Næsti fundur sveitarstjórnar

  FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar miðvikudaginn 19. apríl 2017 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 13.00 Dagskrá:   1.   Ársreikningur 2016 (fyrri umræða) 2.   Framkvæmdir 2017 3.   Rekstur málefna fatlaðra 2016 4.   Bréf a.    Sigurlaugar Ingimundardóttur, dags. 22. mars 2017 (kosning 1.ftr. í nefnd) b.    Vodafone, dags. 5. apríl 2017 c.    Air 66N, dags. 29. mars 2017   5.   Fundargerðir: a.    Hafnar og skipulagsnefndar, 18.04.2017 b.    Stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, 30.03.2017 c.    Stjórnar Sambands ísl sveitarfélaga, 24.03.2017 d.    Stjórnar Sambands ísl sveitarfélaga, 31.03.2017   6.   Önnur mál

Mynd vikunnar

Sjómenn á merkum bát Þessa mynd tók Lárus Ægir Guðmundsson 1991. Félagarnir á myndinni voru þá að koma með Haukafell SF 40 til Skagastrandar eftir að Hólanes hf keypti bátinn frá Hornafirði. Báturinn fékk nafnið Gauti og einkennisstafina HU 59 og var gerður út á bolfisk og rækju til 1993. Þá var hann seldur Skagstrendingi hf sem seldi hann strax áfram til Hornafjarðar aftur. Þar var hann tekinn af skrá í apríl 1994 en settur aftur á skrá í apríl 1996 þegar hjónin Erna Sigurbjörnsdóttir og Þorvaldur Skaftason keyptu bátinn og komu með hann til Skagstrandar enn á ný. Þau hjón skírðu bátinn Húni II en það var hans upphaflega nafn þegar hann var smíðaður 1963 á Akureyri fyrir útgerðarfélagið Húni hf á Skagaströnd. Húni II er nú á Akureyri og þjónar þar sem útsýnis- og skólabátur. Það má því segja að báturinn sé búinn að fara marga hringi á líftíma sínum en líklega er hann nú að lokum kominn í lokahöfn. Sjómennirnir á myndinni eru, frá vinstri: Stefán Jósefsson skipstjóri og útgerðarmaður, Vilhjálmur Skaftason sjómaður, Sigurjón Guðbjartsson skipstjóri og útgerðarmaður og Gunnar Albertsson vélstjóri. (heimild: Sjósókn frá Skagaströnd & Vélbátaskrá 1908 - 2010 eftir Lárus Ægi Guðmundsson)

Tónleikar í Hólaneskirkju 6. apríl

  Skagfirski kammerkórinn heldur tónleika í Hólaneskirkju í kvöld fimmtudagskvöldið 6. apríl kl 20.

Samið um talþjálfun gegnum netið

  Félags- og skólaþjónusta Austur-Húnavatnssýslu og Trappa ehf undirrituðu 2ja ára samning þann 30. mars sl. og bættust sveitarfélögin í A-Hún þar með í stóran hóp sveitarfélaga sem nýta sér talþjálfun í gegnum netið. Samningurinn lýtur að talmeinaþjónustu í skólum og leikskólum sveitarfélaganna og munu fyrstu börnin byrja fljótlega í talþjálfun. Greiningar verða ennþá í höndum Ingibjargar Huldar Þórðardóttur, talmeinafræðings A-Hún. Hér sjást Þórdís Hauksdóttir fræðslustjóri Austur-Húnavatnssýslu og Tinna Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Tröppu við undirritun samningsins í húsakynnum Tröppu í Aðalstræti, Reykjavík.   

Námsstyrkir til nemenda á framhalds- og háskólastigi

Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2017 tók sveitarstjórn Skagastrandar ákvörðun um að veita styrki til nemenda á framhalds- og háskólastigi sem nemur 20 þús. kr. skólaárið 2016-2017 en styrkirnir eru veittir til jöfnunar á námskostnaði fjarri heimabyggð. Umsóknum um styrki skal skilað til skrifstofu sveitarfélagsins fyrir 25. apríl 2017. Umsóknir sem berast eftir umsóknarfrest verða ekki teknar til greina. Nemendur á framhalds- og háskólastigi sem eiga lögheimili á Skagaströnd og fullnægja skilyrðum í reglum um styrkina eiga rétt á umræddum námsstyrk frá Sveitarfélaginu Skagaströnd. Nánari upplýsingar veittar á skrifstofu sveitarfélagsins og á heimasíðunni  http://www.skagastrond.is/samthykktir.asp og þar má einnig fá/finna umsóknareyðublöð. Reglur um styrkina má finna hér. Umsókn um styrk má finna hér.     Sveitarstjóri

Mynd vikunnar

Sjoppan á Karlsskála Myndin er af fyrstu sjoppunni á Skagaströnd en hún var rekin í græna timburhúsinu sem stendur vinstra megin við við Karlsskála. Ernst Berndsen (d. 21.8.1983) á Karlsskála var umboðsmaður fyrir olíufélagið BP á Íslandi og rak hann sjoppuna með Helgu dóttur sinni. Bensíndæla frá BP var fyrir utan sjoppuna eins og sést á myndinni. Ein af nýungunum sem sjoppan var með á sínum tíma var að fara að selja ís, pinnaís og ís í pökkum, upp úr frystikistu í sjoppunni. Lengst af var ekki fastur opnunartími í sjoppunni heldur þurfti að fara og banka á dyrnar á Karlsskála og biðja um afgreiðslu. Sjoppan var rekin í allmörg ár á árunum um og eftir 1960. Konurnar og börnin á myndinni eru óþekkt en ef þú þekkir þau vinsamlega sendu þá Ljósmyndasafninu athugasemd. Senda upplýsingar um myndinaSkráning

Árshátíð Höfðaskóla

Árshátíð Höfðaskóla verður haldin í Fellsborg föstudaginn 31. mars 2017 og hefst kl. 19:30. Húsið opnar kl. 19:00 Dagskrá: - Skemmtiatriði frá öllum bekkjum - Diskótek 1. – 6. bekkur - til kl. 22:30 7. – 10. bekkur - til kl. 23:30 Aðgangseyrir: 1500 kr. Grunnskólanemar og yngri : aðgangur ókeypis Allir hjartanlega velkomnir Nemendur og starfsfólk Höfðaskóla

Mynd vikunnar

Golfarar 1991 Golfarar sem tóku þátt í golfmóti á Hágerðisvelli 1991 raða sér upp við nýreistan golfskálann á vellinum. Frá vinstri: Karl Berndsen (d. 12.2.1995), Dagný Sigmarsdóttir, Adolf H. Berndsen, Soffía Pétursdóttir, óþekktur, Hjördís Sigurðardóttir, Kristín Mogesen, (krýpur), Ingibjörg Fríða Hafsteinsdóttir, Fanney Zophaníasdóttir, Ingibergur Guðmundsson, óþekktur, Jón Sigurðsson, Árni Jónsson (með svarta húfu) , óþekktur, Guðmundur Kristinsson, þrír óþekktir og Vilhelm Jónsson. Ef þú þekkir óþekkta fólkið vinsamlega sendu okkur þá athugasemd.

Bjarmanes – Fellsborg – Tjaldstæðið Höfðahólum

Sveitarstjórn Skagastrandar hefur ákveðið að auglýsa Fellsborg og Tjaldstæðið Höfðahólum til leigu auk Bjarmaness sem áður hefur verið auglýst. Mögulegt er að óska eftir leigu á öllum þessum einingum, tveimur saman eða hverri fyrir sig. Sveitarstjórn mun meta umsóknir með tilliti til þess hvaða nýir möguleikar kunni að liggja í samningum um einstakar einingar eða allar saman. Kaffi-og menningarhúsið Bjarmanes á Skagaströnd er fallegt steinhús, byggt 1913 en var allt endurbyggt 2004,og hefur þann einstaka anda sem einkennir mörg gömul hús. Það stendur miðsvæðis með góðu útsýni yfir höfnina og Húnaflóann. Félagsheimilið Fellsborg var byggt árið 1965. Í húsinu eru 2 misstórir salir, sem nýttir hafa verið til skemmtanahalds, leiksýninga, ættarmóta, fatamarkaða og fl. Bókasafn Sveitarfélagsins er á neðri hæð sem og félagsstarf eldri borgara. Kvenfélagið Eining og UMF Fram hafa þar einnig aðstöðu. Við húsið er íþróttavöllur staðarins og einnig ágæt aðstaða fyrir tjöld og tjaldvagna sem hefur einkum verið nýtt í tengslum við ættarmót sem haldin eru í húsinu. Tjaldsvæðið í Höfðahólum er á skjólsælum og rólegum stað efst í byggðinni og horfir á móti sólu. Í miðju svæðisins er gamall bæjarhóll þar sem bærinn Höfðahólar stóðu. Svæðið er í fallegu umhverfi og nýtur skjóls til norðurs og austurs af lágum klettahólum sem kallaðir eru Hólaberg.  Runnar skipta svæðinu upp í nokkra reiti sem skapa þægileg umhverfi fyrir tjöld, húsbíla, hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagna. Rafmagnstenglar eru á nokkrum stöðum. Á svæðinu er góð aðstaða fyrir börn í spennandi náttúrlegu umhverfi. Í þjónustuhúsinu eru sturta, vatnssalerni, þvottavél og aðstaða til uppþvotta.   Umsóknum skal skilað á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastrandar fyrir 20. apríl 2017 þar sem m.a. komi fram hugmyndir umsækjanda um rekstur hverrar einingar eða allra saman. Áður auglýstur umsóknarfestur um Bjarmanes er framlengdur til 20. apríl. Umsóknum má einnig skila rafrænt á netfangið magnus@skagastrond.is   Fyrir hönd sveitarstjórnar,   Í mars 2017. Sveitarstjóri  

Mynd vikunnar

Kvenfélagið Eining 27. febrúar 1927 var kvenfélagið Eining á Skagaströnd stofnað. Félagið er því 90 ára um þessar mundir. Á þessum 90 árum hefur félagið staðið fyrir fjölmörgum framfaramálum í okkar samfélagi eins og lesa má um í bók Lárusar Ægis Guðmundssonar: " Kvenfélagið Eining Skagaströnd 1927 - 2013". Á myndinni eru konur í félaginu að loknum aðalfundi. Ekki er vitað hvenær myndin var tekin en það hefur verið kringum 1970. Sitjandi frá vinstri: Helga Berndsen, Margrét Konráðsdóttir (d.17.9.1974), Guðrún Helgadóttir (d. 15.4.1987), Karla Helgadóttir (d.25.9.1986), Guðrún Teitsdóttir (d.17.6.1978), Soffía Sigurðardóttir (d.24.10.2002), Halldóra Pétursdóttir (d.23.12.1987), Soffía Lárusdóttir (d.31.3.2010) og Jóna Guðrún Vilhjálmsdóttir (d.13.7.2003). Standandi frá vinstri: Elísabet Bjarnason (d.10.1.2009), Guðbjörg Guðjónsdóttir (d.3.7.1981), Birna Blöndal, Elísabet Árnadóttir, María Konráðsdóttir (d.9.8.2003), Anna H. Aspar (d.1.9.1999), Guðmunda Sigurbrandsdóttir (d.15.8.2015), Hjördís Sigurðardóttir og Friðbjörg Oddsdóttir