Síðasta opnunarhelgi hjá Djásn og dúllerí

Nú fer að líða að lokum sumar-opnunar handverks- og hönnunarmarkaðar Djásna og dúllerís.  Síðasta opnunarhelgin er 28. og 29. ágúst og er því um að gera að nota nú tækifærið og verða sér úti um hlýja vetlinga, sokka, húfur, eyrnabönd og lopapeysur fyrir veturinn. Gera má ráð fyrir að a.m.k. 1500 manns hafi lagt leið sína í kjallarann á gamla kaupfélagshúsinu þennan rúmlega mánuð sem það hefur verið opið. Frekari frétta af Djásnum og dúlleríi má vænta innan skamms.  Signý, Björk og Birna 

Næsti fundur sveitarstjórnar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar fimmtudaginn 26. ágúst 2010 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800. Dagskrá: 1. Kosning í nefndir og ráð: a) Búfjáreftirlits- og fjallskilanefnd b) Gróður- og náttúrverndarnefnd 2. Aðalskipulag Skagastrandar 3. Svæðisskipulag Austur Húnavatnssýslu 4. Bréf: a) Djásn og dúllerí, dags. 7. júlí 2010 b) Stjórnar Heimilisiðnaðarsafnsins, dags. 13. júlí 2010 c) Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 5. júlí 2010 5. Fundargerðir: a) Skipulags- og byggingarnefndar, 23.08.2010 b) Tómstunda- og menningarmálanefndar 24.06.2010 c) Tómstunda- og menningarmálanefndar 1.07.2010 d) Tómstunda- og menningarmálanefndar 8.07 2010 e) Tómstunda- og menningarmálanefndar 29.07.2010 f) Stjórnar Byggðasamlags um menningu og atvinnumál í A-Hún, 11.06.2010 g) Stjórnar Byggðasamlags um menningu og atvinnumál í A-Hún, 22.07.2010 h) Stjórnar Byggðasamlags um menningu og atvinnumál í A-Hún, 26.07.2010 i) Stjórn Byggðasamlags um Tónlistarskóla A-Hún, dags. 29. júní 2010 j) Stjórnar Félags- og skólaþjónustu A-Hún, 5.07.2010 k) Búfjáreftirlits og fjallskilanefndar A-Hún, 5.07.2010 l) Stjórna Byggðasafnsins að Reykjatanga, 18.06.2010 m) Stjórnar Norðurár bs. 21.06.2010 n) Stjórnar Norðurár bs. 24.06.2010 o) Stjórnar Norðurár bs. 6.07.2010 p) Stjórnar Norðurár bs. 28.07.2010 q) Stjórnar Norðurár bs. 16.08.2010 r) Stjórnar Norðurár bs. 18.08.2010 s) Stjórnar SSNV, 21.06.2010 t) Stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 25.06.2010 6. Önnur mál Sveitarstjóri

Listaverkið Laupur og álagasteinninn

Nýlega afhenti Erlendur Magnússon, listamaður á Blönduósi, Sveitarfélaginu Skagaströnd fagurt listaverk sem komið var upp við Bjarmanes, ofan við fjöru. Listaverkið nefnist Laupur og er á fögrum stuðlabergsdrangi sem ættaður er úr Spákonufellshöfða. Þó listaverkið sjálft sé afskaplega mikilfenglegt mátti heyrast á listamanninum að ekki hafi allt gengið eins og á var kosið við gerð þess. Erlendur var fáanlegur til að létta á hjarta sínu við tíðindamann skagstrond.is. „Sjáðu nú til,“ segir Erlendur, alvarlegur í bragði. „Fyrir meira en þúsund árum bannaði Þórdís spákona öllum mönnum að flytja steina úr Höfðanum á Skagaströnd annars hefðu þeir og þeirra fólk verra af. Þessi álög hafa oft komið fram síðan. Til dæmis var grjót tekið þar í byggingu á hafnar á Skagaströnd og hvarf þá öll síld frá Norðurlandi ...!“ Listamaðurinn lítur nú upp úr kaffibolla sínum á fölan viðmælanda sinn sem má vart mæla. Og hann heldur áfram: „Fyrir tveimur árum var fluttur steindrangur úr Höfðanum til Gamla bæjarins við Blöndu og sá hefur reynst hinn mesti álagasteinn. Nýr eigandi steinsins, nefnilega ég, hafði fengið hann í skiptum fyrir gamlan kolaofn úr elsta íbúðarhúsinu við Blöndu og var ofninn fluttur í Árnes, elsta íbúðarhúsið á Skagaströnd.  Fljótlega eftir komu steinsins í Gamla bæinn við Blöndu fór að bera þar á allskonar óáran. Þessi þrjátíu húsa og friðsami bæjarkjarni hefur síðan verið að breytast í lítið Las’t Vegas norðursins með þremur til fjórum börum, hóteli og fjórum gistihúsum, áfengisútsölu, félagsheimili AA og fleira. Meira að segja gamla kirkja bæjarins sem stendur í þessum bæjarhluta,var afhelguð og bekkirnir notaðir sem barstólar. Þó tók steininn úr þegar fjórar konur voru kosnar í bæjarstjórn á Blönduósi í vor en þar höfðu karlar einir ráðið ríkjum áður.“ Tíðindamaður kyngdi og mátti vart mæla. Hversu hrikalegt er nú ólán Gamla bæjarins við Blöndu, allt út af Þórdísi spákonu og grjóts úr Höfðanum hennar. En Erlendur var ekki hættur: „Eftir að steinninn var fluttur á nýjan stað við ósa Blöndu gengu álögin svo nærri nýja eigandanum, sem sagt mér, að áður en hann gat snúið sér við var búið að stela af honum bæði bíl og konum.  Og hvað gat ég gert nema krefjast þess að Sveitarfélagið Skagaströnd tæki steininn til baka með öllu sem honum fylgdi og mér væri bættur skaðinn með nýrri konu sem þó mætti vera gölluð á eins og kolaofninn hafði verið.“ Nú mildaðist svipur Erlends, listamanns, enda hér komið í sögunni að hann fengi nýja konu, eða það hélt tíðindamaður. „Nú, Sveitarfélagið skipaði þarna sátta-, sannleiks- og matsnefnd sem komst einfaldlega að því að ekki væri til gölluð kona á Skagaströnd. Hins vegar samþykkti hún af náungakærlega sínum að taka steininn til baka með aukahlutum, en greiða aðeins fyrir þá þar sem þeir ættu ekki verðlista yfir gallaðar konur. Vonast aðilar svo til þess að Þórdís spákona og dætur hennar verði sáttar við þessi málalok og létti álögunum.“ Og nú hallaði Erlendur Magnússon, stórlistamaður, sér aftur í stólnum, og auðséð var að honum var létt yfir lyktum mála, þó kvenmannslaus væri, eftir sem áður. Á meðfylgjandi mynd er sátta-, sannleiks- og matsnefnd og fyrrverandi eigandi, Erlendur Magnússon, við umræddan álagastein og fylgihluti hans.  Á steininum er mannvistarhreiður með eggi frá 2009 og fuglinn Fönix sem hefur sig til flugs sem tákn um betri tíma bæði fyrir Skagaströnd og Gamla bæinn við Blöndu.  Þess ber að geta að það sem listamaðurinn kallar fylgihluti er einfaldlega mikilfenglegt listaverk sem unnið hefur verið úr mannvistarleifum ýmiskonar.

Hverjir eru á myndunum?

Fjölmargar myndir eru komnar inn á vefsvæði Ljósmyndasafns Skagastrandar. Enn vantar góðar upplýsingar um margar þeirra, meðal annars þær sem hér eru birtar. Þess vegna er leitað til kunnugra í þeirri von að hægt sé úr að bæta. Slóð ljósmyndasafnsins er að finna vinstra megin á forsíðu skagastrond.is. Efri myndin er tekin á sjómannadaginn 1943 samkvæmt áritun aftan á myndinni. Myndin er úr safni Elísabetar Berndsen, en ekki er vitað um ljósmyndarann. Ekki er heldur vitað með óyggjandi hætti hverjir eru á myndinn, hvort það eru heimamenn eða aðkomumenn. Seinni myndin er líklega tekin á sjötta áratugnum í frystihúsinu Hólanes þar sem nú er Nes listamiðstöðin. Á henni eru nokkrar konur við pakkningu en ekki er vitað hverjar þær eru. Allar upplýsingar um þessar myndir eru vel þegnar. Hægt er að færa þær inn á vef Ljósmyndasafnsins eða hringja í Hjalta Reynisson, verkefnisstjóra safnsins, en síminn hjá honum er 455 2700 og er hann við fyrir hádegi alla virka dag. Yfir eitt þúsund myndir eru nú komnar á vef Ljósmyndasafnsins. Ýmist er um að ræða myndir af þekktu fólki og aðstæður sem kunnar eru. Hins vegar vandast málið með margar aðrar og því er leitað til þeirra sem hugsanlega þekkja til. Fólk er hvatt til að skoða safnið færa inn réttan texta á þeim myndum sem það þekkir eða hafa samband við Hjalta.

Úrslitin í Opna Fiskmarkaðsmótinu í golfi

Opna Fiskmarkaðsmótið í golfi var haldið á laugardaginn á Háagerðisvelli. Mótið er jafnframt minningarmót um Karl Berndsen en aðalstyrktaraðli þess er Fiskmarkaður Íslands hf. Veður var þokkalegt og mættu 32 keppendur til leiks.  Úrslit urðu sem hér segir: Kvennaflokkur/ höggleikur Sigríður Elín Þórðardóttir GSS  Guðrún Ásgerður Jónsdóttir GÓS Dagný Marín Sigmarsdóttir GSK Karlaflokkur/höggleikur Jóhann Örn Bjarkason GSS Magnús G.Gunnarsson GSS Brynjar Bjarkason GSS Punktakeppni með forgjöf Magnús G.Gunnarsson GSS Dagný Marín Sigmarsdóttir GSK Sigurður Sigurðarson GSK Golfklúbbarnir á Blönduósi, Sauðárkróki og Skagaströnd hafa um árabil átt gott samstarf og hafa m.a. staðið fyrir sameiginlegu mótahaldi undir nafninu Norðvesturþrennunnan og var Opna Fiskmarkaðsmótið síðast þriggja móta í þeirri mótaröð.   Sigurvegarar í Norðvesturþrennunni í ár urðu Árný Lilja Árnadóttir GSS í kvennaflokki og Magnús G.Gunnarsson GSS í karlaflokki, en þau náðu bestu samanlögðum árangri á þeim þremur mótum sem tilheyrðu mótaröðinni.   

„Heim úr skólanum glöð“

Námskeið um húmor og gleði í stjórnun var haldið 18. ágúst að Húnavöllum. Námskeiðið hafði það meginmarkmið, eins og öll námskeið Fræðsluskrifstofunnar, að gera starfsfólk skólanna hæfara til að gera nemendur góða og fróða. Að hafa tök á að nota húmor og gleði í skólastarfi getur hjálpað til að ná því háleita markmiði. Sjötíu og sex kennarar grunnskólanna í Húnavatnsþingi sóttu námskeiðið. Kennari á námskeiðinu var Edda Björgvinsdóttir, listamaður sem segir: "Húmor í lífinu er á allan hátt uppbyggilegur og nærandi. Húmor er heilsubót og með húmor er hægt að auðvelda hvers kyns mannleg samskipti, leysa hin fjölbreyttustu vandamál og minnka streitu. Fjöldi rannsókna sýnir að það er mælanlegur ávinningur af því þegar stjórnendur nota húmor markvisst og meðvitað. Húmor eykur gleði á vinnustað, bætir líðan fólks, eykur starfsánægju og sköpunarkraft“. Þátttakendur skemmtu sér vel, eins og myndirnar sýna og lærðu mikið og eru væntanlega betur í stakk búnir að hefja krefjandi starf með gleði. Guðjón E. Ólafsson, fræðslustjóri

Opnunartími sundlaugar

Opnunartími sundlaugar breytist og verður frá kl 13.00 til kl 20.00 dagana 17. - 20. ágúst en frá 23. ágúst þrengist hann enn vegna sundkennslu skólabarna. Sveitarstjóri

Hitabylgja á frábærum Kántrýdögum

Kántrýdögum á Skagaströnd lauk á sama máta og þeir byrjuðu, með mikilli gleði og ánægju. Fjöldi aðkomufólks heimsótti bæinn, sem skreyttur var á margvísleg lund og stuðlaði ásamt heimamönnum að frábærri skemmtun sem var öllum til sóma. Veðrið var stórkostlegt um helgina, koppalogn, gekk á með sólarglennum og hlýjum rigningarskúrum í 15 til 20 gráðu hita. Á laugardagskvöldið mældist t.d. hitinn um miðnætti 17 gráður. Kántrýdagar hófust með fallbyssuskoti klukkan 18 á föstudeginum. Yngsti aldurshópurinn, sem kallar sig, Smábæinga, buðu á Kofavöllum upp á opið hús, en þeir hafa verið að byggja kofa í sumar af öllum stærðum og gerðum. Gestir fengu kökur og drykki og svo skemmti brúðubíllinn. Ekki þótti börnunum lakara þegar flugvélin kom og bjó til Freyjukaramelluregn. Á föstudagskvöldið var mikill fögnuðu og læti í hátíðartjaldinu þegar hljósmveitirnar Janus og The 59’ers þöndu raddbönd og hljóðfæri. Síðar um kvöldið gerðu Skagstrendingar og gestir þeirra slíkt hið sama við varðeldinn og var atburðurinn nefndur „hólasöngur“ vegna staðsetningarinnar. Á laugadagsmorgni var farið í Þórdísargöngu á vegum Menningarfélagsins Spákonuarfs og gengið á Spákonufell. Þórdís bjó að Spákonufelli fyrir rúmlega eitt þúsund árum og eru margar sögur af henni og fjölkyngi hennar en ekki er vitað hvort hún tók þátt í göngunni. Börnin fóru í dorgveiðikeppni, á töfrabragðanámskeið og loks var barna- og fjölskylduskemmtun í hátíðartjaldinu þar sem hæfileikaríkir krakkar nutu tilverunnar og hrifu áhorfendur með göldrum sínum og tónlist í söngvakeppni barna - Kántrýhvolpunum. Um kvöldið var aftur dagskrá í hátíðartjaldi þar sem fram komu Valdi Skafta og Rún, Elli Gunni, karlakórinn Bryggjupollar, blúshljómsveitin Spottarnir, Lára Rúnarsdóttir og Bjartmar og Bergrisarnir. Fastur liður á Kántrýdögum er messa í hátíðartjaldinu. Sóknarpresturinn, Úrsula Árnadóttir, þjónaði. Af mikilli innlifun söng kirkjukórinn gospelsöngva undir stjórn Óskars Einarssonar og var það mál mann að aldrei hafi kórinn hljómað jafn vel. Í gospelmessunni voru systurnar Guðrún og Hjördís Sigurðardætur heiðraðar fyrir áralangt starf í kirkjukór Hólaneskirkju en þær hafa starfað þar með litlum hléum frá stofnun kórsins 1953. Á laugardagskvöldi hélt Viggó B. útgáfutónleika Fellsborg vegna nýútkomins hljómdisks og gömlu dansarnir dunuðuð við harmonikuspil. Böll í Kántrýbæ eru fastur liður á Kántrýdögum. Á fimmtudagskvöldið hitaði hljómsveit heimamanna upp en sú nefnist Suðmenn. Hljómsveitin Janus steig síðan á stokk á föstudagskvöldið og loks Bjartmar og Bergrisarnir á laugardagskvöldið. Tónleikar voru í kaffihúsinu Bjarmanesi. Ragnheiður Gröndal lék þar með hljómsveit sinni á föstudagskvöldið og síðar um kvöldið léku Langi Seli og Skuggarnir. Á laugardeginum söng og spilaði hljómsveitin Spottarnir lög eftir sænska vísnaskáldið Kornelíus Vreesvjiik. Og um kvöldið sungu Cohen systur lög Leonard Cohens. Ekki má gleyma kaffihlaðborðinu sem boðið var upp á í Bjarmanesi eftir messu á sunnudeginum. Einna mesta athygli vöktu spákonurnar sem upplýstu gesti og gangandi um framtíðina. Þær spáðu í forláta spátjaldi við hátíðarsvæðið og einnig í gamla húsinu Árnesi. Fjöldi fólks leitaði til spákvennana og ekki er annað vitað en að allir hafi unað við sínar spár. Kántrýdagar fóru afar vel fram og varð ekkert til að trufla afar góða skemmtun. Skagstrendingar þakka gestum fyrir komuna og vonast til að sjá þá aftur að ári.

Tónleikarnir Stúlkan með lævirkjaröddina

Tónleikar tileinkaðir skagfirsku dægurlagasöngkonunni Erlu Þorsteinsdóttur verða haldnir í Kántrýbæ miiðvikudagskvöldið 18. ágúst, kl. 21. Nefnast þeir Stúlkan með Lævirkjaröddina. Flytjendur eru Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm söngur og þverflauta, Yngvi Rafn Garðarsson Holm, gítarar, Tómas Jónsson,  hljómborð, Sigurður Ingi Einarsson, trommur, og Valgeir Einarsson bassi. Listamennirnir munu flytja sömu dagskrá víðar, t.d. á eftirfarandi stöðum; Græna hattinum á Akureyri fimmtudagskvöldið 19 ágúst, Hótel Mælifell á Sauðárkróki föstudagskvöldið 20 ágúst, menningarnótt í Reykjavík stóra sviðinu við Óðinstorgi kl 18, bæjarhátíðin Í túninu heima, hátíðarsviðið kl 21 laugardag 28 ágúst ásamt Baggalút og Ingó og Hafdísi Huld, Bæjarleikhúsinu Mosfellsbæ föstudag 3 september, Café Rósenberg sunudag 5 september og Reykjadal í Mosfellsbæ fimmtudag 9 sptember. Allir tónleikarnir hefjast kl 21.00 miðinn kostar 1500 kr 

Spákonurnar spá góðum Kánrýdögum

Árnes elsta húsið á Skagaströnd verðu opið  til sýnis milli kl. 15 til 18 um Kántrýdaga, þ.e. laugardag og sunnudag.  Árnes er stórmerkilegt hús, 100 ára gamalt, ogþað er eins og gengið sé inn í fortíðina þegar komið er inn í húsið. En Spákonurnar munu þar rýna í framtíðina og þær hafa fengið til liðs við sig þrjár spákonur sem verða í Árnesi á föstudagskvöldið frá kl. 18 - 21:30  og á laugardagskvöldið frá kl. 19 - 22. Þær kíkja í bolla og Tarot. Í spátjaldinu við hátíðarsvæðið er er líka hægt að fá lófalestur á laugardagskvöldið frá kl. 20 - 22.    Spákonurnar spá því að hátíðin fari vel fram og margir gestir sæki Skagaströnd heim. Í huga þeirra er ekki nokkur vafi á að veðrið verður mjög gott og allir skemmti sér vel.