Mynd vikunnar

Á þessari mynd eru krakkar sem sóttu kirjuskólann/sunnudagaskólann á árunum kringum 1965 ásamt leiðbeinendum sínum. Myndin var tekin á tröppunum við Höfðaskóla sennilega einhverntíma á árunum 1965-1968.Takið eftir að allir eru með biblíumyndina sína í höndunum en slíkum myndum var úthlutað í kirkjuskólanum á hverjum sunnudegi. Fullorðna fólkið til vinstri er: Dómhildur Jónsdóttir (d. 18.10.2012) með gráa húfu, séra Pétur Þ. Ingjaldsson (d. 1.6.1996) og Margrét Konráðsdóttir (d. 17.9.1974). Páll Jónsson (d. 19.7.1979) stendur aftast með barn í fanginu og til hægri er Guðrún Teitsdóttir (d. 17.6.1978) einnig með barn í fanginu. Við hlið Margrétar, aftast, stendur Guðrún Lárusdóttir og framan við hana er Aðalheiður Másdóttir og hægra megin við hana er Elsa Lára Blöndal með rauða húfu. Framan við Aðalheiði er Ingibergur Guðmundsson og bróðir hans Karl Guðmundsson er rauðhærður á miðri mynd. Hjá Karli, aftar og vinstra megin í brúnni peysu, er Sigurður Þorbjörnsson en Vigfús Elvan Friðriksson (d. 7.12.2001) er aftan við Karl til hægri í hvítir og brúnni peysu. Aftan og vinstra megin við Guðrúnu Teitsdóttur í svartri úlpu með bleikt um hálsinn er Ólína Bjarnadóttir og beint framan við hana er svo Kjartan Bjarnason. Guðmundur Viðar Guðmundsson er framarlega með rautt hár og heldur utan um minni börn í fremstu röð. Framan við séra Pétur með brúna húfu er Heiðar Elvan Friðriksson og til hægri við hann er Guðbjörg Kristinsdóttir en aftan við hana Árni Geir Ingvarsson. Framan við Heiðar og Guðbjörgu eru Guðbjörg Viggósdóttir í ljósri kápu og Líney Jósefsdóttir í svartri vattúlpu. Í fremstu röð til hægri í rauðri kápu með svarta húfu er Unnur Gunnarsdóttir og aftan við hana er Málfríður Jóhannsdóttir en hægra megin við Unni er Lára Bylgja Guðmundsdóttir. Aðrir á myndinni eru óþekktir en ef þú getur bætt við nöfnum vinsamlega sendu okkur þá athugasemd.

Félagsvist - Félagsvist

Kvenfélagið Eining mun standa fyrir þriggjakvölda félagsvist á næstunni. Spilað verður í félagsheimilinu Fellsborg. Spilað verður mánudaginn 13. október, mánudaginn 20. október og mánudaginn 27. október Byrjað verður að spila kl. 20:15. Miðaverð er 1000 kr. fyrir kvöldið en 2400 kr ef greitt er fyrir öll 3 kvöldin í einu. Vinningar eru í boði fyrir hvert kvöld fyrir sig, hæsti karl og hæsta kona og svo skammarverðlaunin. Kaffiveitingar í hléi eru innifaldar í miðaverði. Sjáumst spilandi kát J

BORGIN resturant gerir kunnugt

Gerir kunnugt : Dagana 24.&25. okt mun Borgar - stjórinn framreiða glæsilegan 7 rétta villibráðarmatseðil gerðan úr sérvaldri íslenskri villibráð. Reykt & grafin gæs Silungs-ravioli Lundapaté Kryddaður ananas í skotglasi Hreindýrasteik. Bláber - portvín & villtir sveppir Íslenskir ostar Skyr- epli – kex & krem Verð á mann 7995 kr Verð á mann matur+vínpakki 10.995 kr (Vínpakki inniheldur 2 glös hvítvín & 2 glös rauðvín) Villibráðarhlaðborðið verður á sínum stað föstudaginn 31. okt. og 1. nóv. Þar sem borðið mun svigna undan villtum krásum Borgar-stjórans góðkunna Verð á mann 9750 kr Borðapantanir vel þegnar í sima 553-5550/858-2460 eða toti@borginmin.com Jólamatseðillinn og jólahlaðborðin eiga einnig sinn stað á BORGINNI Og verða sem hér segir Matseðill 28.29. nóv. Hlaðborð 05. 06. des. Matseðill 12. 13. des. Kv Þórarinn Br Ingvarsson

Málþing á Skagaströnd 11. október: Fólk í heimildum – heimildir um fólk

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra heldur málþingið Fólk í heimildum – heimildir um fólk laugardaginn 11. október næstkomandi. Sex fræðimenn munu ræða vítt og breitt um leit sagnfræðinga og annarra sem vinna með liðna tíð að „fólki“ fortíðarinnar og þeim aðferðafræðilegu, kennilegu og siðferðilegu álitamálum sem upp geta komið í því starfi. Þingið verður haldið í bókasafni Halldórs Bjarnasonar í húsakynnum Rannsóknaseturs HÍ á Einbúastíg 2 á Skagaströnd og hefst klukkan 13. Nánari upplýsingar um málþingið má finna hér.

Mynd vikunnar

Síldarævintýri Síld var söltuð á Skagaströnd a.m.k. frá árinu 1935 þegar búið var að koma upp trébryggju í nýgerðri höfn. Síðan var saltað á hverju sumri í áratugi eða þar til síldin hvarf upp úr 1960. Þegar söltun var í gangi var aldeilis handagangur í öskjunni því fjöldi manns starfaði á planinu. Í þá tíð var öll síld söltuð í trétunnur en þær voru smíðaðar á Siglufirði. Á þessari mynd, sem sennilega hefur verið tekin einhverntíma á árunum rétt fyrir 1960, sést Volvo bíll Benjamíns Sigurðssonar (d. 30.9.2004) frá Skálholti með fullfermi af síldartunnum. Tunnurnar voru svo tíndar af bílnum á höndum því engir voru lyftarar á þessum árum.

Skagaströnd með augum fuglsins

Sveinn Eggertsson var á ferðinni í sumar og tók skemmtilegar myndir með flygildi sem hann lét sveima yfir Skagaströnd. Sandar Ómarsdóttir klippti myndskeiðin til og setti á youtube: https://www.youtube.com/watch?v=QTJJ71h9Sv4&feature=youtu.be

Zumbaskvísur á Skagaströnd

Þann 29 september s.l. hófst alþjóðleg Hreyfivika um allann heim. Ungmennafélag Íslands UMFÍ stóð að skipulagningu Hreyfivikunnar á Íslandi. Zumba með Lindu Björk stóð fyrir viðburði á Skagaströnd og Sauðárkróki en það voru Zumbavinatímar á báðum stöðum og allir velkomnir með í Zumbafjörið. Á meðfylgjandi mynd eru hressar Zumbaskvísur á Skagaströnd eftir fjörugan Zumbatíma.

Hitaveitumál

Sveitarstjórn Skagstrandar fjallaði um stöðu hitaveitumála á fundi sínum 12. september sl. Fyrir fundinum lá minnisblað sveitarstjóra um hitaveitumál. Í því kemur fram að um 63% húsnæðis á Skagaströnd var tengt hitaveitu í byrjun september og reiknað með að um 82% verði tengdir næsta vor. Einnig kemur fram að niðurgreiðslur á raforku til húshitunar féllu niður frá og með 1. september sl. Þá var fjallað um kostnaðarþátttöku sveitarfélagsins í ofnakaupum og hönnunarkostnaði sem giltu til 1. september sl samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar 19. maí 2014. Þegar ákveðið var að setja sólarlagsákvæði 1. september taldi sveitarstjórn líklegt að flestar eignir sem á annað borð ætluðu að nýta sér hitaveituna myndu verða tengdar. Í ljós kom að sumarið nýttist fremur illa til pípulagna vegna sumarleyfa og álags á pípulagnamenn. . Í ljósi þess að hitaveitutengingar hafa gengið hægar en upphaflega var áætlað af ýmsum ástæðum samþykkti sveitarstjórn að framlengja gildistíma reglna um kostnaðarþátttöku til 1. maí 2015 en samþykkti jafnframt að ekki verði um frekari framlengingar að ræða. Reglur um kostnaðarþátttökuna má finna hér.

Árleg inflúensubólusetning haustið 2014

Heilbrigðisstofnunin Blönduósi auglýsir árlega inflúensubólusetningu 2014 Bólusett verður á Heilsugæslustöðinni á Blönduósi Mánudaginn 6/10 kl: 11:30-13:00 Miðvikudaginn 8/10 kl: 13:00-15:00 Mánudaginn 13/10 kl: 14:00-15:00 Bólusett verður á Heilsugæslustöðinni á Skagaströnd Þriðjudaginn 7/10 kl: 11:00-12:30 Þriðjudaginn 14/10 kl: 9:00-10:00 Sérstaklega er mælt með að einstaklingar 60 ára og eldri, einstaklingar með langvinna sjúkdóma, heilbrigðisstarfsfólk og þungaðar konur láti bólusetja sig. Þessir áhættuhópar fá bóluefnið frítt en þurfa að greiða komugjald. Einnig er mælt með því að sömu einstaklingar séu bólusettir á 10 ára fresti gegn lungnabólgu.

Mynd vikunnar

Skíðamennska Árið 1974 komu skíðaáhugamenn á Skagaströnd upp togbraut í Spákonufellinu. Togbrautin var þannig gerð að staur var komið fyrir uppi á hólnum fyrir ofan núverandi skíðaskála. Við staurinn var fest blökk og kaðall dreginn gegnum hana og í gegnum drifhjól sem tengt var við dráttarvél. Drifhjólið var gert úr gamalli drifkúlu undan bíl og á hana var fest hjól og drifskaft sem síðan var hengt aftan á beislið á dráttarvél og tengt við drifúttak vélarinnar. Skíðamenn héngu síðan í kaðlinum á leiðinni upp brekkuna. Í dag mundi svona útbúnaður aldrei vera viðurkenndur vegna öryggismála. 1979 var síðan keypt skíðalyfta og henni komið fyrir örlítið norðar í brekkunni og notuð þar í mörg ár. Maðurinn í úlpunni sem stendur við kaðalinn er Ásgeir Axelsson (d. 8.6.2011) en hann átti dráttarvélina og stjórnaði henni. Ásgeir var með spotta í hendinni sem tengdur var við ádrepara vélarinnar til að geta drepið á og þannig stoppað kaðalinn ef á þurfti að halda.