alla aldurshópa á hverjum áfangastað, viðburðir, uppákomur, örfyrirlestrar og margt fleira.   Háskólalestin verður á Skagarströnd á tímabilinu 20. -21. maí. Háskólalestin er skipulögð í nánu samstarfi við Vísindavef Háskóla Íslands en á vefnum verður sérstakur „brautarpallur“ lestarinnar. Á Vísindavefnum verður m.a. fróðleikur um hvern áfangastað lestarinnar, tekinn saman með virkri þátttöku grunnskólanemenda og Rannsóknasetra HÍ. Nemendur vinna jafnt spurningar og svör á vefinn ásamt öðru efni, svo sem myndböndum og hlaðvarpi.  Háskólalestin hefur nú farið víða um land og viðbrögð og undirtektir hafa verið einstaklega jákvæð. Við þökkum fyrir velviljann og hlökkum til samstarfsins.

Opið hús í Barnabóli

Fimmtudaginn 12. maí s.l. buðu nemendur og kennara Leikskólans Barnabóls í svokallað „opið hús“.   Annað hvert vor, árið með oddatölu, er gestum og gangandi  boðið formlega að koma í heimsókn, ganga um leikskólann og fylgjast með leik og starfi nemenda og hvernig hefðbundinn leikskóladagur gengur fyrir sig. Skoða verkefni og iðju nemenda og fá innsýn og upplýsingar um metnaðarfullt skólastarf Barnabóls.  Foreldrafélag leikskólans var með kaffisölu á Cafe Barnabóli og einnig með sölu á myndverkum eftir nemendur.  Í ár bauð félagið upp á hoppukastala á leikskólalóðinni sem vakti mikla ánægju. Í bliðskaparveðri iðað leikskólalóðinn af lífi og fjöri.  Margir Höfaðskólanemendur komu og léku sér með leikskólanemendum í kastalanum.  Þetta var skemmtilegur dagur og margir litu inn og tóku þátt í honum með okkur og stjórnendur Barnabóls þakka öllum fyrir komuna og að gera daginn ánægjulegan með þeim og börnunum. 

65 ára gamlar þrær heyra brátt sögunni til

Nú er verið að rífa gömlu síldarþrærnar við höfnina. Hverfur þá eitt af minnismerkjunum um síldarvinnslu á Skagaströnd. Þrærnar eru rammgerðar og mikil vinna að brjóta í sundur steypuna og klippa járnin. Vel var vandað til verks er hafist var handa við byggingar þeirra haustið 1945. Sagan er áhugaverð rétt eins og hún birtist lesendum í bókinni Byggðinn undir Borginni. Í henni segir m.a.: Þegar hafnargerð hófst á Skagaströnd fór stjórn Síldarverksmiðja ríkisins þess á leit við Áka Jakobsson, atvinnumálaráðherra, að fá leyfi til að hefja byggingu nýrra verksmiðja á Siglufirði og Skagaströnd. Var stefnt að því að verksmiðjurnar yrðu tilbúnar til vinnslu fyrir síldarvertíð 1946. Þetta samþykkti Alþingi í lok febrúar árið 1945. Skagaströnd óskabarn ríkisstjórnarinnar Stjórn síldaverksmiðjanna þótti bygging nýju verksmiðjanna á Siglufirði og Skagaströnd skammt á veg komnar í mars árið 1946 og taldi ólíklegt að þær yrðu báðar tilbúnar fyrir vertíðina. Vildi hún að hætt yrði við verksmiðjuna á Skagaströnd í bili eða hægt á þeim.  Atvinnumálaráðherra féllst ekki á þetta enda taldi byggingarnefnd ekki útséð um að koma mætti báðum verksmiðjunum í gang fyrir sumarið. Skagaströnd var orðin óskabarn stjórnarinnar og hefur ráðherranum því verið sárt um að stöðva þar framkvæmdir.  Þá má benda á að á vertíðinni 1945 veiddust í Húnaflóa um 43% þeirrar síldar sem Síldarverksmiðjur ríkins fengu til vinnslu. Hvatti það einnig til að verksmiðjan við Flóann kæmist í gagnið. Verksmiðjan var tilbúin í lok ágústmánaðar og alls vann hún tæplega sjö þúsund mál þetta fyrsta starfsár en afkastagetan var um átta þúsund mál á sólarhring. Um veturinn og vorið 1947 var unnið áfram að því að fullgera nýju verksmiðjurnar.  Hrunið Byggingakostnaðurinn fór langt fram úr áætlun og var ríkisstjórnin mikið gagnrýnd fyrir það. Fór þá heldur að grynnka á eftirlæti stjórnvalda við síldariðnaðinn. Kom hér og fleira til. Síldarvertíðin 1945 var ein sú slakasta um árabil og sú lélegasta frá því Síldarverksmiðjur ríkisins tóku til starfa árið 1930.  Það kom þó brátt á daginn að aflatregðan 1945 markaði upphaf hrun veiða Norðurlandssíldarinnar. Örlögin höguðu málum svo að framkvæmdir við nýju verksmiðjuna á Skagaströnd hófust á sama tíma og síldin ákvað að leita á nýjar slóðir. Ekki er að efa að við þessi tíðindi varð mörgum Skagstendingnum hugsað til sögusagnar, sem gekk í kauptúninu nokkrum árum áður. Hafsteinn Sigurbjarnarson segir eftirfarandi í æviminningum sínum: „Samtímis verksmiðjubyggingunni heyrðust sprengidrunur í hamrabelti, sem kauptúnið ber nafn af. Grjótið var stöðugt flutt í uppfyllingu og hafnargarð, sem byrjað var að gera suður við Hrafná, því nú átti í hvelli að gera stóra hafskipahöfn. Í kauptúninu var gráhærður öldungur, sem spáði því, að huldufólkið myndi sjá um það, að ekki yrði unnið til lengdar við grjótnámið, og ekki framar sjást síldarbranda í Húnaflóa.“ Sú trú, að huldufólksbyggðir væru í Höfðanum, var mjög sterk á þessum árum og í huga margra var enginn efi um hverju kenna ætti síldarleysið. Verksmiðjan á Skagaströnd starfaði aldrei á fullum „dampi“.  Með hruni veiða Norðurlandssíldarinnar var brostinn sá grunnur öll nýsköpun á Skagaströnd hvíldi á. Innan tíðar varð ljóst að draumurinn um síldarútvegsbæinn sem átti að vera fyrirmynd annarra bæja, myndi aldrei rætast. Enn í dag gnæfir verksmiðjustrompurinn yfir bæinn eins og risavaxinn minnisvarði um þessa stóru drauma. Úr bókinni Byggðin undir Borginni, Saga Skagastrandar og Höfðahrepps.

Skóli opnar dyr

Vinnumálstofnun Norðurlands vestra heldur námskynningu á á Kaffi Krók á Sauðárkróki mánudaginn 16. maí kl. 14. Þar verða kynntir möguleikar á að hefja nám haustið 2011 í framhaldsskólum og háskólum undir yfirskriftinni: Skólinn opnar dyr! Upfylla þarf inntökuskilyrði skólanna en þeim hefur verið gert kleift að taka við mun fleiri nemendum en áður. Á kynningunni verða fulltrúar frá eftirtöldum skólastofnunum:  Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra Farskólanum Hólaskóla Háskólanum á Akureyri Kynningarefni frá fleiri skólum verður í boði. Allir velkomnir

Saga Lind sigraði í matreiðslukeppni Höfðaskóla

Í vetur hafa 8 nemendur 9. - 10. bekkja Höfðaskóla verið í heimilisfræðivali tvo tíma á viku.  Fyrir stuttu var efnt til matreiðslukeppni meðal þeirra. Áttu þau að elda og bera fram rétt að eigin vali.  Nemendur þurftu að huga að bragði, úliti og vanda vinnubrögð auk þess sem kostnaður mátti ekki fara yfir 1.000 kr.  Óhætt er að segja að keppendur lögðu mikinn metnað í vinnuna og var afraksturinn eftir því glæsilegur og bragðgóður.  Dómarar  voru Gunnar Halldórsson matreiðslumaður og Guðbjörg Ólafsdóttir matgæðingur og fyrrum heimilisfræðikennari. Eftir vandlega umhugsun komust þau að þeirri niðurstöðu að eftirtaldir hefðu unnið keppnina: 1. sæti: Saga Lind Víðisdóttir með franska súkkulaðitertu með chili/appelsínusósu 2. sæti: Lilja Svandís Hallgrímsdóttir með fylltar kjúklingabringur  3. sæti: Sæþór Bragi Ágústsson með beikonvafðar kjúklingabringur Vegleg verðlaun voru veitt og voru þau gefin af MS, Samkaup Úrval, Vilko og Kántrýbæ. Fleiri myndir úr keppninni má sjá á myndasíðu Höfðaskóla.

Óskað eftir myndum af gömlu Tunnunni

Spákonuhof verður opnað innan skamms á Skagaströnd í samkomuhúsbragganum, gömlu Tunnunni. Þar verður sýning um Þórdísi spákonu fyrsta nafngreinda íbúa Skagastrandar en hún var uppi á síðari hluta 10. aldar. Boðið verður upp á margháttaðan fróðleik um spádóma og spáaðferðir. Og  ekki síst geta gestir geta látið spá fyrir sér eða fengið lófalestur. Vegna opnunarinnar er nú verið að leita eftir myndum af húsinu, samkomuhúsbragganum, gömlu Tunnunni. Leitað er eftir öllum myndum af viðburðum innandyra jafnt sem utan. Skiptir engu hvort myndirnar eru góðar eða ekki. Þeir sem eiga slíkar myndir eru beðnir um að láta Dagnýju M. Sigmarsdóttur vita en síminn hjá henni er 861 5089.

Meðalhiti á Skagasströnd í apríl var 3,7 gráður

Meðalhiti á Skagaströnd í apríl  var 3,7 gráður. Hýjast var að meðaltali þann 9. apríl en þá fór hitinn upp í 7,9 gráður.  Síðustu dagar mánaðarins voru hlýir en þá fór hitinn yfir 7 gráður. Sé meðaltalinu sleppt var hlýjast milli kl. 16 og 19 þann 28. apríl en þá var hitinn frá 10 til nærri 12 gráður. Vindgangur var nokkur í apríl, þó var meðalvindstyrkur mánaðarins aðeins 7,8 metrar á sekúndu (m/s).  Nokkrum sinnum hvesst hressilega. Hvassast var 10. apríl er rokið fór í 26 m/s en þann dag var skratti hvasst á Skagaströnd og var mælingin langtímum saman yfir 20 m/s.  Eftir því sem leið á mánuðinn lygndi og endaði mánuðurinn eins og hann byrjaði í koppalogni. Ráðandi vindátt í apríl var suður og suðvestur en það sést greinilega á vindrósinni sem hér fylgir með. Að öðru leyti hefur veðrið í vetur verið sem hér segir: Vindur, m/s Nóvember 6,0 Desember 7,1 Janúar 9,0 Febrúar 6,7 Mars         8,2 Apríl         7,8 Hiti Nóvember 0,5 Desember 0,5 Janúar 0,4 Febrúar 1,4 Mars        -1,6 Apríl         3,7 Vindáttir Nóvember Austlægar og norðlægar Desember Frekar suðlægar Janúar Norðlægar Febrúar Suður og austlægar Mars         Suðvestlægar Apríl         Suður og suðvestlæg

Tengdasonur Skagastrandar skrifar glæpasögu

Morð, spilling og hrun fjármálakerfisins á Íslandi eru umfjöllunarefni breska blaðamannsins Quentins Bates í nýrri glæpasögu sem gefin hefur verið út í Bretlandi, Bandaríkjunum og Þýskalandi.  Þetta er fyrsta bók rithöfundarins sem nefndur hefur verið tengdasonur Skagastrandar.  Viðtal við Quentin Bates birtist í síðasta tölublaði Frjálsrar verslunar, 2. tbl. 2011.  Greinin er hér meðfylgjandi með leyfi ritstjóra Frjálsrar verslunar: http://www.skagastrond.is/krimmi.pdf