Starf hafnarvarðar laust til umsóknar

SKAGASTRANDARHÖFN AUGLÝSIR STARF HAFNARVARÐAR LAUST TIL UMSÓKNAR Starfssvið: Vigtun og skráning í aflaskráningarkerfi Fiskistofu, gerð reikninga fyrir höfnina, almenn hafnarvarsla, viðhaldsvinna, og tilfallandi störf. Hæfniskröfur: Almenn tölvukunnátta, skipstjórnarréttindi æskileg, löggilding sem vigtunarmaður er kostur. Laun samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kjalar. Umsóknareyðublöð liggja frammi á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastrandar og hægt að sækja þau á vef sveitarfélagsins www.skagastrond.is Umsóknarfrestur er til og með 8. febrúar 2013. Nánari upplýsingar veitir: Magnús B. Jónsson Sími: 455 2700. Netfang: magnus@skagastrond.is

Prjónakaffi

Prjónakaffi verður haldið í Textilsetrinu fimmtudaginn 17. janúar 2013 kl. 20:00 Í Textilsetrinu eru tveir erlendir listamenn og þrír textilnemendur sem munu kynna hvað þær eru að vinna með. Listamennirnir eru frá Kanada annars vegar og Hollandi hinsvegar. Nemendurnir eru frá Textilskóla í Kaupmannahöfn og munu kynna skólann sinn og verkefni. Tungumál engin fyrirstaða þar sem frásögnin verður þýdd á íslensku jafnharðan. Hvetjum alla sem áhuga hafa á spennandi hannyrðum/handverki að koma, sjá og taka prjónana sína með. Textilsetur Íslands Árbraut 31 540 Blönduós Sími : 8949030 Facebook: Textilsetur Íslansds

Súpukvöld og markaður

Miðvikudaginn 16. janúar frá kl. 18:00 - 20:00 ætlar Umf. Fram að vera með súpukvöld og markað í Fellsborg. Í boði verður að kaupa gúllassúpu (eða kakósúpu fyrir börnin ef þau vilja hana frekar), súpan kostar 1000 kr. fyrir fullorðna og 500 kr. fyrir grunnskólabörn (frítt fyrir 5 ára og yngri). Einnig býðst fólki að leigja borð og selja þar notað útivistar- og íþróttadót (fatnað og búnað), hafið samband við Dísu Ásgeirs. í síma 452 2923 eða 895 5472 ef þið viljið fá borð. Fjölmennum og eigum saman skemmtilega kvöldstund um leið og við styrkjum félagið til góðra verka og ekki er verra ef okkur tekst að grynnka á dótinu í geymslunni :) Kveðja Umf. Fram.

Þýskur sjónvarpsþáttur um útgerð á Skagaströnd

Þýska sjónvarpsstöðin ZDF Mediathek gerði sjónvarpsþátt um smábátaútgerð á Íslandi. Þáttagerðarmenn komu á Skagaströnd og fóru í róður með Öldu HU 112 með Sigurjóni Guðbjartssyni og Hafþóri Gylfasyni. http://www.zdf.de/ZDFmediathek#/beitrag/video/1816630/au%C3%9Fendienst:-Fischer-in-Island

Þorrablót

kvenfélagsins Einingar verður í Félagsheimilinu á Skagaströnd laugardaginn 2. febrúar 2013. Húsið opnað kl. 19:00. Borðhald hefst stundvíslega kl. 19:30. Veislustjóri er Lárus Ægir Skemmtiatriði að hætti heimamanna kvenfélagskonur sjá um matinn. Hljómsveitin Upplyfting sér um að halda uppi fjörinu til klukkan 03:00. Miðasala verður í félagsheimilinu sunnudaginn 27. janúar á milli klukkan 11:00 og 12:00 Miðaverð kr. 7000. Ellilífeyrisþegar ásamt unglingum fæddum árið 1997 greiða kr. 6000. Kvenfélagskonur selja þorrabakka í rauðasal félagsheimilisins sunnudaginn 3. febrúar á milli kl. 12:00 og 13:00 meðan birgðir endast . Kvenfélagið Eining

Stuðningur við tómstundastarf og nám

Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2013 tók sveitarstjórn Skagastrandar ákvörðun um eftirfarandi almennan stuðning við tómstundastarf og nám: Frístundakort Samþykkt var að bjóða frístundakort sem nemi allt að 15 þúsund króna styrk fyrir hvert grunnskólabarn sem tekur þátt í íþrótta og æskulýðsstarfi. Ákvörðun gildir um íþrótta- og æskulýðsstarf sem fram fer á tímabilinu 1. janúar til 31. desember 2013. Frístundakortin ná til starfsemi íþróttafélaga auk hverskonar skipulagðs félags- og tómstundastarfs sem stendur í sex vikur eða lengur og greitt er fyrir með þátttökugjaldi. Þar að auki gildir kortið fyrir aðra tómstundaiðkun, s.s. tónlistar- og listnám. Síðasti greiðsludagur vegna tímabilsins er 15. janúar 2014. Til að fá endurgreiðslu vegna frístundastarfs þarf að framvísa á skrifstofu sveitarfélagsins greiðslukvittun sem sýnir fyrir hvaða frístundastarf er greitt og fyrir hvaða barn. Námsstyrkir Samþykkt var að veita styrki til nemenda á framhalds- og háskólastigi sem nemur 20 þús. kr. skólaárið 2012-2013 en styrkirnir eru veittir til jöfnunar á námskostnaði fjarri heimabyggð. Umsóknum um styrki skal skilað til skrifstofu sveitarfélagsins fyrir 24. febrúar 2013. Nemendur á framhalds- og háskólastigi sem eiga lögheimili á Skagaströnd og fullnægja skilyrðum í reglum um styrkina eiga rétt á umræddum námsstyrk frá Sveitarfélaginu Skagaströnd. Nánari upplýsingar veittar á skrifstofu sveitarfélagsins og á heimasíðunni http://www.skagastrond.is/samthykktir.asp og þar má einnig fá/finna umsóknareyðublöð. Sveitarstjóri

Menningarstyrkir

Verkefnastyrkir til menningarstarfs 2013 Menningarráð Norðurlands vestra auglýsir eftir umsóknum um verkefnastyrki á grundvelli menningarsamnings mennta- og menningarmálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis við SSNV. Tilgangur styrkjanna er að efla menningarstarf og menningartengda ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra. Ákveðið hefur verið að hafa eina úthlutun á árinu 2013, með umsóknarfresti til og með 7. febrúar. Menningarráð hefur ákveðið að þau verkefni hafi forgang sem uppfylla eitt eða fleiri eftirtalinna atriða: · Fjölga atvinnutækifærum og efla samstarf á sviði menningar og lista. · Stuðla að nýsköpun og þróun í menningu og menningartengdri ferðaþjónustu. · Verkefni sem stuðla að þátttöku allra þjóðfélagshópa í menningu og listum. · Verkefni sem leiða til samstarfs við önnur lönd á sviði menningar og lista. · Verkefni sem draga fram staðbundin eða svæðisbundin menningareinkenni eða menningararf. · Verkefni sem stuðla að listsköpun og menningarstarfi ungra listamanna. Stofn- og rekstrarstyrkir til menningarstarfs 2013 Menningarráð Norðurlands vestra auglýsir eftir umsóknum um stofn- og rekstrarstyrki á grundvelli menningarsamnings mennta- og menningarmálaráðuneytis við SSNV. Tilgangur styrkjanna er að efla starfsemi á sviði lista, safna og menningararfs. Styrkirnir miðast við starfsemi árið 2013. Menningarráð hefur ákveðið að þeir umsækjendur hafi forgang sem uppfylla eitt eða fleiri eftirtalinna atriða við úthlutun ársins 2013: Ø Stuðla að því að efla menningarstarfsemi á sviði lista, safna- og menningararfs. Ø Stuðla að nýsköpun í menningarstarfsemi. Ø Styðja við menningarstarfsemi sem fjölgar atvinnutækifærum á svæðinu. -------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------- Úthlutunarreglur og umsóknareyðublöð er að finna á heimasíðu SSNV, www.ssnv.is, undir liðnum Menningarráð. Umsóknir skulu sendar Menningarfulltrúa Norðurlands vestra, Einbúastíg 2, 545 Skagaströnd, eigi síðar en 7. febrúar 2013. Þær má senda rafrænt á netfangið menning@ssnv.is. Séu þær sendar í pósti skulu þær póststimplaðar eigi síðar en síðasta umsóknardag. Allar nánari upplýsingar og aðstoð veitir Ingibergur Guðmundsson, menningarfulltrúi, símar 452 2901 / 892 3080, netfang menning@ssnv.is.

Starfsmaður óskast á Greiðslustofu á Skagaströnd

Vinnumálastofnun leitar eftir kraftmiklum og jákvæðum starfskrafti í liðsheild sína hjá Greiðslustofu á Skagaströnd. Um er að ræða tímabundið starf fulltrúa í símaveri. Starfs- og ábyrgðarsvið Símsvörun, almenn skrifstofustörf Upplýsingagjöf Önnur tilfallandi verkefni Menntunar- og hæfniskröfur fulltrúa Stúdentspróf er æskilegt Góð reynsla af skrifstofustörfum Góð tölvukunnátta Góð íslensku- og enskukunnátta Þekking á vinnumarkaði, stjórnsýslulögum og atvinnuleysistryggingarkerfinu er kostur Samskiptahæfni og rík þjónustulund ásamt skipulagshæfileikum, sjálfstæði og metnaði til að skila góðu starfi Umsóknarfrestur er til 11. janúar 2013. Öllum umsóknum verður svarað. Greiðslustofa á Skagastönd er staðsett á Túnbraut 1-3 og er hlutverk hennar að sjá um greiðslur atvinnuleysistrygginga fyrir allt landið. Þar starfa nú á þriðja tug starfsmanna.Áhugasamir geta kynnt sér starfsemi Vinnumálastofnunar á heimasíðu hennar http://www.vinnumalastofnun.is/. Umsóknir með upplýsingum um menntun og starfsferil sendist til Líneyjar Árnadóttur, forstöðumanns Greiðslustofu á netfangiðliney.arnadottir@vmst.is, en hún veitir einnig frekari upplýsingar í síma 582-4900.

Brenna – flugeldasala – flugeldasýning.

Ágætu Skagstrendingar – gleðilegt nýtt ár. Vegna þess að ekki var hægt að hafa brennu og flugeldasýningu eins og til stóð á gamlársdag verður síðbúin áramótabrenna í kvöld, föstudagskvöldið 4. janúar. Kveikt verður í brennunni kl. 20.30 og litlu síðar hefst flugeldasýning. Blysför er frá Fellsborg kl. 20:00 og skorað á alla að mæta. Mjög margir komust ekki til að kaupa flugelda fyrir gamlársdag og því eru verulegar birgðir til hjá okkur. Sala flugelda er afar mikilsverð tekjulind fyrir Björgunarsveitina Strönd og Ungmennafélagið Fram í þeim mikilvægu hlutverkum sem þau gegna í samfélaginu hér á Skagaströnd. Það kemur sér afar illa fyrir okkur að sitja uppi með miklar birgðir. Flugeldasalan verður opin alla helgina kl. 15:00-18:00 að Skagavegi 2. Kaffi á könnunni og allir velkomnir. Björgunarsveitin Strönd og Ungmennafélagið Fram.