Mynd vikunnar

Hressir félagar Þessir prúðbúnu og hressu félagar frá Skagaströnd staupa sig á Íslensku brennivíni undir húsvegg. Frá vinstri: Hallgrímur Kristmundsson (d. 9.10.1998), Guðmundur Jóhannesson og Snorri Gíslason (d. 29.5.1994). Ekki er vitað hvenær myndin var tekin en hún var tekin að húsabaki á Blönduósi, bak við Snorrahús. Til vinstri er Pétursborg og stóra húsið er gamla Samkomuhúsið með sparisjóð A-Hún á neðri hæðinni.

Nýir orkumælar á Skagaströnd

Til íbúa á Skagaströnd: Á næstu vikum mun RARIK hefja uppsetningu sölumæla fyrir nýja hitaveitu á Skagaströnd. Jafnframt því mun RARIK skipta út raforkumælum og er þetta gert til að nýta samskiptabúnað mælanna til gagnasöfnunar og í leiðinni að taka upp mánaðarlegan rafrænan álestur. Því munu leggjast af árlegar heimsóknir álesara á vegum RARIK. Ástæða þess að mælaskiptin fara fram samtímis er sú að nýr raforkumælir er notaður sem endurvarpi fyrir merki frá hitaveitumælinum. Með tilkomu nýrra orkumæla verða sendir út mánaðarlegir raunreikningar bæði fyrir heitt vatn og rafmagn í stað núverandi áætlunarreikninga og uppgjörsreiknings einu sinni á ári. Nokkuð er um það á Skagaströnd að notaðir eru tveir raforkumælar, einn fyrir hita og annar fyrir almenna notkun. Þær mælingar sameinast nú í nýjum mæli. Til þess að koma í veg fyrir að viðskiptavinir verði af niðurgreiðslum og lægra VSK þrepi við einmælingu, verður orkumælingu skipt þannig að 85% telst hiti en 15% almenn notkun og verður sú skipting í gildi þar til upphitun með hitaveitu hefst í viðkomandi húsi. Skiptingin er ákveðin af Orkustofnun. Á næstunni munu starfsmenn RARIK hafa samband við viðskiptavini með það fyrir augum að finna hentugan tíma fyrir mælaskipti. Bestu kveðjur RARIK

Mynd vikunnar

Guðmundur Guðnason (f. 11.3.1923 - d. 21.11.1988) frá Ægissíðu með harmónikuna sína fyrir utan einhver skepnuhús að Syðri Reykjum 24. nóvember 1943. Guðmundur, sem var alinn upp á nokkrum bæjum í Laxárdal, var bæjarpóstur á Skagaströnd í áratugi og áhugaljósmyndari sem tók ógrynni af ljósmyndum. Var hann gjarnan fenginn inn á heimili til að taka fjölskyldumyndir því ekki var um neina ljósmyndastofu að ræða. Í þessum tilgangi ferðaðist Mundi póstur, eins og hann var oftast kallaður, fram um allar sveitir því hann var vinsæll og vinamargur. Mundi var kirkjurækinn svo af bar og söng í kirkjukór Hólaneskirkju þangað til hann dó. Hann var líka organisti í einhverjum kirkjum í nágrenni Skagastrandar og hélt skrá yfir útvarpsmessur um árabil. Þar skráði Mundi hvaða sálmar voru sungnir í hverri messu, hver predikaði og eitthvað fleira sem honum fannst skipta máli. Þegar Mundi varð fimmtugur hélt kirkjukór Hólaneskirkju honum fjölmennt kaffisamsæti. Þá orti bróðir hans, Rósberg G. Snædal, eftirfarandi vísu um hann, sem er frábær mannlýsing á þessu vinsæla góðmenni: Lágur og þrekinn þrammar bæja milli, þambar kaffi, nýtur margra hylli. Í hálfa öld þú hefur þolað gjóstinn, með harmóniku, myndavél og póstinn.

Fatamarkaður á laugardag 5. október

Silfur Hlaðan og Anna Gallerý Verða í félagsheimilinu Fellsborg Skagaströnd laugardaginn 5. október OPIÐ frá kl 12 - 16 Fatnaður fyrir stelpur, konur og dömur á öllum aldri. Flottar haustvörur nýkomnar frá London. Glæsilegar og einstakar glervörur tilvaldar til tækifæris og jólagjafa. Tökum á móti ykkur með brös á vör. Kveðja Erna Rós

Flóamarkaður verður 19. október

Djásn og dúllerí verður með Flóamarkað laugardaginn 19. október frá kl. 14.00 – 18.00. Að þessu sinni verður líka húsgagnahorn á flóamarkaðinum fyrir þá sem vilja selja stóla, innskotsborð, hillur, standlampa o.s.frv. Það er sjálfsagt að koma með myndir af stærri húsgögnum. Þátttökugjald er frá kr. 2.000.- Söluborð eru á staðnum. Hægt er að panta pláss í síma 866 8102 og á Facebook síðunni okkar. Ath. að möguleiki verður að setja myndir af húsgögnum /söluvarningi, sem á að selja á flóamarkaðinum, á Facebooksíðuna okkar. Þeir sem hafa áhuga sendi póst á netfangið: signy.richter@simnet.is

Á Skagaströnd er aldeilis líf og fjör nú á haustdögum.

Í byrjun september hófust námskeið í Zumba Fitness fyrir allt niður í 5 ára börn og upp í 100 ára. En alls eru rúmlega 60 börn og fullorðnir sem stunda þessa skemmtilegu og fjörugu tíma í Zumba einu sinni eða tvisvar í viku. Svo eru Zumbapartý öðru hvoru á laugardögum kl:11:00 fyrir 9 ára og upp úr. Það er Linda Björk Ævarsdóttir alþjóðlegur Zumbakennari sem sér um að halda öllum hópunum í þjálfun og er óhætt að segja að það sé mikið fjör og mikið gaman í Fellsborg á mánudögum og miðvikudögum. Þrír aldurshópar eru í tímunum, 5-8 ára. 9-13 ára og svo 14 ára og upp úr. Í Zumba Fitness er leitast við að hafa fjöruga tónlist sem framkallar mikla hreyfingu, stuð og stemmingu en um leið er líkaminn er styrktur. Sporin eru einföld, stuðið og fjörið mikið og tónlistin af suðrænum slóðum. Sannkölluð gleðisprengja sem kemur öllum í betra form og betra skap á sama tíma. Þrír aldurshópar eru í tímunum, 5-8 ára. 9-13 ára og svo 14 ára og upp úr.

Árleg inflúensubólusetning haustið 2013

Heilbrigðisstofnunin Blönduósi auglýsir Árleg inflúensubólusetning haustið 2013 Bólusett verður á Heilsugæslustöðinni á Blönduósi Föstudaginn 4/10 kl: 11:30-13:00 Mánudaginn 7/10 kl: 14:00-15:30 Fimmtudaginn 10/10 kl: 14:00-15:30 Bólusett verður á Heilsugæslustöðinni á Skagaströnd Þriðjudaginn 8/10 kl: 9:30-11:00 Föstudaginn 11/10 kl: 13:00-14:30 Sérstaklega er mælt með að einstaklingar 60 ára og eldri, einstaklingar með langvinna sjúkdóma, heilbrigðisstarfsfólk og þungaðar konur láti bólusetja sig. Þessir áhættuhópar fá bóluefnið frítt en þurfa að greiða komugjald. Einnig er mælt með því að sömu einstaklingar séu bólusettir á 10 ára fresti gegn lungnabólgu.

Mynd vikunnar

Félagsmálanámskeið. Þetta ágæta fólk, búsett á Skagaströnd, sótti félagsmálanámskeið hjá Baldri Óskarssyni í Fellsborg einhverntíma snemma á áttunda áratugnum. Þar lærði fólkið ræðuflutning og fundarsköp og ýmislegt annað, sem gott er og gagnlegt að kunna, ef maður tekur þátt í félagsstörfum eins og allt þetta fólk gerði meira og minna í mörg ár. Á myndinni eru, frá vinstri í aftari röð: Jón Geir Jónatansson frá Höfðabrekku (Bankastræti 10), Bernódus Ólafsson (d. 18.9.1996) frá Stórholti (Bankastræti 3), Jón Ingi Ingvarsson frá Sólheimum, Friðjón Guðmundsson (d. 7.1.2001) frá Lækjarhvammi (Suðurvegur 1), Helgi Gunnarsson frá Lundi, Hallbjörn Björnsson frá Jaðri, Sveinn S. Ingólfsson kennari og seinna framkvæmdastjóri Skagstrendings hf, Jón S. Pálsson skólastjóri , Björgvin Jónsson (d. ?) frá Höfðabrekku, Jón Jónsson (d. 9.7.1991) frá Asparlundi (Bogabraut 24) og Kristján Hjartarson (d. 2.8.2003) frá Grund (áður Vík). Fremri röð frá vinstri: Þorgerður Guðmundsdóttir (d.?) frá Höfðabrekku, Ólína Marta Steingrímsdóttir (d. 4.2.1994) frá Höfðakoti (Bankastræti ?), Baldur Óskarsson leiðbeinandi, Björk Axelsdóttir, Soffía Lárusdóttir (d. 31.3.2010) og Guðmundur Jóhannesson maður hennar úr Skeifunni. Myndina tók Björn Bergmann

íbúafundur um umferðamál

Íbúafundur um umferðarmál verður haldinn fimmtudaginn 26. september kl. 17.30 í félagsheimilinu Fellsborg. Efni fundarins er umferðarmenning hámarkshraði og áhættuhegðun við akstur vélknúinna ökutækja. Bjarni Stefánsson, sýslumaður og Kristján Þorbjörnsson, yfirlögregluþjónn munu koma á fundinn og fjalla um umferðamál og löggæslu almennt. . Sveitarstjóri

Mynd vikunnar

Skagstrendingar á ferð 1963 Þessi mynd var tekin af hressum Skagstrendingum 9. júní 1963. Að öllum líkindum hafa þau verið á leið inn á Blönduós á karlakóramót, sem þar var haldið þennan dag, eða að koma heim af því. Bíllinn var líklega í eigu Ástmars Ingvarssonar (d. 10.10.1977) en hann stundaði fólksflutninga frá Skagaströnd í mörg ár. Frá vinstri á myndinni eru: Jónas Skaftason frá Dagsbrún, Ingibjörn Hallbertsson sem lengi bjó með sína fjölskyldu á Hólabraut 7. Þá kemur Guðrún Sigurðardóttir frá Þórsmörk sem styður sig við Guðmund Guðnason (d. 21.11.1988) póst og ljósmyndara frá Ægissíðu. Við hina öxl Guðmundar styður sig Ólína Marta Steingrímsdóttir (d. 4.2.1994) frá Höfðakoti. Næst er Guðrún Árnadóttir kona Ingibjörns (d. 1.12. 1967), þá Kristján Guðmundsson (d. 16.4.1979) bóndi frá Hágerði og að lokum eru svo hjónin Jón Kr. Jónsson og Fjóla Sigurðardóttir (d. 15.7.1988) frá Laufási.