Hönnunarkröfur vegna nýrra hitakerfa

Byggingarfulltrúi lagði fram í skipulags og byggingarnefnd 25. febrúar sl. samantekt um hönnunarkröfur fyrir þau hús þar sem sett verða upp ný hitakerfi vegna hitaveituvæðingar í Sveitarfélaginu Skagaströnd. Þar sem annar hitunarbúnaður en vatnshitakerfi hefur verið fyrir í eign þarf að leggja nýtt hitakerfi til að taka inn hitaveitu og fá byggingarleyfi fyrir því. Með hitakerfi er átt við nýja vatnsofna og lagnir að þeim, gólfhitakerfi eða sambland af ofna- og gólfhitakerfi. Í hönnunarkröfunum kemur m.a. fram að reikna skuli varmatap húsa út frá núverandi einangrun þeirra skv. ÍST 30. en taka megi tillit til þess ef fyrirhugað er að endurbæta einangrun einhverra húshluta. Við hönnun skuli gera ofnatöflu þar sem skilgreind er mesta stærð ofns/ofna í hverju upphituðu rými, hver afköst þeirra eiga að vera, staðsetning tengistúta og gerð ofnkrana. Tilgreina skuli mismun á meðalhita ofna og herbergishita í húsinu sem er 25°C fyrir Skagaströnd. Nýtt hitakerfi skuli teikna inn á grunnmynd af hæð/hæðum húss svo og lagnaleiðir í aðalatriðum. Einnig skuli skilgreina röragerð og þvermál röra. Hönnun hitakerfis megi hins vegar skila á skönnuðum grunnmyndum ef fyrir liggja teikningar af húsinu. Ef fyrirhugað er að setja gólfhitakerfi skuli teikna upp hverja slaufu á grunnmynd húss og skilgreina röraþvermál, lengd og millibil milli röra. Einnig skuli tengigrind teiknuð fyrir gólfhitalagnirnar og stýrikerfi þess. Hönnunarkröfurnar má finna í heild sinni hér.

Samþykkt um stuðning vegna hitaveituvæðingar

Sveitarstjórn Skagastrandar samþykkti á fundi sínum 26. febrúar sl. að styrkja eigendur íbúðarhúsa á Skagaströnd sem taka inn hitaveitu og þurfa að gera breytingar á húseignum sínum vegna þess. Í stuðningnum felst að einstaklingar sem eru eigendur íbúðarhúsa og þurfa að endurnýja ofna í húsum sínum geta fengið allt að 75% af kostnaði við ofnakaup í hús sitt sem styrk hjá sveitarfélaginu. Fjárhæð styrksins nær til ofnakaupa og/eða efnis í pípukerfi í gólfhitabúnað eingöngu en ekki til stýribúnaðar, ofnloka eða lagnakerfis að ofnum. Sömuleiðis geta eigendur íbúðarhúsa sem þurfa að skila inn nýjum teikningum af lagnakerfi eigna sinna vegna nýs hitakerfis geta fengið allt að 25 þús. kr. styrk frá sveitarfélaginu vegna hönnunarkostnaðar. Hámark styrkgreiðslna til eigenda hverrar íbúðar vegna þessara tveggja kostnaðarþátta er 250 þús. kr. Samþykktina í heild má finna hér.

Troskvöld

Hið víðfræga Troskvöld Lionsklúbbs Skagastrandar verður haldið í Fellsborg n.k.laugardag 2. mars. Boðið verður upp á fjölbreytt úrval gómsætra og framandi sjávarrétta. Ræðumaður kvöldsins verður Sigurður Sigfússon bóndi frá Vík í Skagafirði. Veislustjóri og skemmtikraftur verður Gunnar Rögnvaldsson frá Hrauni á Skaga. Húsið opnar kl 20:00 en borðhald hefst um kl 20:30. Miðaverð kr. 4.000 kr. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Tekið er á móti miðpöntunum hjá Hjalta Reynissyni í síma 859-9645 Undirbúningsnefndin.

Aðalfundur

Aðalfundur Rauða krossins á Skagaströnd verður haldinn þriðjudaginn 5. mars 2013, kl. 20:30 í húsnæði deildarinnar að Vallarbraut 4. Dagskrá: Venjuleg aðalfundarstörf samkvæmt lögum félagsins. Stjórnin

Næsti fundur sveitarstjórnar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar þriðjudaginn 26. febrúar 2013 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800. Dagskrá: 1. Undirbúningur hitaveituvæðingar a. Minnisblað um samstarfsfund með RARIK b. Samþykkt um stuðning c. Samantekt um hönnunarkröfur d. Samningur við Mílu e. Framkvæmdir í eignum sveitarfélagsins 2. Framkvæmdir í Fellsborg 3. Gjaldskrár 4. Ráðningarbréf endurskoðanda 5. Dagskrá Skotlandsferðar á vegum SSNV 6. Íbúaþing 7. Bréf: a. Växjö kommun, dags. 11. febrúar 2013 b. Velferðarráðuneytisins, dags. 14. febrúar 2013 c. Símans dags.6. febrúar 2013 d. Eyðibýli á Íslandi, áhugamannafélags, dags. 15. febrúar 2013 e. Sambands Íslenskra sveitarfélaga, dags. 14. febrúar 2013 f. Forvarnarbókarinnar, dags. 8. febrúar 2013 g. UMFÍ, um landsmót 50+ árið 2015, dags. 7. febrúar 2013 h. UMFÍ, um 19. Unglingalandsmót árið 2016, dags. 7. febrúar 2013 i. UMFÍ, um landsmót UMFÍ árin 2017 og 2021, dags. 7. febrúar 2013 8. Fundargerðir: a. Skipulags- og byggingarnefndar, 25.02.2013 b. Hafnarnefndar, 25.02.2013 c. Stjórnar Félags og skólaþjónustu A-Hún, 7.02.2013 d. Stjórnar SSNV, 29.01.2013 e. Samtök sjávarútvegssveitarfélaga, 16.01.2013 f. Stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 25.01.2013 g. Stjórnar Hafnasambands Íslands, 18.01.2013 9. Önnur mál Sveitarstjóri

Félagsvist í Fellsborg

Spilakvöld. Kvenfélagið Eining stendur fyrir félagsvist sem verður næstu þrjú mánudagskvöld í Fellsborg, 25.febrúar , 4. mars og 11. mars og hefst kl. 20:00 öll kvöldin Ef keypt eru spjöld fyrir öll þrjú kvöldin kostar spjaldið 800 kr. stakt spjald kostar 1000.

Mynd vikunnar.

Stúlknakór í Tunnunni Stúlknakór úr Höfðaskóla í Tunnunni einhverntíma á sjöunda áratugnum. Maðurinn lengst til vinstri er Jónatan Jónsson kennari og stjórnandi kórsins. Stúlkurnar á myndinni eru flestar óþekktar en sú lengst til vinstri í aftari röð er Guðbjörg Þorbjörnsdóttir svo er óþekkt stúlka þá Kristín Sigurðardóttir. Í fremri röð er Áslaug Hrólfsdóttir lengst til vinstri og þriðja frá hægri er Eygló Gunnarsdóttir en önnur frá hægri er Unnur Gunnarsdóttir. Ef þú þekkir aðrar stúlkur á myndinni vinsamlegast sendu okkur þá athugasemd á þetta netfang myndasafn@skagastrond.is

Húsaleigubætur - endurnýjun umsóknar -

Tilkynning frá sveitarstjóra Sveitarfélagið Skagaströnd vill vekja athygli á því að sækja þarf um húsaleigubætur fyrir hvert almanaksár. Umsóknir vegna húsaleigubóta 2013 skulu hafa borist eigi síðar en 15. mars 2013 Umsókn þarf að fylgja: Útfyllt umsóknareyðublað Launaseðlar þeirra sem í íbúðinni búa fyrir þrjá síðustu mánuði Staðfesting skóla um nám ungmenna 20 ára og eldri Skattframtal síðasta árs staðfest af skattstjóra (skattframtali skal skila inn um leið og það liggur fyrir) Umsóknareyðublöð má fá á skrifstofu sveitarfélagsins eða á vefslóðinni: http://www.velferdarraduneyti.is/media/acrobat-eydublod/Eydublad_Husaleigubaetur.pdf Nánari upplýsingar á skrifstofu Sveitarfélags Skagastandar S: 455 2700

Mynd vikunnar.

Krakkar í sparifötunum Þessi mynd, þar sem allir eru í sparifötunum sínum í 10 ára afmæli Fjólu Jóns í Asparlundi. í Aftari röð eru frá vinstri: Pálfríður Benjamínsdóttir alin upp í Skálholti, Ingibjörg Kristinsdóttir úr Héðinshöfða og Helga Guðmundsdóttir Hólabraut 25. Í fremri röð eru frá vinstri: Magnús B. Jónsson úr Asparlundi, seinna sveitarastjóri, Fjóla Jónsdóttir systir hans, sem situr með bróður þeirra, Gunnar Jónsson. Þá kemur Guðbjörg Þorbjarnardóttir sem ólst upp í Akurgerði og lengst til hægri er Sóley Benjamínsdóttir systir Pálínu í efri röðinni.

„Hollráð Hugos samskipti foreldra og barna“.

Hugo Þórisson sálfræðingur kemur og heldur fyrirlestur í Félagsheimilinu á Blönduósi 19.febrúar kl 19:30 sem nefnist „Hollráð Hugos samskipti foreldra og barna“. Hugo hefur starfað að málefnum barna og foreldra í yfir 33 ár. Hann hefur haldið fjöldamarga fyrirlestra og námskeið sem miða að því að fræða foreldra um samskipti þeirra við börn sín. Hann er höfundur bókarinnar Hollráð Hugos og DVD disksins Samskipti foreldra og barna. Hann hefur einn komið að gerð tveggja sjónvarpsþátta á Stöð2. Við hvetjum sem flesta til að mæta á samkomuna svo að sem flestir geti notið þess að hlusta og haft gagn og gaman að þessum áhugaverða fyrirlestri. Léttar veitingar verða í boði. Verð aðeins 1.500 kr.