Mynd vikunnar

Páll Jónsson var skólastjóri Höfðaskóla í fjölda ára. Á meðfylgjandi mynd situr hann og kona hans Sigríður Guðnadóttir öndvegi. Myndin er tekin í skólastofu, kaffi og kökur eru á borðum og klukkan á veggnum virðist frekar vera tíu en tólf.  Nú veltir Hjalti Viðar Reynisson, umsjónarmaður Ljómsyndasfans Skagastrandar, fyrir sér hverjir séu á myndinni, í hvaða tilefni þetta samsæti er haldið og ekki síst hvenær. Þeir sem til þekkja eru hvattir til að hafa samband við Hjalta alla virka daga fyrir hádegi, en síminn er 455 2700.

Framtíð Jóns Sigurðssonar – Karlar á stalli og ímyndasköpun

Fræðasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra stendur fyrir málþinginu sem haldið verður sunnudaginn 12. september 2010 kl. 13-16:30 í Bjarmanesi á Skagaströnd. Á málþinginu verður sjónum beint að því með hvaða hætti minningin um Jón forseta sem leiðtoga Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni varð til og mótaðist í íslensku samfélagi á fyrstu áratugunum eftir andlát hans.  Málþingið ætti að vera sérstaklega áhugavert fyrir þá sem hafa áhuga á menningartengdri ferðaþjónustu og ímyndarmálum. Á málþinginu tala sagnfræðingarnir Sigurður Gylfi Magnússon, Páll Björnsson og Guðmundur Hálfdanarson og Jón Karl Helgason bókmenntafræðingur. Þeir ræða hvernig þjóðin hefur kosið að muna fortíð sína, um Jón Sigurðsson sem samherja í pólitískum hitamálum, hvernig hugmyndin um hetjuna hefur bæði verið notuð til að réttlæta tilvist Háskóla Íslands og til að gagnrýna starfsemi hans og spurt verður um framtíð þjóðardýrlingsins.  Í lokin verður góður tími til umræðna. Nánar um dagskrá og fyrirlestra í viðhengi. Kántrýbær er opinn á laugardagskvöldinu og á sunnudag í hádeginu og eftir ráðstefnu.  Þeir sem hafa áhuga á gistingu á Skagaströnd vinsamlega hafi samband við Ólafíu Lárusdóttur  í síma 8987877. Af gefnu tilefni má taka fram að ökuferð milli Reykjavíkur og Skagastrandar tekur rétt rúmar þrjár klukkustundir. Þeim sem vilja samnýta bílferðir er bent á samferda.is. Lára Magnúsardóttir er forstöðumaður Rannsókna- og fræðaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra. Netfang setursins er nordurlandvestra@hi.is

Hola í höggi á afmælisgolfmóti

Sameiginlegt mót Golfklúbbs Skagastrandar og Golfklúbbsins Óss á Blönduósi var haldið síðasta laugardag og var tilefnið 25 ára afmæli beggja klúbbanna á þessu ári. Alls tóku 36 golfarar þátt. Mótið var fyrst og fremst til skemmtunar og því var spilaformið svokallað „Texas Scramble“ með forgjöf. Var keppendum raðað upp eftir forgjöf, skipt í miðju og svo dregið saman, einn úr hvorum helmingi. Fyrri níu holurnar voru leikanar á vellinum í Vatnahverfi við Blönduóss og seinni níu holurnar á Háagerðisvelli á Skagaströnd. Veðrið var stórkostlegt, hitinn var yfir 20 gráður og sólin brosti sínu blíðasta svo svitinn bogaði af hamingjusömum keppendum. Úrslit urðu sem hér segir: Sólveig Sigurjónsdóttir GA og Halldór Halldórsson GSS 60 högg Arnór Snorri Gíslason GSK og Brynjar Bjarkason GSS 62 högg Björgvin Jónsson GÓS og Björn Sigurðsson GSS 63 högg Einnig voru veitt nándarverðlaun á par 3 brautum og fyrir fæst pútt. Á mótinu fór einn golfari holu í höggi á 4. braut á Blönduósi, sem er 164 m par 3 hola. Sá heitir Sigurður Sigurjónsson GKG. Mótinu lauk með pizzuhlaðborði í Kántrýbæ þar sem verðlaun voru afhent þar sem meðfylgjandi myndir voru teknar. Efsta myndin er af sigurvegurum mótsins, Sólveigu Sigurjónsdóttur, GA, Halldóri Halldórssyni, GSS. Næsta mynd þar fyrir neðan er af Sigurði Sigurjónssyni, GKG, sem fór holu í höggi á Blönduósvelli.

Hverjir eru á myndunum?

Í ljósmyndasafni Skagastrandar er þessa mynd að finna, þrír strákar standa undir húsvegg. Sá sem er lengst til vinstri er Hallbjörn Björnsson, sá í miðjunni gæti verið Birgir Júlíusson en sá lengst til hægri er óþekktur. Þá er hér gömul mynd úr safni Ewald Hemmerts, líklega tekin um 1920. Á henni eru tvö börn sem ekki er vitað hver eru Fyrir aftan þau til vinstri er assistanstofan, og pakkhúsið og verslunarhúsið, tvö síðarnefndu eru samtengd. Í síðustu viku birtist hér mynd af tveimur strákum á hjólum. Ljóst er nú hverjir þeir eru. Vinstra megin er Þorvaldur Skaftason og hægra megin er Ingþór Þorfinnsson. Myndin er líklega tekin um 1960. í síðustu viku var einnig birt mynd af körlum við flökun í Hólanesi. Nú er ljóst hverjir þrír þeirra eru. Sá fremsti er Bertel Björnsson, ekki er vitað hver sá næsti er, en þá kemur Þorvaldur Skaftasson og loks Björn Guðmundsson.  Hjalti Viðar Reynisson hjá Ljósmyndasafni Skagastrandar hvetur nú þá sem vilja leggja eitthvað til málana að hafa samband í síma 4552700 en hann er við fyrir hádegi alla virka daga. 

Haustgöngur 2010

Sveitarfélagið Skagaströnd hefur gert samning við fjallskiladeildir Skagabyggðar um að annast smölun á afrétti sveitarfélagsins. Fyrri göngur eru áætlaðar 11. september og seinni göngur 18. september nk. Gert er ráð fyrir að heiðin verði smöluð þessa daga til Fossárréttar og Kjalarlandsréttar en Borgin daginn eftir og þá verði réttað í Fellsrétt. Nánar er gerð grein fyrir þessu í gangnaseðlum fjallskiladeilda Skagabyggðar. http://www.skagastrond.is/frettir/users3/stjori/Gangnaseðill%202010.pdf Gangnaseðill í Spákonufellsborg er svohljóðandi: Fyrri haustgöngur fara fram sunnudaginn 12. september 2010. Seinni haustgöngur fara fram sunnudaginn 19.september 2010. Eftirleitir verða 25.september 2010. Gangnaforingi er Rögnvaldur Ottóson Réttarstjóri í fjárrétt er Sigrún Guðmundsdóttir Réttarstjóri í hrossarétt er Rögnvaldur Ottósson Farið fram Hrafndal og fram í Ármót, vestur Brandaskarð með hreppagirðingu að norðan. Spákonufellsborg að sunnanverðu að Hrafná að Fellsrétt. Undanskilin er skógræktargirðing. Í borgina leggi eftirtaldir til menn: Fyrri göngur Seinni göngur Rögnvaldur Ottósson 1 1 Hallgrímur Hjaltason 3 3 Magnús Guðmannsson 1 Guðjón Ingimarsson 2 2 Rúnar Jósefsson 1 Vignir Sveinsson 2 2 Í eftirleit fara fjórir menn. Þær annast Rögnvaldur Ottósson. Fjallskilanefnd Skagabyggðar, Skagabúð 29.ágúst 2010

Grafa notuð við hvalskurð

Á annan hátt er unnið að hvalreka nú á dögum en áður fyrr. Þá var hnífum og sveðjum beitt á hvalinn og hann skorinn niður í hæfilega hluta svo hægt væri að flytja hann heim á hestum eða gangandi. Þá var allt nýtt nema ef til vill beinin. Og þó ... dæmi eru um að þau hafi verið notuð til húsbygginga. Nú eru aðrir tímar. Steypireiðin á Skaga er unnin á annan máta. Í stað hnífa af öllum stærðum er brúkuð skurðgrafa af stórri gerð og vinnur hún hratt og vel á hræinu. Ekkert er lengur nýtt nema beinin því ætlunin er að hafa beinagrindina til sýnis fyrir fróðleiksfúsa námsmenn og aðra þá sem áhuga hafa. Og grafan mætti þess vegna kallast „hvalskurðgrafa“. Meðfylgjandi myndir voru teknar í gær. Ekki eru þeir öfundsverðir sem vinna við hvalinn. Þvílík ýldulykt var af honum að hún fannst upp í flugvélina ... og trúi því hver sem vill.

Flóamarkaður í Djásnum og dúlleríum á laugardaginn

Flóamarkaður verður í Djásnum og dúlleríi laugardaginn 4. sept. frá kl. 14.00. – 18.00. Er ekki kjörið að drífa sig í að taka aðeins til í geymslum og skápum og gefa gömlum munum og fötum nýtt líf  hjá nýjum eigendum? Þáttökugjald er 2.000 kr. Söluborð eru á staðnum. Vinsamlegast pantið pláss fyrir föstudag í síma 866 8102. Tónlistafólk er hvatt til að koma og taka lagið.  Saman getum við myndað skemmtilega stemningu á flóamarkaði Djásna og dúllerís. DJÁSN OG DÚLLERÍ er á Einbúastíg 2, 545 Skagaströnd S: 866 8102. Húsið opnar kl. 13.00. fyrir þá sem verða með vörur til sölu. Ath. að gott gæti verið  fyrir söluaðila að grípa með stól eða koll til hvíldar.

Hverjir eru á myndunum?

Á Hólanesi stóðu tveir spariklæddir drengir með hjólin sín, báðir í hvítri skyrtu, annar með bindi, hinn með slaufu. Þetta var líklega að vori til og atvikið væri líklega löngu gleymt ef  Guðmundur Guðnason hefði ekki fest það á filmu. En hverjir eru þessir drengir sem standa þarna í hlýjunni á nesinu undir gráum vorhimni og í fjarska sér inn til fjalla og dala? Nú leitar Hjalti Reynisson, verkefnisstjóri, Ljósmyndasafns Skagastrandar að þeim sem svarað geta spurningunni. Og Hjalti leggur fram aðra mynd. Þá hefur Guðmundur líka tekið og í þetta sinn er hann inni í gamla Hólanesfrystihúsinu þar sem nú er Nes listamiðstöðin. Hverjir skyldu þessir fjórir karlmenn vera sem vönum höndum flaka fisk? Í síðustu viku var birt mynd og leitað eftir nöfnum karla sem stóðu í fullum sjóklæðum. Myndin er tekin á sjómannadagin 1943 eða 44, eftir boðhlaupskeppni, stakkahlaup.Frá vinstri: Ólafur Ásgeirsson, Ingvar Jónsson, Hákon Magnússon, Björgvin Jónsson, Guðmundur Jóhannesson, Þorbjörn Jónsson, Hartmann Jóhannesson, Hallgrímur Kristinsson, Snorri Gíslason, óþekktur maður ,Sigurjón Magnússon og Pálmi Sigurðsson. Einnig var leitað eftir nöfnum kvenna í Hólanesfrystihúsinu. Þar er verið að vinna í 5 punda pakkningar í gamla Hólanesfrystihúsinu. Önnur konan frá vinstri er Teitný Guðmundsdóttir. Sigurður Magnússon verkstjóri er fyrir innan. 

Málþing á Skagaströnd um Jón Sigurðsson

Á næsta ári eru liðin 200 ár frá fæðingu Jóns Sigurðssonar, forseta Kaupmannahafnardeildar Hins íslenska bókmenntafélags. Í tilefni af þessum tímamótum skipaði Alþingi nefnd sem hefur undirbúið afmælisdagskrá með hátíðum, ráðstefnum, sýningum, frímerkjaútgáfu, minjagripahönnun og ritgerðasamkeppni grunnskólabarna, svo fátt eitt sé nefnt. Fræðasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra tekur forskot á sæluna og stendur fyrir málþingi 12. september í Bjarmanesi á Skagaströnd. Það mun beina sjónum að því með hvaða hætti minningin um Jón forseta sem leiðtoga Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni varð til og mótaðist í íslensku samfélagi á fyrstu áratugunum eftir andlát hans. Málþingið ætti að vera sérstaklega áhugavert fyrir þá sem hafa áhuga á menningartengdri ferðaþjónustu og ímyndarmálum. Á málþinginu veltir Sigurður Gylfi Magnússon sagnfræðingur fyrir sér samhengi samfélagsþróunar og þess hvernig þjóðin hefur kosið að muna fortíð sína. Þá talar Páll Björnsson sagnfræðingur, sem sendir frá sér rit um arfleifð Jóns Sigurðssonar á afmælisárinu, um sameiningartáknið Jón Sigurðsson sem menn gera gjarnan að samherja sínum í pólitískum hitamálum. Guðmundur Hálfdanarson sagnfræðingur fjallar næst um það hvernig hugmyndin um hetjuna hefur bæði verið notuð til að réttlæta tilvist Háskóla Íslands og til að gagnrýna starfsemi hans. Síðast, en ekki síst, ræðir Jón Karl Helgason bókmenntafræðingur um þjóðardýrlinginn og spyr hver framtíð Jóns Sigurðssonar sé í því hlutverki á næstu árum og áratugum. Í lokin verður góður tími til umræðna. Í tilefni væntanlegs stórafmælis boðar Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra til málþings í Bjarmanesi á Skagaströnd, sunnudaginn 12. september 2010 kl. 13:00-16:30. Framtíð Jóns Sigurðssonar – Karlar á stalli og ímyndasköpun Þeir sem hafa áhuga á gistingu á Skagaströnd vinsamlega hafi samband við Ólafíu Lárusdóttur  í síma 898 7877. Þeim sem vilja samnýta bílferðir til og frá Skagaströnd er bent á samferda.is Kántrýbær er opinn á laugardagskvöldinu og á sunnudag í hádeginu og eftir ráðstefnu. Dagskrá kl. 13:00 Sigurður Gylfi Magnússon:  Fortíð á réttu verði! Minningarframleiðsla samtímans kl. 13:35 Páll Björnsson:  „... hinn ókrýndi konungur Íslands.” Endurfæðingar Jóns Sigurðssonar forseta kl. 14:10 Kaffihlé kl. 14:30 Guðmundur Hálfdanarson:  Hetjan og Háskólinn. Jón Sigurðsson og stofnun Háskóla Íslands kl. 15:05 Jón Karl Helgason:  Uppi á stórum stalli Jón. Hrókeringar á íslenskum þjóðardýrlingum kl. 15:40 Umræður og fyrirspurnir kl. 16:30 Lok  Lýsing á fyrirlestrum  Sigurður Gylfi Magnússon:  Fortíð á réttu verði! Minningarframleiðsla samtímans  Spurt verður hvort eitthvað sé á minnið að treysta og hvernig einstaklingar og samfélög varðveita minningar sínar. Kynnt verða til sögunnar þrjú hugtök sem eru líkleg til að hjálpa fólki að átta sig á tengslum sínum við fortíðina og hvernig hún er numin. Hugtökin sem um ræðir eru "sameiginlegt minni" (e. collective memory), "sögulegt minni" (e. historical memory) og einstaklingsminni (e. individual memory). Þau verða síðan notuð til að greina samfélagsþróun á Íslandi á 19. og 20. öld og hvernig þjóðin hefur kosið að muna fortíð sína.  Loks verða þær hugmyndir tengdar við fyrirbærið "menningarlegt auðmagn" (e. cultural capital), það er hvernig samfélög, hópar og einstaklingar kjósa að nýta sér fortíðina með framleiðslu minninga af ýmsu tagi. Rætt verður um þýðingu þessarar starfsemi og hvaða hugmyndir hún gefur um virkni samfélagsins.     Páll Björnsson: „... hinn ókrýndi konungur Íslands.”  Endurfæðingar Jóns Sigurðssonar forseta Frá því snemma á 20. öld hefur minningin um Jón Sigurðsson forseta (1811-1879) verið sterkmeðal Íslendinga. Til hans hefur oft verið vitnað og minningu hans verið haldið á lofti af slíkum móð að óhætt er að fullyrða að Jón forseti hafi verið ― og sé jafnvel enn ― eitt mikilvægasta sameiningartáknið hérlendis. Minningarnar hafa birst með fjölbreyttum hætti, til að mynda í bókum, minningarritum, tímarits- og blaðagreinum, kveðskap, hátíðahöldum, minnismerkjum, minjagripum, myndum, málverkum, sögusýningum og uppbyggingu sögustaða. Og margsinnis hafa menn reynt að gera Jón að samherja sínum í pólitískum hitamálum. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þessa minningarvæðingu í heild sinni með því að taka dæmi um ólíka minningarhætti. Einnig verður rætt um hverjir hafi einkum staðið fyrir því að helga sér það táknræna auðmagn sem fólst í minningunni um Jón forseta og hvaða hlutverki þessi minningarvæðing gegndi í myndun og viðhaldi íslenska þjóðríkisins á 20. öld.    Guðmundur Hálfdanarson:  Hetjan og Háskólinn.  Jón Sigurðsson og stofnun Háskóla Íslands  Háskóli Íslands var vígður 17. júní 1911 á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar. Var þetta gert til að minnast þjóðhetjunnar ástsælu en um leið var ætlast til þess að minningin um hetjuna yrði Háskólanum til framdráttar. Í vígsluræðum skólans var hugmyndin um háskóla á Íslandi rakin til Jóns sem átti um leið að réttlæta tilvist slíkrar stofnunar í samtímanum. Síðar nýttu stjórnmálamenn á borð við Jónas Jónsson frá Hriflu sér Jón Sigurðsson og hugmyndir hans um þjóðskólann til að gagnrýna Háskóla Íslands fyrir að hann starfaði ekki í anda hetjunnar. Í  fyrirlestrinum verður dæmið um hetjuna og háskólann notað til skýra hvernig „minningar“ um þjóðhetjur verða til og hvaða tilgangi þær þjóna í samtímanum. Hvernig „munum“ við Jón Sigurðsson og hvernig er „minningin“ um hann notuð í pólitískum deilum?    Jón Karl Helgason: Uppi á stórum stalli Jón. Hrókanir á íslenskum þjóðardýrlingum  Í miðbæ Reykjavíkur voru á árunum 1875 til 1931 sett upp líkneski af Bertel Thorvaldsen, Jónasi Hallgrímssyni, Jóni Sigurðssyni, Kristjáni IX og Hannesi Hafstein. Í vissum tilvikum voru uppi ólíkar hugmyndir um staðsetningu á einstökum styttum og nokkur dæmi eru um það að þær væru færðar frá einum stað til annars. Í fyrirlestri sínum rekur Jón Karl Helgason sögu þessara hrókana og setur þær í samband við hugmyndir sínar um stöðu og hlutverk evrópskra  þjóðardýrlinga. 

18. ársþing SSNV haldið í Félagsheimilinu á Blönduósi 27-28. ágúst 2010.

18. ársþing SSNV verður haldið í Félagsheimilinu á Blönduósi dagana 27.-28. ágúst n.k. Ársþing SSNV er opið til áheyrnar kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum, framkvæmdastjórum og lykilstarfsmönnum sveitarfélaga og starfsmönnum SSNV og tengdra verkefna á Norðurlandi vestra. Dagskrá þingsins má nálgast á neðangreindi vefslóð. http://www.ssnv.is/LinkClick.aspx?fileticket=g%2bo7nO561pE%3d&tabid=1391