Mynd vikunnar

Ægissíða Ægissíða, heimili ljósmyndarans Guðmundar Guðnasonar (d. 21.11.1988) og foreldra hans Guðna Sveinssonar (d. 15.11.1971) og Klemensínu Klemensdóttur (d.12.6.1966). Húsið er nú löngu horfið en mun að stofni til hafa verið flutt utan úr Kálfshamarsvík. Þar bjuggu í því Sigurður Júlíusson og Guðbjörg Guðjónsdóttir kona hans, líklega til 1943. Þá keyptu Björn Jóhannesson og Ragnheiður Jónsdóttir húsið og bjuggu í því til 1948, er þau fóru að Bergstöðum. Guðni Sveinsson og Klemensína Klemensdóttir bjuggu í húsinu eftir það, en líklega keypti Pálmi sonur þeirra húsið af Birni.

Ásdís Adda Ólafsdóttir sjúkraþjálfari hefur störf.

Ásdís Adda Ólafsdóttir sjúkraþjálfari hefur hafið störf á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi og Skagaströnd. Ásdís tekur á móti tímapöntunum og fyrirspurnum í síma 848-4720 og í tölvupósti sjukrathjalfunasdis@gmail.com Ásdís verður staðsett að Flúðabakka 2 á Blönduósi og Ægisgrund 14 á Skagaströnd.

Mynd vikunnar

Landsendarétt Landsendarétt stóð við Landsenda, sem er nyrsti endi Spákonufellshöfða, eða á sjávarbakkanum skammt norðan við Réttarholt. Eins og sjá má var meginhluti réttarinnar hlaðinn úr grjóti og enn (í júní 2017) má sjá leifar réttarinnar sem er löngu aflögð sem slík.

Húsnæðisstuðningur vegna 15-17 ára námsmanna .

Foreldrar eða forsjáraðilar námsmanna yngri en 18 ára, sem leigja húsnæði vegna náms fjarri lögheimili, eiga rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi vegna barna sinna samkvæmt reglum um sérstakar húsnæðisbætur sem sveitarstjórn hefur samþykkt. Þar segir m.a. um húsnæðisstuðning til 15-17 ára barna: Foreldrar/forsjáraðilar geta sótt um stuðninginn á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastandar. Veita skal sérstakan húsnæðisstuðning til foreldra eða forsjáraðila 15–17 ára barna sem leigja húsnæði hér á landi vegna náms fjarri lögheimili. Með húsnæði er átt við herbergi á heimavist eða námsgörðum eða sambærilega aðstöðu á almennum markaði. Þegar fleiri en einn nemandi leigja saman íbúð getur húsnæðisstuðningur náð til þeirrar leigu enda sé gerður leigusamningur við hvern og einn. Um leigu á almennum markaði er gerð krafa um að hvorki umræddur nemandi né aðrir sem leigja húsnæðið séu náskyldir eða mikið tengdir leigusala. Sérstakur húsnæðisstuðningur vegna nemenda skal vera óháður tekjum og eignum foreldra eða forsjáraðila og nemur 50% af leigufjárhæð. Húsnæðisstuðningur vegna nemenda getur þó aldrei numið hærri fjárhæð en 45.000 kr./mánuði. Með umsókn um slíkan stuðning skal leggja fram húsaleigusamning og staðfestingu á námi barns. Reglurnar í heild má finna á heimasíðunni undir "Samþykktir"

Gangnaseðill í Spákonufellsborg

Fyrri haustgöngur fara fram föstudaginn 8. september 2017. Seinni haustgöngur fara fram föstudaginn 15.september 2017. Eftirleitir verða 22.september 2017. Gangnaforingi er Jón Heiðar Jónsson Réttarstjóri í báðum réttum er Hrönn Árnadóttir Farið fram Hrafndal og fram í Ármót, vestur Brandaskarð með hreppagirðingu að norðan. Spákonufellsborg að sunnanverðu að Hrafná að Fellsrétt. Undanskilin er skógræktargirðing. Í borgina leggi eftirtaldir til menn: Fyrri göngur Seinni göngur Jón Heiðar Jónsson 2 1 Hallgrímur Hjaltason 2 2 Magnús Guðmannsson 1 1 Guðjón Ingimarsson 1 Jóhann Ásgeirsson 1 1 Vignir Sveinsson 1 1 Rúnar og Hrönn 1 1 Árni Halldór 1 1 Í eftirleit fara fjórir menn. Þær annast Jón Heiðar Jónsson. Með vísan til 20. greinar fjallskilareglugerðar „Hafi búfjáreigandi engan hæfan mann til fjallskila og getur eigi útvegað hann, skal hann tilkynna hreppsnefnd eða fjallskilastjóra það skriflega fjórum dögum áður en fjallskilin eiga að vinnast, en þessir aðilar útvega mann eða annað sem vantar, svo sem hesta eða fæði, og borgar þá búfjáreigandi allan kostnað, sem af fjallskilum leiðir, án tillits til mats á þeim“ Að öðru leyti en hér greinir fer um skyldur og réttindi manna eftir fjallskilasamþykkt fyrir Austur-Húnavatnssýslu. Fjallskilanefnd Skagabyggðar, Skagabúð 29 ágúst 2017

Mynd vikunnar

Höfðaskóli 60 ára 1999 Í tilefni af 60 ára afmæli Höfðaskóla 1999 voru alls kyns uppákomur í skólanum einn skóladaginn í nóvember það ár. Eitt af því sem gestir gátu skoðað var sýnishorn af hvers konar kennslugögn voru notuð í gamla daga. Þessi mynd sýnir hluta af slíkum gömlum gögnum. Í dag mundi þessi mynd líta mjög öðruvísi út með vasareiknum, nettengdum tölvum, sjónvörpum og spjaldtölvum sem nú einkenna kennsluumhverfið í skólanum ásamt mun þægilegri húsgögnum.

Opnunartími Lyfju útibú Skagaströnd

Athugið breyttan opnunartíma Lyfja útibú Skagaströnd Lyfja útibú Skagaströnd verður framvegis opin virka daga frá 10-13

Samningur um sálfræðiþjónustu

Félags- og skólaþjónusta Austur-Húnavatnssýslu og Sensus slf. undirrituðu 2ja ára samning þann 31. ágúst sl. Samningurinn lýtur að sálfræðiþjónustu í skólum og leikskólum sveitarfélaganna. Ester Ingvarsdóttir hefur starfað fyrir sveitarfélögin síðustu tvö ár og hefur hún haft fasta viðveru á svæðinu einn til þrjá daga í mánuði. Markmiðið með nýjum samningi er að auka við sálfræðiþjónustuna og mun Ester nú vera fjóra daga í mánuði á svæðinu. Hér sjást Þórdís Hauksdóttir fræðslustjóri Austur-Húnavatnssýslu og Ester Ingvarsdóttir eigandi Sensus slf. við undirritun samningsins.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi auglýsir

Örn Sveinsson augnlæknir verður með móttöku á heilsugæslunni á Blönduósi dagana 12., 13. og 14. september næstkomandi. Byrjað verður að taka við tímapöntunum fimmtudaginn 31. ágúst í síma 455-4100

Skólasetning Höfðaskóla

Skólasetning Höfðaskóla verður í Hólaneskirkju miðvikudaginn 30. ágúst n.k. og hefst kl. 10. Eftir formlega skólasetningu fara nemendur með umsjónarkennurum í sínar stofur og fá þar stundatöflur sínar. Kennsla hefst skv. stundaskrá (sund) fimmtudaginn 31. ágúst. Nánari upplýsingar á skólasetningu. Skólastjórnendur.