Opnun tilboða í endurbyggingu grjótvarnar á Skagaströnd

Fimmtudaginn 16. júní voru opnuð tilboð í verkið "Útgarður, endurbygging grjótvarnar". Eftirfarandi tilboð bárust: Tilboðsgjafi: Upphæð: 1.Norðurtak ehf Kr. 4.626.500 2.Víðimelsbræður Kr. 9.155.000 3.Tígur ehf. Kr. 7.512.975 Kostnaðaráætlun verkkaupa: Kr. 11.434.000 Spurt var um athugasemdir fyrir og eftir opnun, en engar gerðar. Upplýsingar af: www.sigling.is

Vatnslaust í Bogabraut

Vegna tenginga í vatnsveitu má gera ráð fyrir að vatnslaust verði í Bogabraut eftir hádegi fimmtudaginn 16. júní, í skamman tíma. Sveitarstjóri

Glæsilegt Kántrýsetur opnað á Skagaströnd

Fjölmenni var við opnun Kántrýseturs í Kántrýbæ síðasta laugardag og mikið um dýrðir. Á Kántrýsetrinu er sýning þar sem hægt er að finna mikinn fróðleik um lífshlaup og feril Hallbjörns Hjartarsonar og kántrýtónlist á Íslandi. Leikmynda- og sýningahönnuðurinn Björn Björnsson setti upp sýninguna í samstarfi við rekstraraðila Kántrýbæjar, þau Svenný Hallbjörnsdóttur og Gunnar Halldórsson.  Björn sagði að söfnun efnis, hönnun og uppsetning sýningarinnar hefði tekið um eitt ár og er hann ánægður með útkomuna.  Framkvæmdastýra verksins var útvarpskonan Margrét Blöndal og sá hún um að safna saman efni og upplýsingum og koma á sýningarhæft form í samvinnu við Björn. Á opnunarhátíðinni, þar sem fram komu landsþekktir listamenn eins og Magnús Kjartansson og Björgvin Halldórsson ásamt fleirum, voru setrinu færðar gjafir og styrkir.  Í þakkarávarpi sínu sagði Hallbjörn, sem nýlega átti 76 ára afmæli, að sig hefði ekki órað fyrir að hann ætti eftir að upplifa þann draum sinn að sjá safn eða sýningu sem þessa verða að veruleika. Hann sagðist vera snortinn og hræður yfir þeim heiðri sem sem sér væri sýndur með sýningunni og þakkaði öllu því góða fólki sem gert hefði þetta mögulegt. Jafnframt sagðist hann vona að sýningin á setrinu yrði fólki til ánægju og gleði og ungum sem öldnum hvatning til átaka á listasviðinu – ekki síst í kántrýtónlistinni. Að loknum ávörpum og stuttum tónleikum, þar sem þau Björgvin Halldórsson, Selma Björnsdóttir og Heiða Ólafsdóttir fluttu uppáhaldslögin sín eftir Hallbjörn við undirleik hljómsveitar undir stjórn Magnúsar Kjartanssonar, klippti síðan Hallbjörn á borða og opnaði þar með Kántrýsetrið formlega.  Um kvöldið þegar gestir höfðu haft tækifæri til að skoða sýninguna, sem er mjög umfangsmikil og er á öllum veggjum Kántrýbæjar á báðum hæðum, voru síðan tónleikar með fyrrgreindum listmönnum.  Dagurinn endaði síðan með dúndrandi kántrýballi í boði Kántrýbæjar eins og aðrir viðburðir dagsins. Ólafur Bernódusson, frétt úr Morgunblaðinu 15. júní 2011.

Opnunartími sundlaugar um hvítasunnuhelgina

Sundlauginn verður opin alla hvítasunnuhelgina milli 13:00 og 17:00. Við minnum á að frítt er í laugina fyrir íbúa á Skagaströnd. Börn yngri en 10 ára verða að vera í fylgd með fullorðnum. Lokað verður þriðjudaginn 14. júní vegna hæfnisnámskeiðs starfsfólks. Sundlaugarverðir. 

Kántrýsetrið opnað með viðhöfn á laugardaginn

Á laugardaginn verður opnað Kántrýsetur í Kántrýbæ. Mikið verður um að vera í bænum af því tilefni. Kastljós fjölmiðla beinist að Skagaströnd. Rás 2 verður með beinar útsendingar úr bænum á föstudag og laugardag.  Í Kántrýsetrinu verður ævintýraleg og óvenjuleg saga Hallbjörns Hjartarsonar til sýnis, allt frá fæðingu fram á þennan dag. Saga sem hófst í líkhúsinu á Blönduósi því Hallbjörn var talinn andvana við fæðingu. Hann hafði hins vegar einsett sér að lifa og eins og þeir vita sem þekkja hann heldur hann alltaf sínu striki, hvað sem hver segir. Ótal margir hafa hrist höfuðið yfir uppátækjum hans, allt frá því hann var barn. Sjálfur segist hann alltaf hafa haft sína vitleysu á þurru, ólíkt mörgum og draumur hans um að gera Skagaströnd að eftirsóknarverðum ferðamannastað hefur sannarlega ræst.  Formleg opnun setursins verður laugardaginn 11. júní og af því tilefni hefur Magnús Kjartansson búið til heiðurshljómsveit Hallbjörns Hjartarssonar með söngvarana Björgvin Halldórsson, Selmu Björnsdóttur og Heiðu Ólafsdóttur í fararbroddi. Hljómsveitin mun halda tónleika í Kántrýbæ og slá svo upp sannkölluðu kántrýballi að hætti kúreka norðursins.  Hugmyndin um Kántrýsetur er ekki ný af nálinni en er nú loks að verða að veruleika. Það eru núverandi rekstraraðilar Kántrýbæjar, þau Gunnar Sveinn Halldórsson og Svenny H. Hallbjörnsdóttir (Hjartarsonar) sem standa að setrinu með stuðningi Menningarráðs Norðurlands vestra, Minningarsjóðsins um hjónin frá Garði og Vindhæli, Sveitarfélagsins Skagastrandar og Iðnaðarráðneytis.  Umsjón með verkefninu hafði Margrét Blöndal, útvarpskona með meiru og um hönnun og uppsetningu sá Björn G. Björnsson, leikmyndahönnuður.  Kántrýsetrið verður opnað með viðhöfn kl. 15.00 Þá býður Margrét Blöndal, útvarpskona gesti velkomna. Dagskráin er eftirfarandi: Ávörp Heiðurshljómsveit Hallbjörns Hjartarssonar spilar en hana skipa Magnús Kjartansson og félagar  Björgvin, Selma og Heiða flytja þrjú lög eftir kántrýkónginn Kántrýsetrið opnað, klippt á borðann  Tónleikar í Kántrýbæ kl. 20.00 – 21.30 
til heiðurs Hallbirni Hjartarsyni, Björgvin, Selma og Heiða. 

 Kántrýball verður frá kl. 23:00, heiðurshljómsveitin leikur fyrir dansi Að sjálfsögðu eru allir velkomnir. Dagskráin er frábær … gleði, fjör og mikil skemmtun fyrir fólk á öllum aldri. Og ekki má gleyma sjálfu Kántrýsetrinu. Það er er fróðleg sýning um kántrýkónginn Hallbjörn og kántrýtónlistina á Íslandi. Á föstudaginn verður síðdegisútvarp Rásar 2 á Skagaströnd og sendir út beint frá kl. 16-18.  Á laugardagsmorguninn verður þátturinn Bergson & Blöndal verður sendur úr frá Skagaströnd.

Café Bjarmanes opnað á laugardaginn

Caffihúsið Bjarmanes verður opnað á laugardaginn. Sem fyrr er það Steinunn Ósk Óskarsdóttir sem rekur það í sumar. Hún býður alla hjartanlega velkomna velkomnir í Bjarmanes í sumar.  Án efa verða veitingarnar jafn girnilegar og freistandi og áður. Bjarmanes er kaffihús með menningarlegu ívafi. Í sumar verða að venju fjölbreyttar listsýningar og tónleikar. 

Útboð grjótvarnar

26.5.2011 Auglýsing um útboð á Skagaströnd Hafnarsjóður sveitarfélagsins Skagastrandar óskar eftir tilboðum í endurbyggingu á grjótvörn Útgarðs á um 28 m kafla og hækka vörnina á um 45 m kafla . Helstu magntölur: Taka upp og endurraða grjóti   um 400 m³. Sprengt og flokkað grjót 1 – 12 tonn  um 1.300 m³. Verkinu skal lokið eigi síðar en 15. september 2011. Útboðsgögn verða afhent á skrifstofu Siglingastofnunar, Vesturvör 2, Kópavogi frá og með þriðjudeginum 31. maí 2011, gegn 5.000,- kr. greiðslu. Tilboð verða opnuð á sama stað fimmtudaginn 16. júní, 2011 kl. 11:00. Hér má finna fleiri auglýsingar um útboð.

Vel heppnaður sjómannadagur á Skagaströnd

Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur á Skagaströnd í gær, laugardag. Veðrið var afskaplega gott, hlýtt en nokkur strekkingur. Um morguninn var farið í skúrðgöngu frá höfninni og að Hólaneskirkju. Þetta hefur verið hefð svo lengi sem elstu menn muna. Úrsúla Árnadóttir, sóknarprestur, messaði og á eftir var lagður blómakrans við minnismerki drukknaðra sjómanna. Skemmtun var á hafnarhússplani og hófst hún með fallsbyssuskoti. Farið var í kappsiglingu í höfninni.  Á planinu reyndu karlar og konur með sér í alls kyns leikjum og íþróttum. á eftir var boðið upp á kaffi og bakkelsi í Fellsborg og um kvöldið var þar stórdansleikur þar sem hljómsveitin Matti og draugabanarnir léku fram eftir nóttu.

Veðrið á Skagaströnd í maí

Maí var hlýr á Skagaströnd, hlýrri en allir liðnir mánuðir ársins. Engu að síður var hann kaldur. Meðalhiti mánaðarins var aðeins 4,2 gráður sem er auðvitað út í hött miðað við vorið – eða hvað?  Lygnara var í maí en verið hefur það sem af er árin. Vindstyrkurinn var aðeins 6,1 meter á sekúndu (m/s) og í hviðum fór hann upp í 9 m/s að meðaltali. Og hver er ástæðan fyrir köldu vori? Sumir segja syndum spilltir íbúar. Aðrir velta því fyrir sér hvort veðrið eigi bara ekki vanda til þess að vera svona á okkar „ísa köldu landi“. Sé svo skiptir syndin engu máli. Hiti Maí byrjaði vel og endaði á svipaðan hátt. Hlýtt var í upphafi og síðustu daga mánaðarins. Hlýjast var að meðaltali fyrri helming mánaðarins.  Á tímabilinu 1. til 15. maí var meðalhitinn 4,9 gráður. Seinni hlutann var meðalhitinn aðeins 3,5 gráður. Það kann að virðast lítið en 1,4 gráður eru hvorki meira né minna en 34% af meðalhita mánaðarins og auðvitað munar um minna.  Sömu sögu er að segja þegar mánuðinum er skipt í þrennt. Hlýjast er fyrstu tíu daganna. Þá er meðalhitinn 5,2 gráður. Síðan súnkar meðalhitinn niður í 3,6 gráður frá 11. til 20. maí og er eiginlega hinn sami síðustu tíu dagana, þ.e. 3,7 gráður. Lægst fór hitin 20. maí, en þann sólarhring var hann að meðaltali 0,4 gráður. Þá lá hann að mestu í núllinu. Daginn eftir versnaði laglega í því. Þó meðaltal hitans 21. maí hafi verið 0,8 gráður voru sveiflurnar meiri. Frá miðnætti og fram undir klukkan átta ríkti frostið kalt, að mestu eins gráðu frost. Er sólar tók að gæta hlýnaði og yfir daginn og fram undir miðnætti var eins eða tveggja gráðu hiti.  Þrátt fyrir að hitastigið í maí reyndi allt hvað tæki til að halda takti við árstíðina og eindregin vilja almennings gekk allt brösuglega. Það var svo ekki fyrr en þann 27. maí að hitinn fór yfir sjö gráðurnar samkvæmt lygilegu meðaltali. Má eiginlega segja að máttarvöldin séu eins og stjórnvöld landsins, hagsmunir þeirra og almennings fara lítt saman. Vindgangur Maí byrjaði vel. Lyngt var að mestu fram til 18. maí er’ann rauk upp í leiðinda hvassviðri sem entist í þrjá til sex daga. Síðustu dagana var vindur svona í kringum 10 m/s en hviðurnar voru mun hærri. Þetta hefði svo sem verið í lagi kuli og hvassvirði hefðu ekki farið saman. Fannst mörgum það óþarfi af máttarvöldunum og aftur er samlíkingin við stjórnvöld við hæfi. Vindáttir Og hvers vegna skyldi ný hafa verið svona kalt í maí? Látum syndir íbúanna liggja á milli hluta og einblínum frekar á vindáttir. Í ljós kemur að ráðandi vindáttir í maí komu úr áttunum frá norðri til austurs. Og þær voru kaldar, ferlega kaldar, sérstaklega eftir miðjan mánuðinn. Þetta má glögglega sá á meðfylgjandi vindrós fyrir maí. Frá faglegu hliðinni Á bloggsíðu sinni, http://esv.blog.is, segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, og varpar það líklega ágætu ljósi á veðurfarið í maí á landsvísu: Merkilegt nokk þá virðist þessi maímánuður ekki ætla að marka nein sérstök spor í veðurfarssögunni. Þrátt fyrir alvöru kuldakast í yfir vikutíma eftir miðjan mánuðinn verður hitinn yfir meðallagi víðast hvar á landinu (kannski síst um norðvestanvert landið).  Þökk sé hagstæðari tíð framan af eða frá um 2. maí fram yfir þ. 15.  Ef sá góði kafli hefði ekki komið væri mánuðirinn að öllum líkindum í slöku meðallagi.  Í Reykjavík stefnir í um 0,5°C yfir meðallag mánaðrins og á Akureyri um 1,0°C yfir maímeðaltalinu 1961-1990.  Ágætt það.  Það sem vekur kannski meiri athygli er úrkoman, en þegar dagur er eftir í mælingum hefur hún reynst vera meiri á Akureyri en í Reykjavík.  55 mm (tvöföld) á móti 53 mm í Rvk. En það sem meira er að um helmingur mánaðarúrkomunnar í Reykjavík féll fyrsta daginn (25 mm að morgni 1. maí)  og þótti það ansi mikið.   Sumir eru e.t.b. nú þegar búnir að gleyma lausamjöllinni í Höfuðborginni að morgni þess dags. Hann féll reyndar að miklu leyti fyrir miðnætti, þ.e. í apríl, en telst samt til maí skv. reglunum um skiptingar á milli mánaða í úrkomu.  Á Akureyri kom megnið af úrkomunni hins vegar í þremur slumpum um miðbik maí mánaðar. 

Sjómanndagurinn 2011 dagskrá

Sjómannadagur 2011